top of page
Search

Göngutúr og Rebozo sjal komu öllu af stað

Updated: Nov 1, 2023

Sjónarhorn mömmu

Sunnudaginn 21. febrúar fór ég í heimsókn til pabba. Við stóðumst ekki pönnukökuboð hjá Steinunni (ömmu), þó að ég væri verkjaðri en vanalega. Undanfarna viku hafði ég verið með mikla fyrirvaraverki en þennan dag voru verkirnir farnir að vera meira í mjóbakinu svo ég varð að sitja klofvega þegar ég gæddi mér á pönnsunum. Ég var ekki að kippa mér upp við þessa verki því ég var viss um að þetta tengdist fyrri verkjum. Um kvöldmatarleytið höfðu verkirnir gengið niður svo ég skrifaði þá alfarið á fyrirvaraverki. Ég fór að sofa rétt fyrir miðnætti en vaknaði um eitt leytið við verki sem ég hafði ekki fundið áður sem komu í veg fyrir frekari svefn. Nóttin einkenndist af hvíld á sófanum, The Crown hámhorfi og reglulegum beygingum yfir yoga bolta, mjaðmaruggi og haföndun. Þegar Bjarki vaknaði um morguninn sagði ég honum að þetta væri dagurinn sem stelpan okkar kæmi í heiminn.


Við hringdum í Björkina og létum þær vita að ég væri komin af stað. Um hádegi voru bylgjurnar orðnar sterkari og reglulegri svo við heyrðum aftur í þeim í Björkinni og bauðst Harpa til að koma. Hún mætti um tvö leytið og spurði hvort ég vildi að hún athugaði útvíkkunina sem ég þáði. Fjórir var niðurstaðan og sagði Harpa okkur að við mættum koma niður eftir þegar við værum tilbúin. Við gerðum okkur til og lögðum af stað í Björkina rétt fyrir fjögur. Mér leið svo vel þegar við mættum þangað og hugsaði um leið hvað ég var ánægð að vera að fara eiga dóttur okkar þarna. Við gerðum okkur heimakær og ég var fljótlega farin að halla mér yfir yoga bolta og notaði haföndun til að komast í gegnum hverja bylgju á meðan að Bjarki þrýsti á mjóbakið. Verkirnir mögnuðust með tímanum og bauðst Arney til að láta renna í laugina fyrir mig sem ég þáði. Áður en ég fór í lauguna buðust þær til að mæla aftur útvíkkunina hjá mér en ég afþakkaði það.

Ég fann um leið og ég var komin í laugina hversu mikil verkjastilling það var að vera í „þyngdarleysinu“ í vatninu. Með tímanum fannst mér bylgjurnar aukast og um 6 leytið fann ég fyrir rembings-tilfinningu. Eftir að hafa verið að rembast í einhvern tíma virtist ekkert vera að gerast og ráðlögðu Harpa og Arney mér að fara á klósettið og taka nokkrar hríðir þar því það gæti hjálpað. Að því loknu spurði Harpa mig hvort að ég vildi láta athuga útvíkkunina sem ég þáði. Kom þá í ljós að ég var enn með fjóra í útvíkkun en leghálsin var alveg orðin mjúkur. Þegar ég heyrði hana segja þetta brotnaði ég niður og var algjörlega buguð enda búin að vera með hríðir í 17 klst. Ljósmæðurnar sögðu að hugsanlega væri kollurinn ekki fullkomlega staðsettur til að þrýsta á leghálsinn og þess vegna væri engin breyting á. Þær voru rosalega indælar og sögðu að þær gætu farið með okkur á spítalann ef ég vildi því þar væru fleiri inngrip í boði fyrir mig enda var ég orðin mjög þreytt. Þær nefndu einnig úrræðin sem þær hefðu til að koma kollinum á alveg réttan stað. Við Bjarki ræddum málin og vorum sammála að við vildum prófa allt áður en við færðum okkur á spítalann. Það fyrsta sem Arney og Harpa ráðlögðu okkur að gera var að labba aðeins um húsið, Harpa kom síðan með rebozo sjal og vafði það í kringum mjaðmirnar mínar og hélt í báða enda sjalsins og hristi á meðan ég stóð upp við vegg. Eftir það setti Bjarki sjalið í kringum kúluna og lyfti kúlunni rólega til að reyna færa hana aðeins til. Þetta voru ekki fyrstu kynni okkar af svona sjali því nokkrum vikum áður höfðum við fengið kennslu á þau á paranámskeið hjá Auði. Seinasta ráðleggingin sem ég fékk var að leggjast á rúmið í læsta hliðastellingu og fara í gegnum 2-3 bylgjur þannig.


Klukkan var orðin rúmlega átta þegar ég lagðist á rúmið en um leið og fyrsta bylgjan kom fann ég strax hvað ég gat ekki farið í gegnum hana í þessari stellingu. Ég bað Bjarka um að hjálpa mér úr stellingunni og um leið og ég sneri mér þá heyrði ég hvell og vissi að belgurinn hefði sprungið. Í kjölfarið fékk ég mjög kröftugar bylgjur og byrjaði ég að æla sem mér fannst mjög vont. Þessar bylgjur voru mun sterkari og komst ég að því seinna að þær eru kallaðar stormhríðar. Ég dreif mig aftur í laugina og fór í gegnum nokkra hríðar þannig og notaði haföndunina. Sársaukinn og átökin voru mikil og mér fannst hríðarnar renna saman í eitt. Ég man lítið eftir þessu því mér fannst ég þurfa aftengjast líkama mínum til að komast í gegnum verkina. Öll einbeiting fór í að nota haföndunina sem gekk merkilega vel. Á meðan ég fór í gegnum hverja bylgju þrýsti Bjarki á mjóbakið og skiptust Arney og Harpa á því að gefa mér íþróttadrykk, halda í höndina á mér og setja kaldan þvottapoka á ennið. Þegar mér fannst ég ekki geta meira sagði Arney við mig „þú ert að gera þetta“ og eftir hríðar sagði hún oft „núna ertu einni hríð nær því að fá dóttur ykkar í fangið“. Allt þetta hjálpaði til við að gera aðstæðurnar bærilegar.


Eftir að hafa verið í um 20 mínútur í lauginni bað Harpa um að athuga útvíkkunina sem var þá komin í 8. Fór ég aftur í laugina og 20 mínútum síðar var útvíkkun lokið og ég var farin að rembast. Lengst af var ég á fjórum fótum í lauginni. Eftir tvo krampa og óteljandi bylgjur stakk Harpa uppá að ég breytti um stellingu og tæki nokkrar hríðar á bakinu. Ég sneri mér við og tók næsta (og seinasta) rembinginn. Á rúmum klukkutíma hafði belgurinn sprungið, ég rokið úr 4 í 10 í útvíkkun og litlan okkar komið í heiminn með miklum látum. Þegar Harpa tók á móti henni fann hún smá rykk og tók eftir því að naflastrengurinn hefði slitnað. Naflastrengurinn hafði víst verið svo stuttur að hún hefði ekki náð upp á lífbeinið mitt. Sem betur fer varð enginn skaði þar sem að Harpa var mjög snögg að grípa þétt utan um strenginn og klemma síðan fyrir. Þegar ég fæ hana síðan í fangið var ég ekki alveg að ná utan um það að þessu væri lokið. Þar sem naflastrengurinn slitnaði vildu Harpa og Arney fá mig fljótt upp úr lauginni til að fæða fylgjuna, sem gekk vel. Að fylgjufæðingunni lokinni tók við skjálfti sem gekk yfir að lokum og ég var loksins tilbúin að fá krúttið okkar í fangið. Við það lifnaði ég algjörlega við, hún var það fallegasta sem ég hef nokkurn tímann séð.






Sjónarhorn pabba.


Á laugardeginum 20. febrúar sagði ég við Linzi að ég sæi pönnukökur í hyllingum og spurði hvort hún gæti ekki heyrt í Steinunni (tengdó) og fiskað pönnukökuboð. Linzi var þá með fyrirvaraverki og var byrjuð að merkja fílukalla á dagatalið fyrir hvern dag sem leið og skvísan mætti ekki þrátt fyrir verkina. Hugskeyti dugði Steinunni því á sunnudeginum hringdi hún og bauð okkur í heimsókn. Pönnukökur voru á boðstólnum en Linzi þurfti að taka sér reglulegar pásur til að díla við fyrirvaraverkina. Um kvöldið fór ég í háttinn um 00:30, á svipuðum tíma og Linzi fór fram úr því hún var byrjuð að finna fyrir hríðum. Þegar ég vaknaði sagðist Linzi ekkert hafa sofið fyrir hríðunum. Ég hringdi þá í Björkina og lýsti stöðunni, Harpa sagði Linzi sennilega vera að malla í gang og við áttum að heyra í þeim þegar verkirnir urðu reglulegir. Við heyrðum í þeim aftur í hádeginu þegar það var orðið raunin. Harpa sagðist þá ætla að kíkja á okkur fljótlega eftir vitjun sem hún var í þá. Hún kom og skoðaði Linzi og í ljós kom að hún var með fjóra í útvíkkun. Harpa lagði til að við kæmum í Björkina milli þrjú og fjögur. Við notuðum tímann heima til að finna hvað Linzi fannst gott í hríðunum, La cucaracha hristingur var ekki vinsæll en þrýstingur á mjóbakið hjálpaði mikið í bland við haföndunina. Linzi fór með jóga-boltann í sturtu til að dreifa huganum, þar byrjaði ljósmynda-manían mín. Eftir sturtuna hringdum við aftur í Björkina og létum vita að við værum á leiðinni.



Á leiðinni var ég mjög meðvitaður um allar hraðahindranir og holur í malbikinu. Ég keyrði í eina holu og bað Linzi innilegrar afsökunar á þessum klaufaskap, hún tók þá heyrnartólin úr eyrunum og spurði mig "sagðirðu eitthvað babe?" "... fínt hvað það er lítil umferð" Við keyrðum Reykjanesbrautina að Miklubraut því við höfðum lesið um framkvæmdir við Nýbýlaveg. Hausinn var á fullu svo ég gleymdi beygjunni inn Grensásveg, lét eins og það væri allt samkvæmt áætlun og ég ætlaði alltaf að beygja inn Háaleitisbraut. Það kom ekki til þess því Linzi minntist ekkert á það. Við komum inn í Björkina og Harpa hrósaði Linzi hvað hún leit fínt út, eins og hún væri að koma af tónleikum. Hún var í svörtum óléttukjól. Við komum okkur fyrir inná fæðingastofunni, þetta minnti aðeins á lendingu í sumarbústað. Ég var ekki lengi að sækja jóga-bolta fram í stóra rýmið í Björkinni svo Linzi gæti tekið hríðarnar eins og henni fannst best. Í góðan tíma lág hún á boltanum þegar hríðarnar skullu á. Í einni pásunni stökk ég fram og fékk mér súrdeigsbrauð og kaffi. Hríðarnar urðu kröftugri og heyrðist það á önduninni og hljóðunum sem Linzi gaf frá sér. "Vó, þessi var öflug" sagði Arney þegar ég fór fram og sótti vatn eftir eina hríð. Á þessum tímapunkti stakk Harpa uppá að láta renna í laugina. Linzi vildi nánast strax hoppa í hana þegar við lentum, því vatnið er hennar element. Um 40 mínútum seinna var nógu mikið vatn komið og Linzi var ekki lengi að koma sér ofan í hana. Áður en litla kom í heiminn fór Linzi bara tvisvar upp úr lauginni. Í annað skiptið til að fara á klósettið þar sem hún tók tvær hríðar með mig krjúpandi fyrir framan sig. Arney læddist þá til að taka mynd af okkur en flassið kom upp um hana. Svipirnir á mér á þeirri mynd segja það sem segja þarf um hversu óvænt kodak momentið var. Linzi fór aftur í laugina eftir þá ferð og fór svo fljótlega að finna rembingsþörf. Linzi fór upp úr lauginni þá í seinna skiptið til að ljósmæðurnar gætu skoðað hana.


Niðurstaðan úr skoðuninni kom okkur verulega á óvart. "Leghálsinn er mjög mjúkur sem er gott, hann er mjög teygjanlegur" sagði Harpa og byrjaði þannig á góðu fréttunum. "Útvíkkunin hefur hins vegar ekki breyst og er ennþá fjórir". "Ertu viss?" spurði Arney, "Ekki fjórir og hálfur?". "Fjórir" sagði Harpa. En það var ekki öll von úti enn. Harpa og Arney sögðu í meginatriðum tvennt vera í stöðunni. Við gætum pakkað saman og farið á Landspítalann þar sem fleiri úrræði væru í boði, eða við gætum haldið áfram í Björkinni, Linzi gæti labbað um og svo væri hægt að prófa Riboso leikfimi.


Ekki of sannfærð um að það myndi gera mikið ákváðum við að láta á það reyna, flutningur á Landspítalann yrði ekki til umræðu fyrr en allt í Björkinni væri fullreynt. Við byrjuðum á innanhús göngutúr í hljóðlátu húsnæðinu. Eftir nokkra stund kom Harpa og Riboso leikfimin tók við. Ég byrjaði á því að standa fyrir aftan Linzi og lyfta bumbunni upp með sjalinu, eins og við lærðum á paranámskeiði. Að því loknu stillti Harpa dömunni upp við vegg, lét sjalið um mjaðmirnar á henni og togaði í endana sitt á hvað svo hún hristist upp við vegginn. Að leikfiminni lokinni færðum við okkur aftur inná fæðingastofuna. Arney og Harpa buðu Linzi að leggjast í stellingu svipaðri læstri hliðarlegu, þar sem efri fóturinn lág út fyrir brúnina á rúminu. Svona átti hún að taka nokkrar hríðar. Þegar fyrsta hríðin var í aðsigi segir Linzi "Ég get ekki tekið hana svona... geturðu hjálpað mér?" Um leið og ég tók í fótinn og ætlaði að færa hana til rekur Linzi upp óp. "Hvað?! meiddi ég þig?" spurði ég. "Heyrðirðu smellinn? Belgurinn er sprunginn!" Kallaði Linzi. Arney og Harpa komu til okkar og púlsinn hækkaði talsvert þar til í ljós kom að legvatnið var ekki grænt á litinn. Nú fór allt á fullt. Linzi var aðstoðuð í laugina aftur og hríðastormurinn sem tók við ber nafn með réttu. Mjög stutt var á milli þeirra og það var magnað að fylgjast með henni anda sig í gegnum þær, hverja á fætur annarri. Arney, Harpa og ég gerðum hvað við gátum til að létta undir, hvort sem það var með þrýstingi á mjóbak eða aðra staði, kaldur bakstur á ennið eða sopi af íþróttadrykk á meðan færi gafst milli hríða. Ég man eftir mér fyrir aftan Linzi að þrýsta á mjóbakið á henni þegar í einni hríðinni kom smá blóð. Til að gera Linzi ekki óttaslegna náði ég athygli Hörpu með veifingum, benti ofan í laugina og mime-aði "BLÓÐ". Hún brosti og sagði það vera allt í góðu.


Harpa skoðaði reglulega hver staðan var með spegli og innan skamms var farið að sjást í kollinn. Í einni hríðinni leit Harpa á mig, tók í hendina á mér og færði hana svo ég fann hvernig kollurinn var. Ég er ekki frá því að eitthvað ryk hafi þyrlast upp í fæðingarstofunni og þvælst í augun á mér einmitt þá. Linzi var við það að örmagnast, hafði tvisvar fengið krampa í hægri fótinn og var alveg búin á því. Arney og Harpa stungu uppá því að hún breytti um stellingu og tæki nokkrar hríðar á bakinu í lauginni. Mín lét til segjast og í fyrstu hríð eftir það kom litla prinsessan okkar í heiminn með hvelli, bókstaflega. "Hann er slitinn" segir Harpa um leið og hún stingur hendinni í laugina til að klípa fyrir naflastrenginn. Arney mætti með klemmu á mettíma og þær lokuðu fyrir. Naflastrengurinn var það stuttur hjá nægjusömu dömunni okkar að hann slitnaði þegar hún dýfði sér í laugina.








721 views0 comments

Comments


bottom of page