top of page
Search

Fæðingarsaga Eyrúnar


Í febrúar 2009 komumst við að því að við ættum von á okkar þriðja barni og settur dagur var 30. október. Eldri börnin eru tvíburar og fæddust eftir gangsetningu í 38. viku. Áður en ég varð ólétt í þetta skiptið var ég búin að vera að lesa um heimafæðingar á netinu og fannst það ansi heillandi kostur. Þegar ég var orðin ólétt byrjaði ég fljótlega að minnast á þennan kost við manninn minn og ég held að hann hafi haldið að ég hafi dottið á höfuðið, það væri nú MIKLU öruggara og snyrtilegra að eiga á spítala! Held hann hafi séð fyrir sér blóðslettur upp um alla veggi! Eftir að hafa rætt þetta við hann fram og til baka og kynnt fyrir honum þær staðreyndir að þetta væri ekkert hættulegra og ef það þyrfti að flytja mig á spítala þá hefði ég bara fengið að vera aðeins lengur heima hjá mér og ég myndi hvort eð er þurfa að keyra upp á spítala með hríðar ef ég myndi ætla að eiga þar þá fór hann að sættast á þessa hugmynd.

Miðvikudagskvöldið 28. október breyttust fyrirvaraverkirnir, urðu aðeins harðari og reglulegri (samt alveg langt því frá að vera hríðar). Ég var alveg viss um að eiga eftir að ganga langt framyfir svo ég var nú ekkert að stressa mig á þessu. Um tvö leytið daginn eftir hringir mamma í mig og við spjöllum heillengi saman, hún hafði farið í sumarbústað um morguninn þess fullviss líka að ég myndi ganga framyfir þar sem ég var nú svo viss. Þegar ég var búin að tala við hana í tæpan klukkutíma ákvað ég að segja við hana að þetta gæti nú farið að gerast næstu daga svona m.v. þessa fyrirvaraverki en stuttu seinna kom fyrsti verkurinn og ég skellti á hana.

Um fjögur leytið hringdi ég í Kristbjörgu heimafæðingarljósmóður og lét hana vita að þetta gæti farið að gerast en ég væri samt ekkert alveg á því að þetta væri alveg á næstunni, hún gæti alveg farið í leikfimi milli 5 og 6 án þess að hafa áhyggjur af mér, hún þyrfti ekkert að tékka á mér strax... Jobbi ekki kominn heim og hann ætti eftir að koma heim og taka til áður! Á þeim tíma var hann nýlagður af stað heim úr vinnunni, ég sendi hann til að koma við hjá vinkonu minni að ná í uppblásinn bolta til að ég gæti setið á og svo átti hann eftir að sækja krakkana og koma með þau heim. Mér fannst algjör óþarfi að senda þau strax í pössun... kannski gætu þau bara verið heima, farið að sofa og svo myndi ég eiga seinna um kvöldið/nóttina. Tók svo tímann á milli hríða eftir símtalið og jú það voru 3 mínútur á milli hríða en þær voru bara svo aumingjalegar og vörðu bara í um hálfa mínútu þ.a. ég var alveg handviss um að þetta væri bara rétt að byrja. Fyrri fæðing var gangsetning með belgrofi og dreypi og þá var ég með um 2 mínútur á milli í 7 klukkutíma og verkirnir í þetta skiptið ekkert í líkingu við þá verki.

Þegar maðurinn minn og börnin koma heim rúmlega hálf 5 finnst mér þetta vera farið að herðast aðeins og styttast á milli en það hlyti samt að vera slatti eftir enda hríðarnar ekki einu sinni farnar að nálgast hríðarnar úr fyrri fæðingu, fer í sturtuna á meðan Jobbi undirbýr stofuna til að koma baðinu fyrir og hann kemur krökkunum af stað til systur minnar (hún býr í næsta húsi og þau labba sjálf á milli). Þegar klukkan nálgast 5 bið ég Jobba að hringja í Kristbjörgu og hann bað hana bara að koma að kíkja á okkur (þ.a. henni fannst hún ekkert þurfa að drífa sig neitt sérstaklega en kom sér samt í að koma). Rúmlega 5 var hún ekki komin og ég spyr Jobba hvað hann hafi eiginlega sagt við hana??? Ég vildi fara að fá hana ekki seinna en í gær því mér fannst ég vera farin að finna þrýsting (sem ég trúði samt varla að gæti verið byrjun á rembingnum... enda bara nýbúin að sannfærast um að vera komin af alvöru í fæðingu!). Svo kom rembingur og ég sagði Jobba að hringja aftur og segja henni að ég héldi að barnið væri að koma!! Færði mig svo yfir á klósettið því ég hafði ekki haft neina úthreinsun og var svona smá að velta fyrir mér hvort ég þyrfti bara að gera nr. 2 eða hvort barnið væri í alvörunni að koma. Í næstu hríð var ég komin á klósettið og þá kom úthreinsunin og svo í þriðju hríðinni kom höfuðið hálfa leið út og belgurinn sprakk og svo kom hann bara allur. Þegar ég fann að höfuðið væri að koma sagði ég Jobba að hringja enn einu sinni í Kristbjörgu og þegar hún svaraði var hann akkúrat fæddur. Hún var sem betur fer bara stutt í burtu og var komin ca 3 mínútum seinna.

Ég var s.s. á klósettinu en stóð bara upp og tók á móti drengnum sjálf á meðan pabbinn var í símanum, hann grét nánast alveg strax og ég losaði naflastrenginn sem var einu sinni laust vafinn um hálsinn á honum. Kristbjörg sagði Jobba að passa bara að okkur yrði ekki kalt svo við vöfðum hann bara inn í handklæði og Jobbi lét annað handklæði yfir axlirnar mínar og við biðum svo bara inni á baði eftir Kristbjörgu enda rúmið alls ekkert tilbúið fyrir mig án þess að það fá blóð í rúmið.

Fylgjan kom rúmum hálftíma á eftir drengnum og þá fékk Jobbi að skilja á milli. Þegar hún var búin að sauma mig þá hringdum við í krakkana og sögðum þeim að þau mættu koma heim og þau fylgdust með þegar hann var vigtaður og mældur.

Hann fæddist s.s. fimmtudaginn 29. okt kl 17:12 og var 4300gr og 52cm og alveg fullkominn

Ég sem ætlaði að fá að vera í baði í þessari fæðingu þar sem ég hafði ekki mátt það í fyrri fæðingunni (tvíburafæðing) og vildi að það yrðu teknar myndir og video af fæðingarferlinu og ætlaði að láta Jobba vera duglegan að bjóða mér heita/kalda bakstra fékk ekkert af því. Jobbi kom ekki heim fyrr en hálftíma fyrir fæðingu og ég sagði honum að gera hitt og þetta frammi á meðan ég tókst á við verkina í einrúmi. Bað hann einu sinni að nudda á mér bakið í hríð, en var fljót að henda honum bara aftur fram því það var bara verra. Hann var t.d. byrjaður að blása upp laugina (og náði eflaust max 20%) þrátt fyrir að hann efaðist um að ég færi í hana, hann þorði bara ekki að mótmæla fæðandi konunni Mér var mikið í mun að Krisbjörg þyrfti ekki að koma í allt draslið en ég hafði ekki nennt að taka til fyrr um daginn þó þess hefði þurft og sagði honum því að ganga frá öllu dótinu.

Ég hef sjaldan verið jafn ánægð með nokkura ákvörðun eins og að eiga heima, því ég hefði eflaust átt barnið á leiðinni upp á spítala ef ég hefði ætlað að eiga þar, því ég hefði eflaust ekki lagt af stað fyrr en bara rétt áður en hann kom í heiminn.

Það sem hjálpaði mér mest að takast á við hríðarnar var að slaka vel á í kjálkanum og maganum og anda rólega í hverri hríð en ég hafði æft mig á hverjum einasta fyrirvaraverk sem ég hafði fengið vikurnar áður. Síðustu tvær hríðarnar fyrir rembinginn voru hins vegar verri en allar aðrar og það hvarflaði að mér sú hugsun því í ósköpunum ég væri að gera þetta heima og ljósmóðirin ekki enn mætt en svo kom rembingurinn og þá var það aftur gleymt og mér fannst ég geta sigrað heiminn.

Ef við ákveðum að koma með annað barn, mun ég pottþétt stefna aftur á heimafæðingu, nema þá ætla ég að fá ljósmóðurina aðeins fyrr. Allavega svona korteri fyrr þ.a. hún geti komið sér fyrir og verið til staðar þegar barnið kemur út. Ég er samt alveg til í að taka á móti barni aftur sjálf, þetta var svo innilega náttúrulegt og ósjálfráð viðbrögð að á andartakinu þegar hann fæddist, þá fannst mér ég ekki þurfa eina eða neina aðstoð.

122 views0 comments

Comentários


bottom of page