Fimmtudaginn 8.sept fann ég fyrir þreytu og þrýstingi niður úr bumbunni. Mér leið samt vel og fór í kaffi til góðrar vinkonu og svo með fjölskyldunni á Klambratún í bekkjarhitting hjá syni okkar. Þarna var ég gengin 40 vikur og 1 dag.
Ég fann að eitthvað var að fara að gerast en þorði þó ekki að vona því ég hafði verið með fyrirvaraverki í þó nokkurn tíma sem duttu alltaf niður. Það var samt eitthvað öðruvísi þennan dag og ég einstaklega friðsæl og opin fyrir því að fara að fæða annað barn mitt í heiminn þegar barnið vildi láta sjá sig. Mér leið vel um kvöldið, við fjölskyldan borðuðum saman og ég fór, eins og alla daga, í bað þegar krakkarnir voru komnir í ró.
Litla í bumbunni hreyfði sig óvenjulega mikið í baðinu og ég fann fyrir samdráttum. Ég lagðist upp í og hvíldi mig aðeins en um kl 22 fóru að koma samdrættir með reglulegu millibili. Steini kom inn í herbergi og spurði hvernig ég hefði það og ég sagði að ég héldi að kannski myndi hún fæðast í nótt eða á morgun.
Hann lét systur mína vita sem ætlaði að vera með okkur í fæðingunni og ég sendi mömmu skilaboð sem ætlaði að passa 5 ára Tinnu okkar.
Við sögðum þeim að vera bara tilbúnar ef þetta væri að fara í gang.
Um kl 00:30 ákváðum við að biðja þær mæðgur að koma og í versta falli myndum við bara öll leggja okkur heima ef ég væri ekki að fara af stað. Þær komu um eittleytið og við kveiktum á kertum og spjölluðum smá en ákváðum síðan að hvíla okkur áfram. Mamma hvíldi sig í rúmi stráksins okkar sem var ekki heima og systir mín í rúmi 5 ára Tinnu sem svaf uppí hjá okkur. Arney ljósmóðir í teyminu okkar hjá Björkinni hafði sagt okkur að ef ég færi af stað að kvöldi eða um nótt skyldi ég reyna að hvíla mig og heyra svo í þeim þegar mér finndist ekki lengur kósí að hvílast. Við höfðum stefnt á að eiga í Björkinni og verið í mæðravernd þar frá viku 34.
Við Steini lögðumst upp í hjá Tinnu sem svaf vært í hjónarúminu. Mér fannst gott að kúra hjá henni og eitthvað fallegt við það að þannig var hún hluti af fæðingarferlinu því ég vissi að bráðum færum við í Björkina og hún yrði heima með ömmu sinni þangað til litla systir væri komin í heiminn.
Ég dormaði en fann fyrir reglulegum samdráttum með mildum verkjum til kl 3:30 um nóttina. Ég stóð upp og fann að mér var óglatt og leið ekki vel að liggja lengur, mér fannst smávegis eins og það byggðist upp spenna í líkamanum og ég vildi vera á hreyfingu til að dreifa þessari spennu.
Ég vakti Steina og bað hann að hringja í teymið okkar. Hann hringdi í Arneyju sem spurði hversu langt væri á milli samdrátta. Steini spurði mig og ég svaraði: ,æji, ég veit það ekki en ég veit að ég er farin af stað og við þurfum að koma okkur til þeirra”. Það var bara eitthvað sem ég fann og vissi innra með mér. Arney sagði að við gætum lagt af stað eftir korter svo Steini og Erla María systir fóru að græja það sem þurfti. Mér var enn óglatt og var lítil í mér og sat á boltanum á nærfötunum, mér var svo heitt.
Ég notaði piparmyntudropa í bómul sem eitthvertþeirra færði mér og mamma kom og knúsaði mig. Það var eitthvað ótrúlega heilandi við það að vera fullorðin kona á leiðinni að fæða litla stúlku og hafa mömmu sína hjá sér að hugga sig og styðja. Mömmu sem hefur fætt þrjár stúlkur og veit hvernig þetta er. Veit hvernig það er að vera á leiðinni inn í fæðingu, full eftirvæntingar en líka kvíðin og þreytt og langa smá að leggja sig bara aðeins aftur.
Erla María smellti mynd af okkur mömmu sem ég vissi ekki af fyrr en eftir á sem mér þykir svo ótrúlega vænt um.
Í bílnum á leiðinni í Björkina leið mér betur og ógleðin hvarf með piparmyntu og ísköldu kóki og því að vera á fótum. Ég þurfti að vera með stór bindi þarna því ég pissaði aftur og aftur í mig vegna þrýstings niður. Ég man hvað ég var hissa því þetta gerðist fyrirvaralaust nokkrum sinnum.
Við mættum í Björkina um kl 4:30 og Arney var búin að kveikja á kerti fyrir utan. Mér þótti svo vænt um það og upplifði okkur svo velkomin. Það var dimmt og engin á ferli og eins og við værum ein í heiminum. Við komum okkur fyrir á fæðingarstofunni og Arney tók hjartslátt hjá litlu í bumbu og blóðþrýsting og hita hjá mér. Þarna leið mér vel og hríðar voru mildar og viðráðanlegar.
Arney fór fram til að skrá upplýsingar í mæðraskránna og kom svo til baka eftir smá stund aðeins alvarlegri á svip en áður. Hún tilkynnti mér þá að í mæðraskrá stæði að ég væri með jákvæða GBS sýkingu síðan 10.ágúst en þá hafði ég farið í strok á heilsugæslu til að láta kanna þetta en ekkert heyrt frá heilsugæslunni eftir það. Það hafði gleymst að láta mig vita að ég væri jákvæð og engin tekið eftir því í skýrslunni fyrr en þarna. Arney hringdi á kvennadeildina til að ganga úr skugga um að þetta væri rétt og fékk þau svör að ég hefði greinst jákvæð. Þetta þýddi að ég þurfti að eiga á Landspítalanum en ekki í Björkinni þar sem ég átti að fá sýklalyf í æð.
Arney var svo ljúf og blíð og styðjandi þegar hún sagði okkur þetta en við vorum öll svo hissa á þessum fréttum. Hríðarnar duttu niður í einhvern tíma eftir fréttirnar en ég ákvað þó strax að ég skyldi flæða með breyttu plani og vildi ekki fara í mótstöðu við núið og það sem var að eiga sér stað. Ég var meðvituð um það á meðgöngu að ég gæti ekki stýrt því hvað myndi gerast í fæðingu nema kannski að hluta til. Svolítið eins og í lífinu almennt bara. Við Steini og Erla María systir höfðum í fæðingu eldri dóttur minnar verið saman á LSH og við vissum að við gætum þetta saman, sama hvar við værum. Við hefðum allt til þess.
Vegna covid-19 voru hertar reglur á LSH og ekki leyft að hafa annan stuðningsaðila en maka. Arney ræddi við þau á spítalanum og úr varð að við fengum undanþágu fyrir því að systir mín væri með, enda mjög óvenjulegar aðstæður og óvænt breyting á því sem við höfðum ætlað okkur. Um leið og ég vissi að systir mín yrði líka með leið mér betur og var alveg sátt við þetta allt saman. Í fæðingu eldri dóttur okkar fengum við ekki góðar móttökur á spítalanum og systur minni var meinað að koma með okkur inn í fyrstu þrátt fyrir mína ósk um það að hún væri með. Þetta hafði mikil áhrif á mig þá og ég var smá hrædd um að þetta myndi gerast aftur.
Við fórum í rólegheitum að græja okkur til að fara upp á deild. Það var skrítið að kveðja Arneyju og fara úr Björkinni og viðveran þar skipti mig miklu máli þó ég hafi ekki fætt þar. Stuðningurinn sem ég hafði fengið á meðgöngu og þessa nótt frá henni og teyminu fór með mér inn í fæðinguna. Fræðslan sem við fengum um fæðinguna sjálfa, mismunandi stig og krítíska mómentið þegar útvíkkun lýkur og rembingur fer að taka við hjálpaði Steina og Erlu Maríu í því að styðja mig og peppa á réttum stundum.
Hríðarnar byrjuðu aftur af aðeins meiri krafti á leiðinni upp á spítala. Magnað hvað líkaminn veit hvað hann á að gera og hvenær það er öruggt.
Við mættum á LSH um kl 6 og þar tóku á móti okkur yndislegar ljósmæður, mér voru gefin sýklalyf í æð og okkur boðið allt sem við þurftum, bolta, hátalara, baðkar, kaffi. Þetta var dásamleg upplifun og engin spurði eða efaðist um að systir mín mætti vera þarna með okkur. Það skipti mig svo miklu máli og hjálpaði mér að vera róleg. Við Steini höfðum líka ákveðið að nefna stúlkuna okkar í höfuðið á systur minni og segja henni það þegar hún myndi fæðast. Ég hafði hlakkað til þess augnabliks í einhvern tíma og gat ekki hugsað mér að við fengjum ekki að upplifa það saman.
Arney hafði sagt okkur að sýklalyfin þyrftu helst að renna í gegn 2 klst fyrir fæðingu, eða fyrsti skammtur og svo væru þau gefin á 4 klst fresti yfir fæðinguna. Þau runnu í gegn á hálftíma minnir mig og klukkan 7.30 vorum við systir mín að spjalla við pabba á Facetime.
Ég hafði mikla þörf fyrir það að vera á hreyfingu í hríðunum og vildi taka þeim með ró og bjóða hverja hríð velkomna. Ég notaði bolta, hreyfði mjaðmirnar, settist á gólfið eða studdi mig við rúm eða annað og ég man að mér fannst ég ekki þurfa mikið annað en bara að systir mín og Steini væru þarna og ég vissi af þeim. Þau færðu mér klaka og kalda bakstra, buðu mér að drekka og hugsuðu svo vel um mig.
Mér leið vel og við hlógum og nutum þess að vera þarna saman í þessari fæðingu. Hríðarnar voru mjög reglulegar en þær urðu aldrei lengri en 40 sek og ég var alltaf að bíða eftir því að þær yrðu lengri eða óviðráðanlegri. Þær urðu síðan aldrei lengri en 40 sek eftir þetta nema mögulega í rembingnum og allan tímann viðráðanlegar. Það var yndislegt að finna náttúrulegan dans oxytocins og endorfíns og ég fann mikla slökun á milli hríða, næstum eins og vímu.
Um klukkan 8.30 fór ég að huga að því að fara í bað og Heiðdís ljósmæðranemi bauð mér glaðloftið ef ég vildi. Ég ákvað að eiga það inni þegar verkirnir yrðu harðari og bað hana að stilla það á lága stillingu.
Í baðinu um klukkan 9 var ég farin að nota glaðloftið í hríðum og Steini var með mér ofan í að gera mjaðmakreistur sem hjálpaði mjög mikið. Erla María sat fyrir framan mig og ég gaf henni merki þegar hríðin var að byrja og hún gaf Steina merki. Dásamlegt kerfi! Mér fannst mjög gott að ljósurnar leyfðu mér að hafa þetta nákvæmlega eins og ég vildi og voru ekki að grípa inn í eða skoða mig að óþörfu.
Mér fannst dásamlegt að fá að upplifa þennan tíma án deyfingar en ég hafði fengið mænurótardeyfingu í fæðingu Tinnu 5 árum áður og upplifði mig þar engan veginn við stjórn, kyrr, á bakinu í spítalarúmi.
Þarna leið mér vel allan tímann en man að ég grét með hríð sem varð allt í einu verri en hinar, en þá kom líka þrýstingur niður og Steini fann líka að eitthvað var breytt með því að ýta á bakið á mér. Öndunin hjá mér breyttist líka og tónninn.
Þarna fann ég rembingsþörf en trúði því varla að hún gæti verið að koma svona fljótt. Heiðdís ljósmóðir skoðaði mig og sagði mér að ég mætti hlusta á líkamann og gera það sem ég þyrfti, ég mætti rembast. Mér fannst það æðislegt að vera treyst fyrir sjálfri mér og mínum líkama.
Á einhverjum tímapunkti sagðist ég ekki geta meir en mitt fólk minnti mig þá á að þegar þessi líðan kemur er lítið eftir og stutt í litlu stúlkuna okkar. Það var svo ljúft að vera minnt á það og ég skipti fljótt um skoðun, ég gæti þetta.
Ég var búin að biðja um að fá að finna kollinn og taka á móti henni sjálf í baðinu.
Það komu nokkrar rembingshríðar og ljósmæðurnar buðu mér þá að finna kollinn sem var ótrúlegt. Ég man að ég sagði: ,,það er haus! hann er svo lítill! þetta er haus!” sem er alveg stórfurðulegt svona eftir á eins og það hefði komið á óvart að barnið væri með haus.
Svo sagði ég líka á milli rembingshríða: ,,ég er ógeðslega dugleg!”. Greinilega mjög sátt með þetta allt saman. Hausinn kom svo út og kroppurinn fljótt í framhaldinu og ég fékk að taka á móti henni sjálf. Mér fannst gott að Helga ljósmóðir sagði mér að hætta með glaðloftið þarna svo ég gæti verið meira á staðnum. Sagði eitthvað eins og: ,,nú er glaðloftið ekkert að gera fyrir þig lengur, losum þig við það” en ég hefði ekki haft vit á því sjálf. Það var svo góð ákvörðun og ég var mun meðvitaðri um það sem var að gerast. Mér þótti líka gott að ljósurnar leiðbeindu mér með það að purra þegar búkurinn kom, það hjálpaði mér að slaka betur á.
Ég fann þegar höfuð eða búkur var að fæðast að ég byrjaði að sparka út vinstri löppinni. Ég man að ég hugsaði með mér: ,,hvað er ég að gera?” Og var mjög hissa á sjálfri mér. Eftir á skildi ég að líkaminn var að búa til meira rými fyrir hana til að komast í heiminn.
Mér fannst þetta stig hafa getað verið 5 mínútur eða 50 mínútur en rembingstíminn var skilst mér um 10- 15 mínútur.
Stúlkan okkar, Camilla Erla fæddist svo kl 9:44 þann 9.september á föstudagsmorgni og var 3650gr og 51cm. Erla María systir klippti á naflastrenginn og fékk að vita að hún fengi nöfnu. Við grétum öll gleðitárum 💕
Við vorum á spítalanum í rúman sólarhring og Camilla í eftirliti vegna GBS hjá mér og fengum svo að fara heim í faðm stóru systur og stóra bróður.
Þó svo að ég hafi ekki fætt í Björkinni reyndist undirbúningur og tengslin sem við mynduðum þar okkur svo dýrmæt. Arney, Una og Hrafnhildur voru allar svo dásamlegar og faglegar, tilbúnar að hlusta og gefa rými fyrir hvað sem var.
Við vorum líka svo lánsöm að fá heimaþjónustu frá þeim fyrstu dagana sem var ómetanlegt.
Það var allt eins og það átti að vera ❤️
Takk fyrir okkur, Björkin og teymi 1 mun alltaf eiga sérstakan stað í okkar hjörtum🫶🏼
Comments