top of page
Search

Fæðingarsaga Ingibjargar


Þegar ég komst að því sumarið 2009 að ég væri ólétt í annað sinn komst aðeins eitt fyrir í höfðinu á mér; heimafæðing. Ég hafði mikið hugleitt þetta eftir síðustu fæðingu, en ég fæddi í vatni á Landsspítalanum. Þrátt fyrir að allt gekk vel hafði ég verið töluvert hrædd við fæðinguna og bar með mér mikinn ótta og kvíða gagnvart fæðingunni. Mér fannst fæðingarnámskeiðin sem Heilsugæslan býður uppá ekki gera gagn við að eyða þeim ótta hjá mér, eins fannst mér ég bara heyra vondar fæðingarsögur, hálfgerðar hryllingssögur. Mér leið aldrei vel á spítalanum svo án þess að vita nokkuð um heimafæðingar ákvað ég bara að fara á google og leita mér upplýsinga. Í leitinni fann ég í leiðinni heimafæðingasögur og fleiri fróðleik sem bara hvöttu mig áfram. Ég hafði síðan samband við Áslaugu Hauksdóttur ljósmóður sem sá um mig í mæðraverndinni, í fæðingunni og kom til okkar í heimaþjónustu. Þvílíkur munur að hafa alltaf sömu ljósmóðurina!

Nokkrum dögum áður en ég átti hafði ég fengið heiftarlega magapest með uppköstum og niðurgangi. Ég var komin með talsverðar áhyggjur og hringi í ljósmóðurina að kvöldi þriðjudaginn 16. mars. Hún sagði að það væri svo sem ekkert hægt að gera í þessu núna en hún myndi vera í sambandi við mig daginn eftir. Ég græt mig síðan í svefn þá nóttina, alveg að drepast í maganum! Morguninn eftir þegar strákurinn var kominn í leikskólann og kallinn í vinnu ætlaði ég síðan að fara bara að sofa aftur eins og venjan var flesta morgna, en það var bara svolítið erfitt :)

Um hálf 9 leitið morguninn 17. mars byrjaði ég að fá reglulega verki á svona 15 - 20 mínútna fresti sem vörðu í ca. mínútu. Ég þóttist vita hvað væri í gangi en reyndi bara að hvíla mig á milli hríða. Það gekk ekki að vera í rúminu, við erum með Tempur rúm sem laðar sig að líkamanum og jógastöðurnar voru ekki alveg að virka svoleiðis, svo ég fór fram í stofu með íþróttadýnu, sæng og kodda og reyndi að hvílast þannig. Það var bara ekki að gera sig og um tíu leitið hringi ég í Áslaugu og læt hana vita, hún segir mér að fara bara í bað og reyna að slaka svolítið á, þetta gæti tekið svolítinn tíma og ég þyrfti orku. Ég geri það en ég var samt svo spennt að ég ákveð stuttu seinna að hringja í Óla, sagði honum samt að hann þyrfti ekkert að flýta sér en hann kom síðan heim um klukkutíma síðar. Þá var sama staða á verkjunum og við horfðum bara saman á Gossip Girl og tókum bara smá stopp þegar hríðarnar komu.

Ég hafði keypt mér bolta á meðgöngunni því ég hafði heyrt svo mikið um hann í jóganu og það var líka eins gott því ég sat á honum á sama staðnum allann tímann þangað til ég fór í baðið! Við áttum enga skeiðklukku en mig rámaði eitthvað í netsíðu sem ég hafði heyrt minnst á í einhverri fæðingarsögunni, sló inn orðið "contractions" á google og fann þá síðuna www.contractionmaster.com og fylgdist þar með tíðni hríðanna. Þrátt fyrir að það væri nægur tími á milli hríða þá var ég ekki að ná að slaka á í hríðunum og mér fannst Óli hreint ekki vera að gera gagn! Hann kom mér bara til að hlægja þegar ég var að reyna að slaka á og það fór svo í taugarnar á mér..! Ég var farin að hugsa að ég vildi nú bara ekkert hafa hann til staðar ef hann ætlaði að láta svona og velti því fyrir mér hvernig ég færi að því að koma honum út úr eigin húsi svona rétt á meðan ég væri að eiga barnið! En það kom þó aldrei til þess sem betur fer. Hann hentist út í búð eftir helstu nauðsynjum og ég hringi í mömmu sem ætlaði að vera viðstödd og sjá um eldri strákinn okkar. Þau komu svo rúmlega þrjú og þá voru verkirnir orðnir reglulegir, á 5 - 7 mínútna fresti.

Ég sat bara á boltanum fyrir framan tölvuna, hélt í ofninn hægra megin við mig og í stól sem var vinstra megin, ýtti á "start" þegar hríðin byrjaði (á contractionmaster.com) og notaði haföndunina í hverri hríð. Reyndar dugði það mér ekki bara að hvísla, heldur byrjaði ég hríðina á hvísli sem endaði síðan í nokkurskonar söng, jafnvel öskri [tóndæmi hhhhhaaaaaaaAAAAAAAA] . Óli sagði einmitt að eftir á að hann hefði tekið eftir því þegar hann var að blása í fæðingarlaugina að ég hefði haldið sama tóni og loftdælan. Vegna fyrri reynslu af ógleði og uppköstum í síðustu fæðingu hafði ég fjárfest í piparmynntudropum sem ég setti í bómull og hafði í plastpoka og andaði þeim að mér eftir þörfum, en það sló á ógleðina og ég kastaði ekkert upp í þessari fæðingu. Um fjögur leitið voru verkirnir síðan orðnir mjög reglulegir, svo reglulegir að ég var hætt að fylgjast með á contractionsmaster.com.

Ég hringi í ljósmóðurina og hún kom síðan um fimm leitið. Hún spurði mig hvort hún ætti ekki að athuga útvíkkunina, en ég gat bara ekki hugsað mér að fara af boltanum og var heldur treg til. Hún lofar mér samt að hún yrði voðalega fljót að þessu. Þarna var Óli að mæla fyrir plastinu undir fæðingarlaugina MEÐ MÁLBANDI sem mér fannst alveg fáránlegt, mér var farið að lengja eftir baðinu og fannst þetta taka óratíma. Ljósmóðirin nappar mér svo upp í sófa til að athuga útvíkkunina, sem var þá komin upp í níu! Eins ánægð og ég var með að heyra það var nú samt varla komið vatn í laugina og verkirnir voru orðnir virkilega kröftugir.

Ég man eftir mér á boltanum haldandi í ofn og stól og hugsaði í hverri hríð "farvegur fyrir lífið". Ég fann þegar axlirnar voru orðnar stífar, þá hugsaði ég slaaaaka og slakaði á öxlunum, hálsinum og kjálkanum og sleikti varirnar. Ég hugsaði líka bara um þennan kraft sem er í okkur konum og ímyndaði mér sjálfa mig sem nokkurskonar hermann lífsins. Með baðið rétt botnfyllt fór ég þó ofan í það. Í fyrstu ætlaði ég eiginlega ekki að þora að rembast, en eftir smá hughreysting frá ljósmóðurinni ákvað ég að slá til. Ég man bara eftir því að hafa rembast, svo heyrðist eins og eitthvað hafi sprungið inn í mér og ég hélt að hausinn hafi skotist svona svakalega út, en þá hafði það verið legvatnið að fara. Höfuðið kom síðan í næstu hríð og þrátt fyrir að ljósmóðirin ráðlagði mér að slaka aðeins á þá var ég bara með svo kröftugar hríðar að ég gat ekki hugsað mér það og barnið kom í næstu hríð.

Ég var með lokuð augun og var hálf áttavillt, man að ég opnaði þau og sá strákinn fljóta í vatninu fyrir framan mig og var alveg smá tíma að fatta að taka hann upp! En það kom nú ekki að sök og hann fór beint í fangið á mér, en eins og síðast þá var naflastrengurinn mjög stuttur svo ég náði honum bara rétt upp að brjóstum. Á meðan þetta var að gerast var eldri strákurinn okkar hoppandi í sófanum og stuttu seinna kom síðan Arney ljósmóðir, en því miður náði hún ekki fæðingunni því þetta gerðist allt svo hratt. Óli klippti svo á naflastrenginn og fékk guttann í hendurnar og á meðan fór ég með ljósunum inn í herbergi þar sem ég var saumuð lítillega. Óli og mamma hjálpast svo að með eldri strákinn og að ganga frá eftir fæðinguna og Óli eldar svo pítsu sem við gæðum okkur á öll saman. Strákurinn er síðan vigtaður og mældur, en hann var 16 merkur 4040 grömm og 54 cm, töluvert stærri en bróðir hans sem hafði verið 12 merkur, 3060 grömm og 49,5cm!

Þrátt fyrir að hafa hugsað mér að hafa sem minnstan gestagang eftir fæðinguna og næstu daga á eftir þá leið mér bara svo vel að ég var alveg tilbúin til að fá gesti, svo við fáum ömmur, afa og bræður í smá heimsókn. Eftir að allir eru farnir og eldri strákurinn sofnaður tölum við Óli svo saman um þetta allt saman. Mér fannst svo merkilegt þegar ég spurði hann þá sagði hann að honum hafi fundist þessi fæðing vera miklu betri. Honum leið öruggari, var alveg rólegur og ekkert stress. Hann hafði líka meira hlutverk við að koma lauginni upp og ganga frá og svona. Honum fannst líka gott að vera búinn að mynda smá samband við ljósmóðurina og hann vissi að hann þekkti hana og gat treyst henni. Svo var hann heldur ekkert að fíla dvölina á Hreiðrinu seinast frekar en ég og fannst ekkert betra en að leggjast upp í sitt eigið rúm og þurfa ekki að keyra í stressi heim daginn eftir með sólahringsdaga gamalt barn.

Hann er líka alveg sammála mér að hefðum við vitað af heimafæðingu sem möguleika seinast þá hefðum við valið það og það lá við að það væri smá eftirsjá eftir þá fæðingu, þrátt fyrir að hún hefði gengið mjög vel og engar flækjur orðið.

Mér finnst að heimafæðing ætti að vera boðin upp sem raunhæfur valkostur fyrir fæðingu, að maður fái upplýsingar og lesefni um heimafæðingar í mæðraverndinni. Heimafæðingar eru eins og lokaður heimur sem þú þarft lykil til að komast inní. Ég þurfti sjálf að leita mér allra upplýsinga, en það hjálpaði mér mjög mikið þegar ég uppgötvaði heimafæðingarspjallið á www.natturuleg.net Þar eru heimafæðingasögur sem og almennt spjall og þar inni eru konur sem hafa gengið í gegnum þetta áður til að svara öllum spurningum og veita upplýsingar og deila visku sinni og fróðleik :) (Þar er líka taubleiuspjall og burðarspjall (sling, mei tai og allt þetta), með öllum nauðsynlegum upplýsingum um þá hluti).

Eftir fæðinguna líður mér svolítið eins og mér séu allir vegir færir, eins og ég hafi sigrað heiminn, eins og sjálfstraustið hafi hoppað upp um nokkur level! Svoleiðis óska ég öllum að líða eftir sína fæðingu, og það er ekki spurning, tímarnir í jóganu hjá Auði, OG SÉRSTAKLEGA PARAKVÖLDINU á ég allt að þakka :) Gangi ykkur öllum vel!

Kv. Ingibjörg

176 views0 comments
bottom of page