top of page
Search

Ætlaði sko ekki að vekja ljósmæðurnar svona snemma morguns!

Updated: Mar 11, 2021


Fyrripart dags þann 25.06 fór slímtappinn en ég varð ekki mjög stressuð yfir því þar sem að ég hafði heyrt að það væri ekki endilega vísir á að fæðing væri á næsta leiti. Ég hafði heyrt að stundum færi slímtappinn tveimur vikum fyrir fæðingu og kæmi bara aftur. Ég var því ekki mikið að stressa mig á þessu en fékk samt smá svona fiðring um að hvort þetta gæti verið að nálgast þó ég væri enn bara 38v+5d.


Ég var í þrifastuði þennan dag eins og svo oft áður (einn fylgifiskur meðgöngunnar, var með Monicu Geller þrifaæði allan tímann) og þreif íbúðina hátt og lágt, með pásum auðvitað þar sem ég var orðin slæm í grindinni. Ég fór svo í meðgöngujógatíma hjá henna Maggý sem sagði við mig í lok tímans, gangi þér vel ef ég sé þig ekki fyrir sumarfrí. Ég sagði að ég ætlaði nú heldur betur að mæta á miðvikudaginn í síðasta tímann fyrir frí.


Þegar ég kom heim úr jóga um 19.30 ákvað ég að smella af einni bumbumynd í forstofuspeglinum að gamni. Um 20.00 byrjaði ég að finna fyrir einhverjum léttum verkjum en hafði verið að finna túrverkjaseiðing áður og kippti mér ekki upp við það. Þessir komu þó í hrynum og fórum við Ingi að taka tímann á milli og voru þeir nokkuð reglulegir eða um 3 mínútur á milli. Þetta voru þó alls ekki slæmir verkir heldur bara eins og slæmir túrverkir og vildi ég ekki gera mikið mál úr því. Ég fer svo bara að sofa á venjulegum tíma en vakna upp klukkan 4.30 og var þá komin með sterkari verki, þó ekki enn viss hvort ég væri komin af stað. Ég dólaði mér frammi til kl. 5.30 þegar ég vakti Inga og sagði honum að ég væri með verki og vissi ekki hvað ég ætti að gera. Hann var alveg harður á því að ég ætti að hringja í Hörpu ljósmóður en ég ætlaði nú ekki að fara að vekja hana svona snemma morguns! Ég var orðin nokkuð verkjuð og farin að labba um íbúðina og halla mér fram á eldhúseyjuna þegar hríðarnar komu og notaði haföndunina sem ég hafði lært í jóganu. Þegar ég var svo búin að fara nokkrum sinnum inn á klósett alveg að fara að æla og ældi svo að lokum sagði Ingi; nei, nú hlýtur þetta að vera orðið nógu sárt fyrst þú ert farin að æla, nú hringir þú í ljósmóðurina!


Ég hringdi í Hörpu ljósmóður og ákváðum við að við myndum taka okkur til og hittast svo niður í Björk þar sem ég ætlaði að eiga. Ég fór að klára að pakka niður fyrir mig og barnið á milli hríða og Ingi skellti sér í sturtu. Á meðan Ingi var í sturtu fékk ég löngun til að leggjast uppí rúm og hvíla mig á milli hríða. Þá voru þær orðnar það harðar að ég var farin að nota röddina með hafönduninni til að komast í gegnum þær. Ég man eftir því að á meðan ég lá uppí rúmi fékk ég þessa tilfinningu að ég vildi hætta við og man að ég hugsaði að nú væri ég örugglega komin á “transition” stigið sem talað var um á fæðingarfræðslunámskeiðinu og líklega væri útvíkkunin að klárast. Skammri stundu seinna missi ég vatnið og strax kemur fyrsta rembingsþörfin. Ég öskra fram til Inga að ég hafi misst vatnið og segi; “Hún er að koma Ingi, hún er bara að koma!” Hann kemur hlaupandi inn í herbergi og nær svo í símann til að hringja í ljósmóðurina. Á meðan get ég einbeitt mér að fáu öðru en að anda mig í gegnum hríðarnar og á meðan Harpa og Arney ljósmæðurnar okkar eru á leiðinni koma nokkrir rembingar.


Harpa og Arney koma svo inn í herbergi kl. 7.30, setja í flýti undir mig undirbreiðslur en þegar þær komu var ég í miðri hríð, kollurinn kominn niður og sáu þær bara bungu í nærbuxunum. Það komu tvær hríðar í viðbót og svo allt í einu gúlpaðist barnið út eins og lítill sleipur kolkrabbi, barnið var fætt kl. 7.33, þremur mínútum eftir að ljósmæðurnar mættu á svæðið. Á sama augnabliki (að mér fannst amk) fékk ég barnið í fangið og sængina yfir okkur. Ég man að ég sagði; „Hún er bara komin!“, Harpa sagði mér seinna að næst hafi ég sagt við þær; „Þetta var ekki nærri því eins erfitt og ég hélt það yrði“.


Litla byrjaði strax að sjúga á sér hnefann og kjökra og við vorum enn að átta okkur á því að hún væri komin í heiminn. Fylgjufæðingin gekk svo mjög vel og þurfti ég aðeins að rembast til að koma henni út (ólíkt barnsfæðingunni sjálfri sem að mér fannst bara gerast sjálfkrafa). Ég fékk sprautu til að hjálpa leginu að draga sig saman og litla fékk K-vítamínsprautu. Við kúrðum þrjú saman á meðan ljósmæðurnar fóru fram að græja pappíra og fá sér kaffi. Við hringdum í fjölskyldurnar okkar til að segja frá því að skvísan væri komin í heiminn. Ég hringdi í mömmu og Ingi hringdi í pabba sinn og þau héldu bæði fyrst að við værum að skrökva. Harpa fór um 10.30 og Ingi skrapp í búð að kaupa eitthvað að borða því að ísskápurinn hér heima var galtómur.



Þegar við vorum búin að fá okkur að borða ákváðum við að leggja okkur. Litla daman var vafin í teppi-burrito style og við lágum öll þrjú saman uppí rúmi þegar ég heyrði myndarlegt prump. Við hlógum að því að hún væri bara strax farin að prumpa og spáðum ekki meira í því. Stuttu seinna fundum við kúkalykt og var hún þá búin að kúka í fína prjónateppið frá Lóu langömmu. Foreldrarnir höfðu gleymt að setja bleyju! Við hlógum mikið á meðan við hömuðumst við að þrífa krílið og skola þessar biksvörtu fósturhægðir úr teppinu (sem tókst sem betur fer). Eftir það kúrðum við svo smá meir uppí rúmi þar til ömmurnar og afarnir komu í heimsókn.


Hafdís Lóa var 12,5 merkur og 48 cm, heldur minni en við höfðum gert ráð fyrir og voru því ekki til nógu lítil föt á dömuna. Ömmurnar og afarnir komu því við á leiðinni að skoða dömuna og keyptu heilgalla og samfellur í stærð 50 svo að hægt væri að klæða barnið í föt sem pössuðu. J

Upplifun mín af fæðingunni er mjög góð, þetta var ævintýralegt og skemmtilegt. Eftir á að hyggja finnst mér æðislegt að hún hafi fæðst heima og mun ég gera það með næstu börn. Þetta var ekki eins erfitt og ég hélt að það yrði, enda gekk allt vel. Allt var eins og það átti að vera eða eins og mantran okkar í jóganu; „fæðingin okkar gengur vel“.

1,054 views0 comments

Comentários


bottom of page