top of page
Search

Fæðingasaga Heiðdísar


Vil deila með ykkur heimafæðingareynsluna okkar góðu. Ef ykkur langar að lesa hana yfir drykk.

Ég var á fullu fimmtudaginn 17.apríl 2008, skóli, fundir, útréttingar og saumaklúbbur um kvöldið. Um nóttina svaf ég vel en fann áður en ég fór að sofa að ég var komin með léttan túrverkjaseyðing, þótti lúmskt gaman að vitneskjunni að það styttist í að ég fengi drenginn í hendurnar. Vaknaði kl 6 um morgunin 18.apríl við það 2 1/2árs stelpan mín var komin oní mömmuholu og þá fann ég að ég var komin með sterka fyrirvaraverki, fór framúr og það fór að hlakka enn meir í mér. Tók stelpuna þegar hún vaknaði og bjó hana undir leikskólann og fór með hana þangað. Þær á leikskólanum spurðu hvort ég ætti ekki að vera á spítalanum núna að fæða, bara að þær vissu en ég brosti og sagði að barnið kæmi þegar það kæmi.

Ég hitti ljósmóðurina sem fylgdi mér í mæðraverndinni, dætur okkar voru saman á deild og hún spurði hvernig ég hefði það. Ég hvíslaði að henni að ég væri nú með létta verki og á leið í göngutúr. Hún sagði þá að ráðstefna ljósmæðrafélagsins væri í þann mund að hefjast og Áslaug yrði væntanlega þar, hún myndi hvísla þessu að henni þar.

Fór í góðan göngutúr og nokkrir fyrirvaraverkir gerðu vart við sig, þegar heim var komið var sest niður og fengið sér góðan morgunverð og kíkt í blöðin á meðan vatnið rann í baðið góða með lavanderolíunni sem ég hafði keypt deginum áður. Það var ekki smá gott að komast í bað, eftir baðið fór ég aftur upp í rúm og náði að festa svefn í klukkustund og vaknaði við sterkari fyrirvaraverki samt ekki sárir sem voru þá á 6 mín fresti. Ákvað því að fara fram úr og dunda mér frammi. Þegar klukkan var að verða hálf tólf þá hringdi ég í karlinn og hann var þá á heimleið úr skólanum. Ég lét Áslaugu vita hver staðan væri en ég væri sjálf nokkuð viss um að ekkert myndi gerast strax, þetta væru bara samdrættir engir sárir verkir eins og ég minntist þegar ég átti stelpuna. Áslaug vildi koma og kíkja á mig, hún kom kl 12.30 og tékkaði og var ég þá komin með 4 í útvíkkun. Ballið var sko byrjað. Ljósmæðraráðstefna var í gangi á Nordica hótelinu og sendi ég Áslaugu á hana aftur og lofaði að hafa samband þegar hríðir gerðu vart við sig.

Við karlinn skelltum inn DVD myndinni Stella í Orlofi. Ég upplifði hríðarnar aldrei sárar, heldur frekar svona bylgjur sem voru óreglulegar. Það varð eiginlega aldrei styttra en 4-6 mín á milli og oft lengdist á milli þeirra. Ég glotti þegar ég horfði út á föstudagsösina í Hamraborginni og þarna var ég að fara að upplifa yndislega stund. Áslaug kemur þá heim og spurði ég hana hvort ráðstefnan væri búin. Nei hún gat ekki verið með fulla einbeitingu á ráðstefnunni. Þarna var ég komin með 7 í útvíkkun og pollróleg að brjóta saman þvottinn. Þá var haft samband við mömmu og systur mína sem ætluðu að vera viðstaddar og þær voru með stelpuna mína. Ég bý á fjórðu hæð og sá þegar þær komu, ég gekk niður og tók á móti. Gaman var að sjá svipinn á mömmu, hún hafði haldið að ég væri að engjast af hríðum. Ég gekk upp með stelpuna og við spjölluðum saman á leiðinni upp og hún söng og raulaði að litli bróðir væri að koma.

Við fengum okkur svo kaffi, mjólk og kleinur sem mamma kom með á meðan vatnið rann í skrautfiskalaugina góðu. Áslaug spurði svo hvort ég vildi ekki fara oní laugina, ég spurði fyrst hvort það gæti ekki slakað á ferlinum og fékk svarið að stundum flýtti það fyrir þanning að ég bara vippaði mér oní. Ahhhh guðdómslega gott að fara oní laugina. Hríðarnar urðu ögn sterkari, ég lá fyrst á bakinu og eftir þær hríðar fór ég á hnén og hékk á brúninni með manninn minn til móts við mig og sagði að ég væri komin með rembingsþörf. Áslaug sagði mér bara að rembast ef ég vildi. Ég gerði það og eftir tíu mínútur eða þrjár rembingar synti drengurinn í fangið á mér. Klukkan sló 16.47, ég tók á móti honum og það var svo gott að fá hann á beran kroppinn. Við vorum svo í lauginni í smátíma og ég kláraði að koma fylgjunni út. Stelpan okkar var viðstödd og þetta var henni svo eðlilegt, hún var voða glöð þegar litli bróðir var kominn. Taldi tærnar, fingurnar og alla líkamshluta eins og augu, munn og eyru.

Það var mikil ró yfir drengnum þegar hann kom í fangið, enginn grátur. Síðan var farið uppúr í hreint og uppábúið rúm þar sem við kúrðum öll fjölskyldan. Sonurinn var síðan vigtaður eftir að nokkrar spátölur komu frá viðstöddum, eitt get ég sagt að ekki skal búast við sigri ef ljósmóðir með reynslu spáir líka. Áslaug spáði 4400 gr og var drengurinn vigtaður 4440 gr, ekki langt frá spánni hennar Áslaugar. Hann var 53 cm langur og með 38 cm í höfuðmáli.

Við nutum okkar svo í rólegheitum um kvöldið og kom ég stelpunni og nýjustu stóru systur í rúmið og síðan kúrðum við maðurinn með soninn í sófanum um kvöldið og dáðumst við að nýjasta fjölskyldumeðlimnum og sólsetrið sló gullnum bjarma yfir Snæfellsjökul.

Þegar Áslaug sagði mér að hún væri e.t.v að hætta störfum eftir 1-2 ár þá sagði ég bara að ef þriðja barnið ætti að koma þá væri bara best að skipuleggja það fljótlega. Nú þessa stundina er von á þriðja barninu í ágúst, stefnan að sjálfsögðu tekin á heimafæðingu ásamt fjölskyldunni og góðum liðsauka frá Björkinni.

117 views0 comments

Comments


bottom of page