top of page
Search

Líkamlegar breytingar á meðgönguÁ meðgöngu verða miklar lífeðlisfræðilegar breytingar á líkama konunnar. Þessar breytingar verða vegna áhrifa hormóna og eru til þess að undirbúa það sem framundan er, fæðingu og brjóstagjöf. Það sem breytist í líkamanum er m.a. blóðrásin, stækkun verður á legvöðvanum, það teygist á legböndum og brjóstin stækka. Með þessum breytingum er líkaminn að hlúa að hinu vaxandi lífi. Líkaminn lagar sig að breyttu hlutverki og konan finnur stöðugt fyrir þessum umskiptum. Nýjar kröfur eru gerðar til líkama konunar þar sem hún andar, meltir og útskilur ekki bara fyrir sjálfa sig heldur líka fyrir barnið sitt sem er að vaxa og dafna. Kvennlíkaminn er gerður til þess að ganga með og fæða börn og því upplifa margar konur meðgönguna sem tíma heilbrigðis og lífskrafts. Með því að borða fjölbreyttan og næringarríkan mat, hreyfa sig skynsamlega og vera í tengslum við tilfinningar sínar stuðlar konan að andlegri og líkamlegri vellíðan sinni á meðgöngunni.

Þrjú tímabil meðgöngu

Meðgöngu hefur oft verið skipt í þrjú tímabil. Fyrsti er þriðjungur er fyrstu 12 vikurnar og eins og margar konur kannast við geta þessar vikur einkennst af þreytu, ógleði og sumar konur upplifa óvissu og jafnvel ótta á þessu tímabili. Ákveðinn léttir fylgir oft þegar þessar fyrstu vikur eru liðnar og þá fer fólk oft að deila þunguninni með öðrum.

Annar þriðjungur er frá 13 -26 viku meðgöngu . Á þessu tímabili meðgöngunnar líður móðurinni jafnan vel; ógleðin er oftast horfin, þreytan er á undanhaldi og orkan er meiri. Konan fer yfirleitt að njóta þess að vera með barni. Mörgum konum líður aldrei betur en á þessum tíma.

Þriðji þriðjungur er frá 27 viku til loka meðgöngu. Væntanleg fæðing kemur æ oftar upp í hugann. Eftirvænting og tilhlökkun eftir því að sjá barnið, fá það í fangið og snerta það er verðandi foreldrum ofarlega í huga. Einnig geta áhyggjur af því hvernig fæðingin muni ganga og hvort allt verði í lagi með barnið skotið upp kollinum. Þetta er tíminn sem verðandi foreldrar nota oftast til að undirbúa fæðingu barnsins og foreldrahlutverkið.

Breytt líkamsstarfsemi

Flestar breytingar sem verða á líkama konunnar verða vegna hormónaáhrifa frá móður og fylgju barnsins. Helstu hormónin eru HCG, oestrogegn, progesteron og relaxin. Hormónin hafa áhrif á starfsemi allra kerfa líkamans til að hjálpa líkamanum að takast á við meðgönguna, fæðinguna og umönnun ungbarns eftir fæðingu.

Margar konur upplifa að þær hafi ekki stjórn á líkamanum sínum lengur. Margar þessara breytinga ganga til til baka en aðrar ekki. Þessar breytingar á líkama kvenna geta haft áhrif á líkamsímynd meðgöngu og eftir fæðingu. Misjafnt er hvernig konur takast á við þessar breytingar og því er mikilvægt að huga vel að andlegri líðan. Gott er að taka vel á móti þessum breytingum, hugsa jákvætt um þær og taka þeim sem eðlilegum hluta af meðgöngu.


Hjarta og æðakerfi

Hjarta konunnar stækkar um 12% á meðgöngunni, það eykur afköst sín smám saman um 40% á fyrstu tveimur þriðjungum meðgöngu. Allar æðar líkamans víkka á meðgöngunni til að geta flutt meira blóð til og frá líffærum líkamans. Því er eðlilegt að blóðþrýstingur lækki um miðja meðgöngu, en er oftast komin aftur í eðlilegt horf undir lok meðgöngu. Allar æðar gildna á meðgöngu. Sumar konur finna fyrir því að þeim verður ómótt, þær geta fundið fyrir yfirliðs tilfinningu og það getur jafnvel liðið yfir konur. Þetta getur gerst vegna þrýstings sem verður á stóra æð sem liggur í grindarholinu og að hjartanau (vena cava inferior). Hún flytur blóð frá neðri hluta líkamans til hjartans. Þegar legið stækkar á meðgöngunni getur það þrýst á þessa æð og klemmt hana. Við það minnkar blóðflæði til hjartans og þar með blóðflæði frá hjarta líka. Þetta veldur því að það hægist á hjartslætti, blóðþrýstingur lækkar og það veldur þessum einkennum. Vissar stellingar auka líkur á þessum óþægindum, t.d. ef kona liggur á bakinu eru auknar líkur á að æðin klemmist, og vissar setstellingar. Til að forðast að þetta komi fyrir getur verið gott að liggja á vinstri hlið þegar þú ert að hvíla þig.


Blóðvökvi eykst um 20-50% á meðgöngu. Aukningin fer eftir stærð konunnar, hvort hún gengur með fyrsta barn eða hefur gengið með barn áður og hvort hún gengur með eitt eða fleiri börn. Rauðu blóðkornunum fjölgar um 20% og heildarblóðmagnið eykst um 40%. Líkaminn eykur flutning á næringarefnum og þá sérstaklega súrefnis um blóðrásina, en rauðu blóðkornin sjá um hann. Þar sem blóðvökvi eykst hlufallslega meira en blóðkorna á meðgöngunni, getur blóðrauði (hemoglobin)virðst minni hjá þungaðri konu en hjá konu sem er ekki með barni. Þar sem súrefnisflutningur er bæði móður og barni mikilvægur er fylgst með því í mæðraverndinni að blóðrauðinn minnki ekki of mikið.

Á meðgöngunni eykst virkni blóðstorknunar og því er meiri hætta á blóðtappa á meðgöngu. Þetta er leið líkamans til að auka hraða á storknun blóðs í fæðingu þannig að sem minnst af blóði tapist í fæðingu.

Hvítum blóðkornum fjölgar til að geta tekist á við sýkingar en HCG hormónið bælir viðbrögð ónæmiskerfisins til að leyfa meðgöngunni að halda áfram. Því yfirleitt ræðst ónæmiskerfið á óþekkta hluti í líkamanum,líkt og fóstur er í legi móður. Aftur á móti verður konan í aukinni hættu á sýkingum og þá sérstaklega þvagfæra sýkingum og sýkingum í leggöngum hvort sem er að völdum sveppa eða baktería.

Þvagfæri

Gyllinæð og æðahnútar

Þegar legið stækkar þrýstir það niður í grindarhol og minkar getu bláæða til að skila blóði aftur til hjartans. Myndast þá bakþrýstingur í þeim sem getur valdið æðahnútum. Helstu staðir eru á fótleggjum og í endaþarmi en í endaþarmi kallast æðahnútar gyllinæð. Gyllinæð er líka vandamál sem tengist auknum þrýstingi niður í grindarhol, sérstaklega þegar barnið er búið að skorða sig og jafnvel vegna hægari meltingar. Í fæðingu getur komið gyllinæð vegna þess að barnið þrýstir á endaþarminn. Stundum er gyllinæðin inn í endaþarmi en getur komið út eða verið í kringum endaþarmsvöðva. Til eru stílar og krem sem hjálpa til við að draga úr óþægindum á meðgöngu, en oftast gengur hún til baka eftir fæðingu.

Breytingar á blóði


Nýru

Blóðflæði til nýrnanna eykst um 70-80% á meðgöngu og þau stækka vegna þess að þau þurfa að skilja út meira af úrgangsefnum úr blóðrásinni. Fóstrið skilur út flest öll sín úrgangsefni í blóð móður sinnar og nýru móðurinnar sjá því um útskilnað fyrir bæði móður og barn. Þetta leiðir til aukins þvagmagns móður. Þess vegna þurfa flestar konur oftar að pissa snemma á meðgöngu. Nýrun halda líka í salt og önnur efni sem ekki má missa úr líkamanum. Aukið saltmagn í líkamanum getur aukið bjúgmyndun hjá móðurinni. Þegar legið fer að stækka og höfuð barnsins þrýstir á þvagblöðruna verður sífellt minna og minna pláss fyrir þvagblöðruna til að þenjast út og geyma þvag og þess vegna þurfa þungaðar konur líka oftar að pissa undir lok meðgöngu.

Öndunarfæri

Á meðgöngu aukast loftskipti lungnanna um 40-50% og súrefnisflutningur eykst um 15-20%. Aukin efnaskipti móður, fósturs og fylgju kalla á aukið súrefnisflæði. Á meðgöngu breytist lögun brjóstkassans eftir því sem legið stækkar og plássið verður minna í kviðarholinu fyrir djúpa öndun. Rifbein og þind færast ofar og til hliðar til að koma á móts við þetta. Þetta veldur því að ekki er hægt að anda djúpa þindaröndun eins og áður og rifbeinin eru ekki eins hreyfanleg. Þess vegna andar konan oftar á mínútu þegar hún á von á barni og í stað þess að anda um 1,5 l af lofti á mín andar hún 6 l af lofti á mínútu. Til að koma á móts við þetta stækkar rýmið inn í lungunum frá 500 ml í um 700 ml. Þetta hjálpar konunni að anda dýpra en ella og auka súrefnisflæði í líkamanum. Eftir því sem lengra líður á meðgöngu minnkar þó plássið til að anda og konan getur mæðst fyrr en ella. Fyrir tilstilli hormónaáhrifa (HCG)verða konur gjarnan næmari fyrir óþægilegri lykt líkt og kaffi, sykruðu fæði, nikótíni ilmvötnum og fleira.


Húðin

Húðin dökknar, þá sérstaklega á geirvörtubaug, spöng, holhönd og á miðlínu kviðar. Miðlínan lóðrétt á kvið er kölluð linea nigra og hækkar hún eins og legið vex. Þ.e. hún sýnir oftast hversu hátt legið nær í kviðarholinu. Hormón auka framleiðslu á melanini sem er litarefni húðarinnar og því dökknar hún á meðgöngu. Húðin getur einnig dökknað í andliti en það er algengara hjá dökkhærðum konum.

Slit getur komið fram þar sem húðin teygist yfir svæði þar sem fita safnast á, þ.e. maga, læri og brjóst. Slitið er fyrst rautt að lit og verður seinna að silfruðum línum sem við köllum heiðursmerki um 6 mánuðum eftir fæðingu. Hár þykknar á öllum stöðum á meðgöngu en umframhár dettur af eftir fæðingu.

Kláði getur komið fram á meðgöngu. Sérstaklega ef hún er þurr. Ekki má rugla eðlilegum meðgöngu kláða við sjúklegan kláði á meðgöngu af völdum meðgöngukvilla. Gallstasi er meðgöngukvilli sem verður vegna hækkunar á gallsýrum í blóði sem þarf þá að fylgjast með sérstaklega. Við gallstasa verður mikill kláði og pirringur í húð og þá sérstaklega í lófum og á iljum.

Meltingarfæri

Aukin matarlyst og þorsti kemur fram á meðgöngu til að svara aukinni vökva og næringarþörf. Aukin efnaskiptahraði er í líkamanum sem og aukin þörf fyrir öll næringarefni þar sem fóstrið er að vaxa og dafna. Hjá konum á barneignaraldri er orkuþörfin um 2000kcal/dag og eykst hún um 200kcal á dag á meðgöngu. Aukin framleiðsla verður á munnvatni og aukið næmi á lykt og bragð vegna tilstilli prógesteróns. Tannholdið verður blóðríkara og viðkvæmara við tannburstun og getur jafnvel blætt úr því. Um 70% kvenna upplifa einhverskonar ógleði og jafnvel uppköst sem algengast er að byrji við um 4-6 viku meðgöngu og standi til 12-14 viku meðgöngu. Sumar konur finna fyrir ógleði alla meðgönguna en það er miklu sjaldgæfara. Lykt getur aukið á þessa ógleði.

Matarvenjur breytast og eftir því sem líður á meðgöngu geta konur þurft að borða oftar og minna í einu sökum plássleysis. Þegar legið stækkar minnkar plássið í kviðarholinu og minna pláss verður fyrir önnur líffæri, þar á meðal magann. Maginn verður frekar láréttur en lóðréttur. Þetta plássleysi getur valdið bakflæði í vélinda og þar með brjóstsviða. Ef konur fá brjóstsviða er gott að muna að borða oftar og minna í einu. Fæðan hjá þunguðum konum fer hægar í gegnum meltingarfærin og aukið frásog er á vatni í ristlinum. Þetta getur valdið hægðatregðu hjá þunguðum konum og jafnvel gyllinæð. Til að koma í veg fyrir eða létta á hægðatregðu er gott að borða trefjaríkan mat, hreyfa sig og drekka vel af vatni á hverjum degi.

Þungaðar konur ættu ekki að fasta, sleppa máltíðum eða minnka kolvetnainntöku því fóstrið þarf jafn flæði af næringarefnum og mikilvægt er að halda blóðsykri stöðugum.

Legið

Legið stækkar og aðlagast stækkandi fóstri á meðgöngunni. Fyrir meðgöngu var það lítið líffæri sem rúmaðist í grindarholi og tók um 10 ml og vó um 50 g. Við 36 vikur nær það upp að neðsta hluta bringubeins. Þá hefur það aukið þyngd sína um 1,1 kg og rúmar um 5 lítra. Blóðfæði til þess hefur aukist úr 10 ml/mín í um 600-800 ml/mín. Legið stækkar með því að fjölga frumum sínum á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Á seinni hluta meðgöngu stækkar hver fruma fyrir sig, lengist og verður teygjanlegri. Einnig fjölgar viðtökum oxytosins hormónsins í leginu allt að hundraðfalt til að undirbúa legið fyrir fæðingu en oxytosin er eitt af fæðingarhormónunum sem framkallar hríðar með því að örva vöðvasamdrátt í leginu. Æfingahríðar eða fyrirvaraverkir (Braxton Hicks) geta komið á seinni hluta meðgöngu. Þegar legið stækkar geta komið samdrættir sem eru ekki hríðar. Þeir eru óreglulegir, koma og fara og eru minni í hvíld. Þegar vissar tengingar í legvöðvanum eru að stækka geta þær orðið fyrir áhrifum hormóna og framkallað samdrátt í legið sem er yfirleitt verkjalaus.

Legbönd festa legið við kviðvegginn. Þegar legið stækkar lengjast þau og gildna. Þá geta konur fundið fyrir óþægilegu togi þegar legið stækkar.

Leghálsinn er þéttofinn bandvefur með smá vöðvavef (10%). Litlar breytingar verða á leghálsinum fyrr en á síðasta hluta meðgöngu. Þá eykst bandvefur, blóðflæði eykst og vöðvafrumur stækka. Háræðar utan á leghálsinum gildna og verða viðkvæmari við áreiti eins og kynlífi. Getur þá blætt aðeins bleikleitri/blóðlitaðri slímútferð m.a. við samfarir. Aðal breytingarnar verða í fæðingu, þegar leghálsinn mýkist, þynnist, styttist og opnast.. Á meðgöngu mynda frumur í leghálsinum þykkt slím, einskonar slímtappa sem ver leg og fóstur fyrir sýkingum.

Kynfæri

Leggöng verða þykkari og teygjanlegri á meðgöngu. Aukin slímútferð verður í leggöngungum vegna hormónaáhrifa sem gerir þau súrari til að verjast betur bakteríum.

Skapabarmar verða teygjanlegri vegna aukins blóðflæðis, það geta komið æðahnútar á skapabarma ef mikill þrýstingur er í æðakerfi. Aukin tilfinnig getur verið í kynfærunum vegna þessa aukna blóðflæðis og geta konur örfast auðveldlega kynferðislega . Sjá betur í grein um kynlíf á meðgöngu.

Brjóst

Á meðgöngu byrja brjóstin stækka og verða þung. Mjólkurkirtlar þroskast og safna í sig vökva fyrir tilstilli oestrogen og prógesterons. Mjólkurkirtlarnir þroskast mest á meðgöngu. Geirvörtur og geirvörtubaugar dökkna. Geirvörturnar stækka og verða útstæðari og kirtlar á geirvörtubaug verða sýnilegri. Þessir kirtlar seita efni sem mýkir geirvörtu.

Blóðflæði til brjósta byrjar að aukast fljótt eftir getnað (kringum 4 vikur) og eru brjóstin því oft heit viðkomu. Í ljós geta komið stækkaðar bláæðar í gegnum húðina. Mjólkurgangarnir sem fyrir eru stækka og lengjast á fyrri hluta meðgöngu. Frá miðri meðgöngu stækka mjólkurkirtlarnir og þeim fjölgar og fleiri mjólkurgangar myndast. Himnan yst á mjólkurkirtlunum þynnist til að seita mjólkinni hraðar út í mjólkurgangana. Fitu- og bandvefslag minnkar á milli mjólkurkirtlana svo að mjólkurkirtlarnir spili aðalhlutverkið í brjóstunum. Á seinni hluta meðgöngu fara mjólkurkirtlarnir og nærliggjandi vefir að taka upp fitusýrur og önnur næringarefni til að geyma fyrir broddmjólkina. Broddmjólk getur byrjað að myndast frá 16. viku fyrir tilstilli prólaktins sem er mjólkurmyndandi hormón. Oxytosin losar mjólkina og þar sem framleiðsla þess eykst þegar nær dregur fæðingu getur farið að leka broddur úr brjóstum þegar nær dregur fæðingu og í fæðingunni sjálfri.


2,160 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page