top of page
Search

"Belgurinn sprakk á settum degi"

Updated: Jan 19, 2021



Ég var lengi að ákveða hvar ég ætti að hefja frásögnina af fæðingarsögu minni.. Settur dagur hjá okkur var 13 júní árið 2017 og vissum við ekki hvort kynið við ættum von á. Við stefndum á að eiga á fæðingarheimilinu Björkinni þar sem frænka mín Harpa starfar sem ljósmóðir.

Ég byrjaði að fá samdrætti á seinni hluta öðrum þriðjungi meðgöngu og í 38 viku skoðun (þann 30 maí) hjá ljósmæðrum mínum þeim Hörpu og Emmu kom smávegis blóð í klósettpappírinn eftir að ég hafði pissað. Þær pössuðu sig að segja ekki of mikið til þess að halda okkur verðandi foreldrunum rólegum. Sögðu okkur að leghálsinn væri líklega farinn að undirbúa sig. Við Palli vorum vægast sagt mjög spennt! Ég hafði einhvern veginn alltaf haft þá tilfinningu að ég myndi ekki ganga framyfir. Barnið myndi mæta í heiminn um 39 viku. Svo ég var viss um að nú færi þetta að gerast.

Við vorum að flytja og gistum í fyrsta skipti á nýja heimilinu þann 4 júní. Á mánudeginum þann 5 júní vorum við í einn einni IKEA ferðinni og vildi ég fara að létta af mér áður en farið var inn í búð. Ég tók eftir því að slím kom í klósettpappírinn. Ég hafði nýlega séð umræðu um einhverskonar slímtappa í bumbuhópnum mínum. Ef slímtappinn fer gæti það þýtt að stutt sé í fæðingu. Þar sem ég var þá gengin 38+6 dag var ég viss um að krílið myndi láta sjá sig um nóttina. Ekkert gerðist. Ég talaði við fyrrverandi bekkjarsystur mína sem hafði nýlega eignast strák og sagði hún mér að það gæti liðið allt að vika í fæðingu eftir að slímtappinn fer.

Laugardagskvöldið 10 júní vorum við í mat hjá tengdaforeldrum mínum og mér fannst eins og nærbuxurnar mínar hefðu verið óvenju rakar seinni part dags. Ég hringdi uppá fæðingardeild og ég var beðin um að koma í skoðun. Það var tekið úr mér smá strokusýni sem leiddi í ljós að um legvatn væri ekki að ræða. Ég viðurkenni við löbbuðum heldur svekkt út. Þarna ákvað ég að nú væri ég hætt að halda alltaf að eitthvað væri að fara að gerast.

Daginn eftir var haldið uppá sjómannadaginn og röltum við vinkona mín niður á höfn í tilefni þess. Ég var eins og svo oft áður með smá samdrætti. En á heimleið þá þurfti ég að stoppa óvenju oft vegna þeirra. Okkur þótti þetta heldur fyndið en eftir að heim var komið og ástandið óbreytt talaði vinkona mín mig til og ég hringdi aftur niðrá deild. Þær vildu fá mig aftur til sín í skoðun. Palli var í vinnunni og starfar sem lögreglumaður og því ekki auðvelt fyrir hann að skreppa úr vinnunni en vildi endilega fá að koma með mér í skoðun. Ég gerði hinsvegar lítið úr stöðunni og sagði honum að Ása vinkona kæmi bara með mér. Hann ætti ekki að vera að fara úr vinnunni fyrir ekki neitt. Við Ása fórum því tvær saman í skoðun. Ég var því aftur mætt í skoðun hálfum sólarhringi seinna. Í þetta skiptið tók eldri kona á móti okkur sem virtist hafa mikla reynslu. Hún athugaði með útvíkkun hjá mér sem var þá 1-2 sentímetrar. Þetta var allt voða spennandi en ég ákvað að kippa mér ekki of upp við þetta. Ég var orðin leið á þessu „úlfur úlfur“ dæmi.

Palli var að vinna til klukkan þrjú daginn eftir þetta. Veðrið var æðislegt svo hann nýtti tækifærið og sló grasið þegar heim var komið. Ég sá hvað hann var þreyttur þegar hann kom inn svo ég sagði honum að leyfa sér bara að halla sér aðeins aftur því hann ætti eftir að verða pabbi þá nóttina. Ég var þarna gengin 39 vikur og 6 daga. Það leið ekki á löngu þegar að mér fannst eitthvað vera farið að leka úr mér.. Ég var hætt að gera mér vonir svo ég spáði ekki mikið meira í því. Seinna um kvöldið komu vinir okkar í heimsókn og það var mikið hlegið. Áfram leið mér eins og eitthvað læki. Ljósmóðirin deginum áður hafði sagt við mig að ef um legvatnsleka væri að ræða myndi leka við átök eins og t.d. hóst. Eftir að vinir okkur kvöddu fór ég því á klósettið og prófaði að hósta á meðan að ég hélt vel af pappír undir mér. Pappírinn endaði vel rakur og þorði ég því ekki öðru en setja undirbreiðslu undir mig í nýja sófann okkar. Sem betur fer gerði ég það því stuttu eftir að ég settist niður heyrði ég og fann fyrir miklum smell inní mér. „Palli nú er vatnið að fara!!“ hrópaði ég. Við drösluðumst inná baðherbergi í hláturskasti og spennufalli haldandi undirbreiðslunni undir mér svo að vatn færi ekki um öll gólf. Eftir nokkrar mínútur inná baðherbergi leit ég skyndilega á Palla „hvað er klukkan?!“ hann stökk fram og sótti símann sinn „hvað heldur þú að klukkan sé?! 7 mínútur yfir miðnætti.“. Belgurinn sprakk semsagt bara rétt eftir miðnætti á settum degi.


Nýmætt á Björkina

Nýmætt á Björkina

Við hringdum í Hörpu frænku og heyrðum á henni hvað hún var glöð og spennt fyrir okkar hönd. Það gaf okkur til kynna að nú hlyti eitthvað að fara að gerast. Hún sagði okkur að hringja aftur þegar verkirnir yrðu reglulegir og ég ætti erfitt með að tala á meðan á þeim stóð. Það leið ekki nema klukkutími og þá var strax orðið erfiðara að tala á meðan á samdrætti stóð. Palla leist ekkert á þetta og vildi að ég myndi hringja aftur í Hörpu. Við vorum mætt í Björkina klukkan tvö að nóttu til. Í bílnum á leiðinni sagði ég við Palla „vonandi verða verkirnir bara ekkert mikið verri en þetta“.... já okay Svandís.

Um þrjú leytið var útvíkkunin athuguð og var hún ekki nema 3-4 sentímetrar. Ég varð fyrir smá vonbrigðum þar sem ég hef heyrt svo margar sögur þar sem konur eru mjög lengi að ná fullri útvíkkun. Ég skellti mér í sturtu og eyddi góðum tíma þar. Ég fór þar að finna fyrir ógleði og kastaði upp. Mér var boðið að fara í baðið og þáði það.

Útvíkkun var aftur athuguð um sex leytið og var þá um 8-9 sentímetrar. Stuttu eftir það byrjaði ég að rembast en fannst eins og ég væri ekki að gera það rétt. Það var ekki fyrr en að ég fékk þessa svokölluðu rembingsþörf sem ég fór að rembast rétt. „Ekkert“ gerðist hinsvegar og ég var orðin ansi þreytt. Palli greyið var líka orðinn þreyttur og held ég að honum hafi þótt ömurlegt að geta ekki gert meira til þess að hjálpa mér. Svo var hann líka orðinn svo andfúll þessi elska enda langt liðið fram á morgun. Eftir að hafa upplýst hann um ástandið stökk hann upp og fór eitthvert fram. Hann mætti svo tilbaka angandi af tannkremi. Hann hafði bara fundið eitthvað tannkrem frammi, makað því uppí sig og drifið sig svo aftur til mín hræddur um að missa af einhverju. Mér finnst fátt verra en lykt af tannkremi. Ég var því ekkert sérlega sátt með minn mann. Í fæðingartöskuna hafði ég meðal annars pakkað jarðaberja karamellum sem ég bað hann um að fá sér. Það var ekki fyrr en þremur dögum síðar sem að Palli minnti mig á þetta atvik og sagði að það hefði nú ekkert verið sérlega gott að háma í sig karamellu í þessum aðstæðum og hvað þá með tannkrems bragð uppí sér. Úps haha!

Annars gekk mér ekkert sérlega vel að rembast. Harpa þurfti að aðstoða mig þar sem ég virtist ekki alveg hafa náð fullri útvíkkun. Fylgjan mín var staðsett að framan og því reyndist oft erfitt að greina hjartslátt barnsins. Þær tóku þá ákvörðun að öruggari væri fyrir okkur að hringja eftir sjúkrabíl og var ég flutt niður á fæðingardeild Landspítalans. Ég hafði verið beðin um að reyna að anda mig í gegnum samdrætti á leiðinni niðrá spítala sem var fáránlega erfitt. Það eina sem líkaminn sagði mér að gera var að koma þessu barni út. Ferðin niður á spítala var ekki beint þægileg en hún var sem betur fer fljót að líða. Ég tók þá ákvörðun á leiðinni að ég ætlaði mér að koma barninu í heiminn án inngrips. Við vorum komin niður á spítala um átta leytið. Ljósmóðirin sem tók þar á móti okkur heitir Guðrún. Ég fann það strax að þessari konu gat ég treyst. Ég var færð yfir í sjúkrarúm og ríghélt í kantinn á því fyrir ofan höfuðið á mér. Ég var aum í höndunum í nokkra daga eftir á. Ég fékk einnig glaðloft til þess að anda að mér. Guðrún og Harpa aðstoðuðu mig við að koma litla í heiminn á meðan að Palli hvatti mig áfram að fullum krafti. Strákurinn okkar sem nú hefur fengið nafnið Styrmir Örn, mætti í heiminn klukkan 08:25 eins og súpermann. Með aðra höndina upp í loft, tilbúinn til að takast á við heiminn.


Drengurinn okkar mætti í heiminn 51 sentímetra langur og tæpar 13 merkur <3

Drengurinn okkar mætti í heiminn 51 sentímetra langur og tæpar 13 merkur <3

bottom of page