top of page
Search

Fæðingasaga Hildar


Fæðing Hrafnhildar Irmu 05.12.10

Þessi fæðingarsaga hefur smá forsögu og ætla ég að segja hana líka. Ég var ófrísk af mínu öðru barni og fæðing dóttur minnar Brynhildar Kötlu gekk mjög vel árið 2006. Ég fæddi hana á fæðingagangi LSH og fékk yndislega ljósmóður sem tók á móti henni. Ég fann í þeirri fæðingu að það skipti öllu máli að hafa góða ljósmóður því það var hún sem veitti mér öryggið. Ekki tólin og tækin sem voru í herberginu. Ég hef alltaf stefnt að því að verða ljósmóðir og fór í það nám eftir fæðingarorlof. Í náminu heillaðist ég enn meira af hinu náttúrulegu ferli fæðingar og samfellu í fæðingarþjónustu. Heimafæðingar áttu hug minn allan og það kom því ekkert annað til greina að fæða næsta barn heima.

Mér leið alveg rosalega vel á meðgöngunni og var hraust. Ég stundaði leikfimi, nánast allan tímann, fór í göngur og sund og mikilvægast af öllu var að mæta í jógatímana. Það var minn tími og ég passaði að láta þá í forgang en ég var í jóga síðustu 3 mánuðina. Það var því ekkert til fyrirstöðu að fæða barnið heima og ég hlakkaði mikið til. Fyrri stúlkan mín hafði fæðst eftir 39v+2 d meðgöngu og gerði ég ráð fyrir að ganga allaveganna svo lengi með hana.

Svo gerðist það að ég vað lasin á 37 viku og lá bara í rúminu með mikið kvef og hita í um sólahring. Ég var mjög stífluð og leið ekki vel. Einnig fann ég að eitthvað hafði gerst í grindinni en ég fór að finna mikið til í mjóbakinu með leiðni niðrí fótinn. Ég hugsaði einmitt að ekki væri gaman að fara í fæðingu svona og hugsaði að líkaminn hlyti að sleppa því að fara af stað þegar manni líður svona. En kvefið lagaðist en bakverkurinn versnaði og ég komst varla upp tröppurnar heima hjá mér. Ég hringdi þá í frænda minn sem er sjúkraþjálfari sem kom mér að og nuddaði mig og losað um spjaldliðinn en hann sagði að það væri kominn skekkja í hann. Þegar ég labbaði út frá honum leið mér betur og ákvað að fara í jóga þann daginn en passaði mig mjög vel. Þetta reyndist minn síðasti jógatími. Eftir jógatímann fann ég að verkurinn var að versna og mér fór að líða verr. Daginn eftir komst ég varla milli herbergja heima hjá mér og næturnar voru hræðilegar því ég gat varla snúið mér í rúminu þrátt fyrir snúningslak. Ég hringdi því með tárin í augunum í frænda sem sagði mér bara að koma heim til sín og hann myndi kíkja á mig. Þetta var á fimmtudagskvöldi og tók hann lauslega á mér og losaði eitthvað um spjaldliðinn sem var enn skekktur og olli því að allt kerfið var orðið stíft og ég svona verkjuð. Ég var orðin svo slæm að ég var farin að taka parkódín til að þrauka. Hann límdi mig líka með einhverju teipi sem átti að hjálpa til og sagði mér svo að hvílast. Ég mátti ekki gera neitt og taka lítil skref. Fara mér sem sagt mjög hægt. Ég ásamt vinkonum mínum áttu bókaðan sölubás í kolaportinu á laugardeginum og hann ráðlagði mér að láta það eiga sig en þar sem ég var búin að undirbúa þennan kolaportsdag með því að taka til í öllum skápum og geymslum átti ég mjög erfitt með að mæta ekki. Ég var mjög stillt á föstudeginum og hvíldi mig mjög vel og leið líka mikið betur eftir þann dag. Ég sagði við manninn minn að ég færi í kolaportið. Hann þyrfti bara að sjá um að koma öllu dótinu inn eftir og ég myndi bara sitja á stól og vinkonurnar myndu sjá um rest.

Svo kom að kolaportsdeginum þann 04.12.10. Ég 38v+4d mætti kl. 11 eftir að hafa verið á ballettsýningu hjá dóttur minni. Maðurinn minn hafði komið öllu draslinu fyrir í kolaportinu ásamt fína stólnum sem ég ætlaði að sitja á en nei nei það var þvílík traffík og mikið af fólki að ég gat ekkert sest niður. Ég hefði ekki trúað því að það yrði svona mikil aðsókn í dótið og draslið úr skápunum okkar. Kl. 14 ákveð ég að rölta á wc í mínum hænuskrefum. Þegar ég kem svo til baka finn ég að eitthvað er byrjað að leka, það kom enginn stór pollur bara smá. Ég segi við vinkonu mína ég held að vatnið sé að fara hjá mér, en var ekki alveg viss, ég ákvað að kíkja aftur á wc og athuga málið. Ég var ekki einu sinni með dömubindi á mér. Í þessum sporum koma foreldrar mínir. Mamma verður mjög stressuð yfir þessu og vill bara fara með mig upp á spítala en ég róa hana nú niður og fer á klósettið til að ath stöðuna. Á meðan ég labba þangað finn ég að það lekur meira og þegar barnið hreyfði sig þá lak líka meira svo ég er orðin all viss um að þetta sé legvatnið og svo reyndist vera. Ég setti klósettpappír i buxurnar og fór svo og sendi mömmu út í búð að kaupa dömubindi sem hún gerði. Ég sendi Baldri manninum mínum sms um að ég héldi að legvatnið væri að fara. Ég hringdi í Arney vinkonu mína og ljósmóðir sem ætlaði að vera með okkur í fæðingunni og sagði henni tíðindin. Hún vildi nú að ég færi bara heim til að hvíla mig. Sem ég á endanum gerði kl 16. Ég var komin heim um 17 og fann hvað ég var þreytt og spennt.

Bakverkurinn hafði ekki lagast í kolaportinu. Baldur var orðin mjög spenntur og þegar ég kom heim var hann búin að blása upp laugin og byrjaður að láta renna í hana. Ég sagði honum nú að slaka aðeins á með að láta renna í laugina því það voru engir samdrættir byrjaðir við gætum þurft að bíða eitthvað eftir þeim. Ljósmæðurnar mínar komu og skoðuðu mig. Allt var í lagin nema ég var aðeins með hækkaðan blóðþrýsting en það kom mér svo sem ekki á óvart eftir þennan tryllta dag í kolaportinu og ég fann hvað ég var líka spennt og með höfuðverk. Þær gáfu mér parkódín og sendu mig í rúmið til að hvíla mig sem ég gerði. Ég fann hvað það gerði mér gott án þess þó að ég náði að sofna. Börnin okkar 2 höfðu verið búin að ákveða að gista hjá ömmu sinni og afa og ákváðum við að vera ekkert að breyta þeim plönum en ég hafði verið búin að ákveða að vera ekki að raska ró þeirra ef fæðingin færi af stað ef þau væru heima og fannst líka spennandi að hafa þau heima þegar systir þeirra fæddist.

Ljósurnar kíktu svo aftur um kl. 20, þá hafði blóðþrýstingurinn lækkað aðeins og stöku samdrættir voru. Við ákáðum að þær færu bara heim og ég myndi hafa samband ef eitthvað færi að gerast. Annars myndu þær koma morguninn eftir til að örva mig með nálastungum.

Ég fór svo í langt bað og fékk mér gott að borða og við sátum svo bara í kósý að horfa á tv í rólegheitunum og á meðan fékk ég gott fóta og herðanudd. Ég ákvað líka að prufa að nudda geirvörturnar. Vitir menn um kl 22 fer ég að finna aðeins fyrir harðari samdráttum og um kl. 23 er ég viss um að þetta sé að fara að gerast og hringi í Arney og læt hana vita að þetta sé allt að gerast en ég myndi bara hringja þegar ég vill að þær komi. Kl. 23:30 er allt komið á fullt og mér finnst samdrættirnir farnir að taka vel í þrátt fyrir að það sé þó nokkuð á milli þeirra svo ég hringi aftur í Arney sem kemur um miðnætti. Hún skoðar mig og er ég þá með 5-6 í útvíkkun og ég alsæl með það enda ekki búin að hafa mikið fyrir þessu, enda notaði ég jógaöndunina frá fyrsta verk. Ég set Grace á fóninn og Baldur byrjar að láta renna í pottinn og ég fer ofan í hann stuttu síðar. Þvílíkt notalegt. Mér fannst ég öll léttari. Guðrún vinkona mín og ljósmóðurnemi kemur um þetta leyti en hún ætlaði líka að vera viðstödd. Fljótlega fer ég að finna þrýstingstilfinningu á botninn og kl. 00:30 læt ég hana athuga útvíkkun og er ég þá komin með 8 í útvíkkun. Vá þetta gengur hratt fyrir sig hugsa ég brosandi og glöð, við verðum komin með krílið í hendurnar áður en ég veit af. Þessi þrýstingstilfinning magnast bara og fljótlega finn ég fyrir ósjálfráðri rembingsþörf annað slægið. Kl. 1 skoðar hún mig aftur og þá er ég með 9+ í útvíkkun. Vá þetta er alveg að koma hugsa ég en þetta var orðið svolítið erfitt á þessum tímapunkti og bakverkurinn var farinn að angra mig. Ég gat mig lítið hreyft þó svo að ég væri ofan í vatninu. Mér fannst hríðarnar viðráðanlegar og ég gat andað vel í gegnum þær en þessi bakverkur var verri með leiðni niður í fótinn. Baldur stóð sig eins og hetja og nuddaði bakið nánast allan tímann. Um 1;30 var útvíkkunin enn 9+ og kollurinn var eitthvað aðeins skakkur í grindinni svo ákveðið var að ég færi að pissa og aðeins að hreyfa mig til að hjálpa til. Ég komst með herkjum upp úr pottinum og fór á wc en mér var svo illt í bakinu að ég gat ekki einu sinni sest á klósettið. Ég fór upp í rúm og áfram hélt þessi ósjálfráði rembingur án þess að útvíkkunin kláraðist. Ég reyndi að vera á 4 fótum, á hlið og alls konar án þess að kollurinn haggaðist. Alltaf 9+. Ég fann hvað ég var orðin stíf og gat mig illa hreyft. Mig vantaði að slaka á en ég bara gat það ekki sama hvað ég reyndi. Mér leið eins og hníf væri stungið í mjóbakið mitt. Ég fann fyrir hríðunum hvernig þær komu og fóru en þessi verkur var öðruvísi og verri og hann fór ekki. Það kom að því um 3:45 eftir að ég var búin að vera með 9+ tæpa 3 tíma að við skyldum bara fara á LSH og fá deyfingu til að ná þessari slökun sem upp á vantaði.

Á þessum tímapunkti var ég mjög sátt við það. Það var hringt á sjúkrabíl og hafist handa við að gera allt reddy fyrir brottför en ég hafði ekki einu sinni sett í tösku til vonar og vara. Þetta hafðist allt og um 4:00 kom sjúkrabíllinn. Ég átti mjög erfitt með að setjast í börurnar þeirra en treysti mér engan vegin að labba niður stigann(bý á 3hæð). Þegar við erum að fara út ágerst þessi ósjálfráði rembingur og Arney spyr hvort ég vilji að hún skoði mig áður en við færum af stað en ég hugsa nei drifum okkur bara af stað. Ég hafði þá tilfinningu að sjúkraflutningsmennirnir færu ef ég færi að vesenast eitthvað meira en það hafði tekið smá stund og nokkrar hríðar að setjast í þessar börur. Og út i bílinn fórum við og mér leið ekki vel, föst á bakinu í einhverjum bíl sem hossaðist áfram. Þetta var erfiðasti hluti fæðingarinnar að vera í sjúkrabílnum, mér leið ekki vel og spurði ítrekað hvort við værum ekki að verða komin. Þegar við loksins komumst á LSH fann ég að eitthvað gerðist, rembingurinn breyttist og ég fann bara hvernig útvíkkunin kláraðist og kollurinn snéri sér, mér var mjög létt. Arney sá það líka og dreif sig í hanskana tilbúinn að taka á mót krílinu. En við rétt náðum að komast inn á fæðingastofuna og ég var sett í fæðingarúmið þegar ég finn hvernig kollurinn er að fæðast. Hvirfillinn var komin út og ég fann svo vel fyrir krílinu mínu. Sem betur fer kom smá hríðapása þar sem ég náði að átta mig á aðstæðunum. Ég setti hendurnar á kollinn og fann að hún myndi koma í næstu hríð sem hún gerði. Hún rann ljúflega út og mér fannst ég ekki þurfa að gera neitt. Þetta bara gerðist. Ég fékk hana í fangið þessa fullkomnu stúlku kl. 4:22 Ég var samt svo hissa þegar hún kom hún var svo ólík systur sinni, ég bjóst við að fá bara alveg eins eintak en svo var nú aldeilis ekki. Þetta var allt öðruvísi fæðing og allt öðruvísi barn. Sem segir manni að þetta er aldrei eins og ekkert hægt að spá fyrir um þetta ferli.

Ég var vissulega svekkt að hafa farið með sjúkrabílnum því hún var fædd um 15 mín eftir að við lögðum af stað heiman frá okkur. En það þýðir ekkert að hugsa um það. Ég þurfti greinilega á þessum hossing að halda til að klára útvíkkunina. Þetta gekk allt saman vel á endanum og litla skvísan sem vóg 3940g og 51 cm bræddi hjarta okkar frá fyrstu sek og það er alveg rétt sem sagt er að hjarta manns bara stækkar með hverju barni.

Upplifunin mín af fæðingunni er mjög góð þrátt fyrir smá erfiðleika, og ekki spurning að jógaöndunin og þetta jógaviðhorf hjálpa manni mikið að takast á við þetta verkefni. Mér fannst æðislegt að vera heima í baði í stofunni með kertaljós og jólaseríurnar, umvafin mínu fólki, þó svo að ég hafi ekki klárað heima. Andrúmsloftið var afslappað og notalegt. Ég er aðalleg leið að hafa fengið þennan leiðinda bakverk sem mér fannst skerða frelsi mitt og hafði svona mikil áhrif á fæðinguna. En ég er öll að jafna mig og 6 vikum eftir fæðinguna er ég orðin nokkuð góð, en finn aðeins fyrir honum en ég þarf bara að vera þolinmóð.

Gangi ykkur öllum vel og eigið yndislega fæðingu

Kv. Hildur A Ármannsdóttir og Hrafnhildur Irma

133 views0 comments

留言


bottom of page