top of page
Search
Writer's pictureBjörkin, ljósmæður

Hver á kost á heimafæðingu ?



Flestar konur geta fætt heima óski þær þess. Fyrir heilbrigðar konur er heimafæðing góður valkostur. Meðgangan þarf að vera eðlileg og konan þarf að vera gengin 37-42 vikur með eitt barn í höfuðstöðu. Fyrir móður og barn er fæðing almennt örugg séu engir áhættuþættir til staðar. Þrátt fyrir það gera margir verðandi foreldrar gera ráð fyrir því að fæðingin muni fara fram á sjúkrahúsi, sérstaklega ef um er að ræða fyrsta barn móður. Allir verðandi foreldrar ættu að fá upplýsingar frá ljósmóður um þá fæðingastaði sem í boði eru svo þeir geti valið þann fæðingarstað sem hentar þeim best.

Athugið að þjónusta ljósmæðra við heimafæðingar eru foreldrum að kostnaðarlausu.

Á vegum Landlæknisembættisins hafa verið gefnar út leiðbeiningar um val á fæðingarstað þar sem lesa má um það fyrir hvaða konur heimafæðing er góður valkostur og helstu frábendingar. Þar kemur m.a. fram að heimafæðing er ekki ráðlögð ef konur eru með meðgöngusykursýki, meðgöngueitrun, langvarandi sjúkdóma, fyrirsæta fylgju, ör á legi,(t.d eftir keisaraskurð), blóðflokkamisræmi og blóðleysi. Einnig ef kona hefur reykt mikið á meðgöngunni eða neytt vímuefna. Konur sem eru mjög grannar eða eiga við offitu að stríða er ráðið frá því að fæða heima og er miðað við að BMI sé ekki undir 18 eða yfir 35. Heimafæðing er ekki ráðlögð ef barn er vaxtarskert, þyngd áætluð yfir 4500 gr eða ef barnið er talið vera of stórt fyrir líkamsbyggingu konunnar.

Leiðbeiningar landlæknisembættisins um val á fæðingarstað

Ef þú ert að íhuga heimafæðingu er velkomið að hafa samband við okkur og fá ráðgjöf í síma 664-9080 eða á bjorkin@bjorkin.is

Af hverju heimafæðing


Að fæða heima í því umhverfi sem konan og fjölskylda hennar þekkir er einstök upplifun. Konan stjórnar sjálf umhverfi sínu, hverjir eru viðstaddir og hvað er gert í fæðingunni. Hin fæðandi kona er umvafin þeim aðilum sem hún velur, þekkir og treystir. Hún þekkir ljósmóðurina sem veit hverjar væntingar hennar eru og getur verið örugg um að ljósmóðirin er ekki að annast fleiri konur á sama tíma. Konan þarf ekki að lúta reglum stofnunnar né vera undir eftirliti ókunnugra eða jafnvel margra aðila. Hún lendir ekki í að fá nýja ljósmóður í miðri fæðingu vegna vaktaskipta. Þetta stuðlar að því að hormónaflæði móðurinnar er ótruflað sem er ástæða þess að fæðingu heima miðar yfirleitt vel og minni líkur eru á inngripum. Ef konur vilja stuðla að náttúrulegri fæðingu er mikilvægt að muna að fyrsta inngripið getur verið að fara út af heimilinu.

Ekki eru notuð nein lyf í fæðingum í heimahúsum og því er konan með fulla meðvitund og barnið ekki sljótt vegna áhrifa lyfja við fæðingu. Því eru meiri líkur á því að brjóstagjöf fari vel af stað og verði farsæl. Barn sem fæðist heima hjá sér fær mjúka lendingu í heiminn í fang foreldra og fjölskyldu.


Barnið þarf ekki að komast í snertingu við annað fólk en foreldra sína og ljósmóðurina sem tekur á móti því og því minni líkur á að barnið komist í snertingu við framandi bakteríur.

Fjölskyldan er á heimavelli og verður meiri þátttakandi í fæðingunni. Það getur verið ógleymanlegt fyrir eldri systkini, ef þau eru til staðar, að fá að fylgjast með litla systkyni sínu fæðast og taka þátt í þeirri upplifun sem fæðing er.


Það geta komið upp aðstæður í fæðingunni sem krefjast flutnings á sjúkrahús. Algengasta ástæðan fyrir flutningi er að fæðing dregst á langinn og móðirin þarfnast meiri verkjameðferðar en hægt er að veita í heimahúsi. Aðrar ástæður eru hjartsláttarfrábrigði fósturs, grænt legvatn (getur bent til fósturstreitu), fósturstreita, blæðing eftir fæðingu o.fl. En mikilvægt er að hafa í huga að flest vandamál sem geta komið upp í fæðingunni gera næg boð á undan sér til að hægt sé að flytja konuna á sjúkrahús í tæka tíð.


1,211 views0 comments

Recent Posts

See All

Opmerkingen


bottom of page