top of page
Search

Hröð heimafæðing

Updated: Jan 20, 2021


Laugardaginn 11. febrúar 2012 kl 16.56 fæddist í vatni heima hjá sér strákur. Fæðing hans var yndisleg upplifun fyrir alla fjölskylduna og ég kalla hana draumafæðingu, enda fór allt eins og ég, móðirin, var búin að sjá fyrir mér.

Alla meðgönguna fannst mér að ég ætti að fæða hangandi í vatni. Heimafæðing varð aftur ofan á og varð að veruleika með aðstoð ljósmæðranna Arneyjar og Hrafnhildar hjá Björkinni. Þær eru í stuttu máli yndislegar og ég mæli eindregið með þeim.

Við eigum fyrir tveggja og hálfs árs dóttur, Silvu. Hún fylgdist með mér gegnum samdrættina. Fyrst bað hún mig að “hætta að gera svona” en var svo farin að anda með mér. Næstu vikurnar eftir fæðinguna var leikurinn sem hét “svona fæðir maður barn” mjög vinsæll heima hjá okkur. Leikurinn endaði oftast með að barnið þurfti að klæða sig úr til að komast í laugina (kassinn undir púsluspilin) til að fæða litla barnið.

Fæðingin mín tók innan við 3 klukkustundir en ég var með samdrætti í rumlega einn og hálfan sólarhring þar á undan. Þegar ég fann fyrir fyrstu samdrættina um miðja nótt var fyrsta hugsunin “best að fá sér að borða”. Og það gerði ég, fékk mér vel að borða næsta sólarhringinn og svaf alltaf þegar færi gafst frá samdráttum og frá heimilishaldi. Mér fannst mjög ljúft að fá svona góðan undirbúningstíma og fannst þetta alls ekki langur tími. Þegar að fæðingunni kom var ég full af orku og vel stemmd.

Um hádegi á laugardegi kom Arney ljosmóðir við heima og gaf mér bæði róandi og hvetjandi nálar. Hún bað mig um að EKKI að bíða þangað til að ég yrði komin með mikla verki, frekar að hafa samband við sig þegar það væru 4-6 mínútur á milli. Klukkan 15 hringdi ég í hana og sagði að nú hefðu hríðarnar farið frá 8 mínútum á milli í 5 mínútur á siðustu klukkustund. Svo hringdi ég í vinkonu mina, Margréti, sem ég var búin að biðja um að vera okkur innan handar í fæðingunni, sjá um að útbúa veitingar og að vera með dótturina ef þess skyldi þurfa.

Ég var búin að sjá fæðinguna mjög skýrt fyrir mér og það var eins og ég hefði fylgt einhverju óskrifaða plani sem ég var sjálf búin að setja upp. Eftir að hafa hringt í Arney ljósmóður gekk ég frá dóti sem hafði safnast saman í borðstofuni þar sem ég ætlaði að fæða. Svo fann ég til kerti, setti í stjakana og kveikti á á meðan ég var að kveðja Silvu sem var að fara á róló, taka á móti hríðunum, ljósmæðrum og Margréti vinkonu.

Annars var verkaskiptingin mjög skýr: maðurinn minn mundi sjá um Silvu og ég um fæðinguna alveg þangað til í blálokin. Og þannig fór það einnig: Silva fór á róló með pabba sínum eftir daglúrinn sinn rúmlega kl 15. Áður en þau fóru út fylltu þau í sameiningu laugina fyrir mig. Þegar nær dró fæðingunni fór Margrét vinkona til Silvu svo maðurinn minn komst heim til að taka á móti barninu með mér.

Kl 16.10 settist ég í laugina og grét í smá stund vegna sorgar sem heldist yfir mig því að meðgöngunni væri að ljúka. Ég vissi ekkert hvernig ég ætlaði að koma mér fyrir í þessari frekar litlu laug en um leið og fyrstu hríðar komu vissi ég að ég skildi snúa mér við þannig að maginn snéri niður og hanga eins og ég gæti: með hendur, höfuð og iljar út fyrir laugina þannig að bara handakrikar og hnén snertu laugina. Og í þeirri stöðu var ég það sem eftir var og tók ekki í mál að hreyfa mig fyrr en barnið var fædd.

Það mátti engin koma við mig, maðurin minn lagði hendina á öxlina mina í eitt skipti en ég færði hana ákveðið frá. Ég fann mjög sterkt ÉG vera að fæða og að hinir (maðurinn minn, Arney og Hrafnhildur ljósmæður) voru að bíða með mér um leið og þau voru mér til aðstoðar. Fyrirfram var ég búin að biðja ljósmæðurnar um að upplýsa mig ekki um tölur né um annað nema það væri alveg nauðsynlegt. Alla fæðinguna var lagið Ra Ma Da Sa spilað - aftur og aftur. Hrafnhildur var mjög dugleg að taka myndir í fæðingunni án þess að ég yrði nokkurn tímann vör við það, það er yndislegt að eiga fullt af myndum svona eftirá.

Eftir að barnið var fætt sat ég í miklum rólegheitum í lauginni. Það fyrsta sem ég sagði þegar ég var búin að snúa mér við og var komin með barnið í fangið var “ -og nú hringjum við í Silvu og fáum hana heim”. Silva og Margrét komu heim frá róló 4 mínútum eftir að barnið var fætt og Silva hjálpaði pabba sínum að klippa á naflastrenginn 10 mínútum seinna. Stuttu seinna fæddi ég fylgjuna í lauginni. Bara svona til gamans, mér fannst vatnið aldrei verða óhreint. Þetta hugsa ég var ljósmæðrunum að þakka, þær voru hinar rólegustu yfir að koma okkur upp úr og Arney sagði í tengslum við eitthvað “… enda er þetta ekkert óhreint vatn, þú hefur alveg þína hentisemi með að koma ykkur uppúr, barninu verður ekkert kalt þarna.”

Klukkan 20 var svo búið að ganga frá öllu í borstofunni, hlúa að mér, mæla og vikta drenginn, auk þess að Margrét var búin að lesa og leika með Silvu og útbúa kaffiboð. Þá söfnuðust allir saman í kringum borðstofuborðið til að fá sér af veitingum. Ótrúlegt að hugsa til þess að bara þrem klukkustundum fyrr hefði fæðst strákur þarna á nákvæmlega þessum stað.

Strákurinn braggast vel (fæddist stór: 3,8 kg og 53 cm), foreldrar hans eru stoltir og stóra systir bíður með eftirvæntingu eftir því að hann læri að leika og hætti að vera alltaf “steinsofandi”.

Virpi, í apríl 2012

203 views0 comments
bottom of page