Fæðingarsaga Steinunnar Lóu
25. júní 2015
Í upphafi minnar fyrstu meðgöngu hvarflaði ekki að mér að ég gæti fætt heima. Mér leið eins og ég ætti að eiga á spítala því að þetta væri mín fyrsta fæðing. Ég veit svo sem ekki hvaðan sú hugmynd kom. Mamma mín hafði átt bæði mig og systur mína á Fæðingarheimili Reykjavíkur og talaði alltaf mjög vel og jákvætt um sínar fæðingar. En fæðingarheimilið var ekki starfandi lengur og allar konur sem að ég þekkti sem höfðu eignast barn nýlega, höfðu átt það á spítala. Fæðingarsögurnar sem að ég heyrði voru aðallega erfiðu sögurnar og ég vissi því ekki hvað fæðing gæti gengið vel.
Á meðgöngunni voru nokkrir þættir sem gerðu það að verkum að ég fór að hugsa um heimafæðingu. Besta vinkona mín átti heima þegar ég var ólétt og talaði svo vel um sína upplifun. Það var í raun fyrsta jákvæða fæðingarsagan sem að ég heyrði, fyrir utan sögur mömmu minnar. Ég byrjaði í meðgöngujóga þegar ég var gengin 16 vikur. Jógað snýst jú mikið um að valdefla konur í fæðingarferlinu og í framhaldinu fór ég að lesa mér meira til um fæðingar, m.a. bókina hennar Inu May Gaskin. Ég áttaði mig á því að fæðing gæti alveg verið náttúruleg og áfallalaus upplifun án inngripa. Þegar ég var gengin rúma 7 mánuði hófst ljósmæðraverkfall sem var ekki útlit fyrir að myndi leysast í bráð og að auki voru áætlaðar margar fæðingar á þeim tíma sem við áttum von á okkar barni. Það var því ansi mikið álag á fæðingardeildinni og við fórum að hugsa um hvaða aðrir möguleikar væru í boði. Við ákváðum að fara og hitta Arney og Hrafnhildi í Björkinni til að kynna okkur heimafæðingu og vorum varla sest niður til þess að spjalla þegar ég var búin að ákveða að þessar konur vildi ég hafa með mér í fæðingu. Ég vissi að ég vildi eiga sem náttúrulegasta fæðingu og ein af ástæðum þess að ég ákvað að fæða heima var til þess að styrkja sjálfa mig í því að ég gæti tekist á við þetta stóra verkefni með barninu mínu, að fæða það í heiminn. Sú ákvörðun að stefna á fæðingu heima styrkti mig í þeirri trú að ég byggi yfir þeim krafti að geta fætt barnið okkar. Mér fannst líka mjög gott að hugsa til þess að Raggi, kærastinn minn, væri á sínum heimavelli. Hann hafði verið ansi stressaðar á meðgöngunni en á þarna myndi hann hafa hlutverk eins og að blása upp laugina, finna til handklæði, hella upp á kaffið og annað slíkt. Við vorum því bæði orðin mjög spennt fyrir fæðingunni og fyrir því að vera heima.
Ég var gengin fimm daga fram yfir settan dag þegar ég vaknaði um kl. 4:00 að morgni og fann strax að það var eitthvað farið í gang. Ég hafði ekki haft neina fyrirvaraverki né samdrætti en innsæið vissi bara að nú ætlaði barnið að koma. Ég gat ómögulega sofnað aftur og það fyrsta sem kom upp í huga mér voru ýmis praktísk atriði. Ég varð að ná að klára að baka súrdeigsbrauðið sem var að hefast í ísskápnum, ég átti eftir að kaupa mér aðgang að Spotify svo að barnið kæmi ekki í heiminn undir auglýsingardrunum og svo fannst mér alveg nauðsynlegt að taka aðeins til. Tiltekin var reyndar alveg óþarfi því Raggi þreif svo oft á dag fyrir fæðinguna að það hefði verið hægt að framkvæmda skurðaðgerð á stofugólfinu án nokkurra vandræða. Þegar ég hafði lokið þessu stússi lagðist ég aftur upp í og reyndi að slaka eins vel á og ég gat. Ég byrjaði ósjálfrátt að anda hafönduninni strax í fyrstu hríð og það var greinilegt að allur undirbúningurinn úr jóganu hafði mikið að segja. Ég náði ekki að sofa en slakaði vel á á milli hríða og passaði mig að borða á meðan ég hafði matarlyst. Mér fannst rosalega gott að anda haföndun í hríðunum og hrista á mér mjaðmirnar. Ég fylgdist með hríðunum með appi í símanum en þær voru ekki orðnar mjög reglulegar né kröftugar. Um morguninn hringdum við í Arney og hún sagði mér að reyna að hvíla mig og láta sig vita ef hríðarnar færu að verða kröftugri og reglulegri. Um kl. 15 vildi ég fara útí garð að drekka kaffi í sólinni og klöngraðist út um eldhúsgluggann okkar. Svo stóð ég eins og sannur hippi á tánum í grasinu með sólina í andlitinu og andaði mig í gegnum hríðarnar á milli kaffisopa, lagðist á fjórar fætur í grasið og gerði það sem líkaminn kallaði á. Á meðan blés Raggi upp laugina inní stofu svo að hún yrði tilbúin. Um kl. 16 voru hríðarnar farnar að aukast og ég vildi leggjast uppí rúm. Ég náði að sofa í smá stund og þegar ég vaknaði aftur um kl. 18 fannst mér hríðarnar vera orðnar reglulegri og með stuttu millibili. Þær voru samt alls ekki sársaukafullar. Ég hringdi aftur í Arney og hún ákvað að kíkja á okkur. Ég hafði búið mig undir langa fæðingu og sársaukafullar hríðar og bjóst því við að ég væri kannski rétt komin tvo í útvíkkun, ef þá það. Ég var hins vegar komin í sex í útvíkkun og því tímabært að fara í laugina. Það var ólýsanlega gott að komast í vatnið og ég lagðist á laugarbrúnina með fæðingarbolta í hendinni, þrýsti á þriðja augað og andaði haföndun í gegnum hríðarnar sem urðu nú sterkari. Það var mjög gott að hugsa um að hver hríð væri að færa mig einu skrefi nær því að fá loksins að sjá barnið okkar. Ég fór algjörlega í minn eigin heim í hverri hríð og gaf frá mér hljóð sem ég vissi ekki að ég gæti eða kynni að gera. Mér leið eins og ég væri einhverskonar dýr í fullkomri núvitund, ég veit eiginlega ekki hvernig er hægt að lýsa því á annan hátt.
Ég var fljótt komin í tíu í útvíkkun en belgurinn sprakk ekki og barnið virtist hafa það svo voðalega notalegt að það ætlaði e.t.v. ekkert að koma út. Ég skipti um stellingu, prufaði að standa upp og labba á klósettið, fór aftur í laugina en ekkert gekk. Ég purraði eins og hestur, eins og Ina May Gaskin talar um, og fann að það gaf mér mjög mikinn kraft. Loksins sprakk belgurinn. Þar var mjög skrýtið að finna fyrir legvatninu gusast út í baðvantið og ég hélt að nú myndi þetta fara að gerast. Barnið virtist samt enn vera hið rólegasta og virtist bara ekkert vera að flýta sér í heiminn. Arney lagði til að koma inní rúm og prufa nýjar stellingar til að nýta okkur þyngdaraflið. Ég reyndi m.a. að vera á fjórum fótum og Hildur, aðstoðarljósmóðir, notaði hitapoka og handklæði eins og rebozosjal. Ég fór í hlauparastöðu og lagðist á bakið en það gerðist eitthvað en ekkert mjög mikið. Ég rembdist hvað ég gat með hverri hríð og fann að kollurinn fór aðeins niður en alltaf fór hann aftur til baka. Arney sagði að við skildum prufa örlítið lengur en annars þyrftum við að huga að því að fara uppá spítala, einfaldlega vegna þess að ég væri orðin svo þreytt, enda búin að vera í rembing í bráðum fjóra tíma. Arney lagði til að ég myndi fá mér smá hunang til þess að fá orku og sagði Ragga svo að fara að hafa spítalatöskuna til. Mín fyrsta hugsun var að ég nennti með engu móti að fara að klæða mig í föt, ég gæti alveg klöngrast uppí bíl en ég nennti ekki verið allsber alla leiðina. Það var eins og barnið væri mér alveg sammála því þegar Raggi setti síðustu hlutina í töskuna fór kollurinn loks að koma í ljós - hunangið hafði greinilega gefið mér aukakraft. Eftir allan þennan rembing og eftir að hafa verið svona lengi á leiðinni niður skaust litla stúlkan okkar út í einni hríð, á þeim ótrúlega tíma 23:59, bara einni mínútu frá því að eiga annan afmælisdag. Naflastrengurinn var svo stuttur að hún náði bara rétt upp á maga, þessi fullkomna litla stúlka með mikið þykkt og rautt hár. Hún var örugglega svolítið þreytt því að hún fór ekki að gráta fyrr en eftir svolítinn tíma. Ég var ekki mikið að spá í því en Raggi sagði mér seinna að þessi mínúta væri ein sú erfiðasta mínúta sem hann hefur upplifað.
Það sást á höfðinu að hún hafði greinilega verið örlítið skökk í grindinni sem hafði líklega áhrif á það hversu lengi hún var að koma niður. Að auki hafði ég ekki getað pissað í fæðingunni en hafði drukkið mjög mikið vatn svo þvagblaðran var alveg stútfull sem var mögulega einhver fyrirstaða. Þar sem hún kom að lokum svo hratt þá rifnaði ég töluvert. Arney og Hildur ákváðu því að það væri betra að fara uppá spítala til þess að láta sauma. Þetta reyndist sem betur fer bara 2. stigs rifa sem var ekki eins slæm og hún virtist í fyrstu en það var engu að síður ekki sérstaklega þægilegt að láta sauma. Mig langaði að gefa frá mér einhver hljóð til að lina sársaukann, svona eins og í fæðingunni, en nennti allst ekki að rymja meira. Ég var líka orðin mjög hás eftir fæðingu. Læknirinn gaf mér glaðloft áður en hún byrjaði að sauma sem hafði heldur betur áhrif á mig. Í stað þess að rymja, eins og í fæðingunni, söng ég allt „Í síðasta skipti“ með Friðriki Dór, svona eins og ég væri að koma heim af ágætu sveitaballi.
Ég trúi því að konur eigi að fylgja sínu eigin innsæi í fæðingarferlinu, hvort sem um ræðir fæðingu á spítala eða heima, með eða án deyfilyfja. Við vitum sjálfar hvað er best fyrir okkur og barnið okkar. Að fæða heima var alveg rétt ákvörðun fyrir mig. Það var ómetanlegt að hafa sömu ljósmæður í mæðraverndinni, alla fæðinguna og í heimavitjuninni. Þó að ég hafði verið lengi í rembingi og þurft að fara upp á spítala til að sauma þá er upplifun mín af fæðingu litla ljósberans míns einungis jákvæð. Fyrir mér er fæðing ekkert að óttast heldur kraftmesta lífupplifun sem hægt er að ganga í gegnum.
Comments