top of page
Search

Stóra systir var viðstödd fæðingu litla bróður

Updated: Jan 19, 2021


Klukkan 10.02 þann 6. ágúst fæddi ég dreng inní stofu heima hjá mér að viðstöddum Siggeir unnusta mínum, Kristu 3,5 árs dóttur okkar og yndislegu ljósmæðrunum Hrafnhildi og Arneyju. Þessi stund var yndisleg í alla staði og hefði ég ekki viljað hafa neitt öðruvísi. Sama dag og ég tók óléttuprófið vissi ég að ég vildi eiga þetta barn heima. Ég átti stelpu árið 2007 og hafði sú fæðing gengið frekar vel miðað við fyrstu fæðingu. Þá var ég heima nánast allt útvíkkunar tímabilið og leið mjög vel þar, náði að slaka vel á milli hríða og fannst ég hafa stjórn á aðstæðum. Þegar ég kom uppá Lansa (með 9 í útvíkkun) fannst mér ég missa taktinn og missa svolítið stjórn á hríðunum og sjálfri mér og tók rembingurinn rúman klukkutíma. En ég gæti vel trúað að sá tími hefði verið styttri ef ég hefði verið áfram í rólegheitum heima hjá mér. Þannig að eftir á að hyggja hefði ég frekar viljað klára þá fæðingu heima.

Ég byrjaði að finna fyrir samdráttum með smá sting niður í leghálsinn daginn fyrir fæðinguna, þann 5. ágúst eða daginn sem ég var sett. Þessir samdrættir voru aðeins sterkari en þessir hefðbundnu æfingar samdrættir sem ég var búin að finna fyrir í nokkra daga, þeir voru mjög óreglulegir og leið stundum allt uppí 2-3 tímar á milli. Við Siggeir fórum með stelpuna okkar í sund þar sem ég svamlaði um í heitapottinum og náði að slaka mjög vel á. Um kvöldið ákváðum við að rölta niður í bæ og fá okkur eitthvað gott að borða, og ég hugsaði með mér að það yrði sennilega síðasta skipti sem við færum út að borða sem þriggja manna fjölskylda. Við röltum í rólegheitum og fann ég hvað ég var eitthvað öðruvísi en ég á að mér að vera, ég var svo rosalega róleg og fannst næstum einsog ég væri á „slow motion“.

Þegar heim var komið ákvað ég að beita eitthvað af þeim trixum sem til eru til að koma af stað fæðingu. Því þó svo að ég hafi verið nokkuð viss um að ég væri að malla af stað var ég á saman tíma smeik um að það myndi detta niður og ég þyrfti að bíða í nokkra daga í viðbót eftir krílinu mínu. Um kvöldið bað ég því Siggeir um að nudda punktinn fyrir ofan kúluna á ökklanum meðan við horfðum á Babies. Samdrættirnir héldu áfram að koma einstaka sinnum þetta kvöld og um nóttina vaknaði ég tvisvar við samdrátt.

Um kl. 5.00 vaknaði ég svo við samdrátt og ákvað að byrja að taka tímann á milli, þeir voru mjög óreglulegir og leið allt uppí 30 mínútur á milli. Ég ákvað að vera ekkert að vekja Siggeir fyrr en samdrættirnir færu að vera reglulegir og dottaði á milli þeirra. Um 7 leytið vaknaði svo Krista og kom uppí til okkar. Við kúrðumst þarna þrjú saman og ég kíkti laumulega á klukkuna þegar ég fann fyrir samdrætti. Um 7.30 fóru Siggeir og Krista að plana daginn og voru búin að ákveða að rölta útí bakarí og svo myndum við fara í sund, svo ég ákvað að segja þeim að sennilega gætum við það ekki þar sem unginn ætlaði líkalega að koma bráðum. Samdrættirnir voru farnir að vera reglulegri og harðari og Siggeir vildi hringja í ljósmæðurnar sem mér fannst ekki þurfa strax, en skipti fljótt um skoðun eftir að ég stóð upp til að fara á klósettið. Það var mjög erfitt fyrir mig að standa upp og að labba inná klósett tók vel á. Ég fann hvernig kollurinn var kominn ennþá neðar og ég labbaði einsog mörgæs inná bað. Þegar ég náði aftur inní rúm bað ég Siggeir að hringja í ljósmæðurnar og láta þær vita hver staðan væri. Siggeir og Krista fóru inní stofu og gerðu fæðingarlaugina klára meðan ég lá inní herbergi og reyndi að átta mig á tímanum milli samdráttanna. Þeir voru ennþá frekar óreglulegir og var allt frá 3 til 6 mín á milli.

Ljósmæðurnar Hrafnhildur og Arney voru komnar í hús um 8.20. Ég lá áfram uppí rúmi og fann hvernig hver hríðin var sterkari en sú að undan, Siggeir stakk hitateppinu í samband fyrir mig og fannst mér gott að halda því undir bumbuna í hríðunum. Ég notaði haföndunina og fann hvað hún hjálpaði mér að slaka á, ég var mjög einbeitt að vera slök í kjálkanum og að setja ekki í brýrnar og fann vel hvað það hjálpaði ótrúlega mikið. Krista sat uppí rúmi hjá mér og litaði mynd fyrir litla bróður og við spjölluðum saman. Mér fannst svo gott að hafa hana hjá mér, ég klappaði henni og fann fyrir svo mikilli ást til hennar. Það var svo gott að fylgjast með henni gera nákvæmlega það saman og hún væri sennilega að gera ef ég væri ekki í hríðum. Allt var svo eðlilegt fyrir henni og hún hélt bara áfram með sinn dag eins og ekkert hefði í skorist. Eftir að hafa verið hjá mér í smá stund fór hún fram að fá sér að borða og fylgdist með ljósmæðrunum undirbúa fæðingarlaugina. Krista kom reglulega inn til mín til að láta mig vita hvernig gengi að fylla laugina og sagði mér að hún væri heit og kósý. Um 9 leytið athugaði Hrafnhildur útvíkkunina sem þá var orðin milli 6 og 7. Þar sem fór mjög vel um mig í rúminu ákvað ég að vera áfram þar og Siggeir kom til mín og studdi mig í gegnum hríðarnar.

Um 9.30 kom hríð með miklum þrýsting niður og fannst mér ég finna smá rembingsþörf koma í lokin. Ég sagði Kristu að nú myndi ég kannski verða svolítið skrítin og ekki getað spjallað mikið en að mér liði vel og þetta þýddi bara það að nú væri litli bróðir alveg að koma. Svo lét ég Hrafnhildi og Arney vita að þetta væri farið að taka aðeins meira á. Þær bentu mér á að ef ég vildi komast í vatnið væri þetta góður tími, ég gat ekki hugasð mér að standa upp á þessum tímapunti en þar sem ég vildi prufa að fara í vatnið bað ég þau að hjálpa mér uppúr rúminu og ofan í laugina.

Þarna stóð ég upp í fyrsta skipti (fyrir utan þegar ég fór á klósettið) eftir að mig grunaði að ég væri að fara af stað. Ég var ennþá bara á nærbuxunum og ekki einusinni búin að tannbusta mig eða borða morgunmat. Og tíu skrefum seinna var ég komin ofan í heita og góða fæðingarlaug. Þetta var bara eitt af mörgum augnablikum þar sem ég hugsaði með mér hversu ótrúlega fegin ég var að hafa ákveðið að eiga heima hjá mér. Fyrst fann ég mig ekki alveg ofaní lauginni, vissi ekki hvernig ég ætti að vera. Svo ákvað ég að hætta að hugsa og bara leyfa líkamanum að fara í þá stöðu sem hann vildi. Ég var á hnjánum og hallaði mér fram á brúnina á lauginni. Krista fékk að hafa myndavél og tók hún myndir af mömmu sinni í lauginni en einnig tók hún myndir af öðru sem vakti áhuga hjá henni, eins og blómi útí glugga, kerrunni sinni, bangsanum sínum og herberginu sínu. Það er ótrúlega gaman að skoða þessar myndir eftirá og sýna þær svo vel hversu róleg hún var yfir þessu öllu. Hún var greinilega ekki að kippa sér neitt upp við að mamma hennar væri í fæðingarlaug inní stofu að fæða barn! Á einum tímapunti heyrði ég hana segja „ allar konur gera svona“.

Eftir um 15 mínutur í lauginni byrjaði rembingurinn, fyrst mjög vægir 2-3 rembingar sem ég fann varla fyrir og fannst þeir góð hvíld frá hríðunum.

En svo kom fyrsti alvöru rembingurinn og ég hugsaði með mér að ég ætlaði að koma barninu út í sem fæstum rembingum (ekki eins og í fyrri fæðingu), ég ýtti vel með og gaf frá mér eitthvað primal hljóð sem ég get ekki lýst með orðum og ég fann höfuðuð ýtast niður. Krista spurði hvervegna ég væri að gera þetta og ljósmæðurnar útskýrðu og nú væri litli bróðir bara alvega að koma, hún sagði bara „ókey“ og tók mynd af mér. Sagðist svo ætla að fara og setja á pausu á Dýrin í hálsaskógi, sem hún hafði kveikt á rétt áður. Ég man hvað ég var fegin því ég var ekki alveg í stuði til að hlusta á Bessa Bjarnason á þessari stundu.

Ég prufaði að finna með puttunum og fann fyrir höfðinu. Það kom mér svo á óvart að finna hvað kollurinn var mjúkur, var meira einsog ég hafði fundið fyrir rasskinn heldur en koll. Ég náði að hvíla mig vel milli hríða og hélt í Siggeir meðan hann strauk mér með köldum þvottapoka. Þegar næsta hríð kom ýtti ég aftur duglega með og fann höfuðið fara ennþá neðar og fann þegar belgurinn rofnaði og hugsaði mér með hversu magnað það væri að finna svona vel hvað væri að gerast. Aftur fann ég kollinn með puttunum og nú var hann kominn enn neðar og ég hugsaði með mér að hann kæmi jafnvel í næstu eða þar næstu hríð. Krista skottaðist þarna í kring allann tíman og heyrði ég hana labba inná klósett og setjast á klósettið, næst heyrði ég hana rembast og svo kallaði hún „ég er búúúin“. Ég gat ekki annað en hlegið að þessu augnabliki, við mæðgurnar að rembast saman, hún búin og ég alveg að verða búin. Það var svo gott að hlægja aðeins fyrir næstu hríð sem reyndist vera sú síðasta. En þegar hún kom fann ég kollinn ýtast enn neðar en þegar hann var kominn hálfur út kláraðist hríðin. Ég fann brunatilfinningu og í fyrsta skipti gat ekki ekki slakað á og ég byrjaði að berjast á móti og herpti alla vöðva líkamans. Ég fann hvað það gerði illt verra og reyndi einsog ég gat að slaka aftur en gat það ekki. Hrafnhildur sagði mér að hríðin væri búin og að best væri að bíða eftir næstu, en ég sagði henni að ég bara gæti það ekki og ákvað að ýta barninu út. Sennilegast hefur komið önnur hríð strax sem gerði mér kleift að ýta honum út í einu lagi. Ég fann höfðuð renna út næst axlirnar og svo fann ég líkamann renna út. Hrafnhildur var staðsett fyrir aftan mig og smeigði stráknum milli lappanna á mér svo hann kom uppúr vatninu og beint í hendurnar á mér. Ég tók upp þennan flotta strák, bláann með mikið dökkt hár. Ég hélt honum að mér og sagði „ég trúi þessu ekki“ svona tuttugu sinnum! Ég bara trúði því ekki að þetta væri strax búið, bara þrír til fjórir rembingar og strákurinn minn kominn í fangið mitt.....þvílík hamingja!. Ég hélt þessum bláa líkama að mér og við grétum saman. Ég hallaði mér aftur svo Siggeir og Krista gætu dáðst að honum líka.

Nokkrum mínútum seinna fæddi ég fylgjuna. Hrafnhildur sýndi Kristu „húsið“ sem litli bróðir hafði verið í og sýndi henni naflastrenginn sem henn hafði fengið matinn sinn í gegnum. Henni hefur greinilega þótt þetta mjög merkileg þar sem hún talar ennþá um þetta hús sem litli bróðir var inní. Krista hljóp inní herbergi og náði í nokkur leikföng fyrir litla bróður sinn og setti útí vatnið. Svo þarna lá ég í fæðingarlaug inní stofu með nýfætt barn í fanginu og hringlur og naghringi fljótandi í kringum mig....augnablik sem ég hefði ekki séð fyrir mér að eiga eftir að upplifa. Eftir að hafa legið í dágóða stund í pottinum með nýjasta meðliminn í fanginu var komið að því að klippa á naflastrenginn. Við buðum Kristu að gera það en henni leist ekki nógu vel á það svo Siggeir klippti á. Litli snúðurinn fór svo í pabbafang meðan ég kom mér uppúr lauginni og skottaðist uppí rúm aftur. Mikið svakalega var gott að vera komin í rúmið okkar með sængina okkar og kúrast með litla manninn. Hann tók brjóst strax og horfði Krista á það með miklum áhuga. Hrafnhildur saumaði nokkur spor meðan ég gaf stráknum brjóst og fann ég mjög lítið fyrir saumaskapnum.

Þessi fæðing gekk mun betur en ég hefði nokkurn tíman þorað að vona og hugsa ég til baka til þessa dags með mikilli gleði. Andrúmsloftið var svo rólegt og gott, mér leið svo vel og var svo örugg með það sem ég var að gera. Einnig fann ég að ég og drengurinn minn vorum í öruggum höndum Hrafnhildar og Arneyjar. Ég hafði undirbúið þessa fæðingu vel og hugsað til þessa dags sennilega daglega alla meðgönguna og var upplifunin betri en ég hefði nokkurntíma þorað að vona. Ég er svo þakklát fyrir að hafa haft hana Kristu þarna hjá mér bæði vegna þess að hún hjálpaði mér í gegnum fæðinguna og mér finnst ég hafa gefið henni gott veganesti með því að hafa verið viðstödd. Hún mun sennilega ekki muna eftir einstökum atriðium úr fæðingunni en hún mun vonandi hafa jákvætt viðhorf til fæðinga þegar þar að kemur hjá henni. Hún komst svo vel að orði sjálf þegar hún horfði á Hrafnhildi mæla hitann hjá mér, þá sagði Krista „afhverju ertu að mæla mömmu? hún er ekkert veik“.

- Berglind

237 views0 comments
bottom of page