Kvöldið 1.ágúst 2019 fór ég og hitti Ingu, bestu vinkonu mína, á Kaffi vest. Við sátum úti í kvöld sólinni, drukkum heitt kakó og töluðum um allt og ekkert. Af og til þurfti ég að stoppa og einbeita mér að því að komast í gegnum samdrátt, en ég var samt alveg viss um að þetta væru bara sömu fyrivara verkirnir og ég var búin að vera að finna í nokkrar vikur. Þegar ég kom heim um 10 leitið horfðum við Ingvar, kærastinn minn, á heimsleikana í CrossFit þangað til um 12 leitið – ég hefði betur sleppt því og farið beint að sofa.
Klukkan 3 um nóttina vaknaði ég við verki sem ég hafði ekki fundið áður. Ég þurfti að rúlla mér fram úr rúminu á 10 mínútna fresti – beygja mig yfir rúmið og rugga mjöðmunum og anda haföndun til að komast í gegnum bylgjuna. Svona voru næstu tveir klukkutímar og Ingvar svaf í gegnum þetta allt saman. Klukkan 5 fór ég svo fram í stofu af því að ég vildi ekki vekja Ingvar alveg strax ef það væri kannski meira en sólahringur eftir þangað til að Ýmir kæmi í heiminn. Bylgjurnar urðu hægt og rólega sterkari og klukkan 6 fór ég inn og vakti Ingvar til að hjálpa mér í gegnum þær. Ingvar nuddaði bakið á mér í hverri bylgju og það hjálpaði mikið. Ég gat ekki verið liggjandi svo ég stóð og hallaði mér fram á kommóðu í hverri bylgju. Við hringdum svo í Arney um 8 leitið og létum hana vita að ég væri farin af stað.
Um 9 leitið var Ingvar farinn að þurfa að anda með mér – þannig að ég myndi ekki gleyma mér og ég var komin með kaldan þvottapoka á ennið sem var svo ótrúlega gott. Við hringdum aftur í Arney – Ingvari var alveg viss um að við þyrfum að fara að færa okkur yfir á Björkina. Ég var hins vegar viss um að það væri nóg eftir, hafði lesið svo mikið af fæðingarsögum af frumbyrjum sem voru í sólahring eða lengur að fæða sitt fyrsta barn, og var því ekkert að stressa mig á þessu. En Arney bauðst til þess að koma og kíkja á okkur. Klukkan 10:50 kom hún og spurði mig hvort að ég vilid að hún athugaði útvíkkunina, sem ég vildi endilega. „Oooo bara ekki segja að ég sé bara 1 í útvíkkun“ sagði ég áður en hún athugaði, þar sem að hríðarnar voru orðnar frekar kröftugar.
Útvíkkunin var orðin 6-7 svo það var ekkert annað að gera en að færa okkur yfir á fæðingarstofuna. Arney fór á undan okkur og byrjaði að græja laugina. Ég gat ómögulega farið í föt svo ég fór bara í baðsloppnum út í bíl, sem betur fer var gott veður. Bílferðin var frekar erfið – það komu örugglega 4 bylgjur og ég hugsaði þar á milli hvað fólkið á rauðu ljósunum héldi að væri í gangi. Kona í baðslopp með þvottapoka á enninu að kreista tuskudýr, gerist ekki mikið skrítnara.
Það var svo gott að koma á Björkina, okkur leið stax eins og við værum komin á réttan stað. Ingvar setti á Lion King plötuna með Beyoncé – sem var alls ekki planið en mig langaði bara ekkert að hlusta á yndislegu jóga tónlistina sem ég hafði planað að hlusta á. Um leið og baðið var tilbúið fór ég ofaní, þá var klukkan orðin 11:50, og það var enginn að fara að ná mér uppúr þessu baði fyrr en að Ýmir væri fæddur. Ég lá á hliðinni á meðna útvíkkunin kláraðist og Ingvar hélt mér uppi allan tímann. Á milli hríða sónaði ég algjörlega út, mér leið eins og ég væri að horfa á okkur ofan frá. Ég man svo vel eftir því að Ingvar spurði Arney hvort að það væri ekki örugglega í lagi með mig af því að ég svaraði engu og hún fullvissaði hann um að allt væri í lagi – sem það var. Arney lánaði mér bolta með göddum sem ég kreisti eins fast og ég gat í bylgjunum – og þegar stutt var eftir sprengdi ég boltann! Ég man að ég hafði lesið um konu sem gerði það sama og hugsa „það er ekki hægt að sprengja svona bolta, hún er eitthvað að rugla“. Ótrúlegir hlutir gerast í fæðingu, maður finnur einhvern kraft sem maður vissi ekki að væri til.
Klukkan 13:30 kom rembingsþörfin en það gekk ekki vel að rembast á hliðinni svo Arney og Emma hvöttu mig til að prófa að færa mig yfir á hnéin. Ég var orðin frekar þreytt þarna og langaði helst ekkert að hreyfa mig en eftir smá stund fékk ég mig til að færa mig yfir á hnéin og þá fór allt að gerast, klukkan orðin 14:20. Ingvar hélt í hendurnar á mér og Arney setti þrýsting á mjóbakið. Þetta var lang erfiðast parturinn og ég var svo tilbúin að hitta son minn. Milli hríða vældi ég „mig langar bara í föstudags pizzu“ og Ingvar brosti bara til mín og sagði mér að við myndum pottþétt ná föstudags pizzunni. 20 mínútum seinna fer ég að finna fyrir kollinum og ég hélt einhvernveginn að þá myndi hann bara koma með næstu hríð. En svo kom hann ekki með næstu hríð og heldur ekki næstu. Kollurinn fór svo fram og aftur nokkrum sinnum og svo klukkan 14:58 krýnist kollurinn. 15:03 fæðist kollurinn og mínútu seinna kemur líkaminn. Naflastrengurinn var vafinn um hálsinn, axlir og búk svo að Arney og Emma þurftu að af losa hann áður en ég fékk hann í fangið.
Þvílíkt stolt og hamingja sem helltist yfir mig þegar ég fékk hann í fangið. Ég gat bara ekki annað en grátið – hann var fullkominn. Korteri síðar fer ég upp úr lauginni og fylgjan kemur 5 mínútum síðar. Ingvar klippti svo naflastrenginn á meðan ég hélt á Ými. Eftir skoðun kemur í ljós að ég var með óhefðbundna 2 stigs rifu og við ákváðum í sameiningu að fara uppá LSH til að láta sauma. Arney kom með okkur uppá spítala og það var svo ótrúlega gott að hafa hana með okkur þó að það hefði yndisleg ljósmóðir tekið á móti okkur þar. Það var svo gott að hafa einhvern hjá sér sem maður þekkir og treystir.
Ekkert hefði geta undirbúið mig fyrir þessa fæðingu. Þetta er það magnaðasta og erfiðasta sem ég hef nokkurtíman upplifað. Takk Arney og Emma fyrir ómetanlegan stuðning og samveru á þessum fallegar degi 2.ágúst 2019.
Comments