top of page
Search

Fæðingasaga Kristínar Maríu


Ég hafði undirbúið mig mikið undir fæðinguna og lesið mér mjög mikið til og kynnt mér heimafæðingar og náttúrlegar fæðingar út í hörgul. Ég vissi að það væri ekki hægt að undirbúa fæðingu frá A til Ö því að það væri alltaf eitthvað sem kæmi á óvart og þar var svo sannarlega tilfellið því þessi fæðing var mjög svo frábrugðin fyrri fæðingu minni 10 árum áður.

Ég vaknaði kl 6.25 við að krílið hreyfði sig eitthvað inni í mér og ég get ekki útskýrt það en ég vaknaði við það og vissi að ég yrði að standa upp. Ég ákvað að fara á klósettið og þá lak vatn niður lærin á mér. Alls ekki mikið en nóg til að bleyta vel nærbuxurnar og til að leka aðeins niður lærin. Það fór þó bara einn pínu blettur í rúmið en ekkert á gólfið.

Þegar ég kom á klósettið sá ég að slímtappinn hlýtur að hafa farið að hluta til í leiðinni því að það var hvítt/glært slím í buxunum hjá mér. Ég fór að hlæja, brosti út að eyrum en fór aftur upp í rúm vonaðist til að fá verki fljótlega en hélt jafnvel að þetta hafi bara verið millibelgjavatn því að það var svo lítið og átti alveg eins von á því að þurfa að bíða eftir verkjunum eitthvað.

Um það bil 10 mín seinna fékk ég fyrsta verk og þá stækkaði brosið enn meira því ég hafði beðið svooo spennt eftir fæðingunni og að fá að hitta krílið okkar. Ég hringdi í kærastann minn og lét hann vita því hann var að vinna við að baka í Hveragerði og ég vildi ekki að hann panikkaði og keyrði svo eins og brjálæðingur yfir Heiðina. Ég sagði honum samt að slaka á og ég myndi láta hann vita þegar verkirnir yrðu orðnir reglulegir. En verkirnir komu svo bara rosalega óreglulegir allt frá 4 upp í 13 mín á milli og ég var viss um að þetta myndi taka dálítinn tíma svo að ég hringdi ekkert í ljósurnar strax og sagði kærastanum bara að slaka á.

Ég var svo bara hér heima að kveikja á kertum, setti þægilega tónlist í græjurnar, setti í þvottavél og beið eftir reglulegum verkjum. Ég fór svo fljótlega að fá mjög sterka verki en ekki reglulega svo að ég hringdi í ljósuna um hálf níu og hún var bara róleg því ég var enn svo óregluleg. Hún hélt líka að vatnið hefði verið millibelgjavatn og að verkir gætu jafnvel dottið niður og sagði mér að hringja aftur ef eitthvað breyttist. Kærasti minn ákvað fljótlega að koma bara heim og ég var róleg bara að spjalla á bumbuspjallinu mínu og contractionmaster að fygljast með óreglulegu verkjunum. Ég fór nokkrum sinnum á klósettið og alltaf kom smá af slímtappanum með í hvert skipti.

Kærasti minn kom svo heim um kl. 10 með helling af bakkelsi og fór að elda tómatsúpu til að eiga í hádeginu. Fljótlega fóru hríðarnar að harðna en voru enn óreglulegar. Ég prófaði að liggja þegar sterk hríð kom en fann fljótlega að mér fannst það alveg ómögulegt svo að ég studdi mig við eldhúsborðið og ruggaði mér í mjöðmunum og andaði með. Eftir eina mjög harða hríð bað ég kærastann að fara að fylla á laugina, það færi að koma að því að ég vildi komast ofan í hana. Ég bara einhvernveginn fann á mér að ég þyrfti að fara að nota hana. Ég færði mig svo inn í svefnherbergið okkar þar sem sonur minn var sofandi og ætlaði að prófa að sitja á boltanum í næstu hríð en fann strax að það var ekki að henta mér, ég vildi bara komast ofan í laugina.

Sonur minn vaknaði akkúrat í þessu og var steinhissa á að sjá mig rugga mér við fótagaflinn og varð enn meira hissa þegar hann var að reyna að tala við mig og ég gat ekki svarað honum. Ég var svo rétt komin ofan í laugina og komin með mjög harðar hríðar um hálf tólf þegar ljósurnar komu. Systir mín sem ætlaði að taka myndir fyrir okkur og vera syni mínum innan handar ef á þyrfti að halda kom svo stuttu síðar. Ljósurnar sáu strax að þetta var vel á veg komið því hríðarnar voru orðnar mjög harðar og ég hljóðaði með þeim alltaf en fannst ég alltaf hafa minni og minni stjórn á þeim og þær hörðnuðu sífellt meira. Og ég man að hugsaði að þetta hefði ekki verið svona vont þegar ég fæddi son minn því í þeirri fæðingu voru hríðarnar alltaf reglulegar og alltaf góð hvíld á milli svo að ég næstum sofnaði. En í þetta skipti bauðst engin hvíld. Mér fannst meira eins og ég væri með stöðugan verk sem svo harðnaði verulega með reglulegu millibili. Hrafnildur ljósa mældi svo blóðþrýsting, hlustaði á hjartslátt barnsins og mældi hitann minn og fékk svo að athuga útvíkkun aðeins seinna. Hún sagði þá að hún fyndi fyrir kollinum sem stæði mjög neðarlega og leghálsinn væri þunnur og útvíkkun 5-6. Ég var alveg geðveikt vonsvikin því ég fann svo vel fyrir kollinum sjálf þarna niðri, hríðarnar voru svo harðar og reglulegar loks að ég bara trúði henni varla, sérstaklega af því að ég fann barnið skrúfast neðar og neðar í hverri hríð. Um það bil 20-30 mínútum síðar kom svo önnur hríð sem mér fannst ég varla ráða við. Svo önnur mjög hörð þar sem ég fann fyrir kollinum skrúfast enn neðar svo að ég ákvað að þreifa sjálf og ég sagði upphátt "ég finn fyrir kollinum" en það ætlaði enginn að trúa mér.

Í næstu hríð andaði ég bara með og réð varla við hríðina en kollurinn skrúfaðist niður og kom bara út og ég sagði "kollurinn er kominn!" en það ætlaði varla neinn að trúa því heldur, ekki fyrr en ég reisti mig aðeins við og bað kærastann að finna og ljósurnar sáu kollinn í vatninu. Naflastrengurinn var vafinn einu sinni utan um hálsinn en Hrafnhildur ljósa var ekki lengi að laga það. Strengurinn var líka utan um öxlina á litla krúttinu sem Hrafnhildur lagaði líka. Í næstu hríð sagði ég bara "hún er að koma" og út synti prinsessan í hendurnar á Hrafnhildi ljósmóður og Pabba sínum og það án þess að ég þyrfti nokkurntíma að rembast. Pabbinn rétti mér hana svo og ég smellti á hana kossi, lagðist aftur í vatninu til að leyfa henni að vera ofan í svo henni yrði ekki kalt og ég fór að flissa eins og kjáni, táraðist og sagði svo: „hún er komin“. Svo heilsaði ég skvísunni okkar og sagði „halló ástin mín“ við hana og flissaði enn meira og táraðist eftir því. Það kom svo smá fósturfita með restinni af legvatninu en annars var vatnið tært.

Hún kom í heiminn aðeins fjólublá en glaðvakandi og þetta var greinilega mjúk lending því krúttið veinaði ekkert, bara horfði á mig, hóstaði aðeins og andaði svo vel. Hrafnhildur þurrkaði hana aðeins og ýtti við henni þannig að hún kjökraði aðeins en svo bara lá hún hjá mér í vatninu á meðan ég ýtti einu sinni á eftir fylgjunni sem kom heil og án áreynslu. Í leiðinni missti ég þó um 500 ml af blóði svo að ég fór fljótlega upp úr til að ljósurnar gætu kannað hvort enn blæddi eitthvað að ráði og kærastinn fékk að knúsa krúttið og leyfði svo stóra bróður að máta litlu systur líka. Systir mín sem var viðstödd hringdi svo í mömmu og ég talaði við hana í símann með krúttið kannski 5 mínútna gamalt í fanginu.

Við mældum ekkert stelpu krílið strax, nutum þess bara að skoða hana og ég lagði hana á brjóst og við kúrðum saman á meðan ljósurnar skoðuðu legið mitt, blæðinguna og hvort ég hefði rifnað. Hrafnhildur saumaði svo 2-3 spor sem hún vildi meina að væri bara "saumspretta síðan í síðustu fæðingu" og ég kúrði mig á meðan.

Svo var skottan loks mæld og var nú ekki nema 2.740 g eða 11 merkur og 50 cm með 33,5 cm höfuðmál. Ekki skrítið að ég þyrfti ekki að rembast og líkaminn minn hafi bara séð um þetta sjálfur. Hún fékk strax fallega nafnið sitt og var nefnd Freyja Bjarney.

Þetta gekk allt svo hratt fyrir sig að ég hafði ekki tíma til að hugsa um yoga boltann, nálastungur eða neitt slíkt, ég eyddi bara öllum mínum tíma í að díla við hríðarnar því að eftir að ég fór ofan í vatnið var mjög lítil pása, það komu svona stórar bylgjur sem voru mjög harðar en stöðugur verkur þess á milli líka svo að líkami minn var greinilega að vinna hratt og örugglega.

Þó þetta hafi gengið mjög vel og ég mjög sátt við allt saman fannst mér magnað hvað þetta var öðruvísi en fæðing sonar míns og hríðarnar miklu miklu harðari og erfiðari en þá, enda fékk ég góða hvíld á milli hríða þá og gat jafnvel stundum sofnað en í þetta skipti var enga hvíld að fá, skvísan vildi út!

Ég held líka að aðstæðurnar hafi hjálpað rosalega, mér fannst gott að vera hér heima og njóta mín í rólegheitunum. Mér fannst gott að geta verið hér með mínu fólki og fegin að fá ekki einhvern haug af læknum, ljósum eða fólki inn til mín og ég hefði aldrei meikað að fara í bíltúr upp á spítala í þessum hríðum. Það eina sem truflaði mig aðeins var að ég hafði smá áhyggjur af syni mínum þegar ég var að humma og hljóða í gegnum hríðarnar því mér fannst ég vera með svo mikinn hávaða en svo fór hann bara fram í smá stund og mér fannst það mjög gott. Eins sá ég að kærastanum var ekki alveg sama og ég hafði smá áhyggjur af honum líka því ég vildi ekki láta snerta mig neitt. Mér fannst á einum tímapunkti í fæðingunni sem ég réði ekki við aðstæður og líkama minn og hefði líklega hrópað á mænudeyfingu hefði ég verið uppi á spítala en þegar ég var að vinna mig í gegnum þessa erfið hríð (sem reyndist síðasta hríðin áður en skvísan fæddist) gat ég minnt sjálfa mig á það sem ég hafði lesið mér til og ég áttaði mig á því að þetta væri mjög líklega hið alrómaða transition stig og ýtti hugsuninni í burtu og skvísan nánast hoppaði í heiminn strax á eftir.

Þetta var vissulega erfitt, en algerlega unaðslegt og frábært að þurfa ekki að ferðast neitt á milli. Eftir fæðinguna skelltu sér svo allir fram í eldhús/stofu og fengu sér bakkelsi og kræsingar og spjölluðu. Svo fengum við nokkra gesti og það var líka rosalega notalegt. Gaman líka að heyra frá fólki að það líti nú alls ekki út fyrir að ég hefði verið að fæða barn bara örlitlu fyrr. Eftir fæðinguna hefur allt gengið glimrandi vel hjá okkur. Freyja drekkur eins og herforingi og sefur út í eitt, hún stækkar og stækkar, fékk ekki snert af gulu og er hin heilbrigðasta og við auðvitað öll algerlega ástfangin af nýjasta fjölskyldumeðlimnum.

167 views0 comments

Kommentare


bottom of page