top of page
Search

Fæðingasaga Hrafnhildar


Þann 1. febrúar 2007 fæddi ég eldri son minn, hann Mikael Mána á Landspítalanum. Ýmis vandamál gerðu vart við sig og upplifunin af meðgöngu og fæðingu varð því ekki eins náttúruleg og jákvæð og ég hafði í upphafi vonað og ásett mér. Engu að síður voru verðlaunin ómetanleg, að fá þennan yndislega og velkomna gullmola í hendurnar! Brjóstagjöfin gekk vonum framar og ég naut þess í botn að vera orðin mamma. Við mæðginin tengdumst sterkum böndum og nutum hverrar einustu stundar saman, sérstaklega brjóstagjafarinnar, þangað til hann ákvað sjálfur 15 mánaða gamall að hætta. Fæðingarreynslan lifði þó í minningunni og ég upplifði visst tómarúm og sjálfsmyndin mín hafði breyst til hins verra því mér fannst ég ekki hafa staðið mig nægilega vel...

...en ég sé það núna að það voru aðrir sem stóðu sig ekki nógu vel og aðstæðurnar hentuðu mér bara ekki...

13. mars 2011 kom síðan gullmoli númer tvö, hann Víkingur Nói í heiminn og hef ég öllu jákvæðari sögu að segja af því. Árið 2009 útskrifaðist ég sem ljósmóðir og verð að segja að það að ganga í gegnum meðgöngu, fæðingu og sængurlegu með það nám í fararteskinu er mjög sérstök og góð upplifun. Traustið á kvenlíkamann og það hlutverk sem náttúran hefur ætlað honum er algjört. Síðan hefur það einnig líklega mikið að segja að hafa gengið í gegnum ferlið áður. Fæst kemur manni þá á óvart og innri róin er því meiri. Ég ákvað strax í upphafi að ég ætlaði að fæða heima, með tvær yndislegar ljósusystur, þær Arney og Hrafnhildi hjá Björkinni mér við hlið. Maðurinn minn studdi þessa ákvörðun fullkomlega og við ákváðum að fjögurra ára strákurinn okkar skyldi fá að vera með líka, með ömmu sína hjá sér til halds og trausts. Ég var svo heppin að vera fullkomlega hraust á í þetta sinn og draumurinn varð því að veruleika.

Á meðgöngunni stundaði ég jóga hjá henni Auði í Lótus jógasetri og las mikið af efni frá Inu May Gaskin auk þess sem bókin Hypnobirthing, the Mongan method var stúderuð í þaula, einnig af manninum mínum :) Ég tileinkaði mér svosem ekki tæknina alla í Hypnobirthing en heimspekin og viðhorfið sem þar er til fæðinga hentaði mér mjög vel. Jógað var alveg ómetanlegt og eiginlega ómissandi! Auk þess að styrkja líkamann fyrir fæðingu, öðlast maður þetta jákvæða og nauðsynlega viðhorf gagnvart fæðingum og sjálfum sér. Einnig visst æðruleysi sem er svo mikilvægt okkur nútímakonum sem eigum erfitt með að gefa frá okkur stjórnina!

Ljósmóðirin mín í mæðraverndinni er algjört gull sem ég er svo heppin að hafa fengið til að sinna mér. Auk hennar vitjuðu Arney og Hrafnhildur mín heima þrisvar sinnum í lok meðgöngunnar. Það er ómetanlegt að þekkja ljósurnar sínar fyrir fæðingu og í raun tel ég að það ættu að vera mannréttindi allra kvenna að fá samfellda þjónustu sömu ljósmóður í gegnum barneignarferlið. Ég var dugleg að ganga úti alla meðgönguna, sótti strákinn minn á leikskólann í nánast hvaða veðri og færð sem var. Það fannst mér ótrúlega gott og ég hreinlega fann barnið skorða sig dýpra og dýpra í grindina. Þegar ég var komin 37 vikur á leið byrjaði ég að finna fyrir auknum verkjalausum samdráttum sem voru bara ansi sterkir. Ég notaði þá tækifærið og æfði jógaöndunina og byrjaði að undirbúa eldri strákinn minn og heimilið fyrir það sem koma skyldi.

Föstudaginn 11 mars var ég gengin 39+1 vikur og þá fannst mér samdrættirnir breytast á einhvern óljósan hátt. Þeir voru áfram sterkir en óreglulegir og þegar þeir komu fékk ég svolítinn seiðing ofan við lífbeinið, eins og rétt áður en maður byrjar á blæðingum – alls ekki sárt, en seiðingur engu að síður. Eftirmiðdaginn á laugardeginum kom síðan hreinsunin frá meltingarveginum sem oft er góður fyrirboði. Þó jókst þessi seiðingur ekki að mér fannst, en um nóttina vaknaði ég reglulega við hann og bjó mig undir það að samdráttarverkirnir væru á næsta leiti. Verkir komu þó ekki fyrr en ég var að klára útvíkkun!! Á sunnudeginum fannst mér ekkert vera að gerast fyrir utan aukna þrýstingstilfinningu niður. Ég var full tilhlökkunar, svo róleg og slök og tilbúin og langaði til þess að byrja þessa fæðingu, fá gullið í hendurnar. Heimilið var tilbúið og ég sat hálf óþreygjufull á boltanum mínum góða á meðan feðgarnir dúlluðu sér eitthvað saman á stofugólfinu. Við ákváðum síðan að best væri að dreyfa huganum, fara bara í ísbíltúr fjölskyldan. Í snjókomu og kulda kl 11 á sunnudagsmorgni skröltum við því af stað. Ég ákvað að telja samdrættina í þessum bíltúr og taldi fjóra, sem var nú ekki mikið í mínum huga þangað til maðurinn minn sagði mér að við hefðum nú bara verið í burtu í 40 mínútur sem þýddi að þeir væru sennilega á 10 mínútna fresti. En áfram var ég vantrúuð því ég fann ekkert til og fannst þeir stuttir þótt sterkir væru og þrýstingurinn niður að aukast.

Ég lagði mig þegar við komum heim, en hrökk upp við það rúmlega 12 að vatnið fór með miklum látum og stórri gusu. Það var óendanlega skemmtilegt að fá að upplifa vatnið fara svona af sjálfu sér og ég brosti út að eyrum. Nú hlyti eitthvað að vera að gerast! Ég kallaði á feðgana og þvílík sem gleðin varð hjá syni okkar!

Nú væri litla systkinið loksins að koma! Spenningurinn var eins og á sjálfum jólunum! Þeir hringdu í ömmuna og byrjuðu svo að blása laugina upp á stofugólfinu. Ég hringdi í ljósurnar glöð í bragði. Ég fann að nú urðu samdrættirnir enn harðari en stuttir voru þeir áfram og engir voru verkirnir. Þær komu og kíktu á mig um kl 13, sáu hvað mér leið vel og allt eðlilegt þannig að þær skruppu út og sögðu okkur að hringja bara þegar við þyrftum á þeim að halda. Mér fannst voða gott að vita til þess að ég væri eina konan sem þær þyrftu að sinna þennan daginn og gat því verið örugg um að ég fengi athygli þeirra alla –ekkert myndi fara fram hjá þeim. Við kveiktum á rósailmskertinu sem ég hafði geymt lengi fyrir þessa stund og settum tónlistina í gang sem var sambland að Grace og Bítlunum :) mér fannst best að rölta um íbúðina og njóta þess að fylgjast með stóra stráknum mínum skottast í kringum mig eða leika við ömmu sína inni í herbergi. Hann kom líka reglulega til mín og gaf mér knús.


Af og til settist ég á boltann eða hallaði mér á hnjánum fram á sófann okkar. Þá nuddaði maðurinn minn bakið mitt og þrýsti á spjaldhrygginn þegar samdrættirnir komu. Þeir voru enn ekki sárir en tóku einhvernvegin alla mína einbeitingu. Ég minnti sjálfa mig í sífellu á að slaka á í kjálkunum og á milli augabrúnanna en jógaöndunin kom af sjálfu sér eftir allar æfingarnar undanfarnar vikur. Ég rann saman við tónlistina og upplifði mig mjög syfjaða og leið svo vel. Ekkert stress, engin hræðsla, bara barnið mitt og ég að vinna að því að hittast nú loksins.

Um kl 15 bað ég manninn minn um að láta renna í baðið en hafði smá áhyggjur af því að samdrættirnir sem mér fannst svo aumingjalegir eitthvað myndu detta niður. En ég fann að ég vildi í baðið og við hringdum í Hrafnhildi sem hvatti mig til þess. Ég man að á þessum tímapunkti sögðu annað hvort mamma eða maðurinn minn að 2-3 mínútur væru á milli og hver samdráttur væri um 45 sekúndur. Mér var einhvernvegin alveg sama og heimtaði að enginn segði mér hvað tímanum liði. Við báðum ljósurnar um að koma sem þær og gerðu, gáfu mér stórt knús áður en ég fór ofan í laugina. Strákurinn minn var allt í einu kominn úr öllum fötunum og ætlaði ofan í líka, en sætti sig síðan við að fá að henda sundboltanum sínum til mín, eftir smá spjall við ömmu sína og ljósurnar. Það var hreinn unaður að komast ofan í heitt vatnið og fljóta þar um. Ég hallaði mér fram á baðbrúnina og maðurinn minn hélt mér algjörlega uppi, svo slök og syfjuð var ég. Samdrættirnir veiktust alls ekki heldur styrktust, en ennþá engir verkir, bara mikill þrýstingur niður.

Ég hafði náð að slökkva á ljósmóðurinni í mér þangað til kl 16:30 þegar ég sagði við Arney og Hrafnhildi að ég væri hrædd um að þetta væri allt saman ímyndun í mér, ég hlyti bara að vera rétt að byrja í fæðingu og langt væri í land. Þær voru nú ekki sammála því og buðu mér að skoða mig svo ég myndi sannfærast. Þá var útvíkkunin orðin 6 og ég varð bara að trúa því að þetta gengi einfaldlega svona vel. Á meðan Hrafnhildur skoðaði mig fór ég upp úr og skalf svolítið þannig að sonur minn náði í Spiderman sængina sína og fullt af púðum og hlóð ofan á mig á meðan svo mér yrði nú ekki kalt. Þessi Spidermansæng átti eftir að gegna veigamiklu hlutverki í að halda á mér hlýju eftir fæðinguna og síðar meir nýfædda barninu :) svona smáatriði þykir mér vænst um þegar ég rifja fæðinguna upp í huganum af og til!

Ég fór aftur í baðið og maðurinn minn hélt áfram að styðja mig. Hann var eins og klettur hjá mér alla fæðinguna og hvatti mig áfram og hrósaði – algjörlega ómissandi. Kl 17 fannst mér ég ekki geta meira og bað ljósurnar mínar að vera líka við laugina hjá mér. Ég fékk aukinn styrk við að hafa þær nálægt mér. Fljótlega kom yfir mig kraftmikill rembingur, algjörlega ósjálfráður. Ég fékk deyfingu í síðustu fæðingu og upplifði aldrei þennan ógnarkraft sem líkaminn býr yfir og verð að viðurkenna að ég varð hálf smeik við þetta, og datt svolítið úr gír. Aftur fékk ég áhyggjur, að útvíkkunin gæti ekki verið búin einungis hálftíma eftir að hún var 6 en ljósurnar mínar voru alveg vissar, hvöttu mig áfram og hrósuðu, sögðu mér líka að muna að treysta líkamanum, því hann vissi hvað hann ætti að gera og hvenær, ég þyrfti bara að gefa eftir og einbeita mér að því að opna grindina. Þær sögðu mér líka að athuga bara sjálf hvort það væri ekki kollur þarna rétt fyrir innan. Það reyndist rétt og mér fannst magnað að finna fyrir höfði barnsins míns þrýstast niður.

Nú fyrst fann ég til, aðallega í spjaldhryggnum og grindinni enda mikill þrýstingur niður og rembingskrafturinn mikill. En aftur hafði ég náð stjórn og gleðinni að mestu leiti og það hjálpaði mér best að einbeita mér að stráknum mínum sem reglulega kom til þess að athuga stöðuna, hvort litla barnið væri nú ekki að koma. Ég reyndi líka að segja „ég get þetta“ þegar ég var næstum búin að segja „ég get þetta ekki“, og að segja já í staðin fyrir nei. Sennilega hefur verið hálf fyndið á köflum að sjá mig berjast svona við sjálfa mig :) Þetta var það eina sem ég réði við því líkaminn tók annars stjórnina og mér fannst það líka bara gott því ég fann enn fyrir þessari endorfínsyfju sem líkaminn framleiðir til þess að hjálpa manni. Þetta varð frekar átakamikið rembingstímabil og erfitt á köflum og undir lokin bað ég manninn minn afsökunar áður en ég kallaði á mömmu mína að koma og hugga mig :) ég held að þetta hafi tekið mest á hana greyið, en ómetanlegt að hafa hana hjá okkur! Arney og Hrafnhildur voru algjörir englar og sýndu mér samúð á hvetjandi hátt, hlustuðu á mig og trúðu því sem ég sagði. Það var ómetanlegt því það upplifði ég ekki í síðustu fæðingu og var það mjög erfitt.

Ég var nú búin að rembast í um klukkustund (sem ég upplifði þó mikið styttra) þegar ég fann að eitthvað var bogið við þetta. Sviðinn í spönginni þegar kollurinn krýnir sig var fyrir löngu kominn, og sömuleiðis þessi stöðugi þrýstingur sem hverfur ekki á milli hríða. En aldrei kom blessað barnið! Þá mundi ég allt í einu eftir því, örinu á spönginni frá síðustu fæðingu og vissi þá að spöngin gaf ekkert eftir svo kollurinn gæti fæðst allur. Ég nefndi þetta við ljósurnar mínar og varð svo fegin þegar þær sögðust einmitt hafa verið að hugsa það sama – það þyrfti sennilega að klippa mig. Ég var fegin því að þær trúðu mér og tóku mark á því sem ég var að segja! Grunur okkar var svo staðfestur þegar ég kom upp úr og lagðist í sófann.

Ég mun aldrei gleyma viðbrögðum sonar míns þegar ég lagðist í sófann. Þau veittu mér svo mikinn styrk til þess að halda áfram! Hann sagði ofsalega glaður: „já! Vei! Ég sé eitthvað!!“ og hljóp svo inn í herbergi að sækja ömmu sína. Hrafnhildur klippti mig og í sömu hríð fæddist litli drengurinn minn allur, kl 17:55 rétt eins og jólin sjálf væru að ganga í garð :) þeirri tilfinningu að fá börnin sín í hendurnar eftir fæðingu myndi ég aldrei geta lýst svo vel væri! Það eina sem ég get sagt er að hún er ávanabindandi og sú dásamlegasta í heimi! Þeirri tilfinningu að sjá eldra barnið sitt standa yfir sér með stjörnur í augunum af hrifningu og manninn sinn sömuleiðis með gleðitárin í augunum er heldur ekki hægt að lýsa! :)


Víkingur Nói var 3630 gr og 52 cm, leit alveg eins út og stóri bróðir sinn, var mjög sprækur og að sjálfsögðu dásamaður af öllum viðstöddum. Stóri bróðir fékk að strjúka honum, taka myndir og telja fingur og tær. Síðan fékk litli bróðir að sjálfsögðu afmæliskórónu, sem var algjörlega hugmynd stóra bróður og vakti mikla lukku! Blæðingin hjá mér var lítil sem engin, fylgjan fæddist heil og ég var saumuð svo snilldarlega að ég fann aldrei til á meðan sárið greri, heldur einungis rétt á meðan á saumaskapnum stóð. Drengurinn tók brjóstið mjög vel og af miklum krafti og gerir enn rúmum 5 vikum síðar. Við fengum heimaþjónustu frá Arney og Hrafnhildi í rúma viku og svifum gjörsamlega um á bleiku skýi og gerum enn.

Það að fæða heima er besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu og upplifunin er 100% jákvæð, þrátt fyrir örlitla erfiðleika þarna í lokin! Nú hef ég fyllt upp í gamla tómarúmið sem myndaðist í fyrri fæðingunni og sjálfsmyndin mín er betri en nokkurn tíman áður!


Stóri bróðir er mjög duglegur og blíður og upplifir sig mjög ábyrgan og stoltan. Það hefur ekki örlað á afbrýðisemi eða pirringi yfir þessum nýja fjölskyldumeðlimi sem oft tekur tíma mömmu allan. Ég held að það sé af stórum parti til komið vegna þess að hann fékk að vera með í ferlinu frá A-Ö og varð aldrei hræddur heldur öruggur í upplifun sinni á því hvernig náttúran lætur alla hluti ganga upp. Hann mun alltaf búa að þessari reynslu, ekki síst þegar hann sjálfur eignast börn, ef Guð lofar :)

201 views0 comments

Comentários


bottom of page