Þegar ég hugsa til baka var ansi langur aðdragandi að fæðingunni hjá mér. Það var svo skrítið að ég var snemma á meðgöngunni ansi viss um að ég myndi ganga fram yfir og var sátt við það. En svo var það ekki fyrr en á 37. viku að mér var farið að gruna að nú færi hann að láta sjá sig. Allt byrjaði þetta með þriggja vikna hreinsun á líkamanum mínum. Get ekki sagt að það hafi verið spennandi tímar með „gullfoss“ alla daga. Það var svo á annari vikunni sem ég var send uppá deild á föstudegi eftir viðkomu hjá lækni, samkvæmt ráðleggingu ljósmóður minnar og fékk þá næringu í æð. Það hressti mig yfir helgina. Á mánudeginum var svo sama sagan nema ekki með sömu magaverkjum.
Á þessum þremur vikum hafði ég fengið einn og einn fyrirfaraverk, frekar saklausa. Það var svo á miðvikudeginum 20. júlí sem mér datt það snjallræði í hug að stelast til að klippa eina vinkonu mína að norðan og hélt að ég hefði nú alveg orkuna í það :P Jæja hvað með það orkan entist yfir klippinguna með smávægum fyrirfaraverkjum. Eftir klippinguna var borðað gómsætt brunch. Síðan ákvað hluti af vinahópnum að rölta upp að Reynisvatni og sátum þar á bekk og spjölluðum þegar um kl.16 fæ ég þennan svaðalega fyrirfaraverk og herpist öll saman og vissi ekki alveg hvað væri að gerast. Sagði í gríni „jæja ætli ég eigi bara hér við vatnið“. Síðan var það ísbíltúr á Grensás í vesturbæjarísbúðina og einn risa bragðarefur plús litlir verkir inná milli. Kellann var því orðin mjög þreytt eftir þennan dag og lagði sig þegar heim var komið.
Nóttin var frekar köflótt og mikið vaknað eða á klukkutíma fresti, verkir, wc og drekka. Fimmtudagurinn fór í það að vera heima fyrir og fá mislanga og mismikla verki. Við höfðum samband við ljósurnar okkar og fengum að vita það að þetta væru bara fyrirfaraverkir sem gætu staðið í einhverja daga, vikur eða jafnvel allt blossað af stað. Ég var komin 38 vikur + 1 dag og var svona nokkuð viss að nú væri eitthvað að fara að gerast, en harkaði bara af mér daginn.
Ég lét systur mínar tvær og mömmu vita af verkjunum og fylgdust þær spenntar með og voru heldur betur duglegar að hringja og taka stöðuna. Fimmtudagurinn fór einsog áður sagði í skemmtilega verki allann daginn og nóttinn var ennþá erfiðari og tók á.
Það var svo um rúmlega 1 leitið sem það byrjaði að koma brún útferð og slím. (Já huggulegt er það ). Rúnar var alveg með þetta á hreinu og var viss um að nú væri slímtappinn að fara. Ég var sjálf ekki viss því ég átti von á honum öllum í einu, miðað við lýsingarnar sem ég hafði heyrt. Það hélt svo áfram að koma meira og meira og um 2-hálf 3 leitið ákváðum við að hringja í ljósurnar og ATH málið. Já Rúnar hafði víst rétt fyrir sér, þarna var slímtappinn að renna sér út í rólegheitum og tók sér tíma í það fram á morgun.
Föstudagurinn varð verri. Fleiri og örari verkir en óreglulegir. Við hringdum allavega tvisvar sinnum fyrripart dags í ljósurnar, sem fullvissuðu okkur um að þetta væru sennilega fyrirfaraverkir ennþá þar sem það væri ekki nógu stutt milli verkja.
Jæja ég náði að hvíla mig 2 x í klukkutíma yfir daginn (13-14 og 16-17) og duttu þá verkirnir niður. Þá varð ég fyrir smá vonbrigðum því báðu megin við þessa lúra voru verkirnir komnir í 7-5 min millibil og ég var orðin svo viss að nú væri ég komin af stað.
Það var svo um kvöldmataleytið sem ég var orðin mjög þreytt á þessum verkjum og byrjaði að verða flökurt. Systir mín hvatti mig til að fá ljósuna til að kíkja á mig, en ég var eitthvað svo efins um að þetta væri nokkuð og ég væri kannski bara að kvarta yfir einhverjum smávægum „fyrirvaraverkjum“. Ég hélt í mér til kl.19 að hringja og gafst þá upp og hringdi í Arneyju ljósu. Hún ákvað svo í lok símtalsins að líta aðeins á mig og jafnvel þá bara gefa mér verkjatöflur til að ná svefn yfir nóttina. Um leið og Arney kom inn föstudagskvöldið 22.júlí. Sat ég uppí sófa og var búin að vera að anda mig í gegnum verkina. Verkirnir voru nú örari og verri en áður og fóru fjölgandi. Arney fylgdist með mér, þegar ég hallaði mér framm í hundastellingu til að anda í gegnum verkina. Hún þreifaði fyrir samdráttunum í bumbunni og sagði svo að þetta væru nú bara hressilegar hríðar sem ég væri með og voru komnar allt niður í 4 min á milli.
Eftir ca. Þrjár hríðar ákvað hún að skoða mig betur og athuga hvort það væri einhver útvíkkun. Ég staulast inní rúm og fæ allavega eina hríða á leiðinni þangað og svo 2-3 áður en ég komst svo á bakið til að láta hana skoða mig.
„ÚTVÍKKUN 4 og við getum bara farið að pumpa í laugina!“ sagð Arney. Við Rúnar litum hissa á hvort annað og vorum ekki alveg að trúa okkar eyrum og hvað þá að bara allt væri að fara í gang og það núna!!! Hrafnhildur ljósa var akkurat að mæta á svæðið og fóru hún og Rúnar að græja til laugina og ég kom mér fram í sófa með hríðarnar reglulegar og virkilega sterkar.
Ég var með nokkrar hríðar uppí sófa þegar svo laugin var orðin tilbúin að þær buðu mér að fara ofaní þegar ég vildi. Ég þáði það fljótlega. Vá! Hvað ég var ekki að trúa því hvað það var gott að fara ofaní flottu fiskalaugina sem stóð þarna á stofugólfinu. Að hafa hríðar í vatni er himnaríki miðað við hríðar á þurru landi hehe. Þetta var virkilega þægilegt. Ég hafði ekki haft mikinn tíma til að taka til það sem ég var búin að ákveða að hafa fyrir fæðinguna og hvað þá skrifa lista fyrir Rúnar. En ótrúlegt hvað þessi maður þekkir mig og tekur eftir því sem ég tala um. Hann fór og kveikti á kertum í brennaranum okkar með Lavander olíu í og setti tónlistina á sem ég hafði verið búin að velja mér á meðgöngunni, dró fyrir gluggana og gerði þetta agalega rólegt og kósí fyrir okkur. Er svo þakklát fyrir þennan manni
Jæja þá fóru systir mín og mamma að mæta á svæðið og leystu Rúnar af til að hann gæti fengið sér að borða. Við höfðum ekki náð að borða mat þarna í þessu ástandi mínu og var því stoppað í miðju grilli og sem betur fer kom mamma með kjötsúpu og Rúnar fékk orku fyrir kvöldið. Ég hinsvegar hafði ekki mikla lyst nema á vatni.
Hríðarnar fóru versnandi og ég reyndi að hreyfa mig lítillega inná milli í lauginni sem var mjög þægilegt. Ég sem var búin að tala um á meðgöngunni að ég ætlaði að eiga heima, í vatni og á hækjum/hnjám mér. Heima var ég og í lauginni góðu en fljótlega í hríðunum var ég komin á hliðina ofan í laugina og hélt í þær hendur sem mér voru réttar hverju sinni. (Rúnar, mamma og systir.)
Elsta systir mín að vestan var akkúrat að keyra í bæinn þennan dag með fjölskyldu sinni þar sem við vorum boðin í fermingu á sunnudeginum. Ég hafði sagt við hana á fimmtudeginum þegar ég var að láta hana vita af verkjunum „já og svo ef ég fer af stað þegar þú ert í bænum þá verður þú bara með okkur öllum, verður svona mæðgnapartý“. Svo stóra systir hringdi spennt um kl.22 um kvöldið þegar hún var komin heim til hinnar systur minnar uppá Skaga og spurði hvort hún mætti koma. Ég var spurð leyfi í hríðunum og svarið hjá mér var “jájá“. Ég var spurð aftur og og sagt við mig að ég yrði að vera alveg viss. Ég sagði þá þreytt og ákveðið „Já ég var búin að segja henni það!“.
Jæja þarna fyrir miðnætti voru ljósurnar Arney og Hrafnhildur í rólegheitum í sófanum og fylgdust með. Rúnar og systur mínar báðar hjálpuðust að að halda í hendurnar á mér, önduðu í gegnum hríðarnar með mér, hvöttu mig áfram og knúsuðu mig og kysstu. Ég var með heilt stuðningslið á baki mér við laugarkantinn.
Það var alveg ótrúlegt hvað þetta var rólegt og þægilegt og mér leið vel á milli hríðanna og ekkert var óþægilegt. Nema kanski það eitt hvað hendurnar á systrum mínum voru litlar og mjúkar miðað við stóru og sterklegu hendurnar hans Rúnars, sem veittu mér mesta öryggið. Ég man undir lokin áður en rembingshríðarnar byjuðu sagði ég við Rúnar „ekki fara!“ og tók fastar í hendurnar hans.
Klukkan 2 um nóttina var orðið svakalega stutt á milli hríðanna og ég var komin yfir á bakið með hendur fyrir ofan haus, þegar allt í einu finnst mér einsog eitthvað sé að koma og það gjörsamlega springur eitthvað í klofinu á mér og ég lít niður og sé bara vatnsstrók einsog eftir tundruskeiti (svona einsog í bíómyndunum þegar kafbátar eru að skjóta sprengingum). Það var alveg hryllilega vont og ég var svo viss um að strákurinn hefði bara skotist út úr mér og ég man að ég spurði „er hann kominn?“ En þá hafði það bara verið vatnið að fara með svona svaðalegum krafti og látum. Vatnið var alveg tært og litli kútur haggaðist ekki og því fékk ég að liggja áfram.
Ég man að ég hugsaði nokkrum sinnum að nú myndu þær rífa mig upp úr lauginni eða nú myndu þær segja að við þyrftum að kíkja niðrá deild, en aldrei kom það. Á þessu stigi var ég líka farin að hugsa hvort ljósurnar væru nokkuð að gleyma mér og ætluðu ekki að gefa mér eitthvað eða bjóða mér nálastungu (þó svo ég hafi nú ekki verið spennt fyrir því). Ljósurnar sögðu mér svo eftir á að ég hefði sagt á því tímabili „Jæja stelpur nú verðiði að fara að gera eitthvað! Hehe og svörun sem ég fékk var það að ég væri alveg með þetta og þetta væri svo flott hjá mér og ég væri bara svo dugleg . En þessar hugsanir komu allar eftir kröftugar hríðar. Ég spurði nokkrum sinnum hvort þetta væri nú ekki að vera búið og alltaf fékk ég sama svarið „jú þetta er alveg að fara að koma, mundu bara að hver hríð færir þig nær barninu“ ég varð svo pirruð í eitt skiptið að ég svaraði „þið eruð búin að segja þetta svo oft!“
Svo bara til að fá viðbrögð hjá hinum þegar mér fannst stuðningsliðið vera að slaka á hvatningunni að ég bara gæti nú ekki meira og þetta væri ekki hægt þá fann ég hvað allir lifnuðu við á ný og þá gekk mér betur að fara í gegnum hríðarnar. Systir mín af Skaganum þurfti því miður að yfirgefa svæðið þar sem 8 mánaða dóttir hennar var ekki sátt við fjarveru hennar um nóttina og heimtaði brjóst. Hún varð svo sár og vonsvikin að missa af fæðingunni þar sem ég hafði beðið hana sérstaklega að vera viðstadda. En við tók hjá mér rembingshríðar. (Og já Ólafía mér var hugsað til þín og um tilfinninguna að nánast vera að æla með botninum!). Þetta er það magnaðasta fyrirbæri sem ég hef upplifað. Á þessum tímapunkti var ég liggjandi/fljótandi á bakinu í lauginni, með hendurnar uppréttar fyrir ofan haus og hélt föstu taki í Rúnar, sem reyndi hvað eftir annað að draga mig uppúr vatninu þar sem aðeins andlitið stóð uppúr. Ég heyrði nokkrum sinnum einhverja vera að spurja mig hvort ég vildi ekki breyta um stellingu því ég myndi sennilega verða frekar aum eftir þetta en ég neitaði og kom mér aftur fyrir ofan í vatnið með hausinn þar sem ég vildi vera í rembingshríðunum. Þar fyrir utan heyrði ég líka minna í sjálfri mér og öðrum og náði að tala við sjálfa mig í hausnum og reyndi að einbeita mér á að koma stráknum þarna út í gegn.
Vá hvað það var rosalegt að finna þrýstinginn frá hausnum á barninu í klofinu og mér leið einsog þetta væri nú bara ekki hægt að komast þarna í gegn, því ég myndi eflaust enda einsog illa sprengd naglasprunga og allt færi í drasl þarna niðri. Svo kom önnur hríðin á eftir annarri á þessu síðustu 45-30 min. Hausinn kom alltaf aðeins niður og svo aftur til baka og svo aðeins meira og aftur til baka. (2 skerf fram 1 afturábak). Úff nú var ég farin að búa til orkuna uppi í hausnum á mér og segja sjálfri mér og nota síðustu orkuna sem eftir væri til að koma honum þarna út. Hjartslátturinn hjá litla kút haggaðist ekki og allt leit vel út. Ég reyndi að anda eins djúpt og ég gat til að slaka á á milli hríðanna og náði að gleyma mér oggu stund.
Loksins kom hausinn!! OMG! Þetta var rosalegt, hann sat bara fastur þarna og ég átti að slaka á fyrir næstu hríð. Já sæll... Ég Sagði bara „þetta er svo vont!“ en samt alveg pollróleg miðað við aðstæður. Nú vildi ég ekkert meira en að losna við hann þarna út og næsta hríð kom og ég notaði alla orkuna að rembast og fann í 2 rembingunni og hann fór lengra og svo heyrði ég ofaní vatnið „Birgitta bara einu sinni enn!!“ og ég lét allt í eina rembingu og þá fann ég fyrir öllum líkama hans koma út í gegnum mig. Miðað við það sem við vorum búin að sjá og heyra um vatnsfæðingar um það að þau eru í vatni og koma í vatn og koma því rólegri í heiminn. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að hann spíttist í heiminn eða hvað það var þá brá okkur foreldrum hans mikið þegar það kom lítil hvít gargandi vera uppúr vatninu. Þetta var alveg ótrúlegt.
Á slaginu klukkan 3 mætti kúturinn okkar í heiminn. Í fyrstu skildi ég ekki alveg hvað þetta var því ég átti ekki von á þessum grát og ég fékk hann í fangið og vá einsog kveikt hafi verið á takka á mér þá fór ég að tala við hann og mér leið ekkert skringilega. Þetta varð allt svo eðlilegt fyrir mig og fannst bara best í heiminum að skoða þennan nýja einstakling og koma við hann. Besta tilfinning sem ekki er hægt að lýsa með orðum.
Hann kom beint á magann á mér og fór strax á brjóst og tók það svona svakalega vel. Hann var svo sterkur og flottur og gerði þetta allt svo vel.
Þá kom að því að pabbinn fékk að klippa á naflastrenginn (aðskildi okkur). Fékk hann svo í hendurnar og var hinn lukkulegasti.
Þá þurfti ég að koma aftur á jörðina og fann hvað ég var máttlaus og örmagna eftir öll átökin. Nú þurfti að fæða fylgjuna sem var bara ekki alveg að gera sig, því ég hafði hvorki orku né vilja til að koma henni út. Langaði ekkert að fara að fæða meira. Eftir dágóða stund í lauginni að reyna að fæða fylgjuna þar ákváðum við að kíkja á WC og sjá hvort hún myndi ekki bara koma á leiðinni þangað eða á baðherberginu. Ekkert gerðist og ég var ekki að nenna þessu. Þá var það næsta að koma sér uppí rúm og reyna að rembast þar, án árangurs. Þannig að samdráttarlyfi var sprautað í lærið á mér og svo hafðist það klukkutíma eftir að litli prinsinn okkar fæddist.
Ég hélt að þá væri nú ég búin en þá var það smá saumaskapur eða 2 spor sem þurfti að taka + það að deyfa þurfti fyrst. Jæja það hafðist svo fyrir rest og þá þurfti að þreifa fyrir leginu og sjá hvort það væri ekki á góðum stað, mér fannst það nú ekkert þægilegt en það kláraðist einsog allt hitt. Þá var það besta eftir. Litli duglegi strákurinn okkar fór á brjóst og sofnaði á milli mömmu og pabba. Ljósurnar kvöddu okkur svo um kl 6 um morguninn og við litla fjölskyldan sofnuðum hamingjusamari en nokkrum sinnum fyrr.
Takk fyrir okkur frábæru Ljósur Arney og Hrafnhildur þið eruð alveg yndislegar
Comments