Kynlíf á meðgöngu er umræðuefni sem flestir hafa áhuga á en ekki allir spyrja um á meðgöngu. Þær breytingar sem verða á líkama konu á meðgöngu, við fæðingu og við móðurhlutverkið eru gríðarlegar og er eitt stærsta breytingaskeð sem kona gengur í gegnum á lífsleiðinni. Meðganga og fæðing er eðlilegur lífsviðburður en krefst samt sem áður aðlögunnar bæði hjá móður og maka. Að eignast fyrsta barnið sitt krefst einnig mestrar aðlögunnar.
Kynlöngun
Það er mjög mismunandi hvernig meðganga hefur áhrif á kynlöngun kvenna, bæði líkamlega og andlega. Kynlöngun getur minnkað, aukist eða haldist óbreytt. Það fer líka eftir hversu langt meðgangan er komin vel á veg hvernig kynlöngunin er.
Það eru ýmsir þættir sem geta haft áhrif á kynlöngun á meðgöngu s.s. hvort meðgangan var fyrirfram ákveðin eða ekki, hvort barnið var getið náttúrulega eða með aðstoð, hvernig aðrir brugðust við þunguninni, ótti tengdur þunguninni t.d við að meiða barnið, streita t.d tengd vinnu eða fjármálum, heilsa konunnar og hversu þreytt hún er og hvernig sambandinu við makann er háttað.
Það er ýmislegt sem við getum gert sjálfar til að viðhalda kynlöngun en það fer líka eftir líkamlegri líðan hversu mikla löngun við höfum í kynlíf. Það er mjög erfitt að vera kynferðislega virkur þegar manni er stöðugt óglatt og kannski kastandi upp líka. En ef við getum þá er mjög mikilvægt að halda sér í formi, borða hollan og góðan mat, hreyfa sig því þá líður okkur mikið betur. Svo má ekki gleyma að hugsa vel um sjálfa sig og gera vel við sig. Leyfa sér hluti eins og að fara í slökunarbað, bera á sig gott krem, fara í falleg nærföt og mála sig. Þetta hefur ótrúlega mikið að segja fyrir okkur sem kynverur. Ekki bara leggjast í joggingallan með snakkið upp í sófa. Þá líður manni ekki vel og þegar manni líður illa hefur maður yfirleitt ekki mikinn áhuga á kynlífi.
Meðgangan getur verið ótrúlega skemmtilegur og góður tími til að upplifa sjálfa sig og kynlíf í nýju ljósi. Það er um að gera að nýta tækifærið og gerast svolítið frjáls og óheft og prufa nýja hluti. Þetta er líka oft tímabil sem færir pör ennþá nær hvort öðru og er yndisleg lífsreynsla fyrir báða verðandi foreldra.
Það að sjá konuna sína í fæðingu getur haft áhrif á kynlöngun makans seinna meir. Þetta getur verið mjög áhrifamikil og lífsreynsla sem færir par enn nær hvort öðru, en fæðing getur líka verið erfið fyrir maka að ganga í gegnu. Makinn getur fundið sig ábyrgan fyrir sársauka konunnar og fundist þeir hjálparvana í þessum aðstæðum. Það getur tekið makana tíma að vilja og hafa áhuga á að stunda kynlíf aftur.
Algengar spurningar og svör
Má alltaf stunda kynlíf á meðgöngu?
Undir venjulegum kringumstæðum er óhætt að stunda kynlíf alla meðgönguna ef fólk hefur löngun og ánægju af. Hins vegar á aldrei að vera vont eða óþægilegt að stunda kynlíf.
Sumum konum finnast samfarir óþægilegar á meðgöngu. Það getur t.d stafað af eftirfarandi atriðum: æðaþregnslum í grindarbotni en þá geta grindarbotnsæfingar hjálpað. Þrengslum í leggöngum og minnkaðri framleiðsla á útferð en þá geta sleipiefni hjálpað. Slökun á liðböndum í lífbeini og mjaðmagrind. Þyngd makans sem þrýstir á legið, en þá getur verið gott skipta um um stellingar. Ef höfuðið er vel skorðað i grind getur það truflað, lika ef að það eru sýkingar í kynfærum s.s sveppasýking, herpes eða kynfæaravörtur.
Aðrir sálfræðilegir þættir geta haft þar áhrif á kynlífið eins og þreyta, kvíði, ótti, lítið sjálfstraust, léleg líkamsímynd, kynferðisleg sektarkennd, og persónuleg vandamál milli konunar og makans.
Hvenær er ekki ráðlegt að stunda kynlíf?
Það er aðeins ráðlagt að forðast að stunda kynlíf í eftirfarandi tilfellum: Þegar það er saga um endurtekin fósturlát, blæðingu frá leggöngum, ef fylgja er fyrirsæt, ef legvatn er farið að renna og ef það er saga um fyrirburafæðingu. Í þessum tilfellum mælum við með því að ráðfæra sig við lækni eða ljósmóður.
Er eðlilegt að finna fyrir samdráttum í legi eftir fullnægingu?
Já það er eðlilegt að finna fyrir samdráttum í leginu í allt að 30 min eftir fullnægingu. Það sem veldur því eru hormónaáhrif. En þegar kona fær fullnægingu myndast og losnar hormónið oxitósín sem er ástarhormónið en er einnig hríðahormónið okkar. Það veldur því að legið dregst saman og kúlan verður hörð.
Getur blætt frá leggöngum eftir kynlíf ?
Það getur gerst að að konur fái smávægis blæðingu eftir samfarir. Hún er yfirleitt brúnleit og getur komið nokkru eftir samfarirnar en stundum fersk strax á eftir. Það sem gerist þarna er að leghálsinn er mjög blóðríkur og við núninginn sem verður við samfarirnar losnar slímhúð leghálsins frá og þegar blóð frá leghálsinum storknar verður það brúnt og skilar sér þannig út, það er ekki mikið magn sem kemur. Ef þið eruð ekki viss um að það sé eðlilegt magn blóðs sem kemur, þá er í lagi að hafa samband við ljósmóðurina ykkar í mæðravernd eða á fæðingardeildina í næsta nágrenni ykkar eftir 24 viku meðgöngu.
Má nota hjálpartæki ástarlífsins?
Já venjulega. Ekkert mál að nota t.d egg og titrara sem örva snýp. Varast stóra og mikla gervilimi. Þeir eru harðari en venjuleg typpi og geta meitt konuna. Konan verður alltaf að segja til hvað henni finnst gott og hvað hún vill. Gott er að hafa í huga að á meðgöngu er konum hættara við sýkingum í leggöngum og mikilvægt að huga að hreinlæti.
Má stunda munnmök?
Já það er í lagi að stunda munnmök
Getur fullnæging komið af stað fæðingu?
Undir venjulegum kringumstæðum er ekki svo. Það er hins vegar talið gott húsráð að stunda kynlíf í lok meðgöngu í þeirri von að koma af stað fæðingu því að í sæði eru prostaglandin sem hjálpa til við að koma af stað hríðum. En ef kona er ekki í hættu á fyrirburafæðingu þá er ekkert því til fyrirstöðu að stunda kynlíf og fá fullnæginu alla meðgönguna.
Er engin hætta á að barnið meiði sig þegar typpið fer djúpt inn í leggöngin?
Nei það er engin hætta. Barnið er vel varið og langur og lokaður legháls ( 4 cm langur) sem er á milli barns og legganga.
Hvaða stellingar er hægt að nota á meðgöngu?
Nú er tækifærið til þess að breyta til og prófa nýjar stellingar. Hver verður að finna fyrir sig hvað þeim finnst þægilegt og gott. Það breytist ýmislegt í kynlífi þegar kúlan stækkar og verður fyrirferðarmeiri en það þarf alls ekki að þýða að kynlöngun minnki. Hér koma nokkrar tillögur sem geta geta hjálpað ykkur að auðga hugmyndaflugið.
Gott getur verið að nota stellingar þar sem limurinn fer grunnt inn í leggöngin, þar sem leghálsinn getur verið aumur og jafnvel blætt frá honum þegar limurinn fer langt inn, sérstaklega á síðari hluta meðgöngunnar. Ekki er gott að láta makann liggja þungt á maganum og aumum brjóstunum.
Gott getur verið að útfæra stellingarnar þannig að konan ráði ferðinni og ráði hversu djúpt limurinn fer inn í leggöngin. Varist að liggja of lengi á bakinu. Oft er talað um ekki meira en 5 mínútur í einu, því ófædda barnið liggur á stóru æðinni í grindarholinu sem getur valdið því að konunni fer að líða illa, svima og henni getur orðið þungt. Þetta á sérstaklega við þegar líða fer á meðgönguna. Ef konan upplifir ekki óþægindi er ólíklegt að þetta hafi áhrif á blóðflæði.
Gott er að forðast stellingar þar sem snýst upp á líkamann.
Talið saman! Ef þú ert ekki ánægð með stellinguna eða líður eitthvað illa, láttu þá makann þinn vita. Það les enginn hugsanir. Láttu vita hvað þér finnst gott, ef þú vilt meira, hraðar eða fastar. Þá eru miklu meiri líkur á því að þú njótir kynlífsins.
Hér koma nokkrar tillögur að stellingum ef ykkur vantar góðar hugmyndir:
Stellingar
Konan ofaná
Það eru ýmsir kostir við það að konan sé ofaná. Þannig er bein örvun á snípinn og þá ræður konan hraðanum og hversu djúpt er farið og þrýstingnum. Þetta getur veitt aukna ánægju þar sem konan er við stjórn. Makinn getur örvað snípinn með fingrunum. Hann getur notið þess að horfa og snerta brjóstin og efri hluta líkamans. Svona er líka auðvelt að njóta augnsambands við makann. Blóðflæði getur verið meira fyrir karlmanninn í þessari stöðu sem eykur örvunina og ánægjuna. Með því að vera svona uppertt getur komið í veg fyrir ógleði sé hún til staðar.
Þröng trúboðsstelling
Hérna liggur konan á bakinu og dregur hnén að sér. Muna bara að tala saman og finna hvað hentar. Gott getur verið að nota púða og kodda til að gera þetta sem þægilegast og skemmtilegast. Kostir þessarar stellingar er að hún gefur tækifæri á örvun á snip, konan er hér í þægilegri og afslappaðri stellingu sem krefst ekki mikillar vinnu af henni. Parið getur auðveldlega kysst og horft á hvort annað.
Skeiðarstelling
Hér liggja báðir aðilar á sömu hliðinni. Þungaða konan dregur hné að sér til að auðvelda aðkomu limsins aftan frá. Kostir við þessa stellingu er að möguleiki er á að limurinn fari djúpt inn. Makinn getur örvað snípinn með höndunum. Kynlífið getur verið hægt og þægilegt, aflappandi og þið getið tekið langan tíma í þetta í þessari stellingu. Gefur tækifæri á mikilli líkamssnertingu og kjassi. Notalegt að sofna í þessari stellingu. Þessi mikla líkamlega snerting eykur nándina og tengslin.
Innkoma aftan frá
Þungaða konan er á fjórum fótum og makinn kemur “inn” aftanfrá. Þessi stelling gefur tækifæri á að limurinn kemst mjög djúpt og eykur Örvun á G blettinn. Varast bara að fara of djúpt. Leyfa konunni að ráða ferðinni. Kostir við þessa stellingu eru meðal annars þeir að hérna er nóg pláss fyrir bumbuna. Annað hvort ykkar getur örvað snípinn. Þetta er mjög góð stelling fyrir konur sem þjást af bakverk.
Standandi
Bæði standa, þar sem makinn kemur inn annað hvort aftan frá eða framan á. Konan getur lyft öðrum fætinum upp t.d á stól eða rúm til að auðvelda aðgengi makans. Kostirnir við þessa stellingu eru til dæmis þeir að makinn getur faðmað konuna sína og leikið sér að brjóstunum.
Sitjandi
Annað hvort makinn eða þungaða konan sitja á stól eða rúmi. Kostirnir eru þeir að hérna er hægt að horfast í augu og það auðveldar kossa. Hægt að útfæra þessa stellingu á margan hátt. Annars er bara eins og fyrr segir að nota hugmyndaflugið og prufa ykkur áfram. Meðgangan er frábær tími til að nota til að prófa kannski eitthvað sem þið hafið ekki gert áður. Enda á þessi lífsviðburður eins og meðganga og fæðing að færa par nær hvort öðru og auka tengslin.
Við mælum eindregið með bókinni þeirra Yvonne K Fulbright, Phd og Danielle Cavallucci. Hún heitir Your orgasmic pregnancy- frábær bók um kynlíf og meðgöngu. Við studdumst meðal annnars við efni úr bókinni við gerð þessa pistils.