top of page
Search
Writer's pictureBjörkin, ljósmæður

Fæðing Nikulásar Breka


Byrjum á byrjuninni.

Árið 2008 eignuðumst við fyrsta barnið okkar, yndisfríða yngismey sem fékk nafnið Áróra Sól. Ég átti yndislega fæðingu á fæðingargangi Landsspítalans eftir mjög svo andlega- og líkamlega erfiða meðgöngu. Ég hafði greinst með meðgöngueitrun og lá inni meira og minna frá 35. viku meðgöngunnar og ofan í eitrunina fékk ég svo sjaldheyrðan meðgönguhúðsjúkdóm. Það að vera veikur, rúmliggjandi á spítala tekur sinn toll og að vera verulega bjúgaður (eitt af einkennum eitrunarinnar) og viðþolslaus af kláða, útsteyptur í útbrotum er ekki á það bætandi. Ég lofaði sjálfri mér á einhverjum tímapunkti að ég myndi aldrei ganga með annað barn.

Næstu tvö og hálfa árið var ég í stöðugri baráttu við sjálfa mig. Mig langaði í annað barn en var ekki tilbúin að leggja aðra meðgöngu á mig og mína. Viðtal hjá "ljáðu mér eyra" á landspítalanum, mikið "googl" og stöðug vinna í sjálfri mér hjálpaði mér að setja fyrri meðgöngu í reynslubankann og trúa því að ég gæti upplifað heilbrigða, eðlilega meðgöngu.

Við tókum þá ákvörðun í sameiningu að eignast annað barn og eins og með Áróru, þá erum við heppin með það að börnin koma þegar við viljum það. Meðgangan byrjaði með ógleði, en þeim mun minni en í fyrra skiptið og mér leið allri miklu betur.

Fljótlega eftir að ég verð ófrísk fer ég að hugsa um meðgönguna og fæðinguna og fæ pínu "panikk attakk" með að þurfa að liggja aftur á spítala, sem hafði reynst mér ansi erfitt. Mér hafði alltaf þótt hugmyndin um heimafæðingu heillandi, en þær eru jú bara fyrir konur í "eðlilegri" meðgöngu. Ég googlaði og googlaði og komst að því að húðsjúkdómurinn sem ég hafði fengið síðast myndi ekki setja mig í áhættumeðgöngu og að ef kona fengi meðgöngueitrun einu sinni væru meiri líkur en minni á að hún kæmi upp aftur, en þó séns að hún gæti sloppið. Átti ég að plana draumafæðinguna mína, eða gera ráð fyrir að verða aftur veik? Ég viðraði þetta við Anton, manninn minn og komst að þeirri niðurstöðu að það væri betra að láta sig dreyma, reyna og fá ekki það sem mig langaði, heldur en að vonast ekki eftir neinu og sjá eftir því ef allt yrði svo í himna lagi.

Ég var heldur snemma í þessum pælingum, var komin milli 7 og 8 vikur þegar ég sendi tölvupóst á Arney, heimaljósmóður í Björkinni. Ég hafði svo sem ekkert spáð út í hvaða ljósmóður eða ljósmæður ég vildi, heldur sendi bara á þá sem var efst á listanum. Merkilegt nokk, þá býr hún bara í næstu götu og mér fannst sú tilfinning að vita af henni svona nálægt, mjög góð.

Þegar ég var gengin um 14 vikur, búin að fara í sónar og hitta ljósmóðurina í mæðraverndinni komu þær Arney og Hrafnhildur í kaffi til okkar. Þetta var svo skrýtið, um leið og þær gengu inn um dyrnar, nánast áður en maður var búinn að heilsa, small eitthvað. Við töluðum um það eftir að þær fóru, fengum bæði þessa tilfinningu þegar þær komu, þessi ákvörðun um að plana heimafæðingu var 100% rétt og þetta voru manneskjurnar sem við vildum hafa með okkur, enginn efi.

Meðgangan gekk nokkuð snuðrulaust fyrir sig. Ógleðin (sem var ekki neitt svaðaleg miðað við fyrri reynslu) hvarf um 20 viku og við tóku vægir grindaverkir, slapp við sjúkraþjálfun, sem ég hafði þurft að nota frá 12viku á fyrri meðgöngu. Ég var svo hress og góð í skrokknum að ég kláraði sundlaugavarðarpróf (þolpróf, tímataka, kafsund og fl.) komin 22 vikur. Mæðraskoðanirnar komu lýgilega vel út, blóðþrýstingurinn haggaðist ekki og engin eggjahvíta í þvagi lét sjá sig, svo engin einkenni meðgöngueitrunar.

35 vikur fór ég að fá fyrirvaraverki og reglulega samdrætti. Föstudagskvöldið þá vikuna urðu verkirnir svo sárir að ég bókstaflega grenjaði mig í gegn um þá og samdrættirnir voru reglulegir með c.a. 3 mínútna millibili. Mér leist ekki á þetta, var reyndar alveg á því að barnið væri ekki að koma en vildi fá staðfestingu á að það væri allt í lagi hjá okkur. Anton hringdi upp á fæðingadeild og við beðin um að koma þangað í tékk. Við skutluðum Áróru til foreldra minna sem eiga heima hér skammt frá og brunuðum upp eftir. Á móti okkur tekur yndisleg eldri ljósmóðir. Hún setti mig í rit, sem sagði það nákvæmlega sama og ég, heldur sterkir samdrættir (sem voru aðeins vægari þó en fyrr um kvöldid), með um þriggja mínútna millibili. Við biðum svo eftir lækni sem skoðaði mig og færðu okkur þær frábæru fréttir að það væri allt lokað og læst og barnið því ekki á leiðinni, að minnsta kost ekki strax. Mér var ráðlagt að drekka nóg af vatni og liggja í rúminu í eins mikilli kvíld og mögulegt yfir helgina. Ég hlýddi og samdráttunum fækkaði og verkirnir minnkuðu. Það besta við þessa spítalaheimsókn var það að hræðslan við að leggjast aftur inn á spítala hvarf. Svo ef til þess kæmi að neyðast til að henda heimafæðingaplönunum út um gluggann, þá færi ég að minnsta kosti ekki hrædd inn á spítalann.

37 vikur og allt varð skyndilega raunverulegt. Litla krílið mátti loksins láta sjá sig, ég var hætt að vinna, meira og minna allt tilbúið hérna heima og ljósurnar okkar kíktu í kaffi með sundlaug með sér. Og þrátt fyrir að vita betur fór ég að bíða. Átti einhvernveginn ekki von á neinu öðru en að barnið léti sjá sig snemma, kúlan mín var alveg "keppnis", var búin að fá að heyra það í margar vikur að ég væri nú örugglega bara alveg að fara að eiga, búið að bjóða mér far upp á spítala, spurja hvort það sé ekki "örugglega bara eitt" ásamt fleiri skemmtilega óviðeigandi athugasemdum, svo það hlaut bara að koma að þessu fljótlega. Stelpan mætti eftir 38+2daga meðgöngu og ekki gat ég stækkað mikið meir, eða það hélt ég. Ég var nokkuð róleg samt, þar til ég vaknaði um klukkan 4 um morgun, gengin 38+3 daga með reglulega, góða samdrætti. Frábært hugsaði ég, leifði kallinum að sofa og sendi sms á mömmu og Arney um klukkan 7. Arney sagði mér að reyna að leggja mig og hafa svo samband þegar ég vildi fá þær, annars myndu þær koma bara um 16, eins og planið var fyrir mæðraskoðunina sem við höfðum planað þann daginn. Ég lagði mig, náði meira að segja að sofna og vaknaði eftir tveggja tíma lúr, algjörlega samdrátta og verkjalaus. Þvílík vonbrigði!

Stelpurnar kíktu á mig kl. 16, ekkert í gangi og allt leit vel út og Arney ákvað að droppa við aftur um kvöldið og gefa mér undirbúningsnálar, þar sem nálarnar voru ekki með í för.

Næstu dagar liðu hægt, mjög hægt. Ég var þreytt, svaf illa, illt í grindinni, en var samt þrátt fyrr allt þokkalega hress. Þoldi samt illa kommentin á kúluna mína, sem mér sjálfri fannst ekkert svo svaðalega stór, bara ósköp falleg, svo ég hélt mig að mestu heima í hreiðurgerð. Kíkti þó á kaffihús með góðri vinkonu í þeirri von að ég myndi hrökkva í gang við það, sem gerðist reyndar ekki. En gott salat, gott kaffi og frábært spjall á yndislega sólríkum sumardegi við yndislega vinkonu sem átti líka von á sér, bara nokkrum vikum efir mér. Þarna var ég komin 40 vikur. Ó mæ, þann dag hélt ég aldrei að ÉG myndi upplifa! Var pínulítið farin að óttast gangsetningu, en ætlaði mér ekki í þann pakka, var líka á tímabili farin að halda að þessi ólétta væri bara eitt stórt djók og í stað þess að fá barn í hendurnar fengi ég "HAH, bara að grínast, falin myndavél" í andlitið, en Anton var duglegur að hughreysta mig og láta mér líða vel.

40vikur +2 dagar (og í hausnum mínum gengin tvær vikur fram yfir vegna fyrri meðgöngulengdar) ákvað ég að kíkja á kaffihús í hádeginu með bumbuhópnum mínum, eða þeim örfáu bumbum sem eftir voru. Við ræddum fátt annað en fæðingarnar framundan, þær sem voru búnar og auðvitað hvað maður gæti gert til að koma sér í gang. Ég hafði verið ansi róleg í þeim efnum, en fanst nú vera komin tími á að gera eitthvað, var samt ekki til í eitthvað brjálæði. Fór því í heilsuhúsið og keypti mér kvöldvorrósarolíu og svo grunnolíu (til að blanda við ilmkjarnaolíurnar sem ég átti heima), gleypti tvö hylki af því fyrrnefnda og fékk mér svo frappa á kaffitár með stelpunum.

Olían átti að hjálpa til að koma manni í gang og samkvæmt upplýsingunum sem ég hafði átti ég að vera löööngu byrjuð að taka þessa olíu, ó sjitt þetta barn fæðist örugglega aldrei!

Önnur tvö hylki voru gleypt með kvöldmatnum. Anton nuddaði punktana á fótunum allt kvöldið yfir bíómynd og ég strauk bumbuna mína upp úr olíu sem ég hafði blandað (grunnolía og clary sage dropar) og bað barnið reglulega um að fara að kíkja á okkur, við værum mjög skemmtileg fjölskylda, allt tilbúið og allir tilbúnir að bjóða barnið velkomið.

Ég hafði þó litla von um að nokkuð af þessu myndi virka, eiginlega trúði því ekki og ákvað þá og þegar að hætta að bíða, þetta barn kemur þegar því henntar. Ég varð því mjög undrandi þegar ég í einu af þessu milljón skiptum sem ég vaknaði til þess að snúa mér á hina hliðina um nóttina að ég fann að vatnið var farið að leka. Hef ekki hugmynd um hvort það var hádegismaturinn með stelpunum, kaffið, olían, nuddið eða spjallið við bumbuna eða ákvörðunin um að hætta að bíða sem virkaði, en eitthvað var það! Á einhvern undraverðann máta tókst mér að skríða aftur á bak úr rúminu (rimlarúmið var tilbúið, skorðað upp við rúmið okkar mínu megin svo engin leið fyrir mig að fara þar úr rúminu) án þess að það færi dropi í rúmið, en góð gusa slettist á svefnherbergisgólfið! "Anton, vaknaðu, vatnið er farið", ég var svo brjálæðislega spennt að þrátt fyrir að vera ekki með einn einasta verk var ekki séns að ég færi aftur að sofa og glætan að Anton fengi það, það þurfti að blása upp laugina, taka smá til í eldhúsinu (ekki hægt að bjóða barn velkomið í heiminn með drasl í eldhúsinu), þurka vatnið af gólfinu, stilla myndavélina og knúsa mig! Jiminn hvað þetta var gaman, allt að gerast bara (en samt ekki neitt því samdrættirnir voru fáir, ef einhverjir og verkjalitlir). Sms á Arneyju og mömmu til að láta þær vita kl. 3:21. Stuttu síðar renn bleytti ég stofugólfið með restinni af vatninu, mæ god þetta var ekkert lítið! Sat á yogaboltanum, í hreinum náttfötum en þurfti sem sagt að skella náttfötunum í óhreina þvottinn, labba með slóðann á eftir mér inn á klósett þar sem ég skellti mér í sturtu til að skola af mér legvatnið á meðan Anton þurkaði af boltanum og SKÚRAÐI upp vatnið, því ekki dugði lítil tuska í þetta, haha.

Eftir sturtuna fór ég í önnur hrein náttföt og fór fram að spjalla við Anton. Ótrúlega var þetta notalegt. Ekkert stress eða áhyggjur, bara gleði og spenningur. Samdrættirnir jukust hægt og rólega og hörðnuðu smám saman. Um klukkan 5:30 fannst mér kominn tími á að hóa í ljósurnar, fannst verkirnir með samdráttunum vera þess legir að mig langaði að fara að kíkja ofan í laugina en vildi ekki gera það nema ég fengi grænt ljós fyrst. Anton hringdi þá í Arney og bað hana að fara að koma, en henni lægji ekki á. Hún hringdi þá í Hrafnhildi og fékk sér morgunmat áður en hún skutlaðist yfir. Á meðan fylltist ég þessari brjálæðislegu löngun í að segja frá því að ég væri komin í gang, Thelma vinkona mín og amma fengu því skilaboð á facebook. Grunaði að þær væru báðar vakandi, amma vaknar alltaf snemma og Thelma, líkt og ég, ólétt og andvökunætur reglulegar.

Um klukkan 6 voru Arney og Hrafnhildur báðar mættar. Kíktu á hjartsláttinn hjá krílinu og athuguðu útvíkkun, 3. Þrír! Jaja hugsaði ég, þetta barn ætlar þá að vera lengur á leiðinni en systir sín sem kom 7klst eftir að vatnið fór. En það var allt í lagi þó að ég hefði haldið að útvíkkunin væri meiri, truflaði mig ekki, þar sem ég vissi að þetta gæti rokið úr þremur og upp í fulla útvíkkun á no-time og ég var að ráða mjög vel við samdrættina.

Einhverra hluta vegna fannst mér ég nauðsinlega þurfa að borða, þó svo ég væri ekkert svöng. Anton ristaði fyrir mig brauð og í fyrsta skipti síðan ég lá á sængurkvennaganginum þarna um árið fékk ég mér brauð í morgunmat. Ristað brauð með osti og gúrku. Og orkudrykk með. Við röbbuðum og ég labbaði og ruggaði mér í gegn um samdrættina til að hjálpa krílinu að færa sig neðar í grindina. Var með fullri meðvitund og leið ótrúlega vel. Um klukkan 8 vaknaði stóra stelpan mín. Kom hálf svefndrukkin fram, en mjög glöð að sjá sundlaug í stofunni. Hún þurfti smá tíma til að átta sig á stöðu mála, svolítið hissa á að við værum með gesti svona snemma morguns. Hún fékk knús frá mömmu í miðjum samdrætti og við útskýrðum fyrir henni að í dag myndi litla barnið koma úr bumbunni. Þreytulegt fallegt sólskinsbros læddist svo með mömmunni inn í ból og við kúrðum þar í smá stund. Okkur langaði svo í sundlaugina, henni fannst nauðsynlegt að prufa sundlaugina með mér, enda ekki á hverjum degi sem það er sundlaug inni í stofu hjá manni. Hún fann því sundbolinn sinn og við fórum ofan í laugina eftir grænt ljós frá ljósunum og að vatnið hafi verið hitað örlítið fyrir okkur.

Áróra var ekki lengi ofan í. Hún var róleg og í hverjum samdrætti lokaði ég mig frá umhverfinu og hún óumbeðin strauk á mér bakið og sagði "fetta er att í læ mamma mín". Alveg magnað hvað þetta litla barn hjálpaði mikið til, hugsaði vel um mig, var róleg og yfirveguð. Það var eins og hún vissi nákvæmlega hvað hún ætti að gera til að láta mér líða sem best, án þess að vera beðin, né það að maður hafi ætlast til nokkurs af henni.

Eftir nokkra samdrætti fór hún upp úr, hana langaði meira að horfa á sjónvarpið, sem að sjálfsögðu var í boði. Anton tók hana upp úr, þurrkaði henni og hún skellti sér í sófann hjá ljósmæðrunum og horfði á Emil í Kattholti á meðan hann sótti föt.

8:30 reynir Hrafnhildur að finna hjartslátt. Það tekur dágóðan tíma, líklega afþví ég er í vatninu. Ég er þó fullkomlega róleg þar sem hreyfingar krílisins eru góðar. Hjartslátturinn finnst á endanum, ofarlega á kviðnum. Hún segir mér að vera rólegri, en þetta gæti verið merki um að barnið hafi snúið sér og sé með rassinn niður. Kannski klikkað, en ég mynnist þess að hafa hugsað "en spennandi" á milli þess sem hún útskýrði fyrir mér að það væri ekki versti hlutur í heimi og bað um að athuga útvíkkun m.a. til að vita hvort það væri höfuð eða rass sem kæmi fyrst, svo við gætum gert ráðstafanir með það. Anton klæðir skottuna og kemur svo til mín með kalda bakstra á bakið.

Höfuð var það og útvíkkun 6. Ég hugsaði að miðað við það væru líklega 2-4 tímar eftir. Áróra var alveg róleg og góð, svo mér fannst engin þörf á að hringja í mömmu og biðja hana að sækja hana, til hvers að raska henni að óþörfu? Akkúrat þarna breyttust samdrættirnir töluvert, klukkan orðin 8:45, þrýstingurinn niður á við orðinn mikill, samdrættirnir töluvert lengri og ég hugsaði "ef ég hefði ætlað að eiga á spítala væri maður eflaust að huga að því að hringja út pössun og pakka í tösku". En sem betur fer var það ekki raunin, því að þeirri hugsun slepptri (kl.8:48) helltist yfir mig þessi brjálaða rembingsþörf, ég snéri mér við þannig að ég lá á bakinu og hálfparinn flaut. Anton hélt köldum bakstri við bakið, önnur höndin mín utan um kúluna og hin við spöngina. Á einhvern undraverðann máta tókst mér að gleyma stund og stað og fara eitthvað annað, leyfði líkamanum algjörlega að taka völdin, því hann veit best hvað gera skal. Ég mynnist þess ekki að hafa fundið til, en þrýstingurinn var svakalegur og ég gaf frá mér furðuleg frumskógarhljóð sem ég vissi ekki að ég ætti til, til merkis um þennan þrýsting. Ég fann kollinn koma niður og stoppa á miðri leið, fara jafnvel örlítið til baka þegar hríðin kláraðist. Þetta var rosalegt, svo klikkað að finna þetta litla höfuð, með þetta hár, að vita að nú væri barnið rétt að koma, svo klikkað að ég sprakk úr hlátri.

Áróra var í fanginu á Arney, sem einnig hélt á myndavélinni. Þetta litla grey, henni brá svolítið við lætin í mér og átti erfitt með að halda aftur tárunum. Svipurinn á barninu þegar ég sprakk úr hlátri og sagði "barnið er að koma, alveg að koma, þú ert alveg að verða stóra systir" var óborganlegur. Hún vissi ekki hvort hún átti að hlæja eða gráta og þá kom önnur hríð.

Aftur tókst mér að gleyma stund og stað og leyfa líkamanum að taka völdin. Höfuðið kom allt í þetta skiptið og naflastrenginn þétt vafinn um hálsinn. Hrafnhildur leysir strenginn, ég held við höfuðið. Aftur spring ég úr hlátri, dóttur minni til mikillar gleði, hún á erfitt með frumskógarhljóðin. Þetta er svo súrrealiskt. Ég er heima að fæða barn og varla að trúa því að ég sé að fá drauminn uppfylltan. Ótrúlega magnað að vera búin að fæða hálft barn, án allra verkja- og deyfilyfja og vera í hláturskasti.

Þriðja hríð og búkurinn kemur allur. Ég tek sjálf á móti barninu mínu og kem upp á bringu með aðstoð Hrafnhildar. Loksins er hann, já HANN mættur, kl.8:58, við mikinn fögnuð viðstaddra! Lítill grá-fjólublár hnoðri, með fullt af dökku hári og mjög líkur stóru systur að öllu leiti (fyrir utan það að vera með typpi). Litli kallinn er svolítið latur fyrst en tekur fljótlega við sér eftir stórt fjölskylduknús. Áróra fær pakka frá bróður sínum, spil sem hún spilar við pabba sinn á meðan ég og litli kúrum áfram í lauginni og bíðum eftir fylgjunni. Hún lætur bíða eftir sér í hálftíma. Anton klippir á strenginn og við förum saman inn í ból. Mamma og pabbi koma svo yfir til okkar. Drengurinn er vigtaður og mældur, 15 merkur og 51cm, töluvert stærri en stóra systir var (12 og 49cm).

Drengurinn okkar fékk nafnið Nikulás Breki og var skýrður heima hjá ömmu sinni og afa við hátíðlega athöfn.

Þvílík lífsreynsla að hafa fengið að upplifa heimafæðingu. Mér líður eins og ég hafi sigrað heiminn, uppgötvað leyndardóma alheimsins. Það væri óskandi að allar konur gætu upplifað hversu mögnuðum krafti líkaminn býr yfir.

Ég er ofboðslega þakklát þeim sem studdu mig í því að stefna á að fæða drenginn minn heima, og mikið er ég þakklát fyrir að það sé valkostur. Takk Arney og Hrafnhildur fyrir að vera með okkur, fyrir stuðninginn og hvatninguna. Ef ég verð svo lánsöm að ganga með fleiri börn en þessi sem ég á, megið þið vita að þið verðið með þeim fyrstu til að heyra af því!

.....

Kær kveðja

Tanja ;)

177 views0 comments
bottom of page