top of page
Search

Fæðingasaga Elísu Rúnar


Sumarið 2010 komumst við að því að við áttum von á okkar öðru barni. Fyrir áttum við 18 mánaða strák sem ég fæddi eftir gangsetningu á 42 viku á FSA. Sú fæðing gekk brösulega og sat svolítið í mér svo ég var ákveðin í því þegar ég gekk með annað barnið að undirbúa mig vel og kynna mér hvað væri í boði fyrir mig. Þarna bjuggum við í Hafnarfirði og fyrir tilviljun heyrði ég af heimafæðingum. Það var kostur sem hafði ekki hvarflað að mér áður en ég heillaðist algjörlega og því meira sem ég las mig til því meira hlakkaði ég til að fá að upplifa þetta sjálf. Fyrir mér var það ansi stórt skref því áður kveið mér mjög fyrir því að ganga í gegn um aðra fæðingu.

Ég setti mig í samband við Björkina og þar svöruðu mér þær Arney og Hrafnhildur og hittu mig stuttu seinna og þær náðu alveg að heilla mig upp úr skónum, ég varð spenntari og spenntari fyrir þessu, keypti mér bækur og skráði mig á spjallsíðu um heimafæðingar.

Ég var sett sunnudaginn 27. mars en ekkert bólaði á barninu, dagarnir liðu og ég var orðin ansi hrædd um að ég þyrfti aftur að fara í gangsetningu . aðfaranótt sunnudagsins 3. Apríl svaf ég lítið fyrir samdráttarverkjum sem urðu þó ekki nógu reglulegir til þess að ég færi að kalla út ljósmæðurnar. Um morgunin hurfu svo verkirnir og við litla fjölskyldan gerðum okkur góðan dag og forum meðal annars í langan göngutúr. Ég lét ljósmæðurnar vita af þessum verkjum mínum og við krossuðum allar puttana yfir því að eitthvað væri að fara að gerast. Þær ætluðu að koma á mánudeginum 4. apríl og hreyfa við belgnum ef ekkert væri búið að gerast fyrir þann tíma

Um kvöldið byrjuðu verkirnir aftur enn sárari en nóttina áður og það var styttra á milli, til að byrja með liðu 7 mínútur á milli verkja en stundum 5 og stundum 3 mínútur. Svoleiðis leið nóttin og um half 9 um morguninn heyrði ég í Arneyju því verkirnir fóru að harðna og ég var farin að finna fyrir ógleði og útferðin var blóðug. Hún ákvað að kíkja á mig og þær voru mættar um 10 leytið.

Við spjölluðum saman og þær fylgdust með mér og gáfu mér nálar, eina í hvirfilinn og sitthvora í handarbökin. Þær athuguðu útvíkkun sem var þá komin í 4-5 og allt leit vel út . Þær sáu að þetta var að fara að gerast svo þær komu sér bara fyrir með allt sitt dót, voru ekki lengi að henda upp lauginni og fylla hana.

Verkirnir urðu fljótlega mjög harðir og ógleðin jókst með þessu, en þær höfðu sko ráð við öllu og settu nokkra piparmyntudropa í grisju sem ég hélt við nefið og þetta hélt ógleðinni niðri.

Ég fór í laugina þegar búið var að renna í hana og vatnið virkaði sem mjög góð verkjastilling. Ég hélt mér í lauginni en prófaði aðeins að fara inní rúm en stoppaði stutt, kunni langbest við mig í vatninu.

Þær athuguðu útvíkkunina aftur um 1 eða 2 leytið og þá var hún komin í 8-9 svo það þurfti nokkra harða samdrætti í viðbót áður en ég fór að finna rembingstilfinningu rétt fyrir kl 3.

Akkúrat þá var Bergur, eldri strákurinn minn búin í leikskólanum og ég hálfpartinn rak Óla minn út að ná í hann, Ljósunum leist ekki alveg á það en ég vissi alveg að hann myndi sko ekki missa af neinu. Þeir feðgar koma svo heim um 3 leytið og Bergur kippti sér ekkert upp við að sjá mig þarna hummandi allsbera á 4 fótum í lauginni, og áður en við vissum af horfði hann steinhisssa á litla barnið skjótast í heiminn kl 15:22. Ég fékk barnið beint í fangið og í sæluvímu flissaði ég og grét og hélt ég myndi aldrei hætta, svo föttuðum við eftir að hafa dáðst að þessu fallega barni að engin okkar hafði séð hvort kynið barnið var svo ég lyfti því upp og ætlaði ekki að trúa því að þetta væri stelpa!

Ég var svo viss um að ég væri aftur með strák en þetta kom sko bara skemmtilega á óvart .

Stelpan okkar fór svo beint á brjóst og drakk eins og herforingi og kúkaði á okkur foreldrana.

Hún mældist 4110 gr og 52 cm með 34 cm í höfuðmál.

Fæðingin fór fram úr mínum björtustu vonum, ég var svo ótrúlega hress eftir fæðinguna, ég slapp nánast heil eftir þetta, þurfti að sauma eitt lítið spor og ég var farin að pissa klukkutíma eftir fæðinguna. Um kvöldið eldaði ég mat og skellti svo í vöfflur með kvöldkaffinu og leið eins og ég gæti farið í handahlaup ef mér hefði dottið það í hug, sem var gjörólíkt því ástandi sem ég var í eftir fyrri fæðinguna.

En ég verð bara að segja að þetta hefði ekki gengið svona vel ef ég hefði ekki verið með svona frábærar ljósmæður sem sáu fyrir öllu, þær stóðu sig svo vel í að hvetja mig áfram og peppa mig upp, ég er svo ánægð með þessa upplifun mína af fæðingunni og stolt af bæði sjálfri mér og þeim að þetta hafi farið svona vel.

108 views0 comments
bottom of page