top of page
Search
arney1

Ég fer ofan í laugina og hugsa "héðan fer ég ekki nema með barnið mitt í höndunum"

Updated: Nov 1, 2023

Fæðing Hugrún Arna


Við heyrðum fyrst af Björkinni þegar èg var ólétt af mínu fyrsta barni árið 2019 og vorum strax heilluð. Hugmyndafræðin á bakvið starfsemina og það að geta átt barn á fæðingarstofu gerði Björkina að okkar fyrsta vali. Örlögin gripu hins vegar inn í og drengurinn kom eftir 35v+5d beint eftir fæðingarnámskeið í Björkinni. Á LSH hittum við á hana Rut, ljóshærða engillinn minn sem gerði upplifunina eins góða og hægt var í óvæntum aðstæðum.

Þegar èg varð aftur ólétt kom ekkert annað til greina en að reyna við Björkina á nýjan leik og viti menn Rut okkar komin þangað og tilbúin í annað ferðalag með okkar sístækkandi fjölskyldu.

Èg hélt mig fjarri fæðingarnámskeiðum og fagnaði heldur betur þegar 37 vika kláraðist og fæðingarstofan í Björkinni orðin raunverulegur kostur.

Það er síðan 31. janúar að èg stend upp úr sófanum og finn hvernig dóttir mín rennur ofan í grindina og ég segi við manninn minn að nú sé ég viss um að hún hafi verið að skorða sig og að það fari að styttast í hana!

Heldur betur spennt græja ég mig í háttinn rétt fyrir 22:00 og er varla búin að leggjast upp í þegar ég heyri lítinn smell og vatnið fer.

Við hringjum strax í vaktsímann og yndislega Ásta kemur, staðfestir að litlan sé skorðuð og að við getum bara verið í rólegheitum heima þar til eitthvað fer að gerast.

Þarna var èg strax ofurþakklát fyrir að hafa valið Björkina og fá þess vegna að vera heima í stað þess að þurfa að hringja á sjúkrabíl þar sem ekki hafði verið hægt að staðfesta skorðaðan koll á meðgöngunni.


Á þessum tímapunkti voru engir alvöru verkir komnir svo èg hugsa með mér að èg muni bara ná að sofna. Við fáum samt tengdaforeldra mína til þess að ná í stóra bróður til öryggis. Ég fer svo í sturtu og reyni að hvílast, klukkutíma eftir að vatnið fór eru verkir byrjaðir, èg hringi aftur í Ástu og læt hana vita. Flott engin gangsetning segir Ásta en það datt mér nú aldrei í hug!

Verkirnir fara síðan að verða sterkari en langt á milli 7-8 mínútur en hver hríð var kröftug og stóð yfir í meira en mínútu. Þá hringi ég aftur í Ástu í kringum 01:00 um nóttina og segi að ég vilji fara uppeftir í versta falli mæti ég aðeins of snemma en það verður bara að hafa það.

Ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af því að vera of tímanlega og þurfti að anda mig í gegnum eina sterka hríð á gólfinu í bílakjallaranum.


Við komum í Björkina og mér leið strax eins og ég væri að koma inn á öruggt heimili, stað sem ég var búin að koma á margoft áður og kunni vel við mig. Ásta gerir laugina klára og segir mér að Rut ætli að koma þrátt fyrir að vera ekki á vakt. Stuttu síðar er hún komin og èg augljóslega komin vel af stað.


Èg fer síðan ofan í laugina og man eftir að hafa hugsað héðan fer ég ekki nema með barnið mitt í höndunum. Þvílík verkjastilling og heilun sem býr í þessari laug. Èg var algjörlega inná við, andaði mig í gegnum hríðarnar og fannst èg vera með fulla stjórn á umhverfinu, rýmið öruggt og þægilegt og fólk sem ég þekki og treysti með okkur. Líkaminn einhvernveginn tekur síðan yfir og gerir það sem gera þarf - þetta var algjörlega mín fæðing.

Rembingstilfinningin kemur og stuttu síðar hjálpumst við Rut að við að koma dótturinni upp á bringuna og í hendur beggja foreldra sinna. Ásta náði svo ótrúlega fallegum myndum af þessu dýrmæta augnabliki.


Allt hafði þetta gerst á tæpum 6 klukkustundum eftir að vatnið fór og því kom hún á settum degi 1. febrúar 2021.


Við kúrðum okkur þrjú saman í fallegu fæðingarstofunni og ég gat ekki hugsað annað en:,, Allt er eins og það á að vera”.

Takk fyrir okkur og þvílík lífsins lukka að við fengum hana Rut senda til okkar í gegnum báðar fæðingarnar.



574 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page