top of page
Search

Elías Dagur syndir í faðm fjölskyldunnar


Elías Dagur syndir í faðm fjölskyldunnar 24.ágúst 2011.


Á þessu heimili var það ljóst í ársbyrjun 2011 að fjölgun yrði á heimilinu við lok sumarsins. Ekki þurfti að hugsa sig um á þessu heimili hvort um heimafæðingu yrði að ræða, enda áttum við að baki eina yndislega heimafæðingu í vatni í gömlu blokkaríbúðinni okkar. Tvö eldri systkini þá að verða 6 ára og 3 1/2 ára biðu spennt. Við upplýstum þau að það væri víst drengur væntanlegur og töluðum opinskátt um fæðinguna og stefnan yrði tekin á það að fæða heima. Stóra systirin var 2 ½ árs þegar bróðir hennar fæddist heima svo þetta yrði hennar önnur upplifun að fá að vera viðstödd við fæðingu systkinna sinna. Við skoðuðum annars slagið myndirnar af heimafæðingunni o

kkar, kíktum á hafsjó af myndum og myndböndum á netinu þar sem við ræddum um alla fæðingarflóruna, fæðing hér og þar, keisarar, vatnsfæðing og margt fleira. Börnin voru mjög opinská og áhugasöm um fæðingar. Við foreldrarnir ræddum líka um að ef svo færi að mamman þyrfti á spítala þá væri það líka í besta lagi, engar áhyggjur að hafa af breytingum. Börnin voru líka heima þegar Bjarkarljósurnar Arney og Hrafnhildur kíktu á mömmuna, fengu að heilsa uppá Bjarkarljósurnar sem kæmu til með að vera okkur innan handar í fæðingunni.

Samkvæmt útreikningum var væntanlegur dagur 21. ágúst en þar sem bæði börnin eiga mánaðarafmælisdaginn 18jánda var mikil vissa, þrýstingur og spár um að drengurinn kæmi líka 18. ágúst. Fimmtudagurinn átjándi ágúst leið hjá án fæðingar og var mamman, hin væntanlega þriggja barna móðirin, bara nokkuð fegin þegar hann leið hjá. Skrítin biðstaða og spenna þennan daginn sem leið undir lok. Helgin leið með því að tekið var á því með rölti og skemmtun niðri bæ vegna menningarnætur Reykjavíkurborgar og eftir frekar þung spor og hreyfingu undanfarnar vikur var þarna minnsta málið að labba þvers og kruss um miðbæinn með fjölskyldunni. Vikan sem kom hófst með miklum spenningi enda frumburðurinn, stóra systirin, að hefja nám í 1.bekk. Við foreldrarnir gátum tekið fullan þátt í undirbúningi með henni, farið með henni í skólann, á foreldrafundi og þess háttar. Kvefpestin bankaði upp hjá mömmunni og vonast var að bumbudrengurinn léti bíða aðeins eftir sér svo hægt væri að bola kvefpestinni fyrst í burtu.

Miðvikudagurinn 24. ágúst rann upp, sólríkur og fagur dagur. Gengið var með stóru systur í skólann, slakað á og skroppið út að borða með pabbanum í hádegishléinu hans, þar tilkynnti hann yfirvinnu þennan dag sem var minnsta málið. Uppúr klukkan þrjú var kominn tími að taka sig til og sækja stóru systur í dægradvölinni. Þegar þangað var gengið komu sterkir verkir, örlítið meiri en fyrirvaraverkirnir sem höfðu verið að hrekkja mömmuna undanfarið og eftir smá göngu var ákveðið að senda sms á Bjarkarljósuna Arneyju og láta vita af stöðu mála með þó fyrirvara um að þetta væru kannski bara fyrirvaraverkir. Þegar komið var í dægradvölina og beðið eftir stóru systurinni fóru verkirnir að harðna og komnir þarna reglulegir og í bakið. Gangan heim var góð og létt spor stigin með þá fiðringu í maganum að vera mátti að drengurinn ætlaði kannski að láta slag standa og koma í heiminn.

Þegar heim var komið fórum við mæðgur í sólstofuna og létum renna í pottinn góða. Amman kom svo með væntanlega stóra bróður heim af leikskóla og varð henni litið á mömmuna og spurði hvort komið væri að fæðingunni og hvort hún ætti ekki að skundast heim og sækja bakkelsi sem voru nýbakaðar kleinur og ástarpungar. Fékk hún þau svör að kannski væri komið að fæðingu en kannski væru þetta bara fyrirvaraverkir. Þá var mamman búin að fá sms frá Arneyju um að þær Hrafnhildur væru á startholunum og þáði mamman það að fá þær til að kíkja og skera út um hvort um að ræða væri fæðingu eða fyrirvaraverkjahrekki. Pabbinn hringdi í þessu augnabliki þarna uppúr klukkan fjögur og vildi bara sjá okkur og fá fréttir, þarna sá hann í gegnum myndsímann að ekki yrði af yfirvinnunni.

Bjarkarljósurnar og táknmálstúlkurinn komu, þetta voru víst þá ekki fyrirvarahrekkir heldur væri drengurinn búinn að ákveða að koma. Ljóti LazyBoystóllinn heima var fyrirgefinn af mömmunni, sem hafði oft áður hótað að henda honum á haugana, því hann þjónaði vel slökun í gegnum hríðarnar. Ákveðið var að kíkja á útvíkkunina og koma sér í sloppinn ef oní pottinn góða skyldi fara. Útvíkkunin þarna var komin um 8 mömmunni til mikillar ánægju. Systur mömmunnar fengu boð um að fæðing væri hafin og best væri fyrir þær að koma sér í Húsið ef þær ætluðu að ná fæðingunni.


Oní pottinn góða var farið klukkan rúmlega fimm og endemis var það ljúft og gott að slaka þarna á með núðluna – froðuplast sem er eins og núðla. Mamman var búin að stefna að því að prófa að anda sig í gegnum fæðinguna þar sem fyrri heimafæðing hafði gengið svo vel og nær engar hríðir gengið á. Þarna var ekki alveg auðvelt að vera við stjórnvöllinn með öndunina og vinna með rembingsþörfinni heldur var það viss útrás að sleppa sér og leyfa rembingsþörfinni að njóta sín á þessum stutta tíma.


Þarna voru viðstödd stóra systir sem hafði heilmikinn áhuga á öllu ferlinu, stóri bróðir sem vildi nú frekar vera á hliðarlínunni og fylgdist þó sposkur með hvort væri ekki allt í lagi. Var hann í góðum höndum hjá tveimur móðursystrum sínum og móðurömmu. Var það partur af ákvörðun okkar foreldranna að hafa fjölskylduna viðstadda því nærvera þeirra var góð og ljúf og enga truflun að finna af þeim. Mamman fékk ákveðin ró og styrk að hafa eldri börnin með.


Þegar klukkan nálgaðist hálf sex fann mamman að kollhríðin gekk hratt yfir og best var að standa á hnjánum í botninum á pottinum og finna fyrir kollinum. Elías Dagur synti svo í fang mömmunnar og var afskaplega sprækur, stór og þakinn í fósturfitu og rétt grét örlítið. Eftir að hafa átt tvö börn fyrr sem voru rétt með pínkupons af fósturfitu eða enga var það því viss undrun að sjá þessa fínu feitu fósturfitu á svona stóru og ,,gömlu´´ barni.

Við nýjustu mæðgin nutum okkar í pottinum í rólegheitum og fékk stóra systirin þann heiður að klippa á strenginn eða 2/3 af honum því ekki gekk það alveg fyrir 6 ára krafta að klippa það allra síðasta af strengnum og fékk hún því smá aðstoð frá pabbanum undir lokin. Þegar mömmunni fannst nóg komið af vatnsbusli fékk Elías Dagur að fara í fang pabba og að heilsa uppá stóru systkinin sín. Á meðan mamman skellti svo fylgjunni í hendur Arneyjar sem síðan gaf okkur það tækifæri að skoða Lífstréið okkar og fannst stóru

systur það ekki leiðinlegt.

Þessi heimafæðing var okkur öllum yndisleg upplifun, gat ekki heppnast betur og þátttaka stóru systkinanna á stóran þátt í því að gera hana ánægjulega og gæfuríka. Þarna var öll fjölskyldan að taka á móti nýjum fjölskyldumeðlimi með aðstoð yndislegrar Bjarkarljósum Arneyju og Hrafnhildi. Í dag þegar ég strýk kollinn á honum Elíasi Degi fæ ég sæluhroll. Við fjölskyldan fórum stuttu seinna í pottinn góða og þarna spruttu út skemmtilegar upprifjanir hjá eldri börnunum og okkur um þessa dásamlegu fæðingu, og gerir það enn í dag.

Með kveðju frá fjölskyldunni

á Kársnesinu

134 views0 comments
bottom of page