Search

Kynlíf á meðgöngu


Kynlíf á meðgöngu er umræðuefni sem flestir hafa áhuga á en ekki allir spyrja um á meðgöngu. Þær breytingar sem verða á líkama konu á meðgöngu, við fæðingu og við móðurhlutverkið eru gríðarlegar og er eitt stærsta breytingaskeð sem kona gengur í gegnum á lífsleiðinni. Meðganga og fæðing er eðlilegur lífsviðburður en krefst samt sem áður aðlögunnar bæði hjá móður og maka. Að eignast fyrsta barnið sitt krefst einnig mestrar aðlögunnar.


Kynlöngun

Það er mjög mismunandi hvernig meðganga hefur áhrif á kynlöngun kvenna, bæði líkamlega og andlega. Kynlöngun getur minnkað, aukist eða haldist óbreytt. Það fer líka eftir hversu langt meðgangan er komin vel á veg hvernig kynlöngunin er.

Það eru ýmsir þættir sem geta haft áhrif á kynlöngun á meðgöngu s.s. hvort meðgangan var fyrirfram ákveðin eða ekki, hvort barnið var getið náttúrulega eða með aðstoð, hvernig aðrir brugðust við þunguninni, ótti tengdur þunguninni t.d við að meiða barnið, streita t.d tengd vinnu eða fjármálum, heilsa konunnar og hversu þreytt hún er og hvernig sambandinu við makann er háttað.

Það er ýmislegt sem við getum gert sjálfar til að viðhalda kynlöngun en það fer líka eftir líkamlegri líðan hversu mikla löngun við höfum í kynlíf. Það er mjög erfitt að vera kynferðislega virkur þegar manni er stöðugt óglatt og kannski kastandi upp líka. En ef við getum þá er mjög mikilvægt að halda sér í formi, borða hollan og góðan mat, hreyfa sig því þá líður okkur mikið betur. Svo má ekki gleyma að hugsa vel um sjálfa sig og gera vel við sig. Leyfa sér hluti eins og að fara í slökunarbað, bera á sig gott krem, fara í falleg nærföt og mála sig. Þetta hefur ótrúlega mikið að segja fyrir okkur sem kynverur. Ekki bara leggjast í joggingallan með snakkið upp í sófa. Þá líður manni ekki vel og þegar manni líður illa hefur maður yfirleitt ekki mikinn áhuga á kynlífi.


Meðgangan getur verið ótrúlega skemmtilegur og góður tími til að upplifa sjálfa sig og kynlíf í nýju ljósi. Það er um að gera að nýta tækifærið og gerast svolítið frjáls og óheft og prufa nýja hluti. Þetta er líka oft tímabil sem færir pör ennþá nær hvort öðru og er yndisleg lífsreynsla fyrir báða verðandi foreldra.

Það að sjá konuna sína í fæðingu getur haft áhrif á kynlöngun makans seinna meir. Þetta getur verið mjög áhrifamikil og lífsreynsla sem færir par enn nær hvort öðru, en fæðing getur líka verið erfið fyrir maka að ganga í gegnu. Makinn getur fundið sig ábyrgan fyrir sársauka konunnar og fundist þeir hjálparvana í þessum aðstæðum. Það getur tekið makana tíma að vilja og hafa áhuga á að stunda kynlíf aftur.

Algengar spurningar og svör

Má alltaf stunda kynlíf á meðgöngu?

Undir venjulegum kringumstæðum er óhætt að stunda kynlíf alla meðgönguna ef fólk hefur löngun og ánægju af. Hins vegar á aldrei að vera vont eða óþægilegt að stunda kynlíf.

Sumum konum finnast samfarir óþægilegar á meðgöngu. Það getur t.d stafað af eftirfarandi atriðum: æðaþregnslum í grindarbotni en þá geta grindarbotnsæfingar hjálpað. Þrengslum í leggöngum og minnkaðri framleiðsla á útferð en þá geta sleipiefni hjálpað. Slökun á liðböndum í lífbeini og mjaðmagrind. Þyngd makans sem þrýstir á legið, en þá getur verið gott skipta um um stellingar. Ef höfuðið er vel skorðað i grind getur það truflað, lika ef að það eru sýkingar í kynfærum s.s sveppasýking, herpes eða kynfæaravörtur.

Aðrir sálfræðilegir þættir geta haft þar áhrif á kynlífið eins og þreyta, kvíði, ótti, lítið sjálfstraust, léleg líkamsímynd, kynferðisleg sektarkennd, og persónuleg vandamál milli konunar og makans.

Hvenær er ekki ráðlegt að stunda kynlíf?

Það er aðeins ráðlagt að forðast að stunda kynlíf í eftirfarandi tilfellum: Þegar það er saga um endurtekin fósturlát, blæðingu frá leggöngum, ef fylgja er fyrirsæt, ef legvatn er farið að renna og ef það er saga um fyrirburafæðingu. Í þessum tilfellum mælum við með því að ráðfæra sig við lækni eða ljósmóður.

Er eðlilegt að finna fyrir samdráttum í legi eftir fullnægingu?

Já það er eðlilegt að finna fyrir samdráttum í leginu í allt að 30 min eftir fullnægingu. Það sem veldur því eru hormónaáhrif. En þegar kona fær fullnægingu myndast og losnar hormónið oxitósín sem er ástarhormónið en er einnig hríðahormónið okkar. Það veldur því að legið dregst saman og kúlan verður hörð.

Getur blætt frá leggöngum eftir kynlíf ?

Það getur gerst að að konur fái smávægis blæðingu eftir samfarir. Hún er yfirleitt brúnleit og getur komið nokkru eftir samfarirnar en stundum fersk strax á eftir. Það sem gerist þarna er að leghálsinn er mjög blóðríkur og við núninginn sem verður við samfarirnar losnar slímhúð leghálsins frá og þegar blóð frá leghálsinum storknar verður það brúnt og skilar sér þannig út, það er ekki mikið magn sem kemur. Ef þið eruð ekki viss um að það sé eðlilegt magn blóðs sem kemur, þá er í lagi að hafa samband við ljósmóðurina ykkar í mæðravernd eða á fæðingardeildina í næsta nágrenni ykkar eftir 24 viku meðgöngu.

Má nota hjálpartæki ástarlífsins?

Já venjulega. Ekkert mál að nota t.d egg og titrara sem örva snýp. Varast stóra og mikla gervilimi. Þeir eru harðari en venjuleg typpi og geta meitt konuna. Konan verður alltaf að segja til hvað henni finnst gott og hvað hún vill. Gott er að hafa í huga að á meðgöngu er konum hættara við sýkingum í leggöngum og mikilvægt að huga að hreinlæti.