top of page
Search

Bjartar nætur

Updated: Sep 5, 2019Á lengsta degi ársins er hugmyndin um ljósið mér hugleikin. Orðið ljósmóðir hefur tvívegis verið kosið fallegasta orð íslenskrar tungu. Ákveðinn ljómi er yfir orðinu og fólk tengir ljósmæður við þann stóra viðburð þegar barn kemur í heiminn. Ef við hugsum um barnsfæðingu þá getum við sagt að barn fæðist inn í ljósið, það yfirgefur myrkur og skjól móðurlífsins og kemur út í ljósið.


Á Vísindavefnum er að finna þessa útskýringu á orðinu ljósmóðir: „Líklegast er talið að uppruna orðsins megi rekja til rómverska gyðjuheitisins Lûcîna. Þessi gyðja hjálpaði konum við fæðingu, dró úr sársauka og sá til þess að allt færi vel. Nafn gyðjunnar er dregið af latneska orðinu lux ‘ljós’, í eignarfalli lûcis, að viðbættu viðskeytinu -îna sem notað var til að búa til kvenmannsnafn eins og vel þekkist í íslensku (Jón–Jónína). Merkingin er þá eiginlega ‘kona ljóssins’ og vísar til þess að ljósmóðirin hjálpar til að koma börnum úr móðurkviði út í ljósið“ (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4841)Það hefur verið sérlega ánægjulegt að vera ljósmóðir í Björkinni og í heimafæðingum í sumar. Nætur síðustu vikna hafa verið einstaklega fallegar. Sólin hefur skinið daga sem kvöld og næturnar sveipaðar dulúð. Það er einstök tilfinning sem fylgir því að vera ljósmóðir á leið í fæðingu um miðja slíka sumarnótt þegar himininn skartar allri sinni litadýrð. Allir sofa nema fuglarnir sem syngja hástöfum og verðandi foreldrar sem undirbúa komu erfingjans. Pabbinn nuddar bakið eða fyllir laugina og mamman andar sig í gegnum hríðirnar. Eftirvæntingin er næstum áþreifanleg. Á svona stundum eru fæðingar rómantískar og svo kærleiksríkar að manni verður orða vant. Það eru engar ýkjur að fæðing getur verið á svona bleiku skýi, ég er svo heppin að hafa séð það með eigin augum og það oft.Já ljósið vinnur með okkur. Það er allt auðveldara þegar bjart er og sólskinið léttir svo sannarlega lund. Mér finnst sérlega skemmtilegt og viðeigandi nú á sumarsólstöðum að hugsa um fæðinguna sem þetta ferðalag barnsins úr myrkrinu í ljósið og til að fullkomna daginn litu tvö lítil kríli dagsins ljós í fyrsta sinn í Björkinni á þessum fallega sólarhring.399 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page