top of page
Search

Umvefjandi fjölskylda, sex kexpakkar og magnaðasta upplifun lífsins

Updated: Sep 22, 2021Fæðingarsaga Vöku Eirar Ævarsdóttur Þann 11. febrúar 2021 kl 18.25 kom Vaka Eir Ævarsdóttir í heiminn. Þessi yndislega, góða og ákveðna dóttir okkar Ævars mætti til okkar þremur vikum fyrir settan dag og fyllti hjörtu okkar svo mikið að þau gátu ekki annað en vaxið. Fæðingin gekk eins og í sögu og er án efa magnaðasta upplifun lífs míns.


Miðvikudaginn þann 10. febrúar rétt fyrir þrjú byrjaði ég að finna fyrir fyrstu verkjunum. Ég lá uppi í rúmi og var að horfa á fyrirlestur um hvatberavirkni, orkuframleiðslu líkamans, þegar ég fann allt í einu fyrir einhverskonar spennuverk neðarlega í kviðnum. Ég kippti mér lítið upp við hann, tengdi hann við þennan ágætlega annasama dag, hjúfraði mig undir sæng og hélt áfram að horfa á fyrirlesturinn. Ég hafði farið í sund með ömmu um morguninn, synt nokkrar ferðir, og farið síðan út að borða með Ævari í hádeginu. Á Sæta Svíninu, tveir fyrir einn. En að ganga niður að Ingólfstorgi og síðan upp alla brekkuna á leiðinni til baka reyndi lúmskt mikið á, enda bumban stór og mjaðmirnar þreyttar. Ævar skrapp í klippingu eftir hádegismatinn, en þegar hann kom heim stunduðum við alveg sérlega gott kynlíf. Við undruðumst bæði yfir því hversu gott þetta hafði verið. Þegar Ævar fór síðan á Mokka gat ég ekki flúið lærdóminn lengur. Ég þurfti að byrja, enda lokaprófin að nálgast. Hugurinn var bara ekki lengur í frumulífeðlisfræðinni og erfðafræðinni, hann var kominn í næsta fasa.


Eftir fyrsta verkinn kom næsti, og næsti þar á eftir. Þegar ég hafði fengið nokkra eins verki á svona korters fresti ákvað ég að fara að skrifa niður tímana, ásamt því hvernig verkirnir lýstu sér. Átta verkjum seinna sendi ég á Ævar það sem ég hafði skrifað.

15.12 - verkur neðarlega

15.27 - vægur

15.36 - vægur

15.42 - mikil spenna framarlega, ca 40 sek

16.01 - lítill

16.15 - neðarlega óþægilegt

16.23 - sterkari, ca 1 min


Við komumst að þeirri niðurstöðu að „Nei nei, þetta er líklegast ekkert... En fylgjumst samt með…“ Það sat samt í mér að ég hafði aldrei fengið svona reglubundna verki áður. Gæti þetta verið byrjandi fæðing? Ég var ekki alveg viss.


Um kvöldmatarleytið kom Ævar heim og sótti mig. Við vorum nefnilega að fara í mat vestur í bæ, til að borða með Huldu og Krumma. Ég hafði íhugað að sleppa því að fara og vera bara heima að hvíla mig, en hugsaði síðan að ég gæti nú alveg eins hvílt mig þar ef verkirnir yrðu slæmir. Ég var líka orðin ansi svöng og var mjög til í kjúkling hjá tengdamömmu. Amma og afi Ævars, Ólafur og Pétrún, voru líka á staðnum. Matarboðið reyndist nokkuð erfitt þar sem verkirnir voru tíðir og stundum sterkir, en ég reyndi þrátt fyrir það að taka þátt í samræðum og vera með. Svona eftirá að hyggja hefði ég nú bara átt að borða og leggja mig síðan, en við Ævar fórum bara snemma heim í staðinn. Ég gaf Ævari grænt ljós á að fara til Tryggva að horfa á mynd, en bað hann um að passa að hafa símann ekki á silent. Við töluðum ennþá um þetta sem „líklegast bara fyrirvaraverki“. Ég sofnaði klukkan níu og náði að sofa til miðnættis. Þegar ég vaknaði var Ævar að grilla sér samloku inni í eldhúsi. Ég fann ekki fyrir neinum verkjum á þessum tíma og þegar við vorum alveg að fara að sofna þá sagði ég við Ævar að þetta væri að öllum líkindum búið. Kallaði þetta „false alarm“, og hann andaði léttar. Ég var pínu svekkt.


Ég hugsa að ég hafi bara verið nýsofnuð á ný þegar ég var vaknaði við fyrsta verkinn sem ég myndi kalla hríð, og eftir hana var ekkert sofið. Ævar tók tímann á milli hríðanna og um klukkan þrjú þessa nótt fór ég fram í eldhús og hringdi í mömmu. Það var náttúrulega bara kvöld í Kanada, en mamma var hissa á því að ég væri vakandi. Ég sagði henni frá gærkvöldinu og nóttinni og hún taldi að þetta væri nú mjög líklega byrjandi fæðing, sem var í rauninni nákvæmlega það sem ég vildi heyra. Mig hafði grunað það innst inni alveg síðan ég fann fyrir þriðja verkinum, en fyrst núna leyfði ég mér að trúa því. Mamma hvatti mig til þess að hafa samband við ljósmæðurnar sem fyrst, þetta gerðist náttúrulega alltaf svo hratt hjá henni. Við kvöddumst og mamma bað mig um að hringja ef eitthvað væri, hvenær sem er. Eftir símtalið runnu nokkur tár niður kinnar mínar vegna saknaðar. Það var svo gott að tala við mömmu, en mér fannst erfitt að hún væri ekki á staðnum. Það var líka eitthvað við þessa tilhugsun um að ég væri að fara að verða mamma sem framkallaði ýmsar tilfinningar. Ég elska mömmu mína svo óendanlega mikið og nú var ég sjálf að fara að eignast dóttur, alveg eins og hún gerði fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Ég andaði mig í gegnum eina hríð og hringdi svo í vaktarsíma Bjarkarinnar.


Harpa ljósmóðir okkar svaraði og ég sagði henni frá. Hún sagði að það væri ekki ólíklegt að eitthvað væri byrjað að malla, en þó óreglulegar hríðar og nokkuð langt á milli. Hún sagði mér að taka því rólega og reyna að hvílast, þó ekki nema bara á milli hríða. Vera svo í sambandi ef eitthvað myndi breytast eða bara ef eitthvað væri - mögulega væri fínt að fá innlit um morguninn. Mér leist vel á þetta plan, og það róaði mig að tala við Hörpu. Ég hafði hikað við að hringja svona um miðja nótt, en varð strax fegin að hafa gert það, þótt engin væri bráð. Nú var ég búin að láta vita af mér og það var mikill léttir. Harpa var líka svo hlý og góð og ég fann strax fyrir miklu trausti.


Fyrsta skoðunin varð síðan um morguninn, rétt uppúr klukkan sjö. Þá hafði ég aðallega bara legið uppi í rúmi og reynt að hvíla mig á milli hríða, en það hafði gengið misvel. Ekki séns að ég hefði getað sofnað, en mér leið nú samt ágætlega. Við buðum Hörpu uppá kaffi og spjölluðum við hana í dágóða stund. Hún talaði um að ég væri í svokölluðum „latent fasa“ fæðingarinnar, og að nú þyrftum við bara að fylgjast með þróuninni. Á meðan á heimsókninni stóð duttu hríðarnar reyndar algjörlega niður. Ég vissi að það gæti gerst, vegna adrenalíns, til dæmis við það að fá einhvern utanaðkomandi í heimsókn, en ég vissi ekki að það yrði svona augljóst. Áhugavert að upplifa það, en fínt að fá hvíld. Harpa sagði líka að þetta væri fullkomlega eðlilegt og að það væri jafnvel gott að reyna að nýta þessa pásu til þess að sofna. Ég bað hana um að skoða mig og þá kom í ljós að leghálsinn væri orðinn stuttur og mjúkur og að ég væri komin 1,5 í útvíkkun. Jújú, það var eitthvað að gerast.


Klukkutímarnir liðu og fátt breyttist, hríðarnar tóku á en mér leið alltaf vel á milli, hvíldi mig þá, spjallaði við Ævar, hugsaði, borðaði. Um hádegið fór Ævar að versla og ég ákvað að kíkja upp til Oddnýjar og Ævars Ugga. Ég sagði Oddnýju frá því að fæðingin væri að öllum líkindum farin í gang og hún varð mjög spennt, rétt eins og ég. Hún bauðst til þess að koma niður og hjálpa okkur með heimilið ef við vildum, skúra gólfin eða eitthvað svoleiðis. Ég hugsaði strax að við myndum þiggja boðið. Ég hafði sem betur fer tekið vel til í íbúðinni deginum áður, en það átti alveg eftir að þrífa. Það var nú margt sem var ekki alveg tilbúið en mér fannst mun betri tilhugsun að fæða á hreinu heimili. Ævar ætlaði líka að kaupa bleyjur og grisjur í búðinni, barnaolíu og rassakrem. Ég hafði líka beðið hann um að kaupa eitthvað til þess að geta gripið í, og við höfðum skrifað smá lista, en hann kom heim með þrjá risastóra poka af allskonar mat og gotteríi og þar á meðal fimm mismunandi kexpakkar! Ævar sagðist ekki hafa vitað hvernig kex mig langaði í, svo hann hafði keypt nokkrar týpur… Ísskápurinn fylltist, og hillurnar líka.


Flæðið á heimilinu þennan dag var yndislegt. Oddný og Guðrún, amma Ævars, komu og byrjuðu að þrífa, amma Magna kom með hreint á rúmið og Pétrún, Óli og Hulda komu með vögguna. Ævar blés síðan upp laugina inni í svefnherbergi. Ég tók nú ekki eftir öllum smáatriðunum, enda voru hríðarnar orðnar bæði tíðari og sterkari, en ég fann fyrir þessu góða flæði. Ég upplifði enga truflun, heldur bara öryggi, góða nærveru og þakklæti, enda voru allir mjög rólegir og nærgætnir. Guðrún hjálpaði mér í gegnum hríðarnar á tímabili með því að telja öndunina og nudda á mér mjóbakið. Ég var einmitt farin að finna svo vel fyrir hríðunum í bakinu og mjöðmunum, svo þrýstingurinn hjálpaði, og löng útöndun með mótstöðu var besti verkjastillirinn. Ég náði oftar og oftar að slaka á móti sársaukanum. Guðrún var hlý í viðmóti og veitti frábæran stuðning, og ég held að það hafi líka hjálpað Ævari að sjá hvernig hún hjálpaði mér.


Seinnipartinn voru allir farnir og við höfðum aftur samband við Björkina. Arney og Harpa komu stuttu síðar til þess að kíkja á okkur. Það var frekar stutt á milli hríða en samt erfitt að meta hversu hratt hlutirnir myndu þróast. Jóhanna frænka kom líka. Hún tók með sér jógabolta sem hafði hjálpað henni í sínum fæðingum, en hún ætlaði sér að fara heim í smá stund og koma síðan aftur, enda var talað um að þetta gæti þess vegna tekið marga klukkutíma í viðbót. Það kom okkur öllum á óvart þegar ég mældist síðan með 7 í útvíkkun. „Ævar!“ kallaði ég. „Sjö í útvíkkun, SJÖ!!!“ Jóhanna ákvað að vera ekkert að fara, og ljósmæðurnar urðu að sjálfsögðu líka eftir. Ég var fegin því að þær væru komnar til þess að vera, og að hafa Jóhönnu hjá okkur var líka yndislegt. Mér leið vel bara við það að heyra í röddinni hennar. Hún talaði við mig, tók myndir og nuddaði mjaðmirnar mínar. Nærvera hennar veitti mér mikið öryggi, og ég var svo glöð að hafa beðið hana um að vera viðstödd. Núna var stóra stundin raunverulega farin að nálgast og ég fagnaði næstu hríð.


Þörf mín á því að hafa Ævar nálægt mér fór ört vaxandi, svo hann hætti öllu stússi og einbeitti sér bara að mér. Ég var farin að þurfa á honum að halda til þess að halda fókus í gegnum hríðarnar, sem voru orðnar ansi sárar. Uppúr þessu mátti hann nánast ekkert fara frá mér. Hann taldi fyrir mig, eins og amma hans hafði gert, strauk mér og hélt utan um mig. Hann þekkir mig svo vel, svo hann vissi hvað mér fannst gott hverju sinni. Snertingar hans höfðu róandi áhrif á mig og virkuðu eins og einhverskonar akkeri. Þegar mér fannst ég vera að missa tökin gat ég alltaf einbeitt mér að snertingunum og endurheimt einbeitinguna.


Potturinn hafði verið fylltur af volgu vatni og þegar ég fór í hann helltist yfir mig vellíðunartilfinning sem varði í um það bil mínútu. Ég andaði, slakaði og safnaði kröftum. Drakk gatorade og borðaði jarðaber. Sumir myndu kannski kalla þessa stund lognið á undan storminum? Eftir þessa mínútu af slökun gekk stærsta hríð fæðingarinnar eins og kröftug alda yfir líkama minn, og með henni fór vatnið. Það heyrðist hve


llur þegar belgurinn sprakk og með hvellinum var eins og eitthvað skilli niður á lífbeinið. Það var sárt og mér brá, en amma Magna hafði sagt mér frá nákvæmlega þessu augnabliki bara nokkrum dögum fyrir fæðinguna. Þegar belgurinn springur og kollur barnsins færist neðar í grindina. Allt var nákvæmlega eins og það átti að vera. Fyrsti rembingurinn kom og ég fann hvernig líkaminn tók gjörsamlega yfir. Hugurinn missti alla stjórn á þessum tímapunkti og það var ákveðinn léttir sem fylgdi þeirri tilfinningu. Það kom mér á óvart að mér þætti ekkert óþægilegt að upplifa þetta stjórnleysi. Ég treysti líkamanum fullkomlega. Það eina sem ég gerði var að anda og slaka þegar ég gat, á meðan þessi stórmerkilegi kraftur líkamans, sem ég var að finna fyrir í fyrsta sinn, sá um restina. Með hverjum rembingi gaf ég frá mér einhverskonar sérkennilegt kvein sem ég get ómögulega endurtekið núna eftirá. Ég hélt fast í Ævar, en hætti nánast alveg að taka eftir umhverfinu. Ég var í heimi líkamans, náttúrunnar. Einstöku hlutir komust að á milli rembinga, og ég man eftir að hafa verið hvött til þess að snerta höfuðið hennar Vöku með höndinni. Ég hikaði, því ég var hrædd um að kollurinn myndi renna til baka, eins og hann gerði eftir hvern einasta rembing. Mér fannst það alltaf svo svekkjandi, þó ég vissi að hann væri að komast lengra og lengra í heildina. Ég komst fljótt yfir þessa hræðslu og fann fyrir kollinum hennar Vöku inní mér. Hún var með hár! Nú vissi ég að það væri ekki langt eftir. Bruninn við næsta rembing var rosalegur og þrýstingurinn jókst í veldisvexti þangað til hann hvarf skyndilega. Ég man eftir að hafa spurt upphátt “Hvað er að gerast?”, bara til þess að fá staðfestingu á því að það sem ég var að finna væri rétt. „Kollurinn er komin“ sagði Harpa. Kollurinn var kominn. Ég andaði og andaði meira. Ýtti síðan Vöku út úr mér í einni hríð og fékk hana beint í hendurnar. Ég tók hana uppúr vatninu og hún spriklaði í fanginu á mér, tók fyrsta andardráttinn og grét. Hún var fullkomin. Ég trúði því varla að hún væri komin til okkar. Tilfinningin var ólýsanleg.


Ég sat áfram í lauginni í dágóða stund með Ævar rétt fyrir aftan mig og Vöku í fanginu, innvafða í handklæði. Hún opnaði annað augað í smá stund og leit á okkur. Lokaði því síðan aftur. Við horfðum á hana og tókum ekki eftir neinu öðru, enda skipti ekkert annað máli. Ég grét gleðitárum. Ég fæddi fylgjuna í rólegheitum og Ævar klippti naflastrenginn þegar hann var hættur að púlsa. Vaka kúrði síðan í beru fangi pabba síns á meðan ég fékk hjálp uppúr lauginni. Ég fann hvað líkaminn var gjörsamlega uppgefin, og ég fékk mikinn svima við það að standa upprétt, en ég var ekki verkjuð og fann ekki fyrir neinum sársauka. Ég lagðist uppí rúm hjá Ævari og Vöku og var saumuð nokkur spor. Síðan gat ég haldið áfram að dást að litlu fullkomnu dóttur minni. Við knúsuðumst öll þrjú og kúrðum saman undir sæng.


Dagana eftir fæðinguna svifum við fjölskyldan um Baldurskot á dúnmjúku skýi og við svífum enn í dag. Njótum þess að kynnast hvort öðru og finna fyrir þessari stöðugt vaxandi ást sem er engu öðru lík. Vaka Eir Ævarsdóttir er hamingja og heilun og við elskum hana meira en orð geta lýst.

1,000 views0 comments

Comments


bottom of page