Mig minnir að fyrsta ákvörðunin sem ég hafi tekið varðandi fæðingu frumburðarins hafi verið að ég skyldi eignast barnið á spítala en ekki heima. Þá var ég gengin nokkrar vikur og hafði rætt við vinkonu sem hafði ýmislegt við heimafæðingar að athuga. Hugmyndin um heimafæðingu kom svo ekki aftur upp fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Þá fór ég að vinna með konu sem var að kynna sér þennan möguleika. Ég hafði nánast ekkert pælt í meðgöngunni eða fæðingunni á þessum tímapunkti. Var bara upptekin við annað og fannst þetta allt frekar óáhugavert. Áhugaleysi mitt tengdist ekki meðgöngunni beint eða væntanlegu barni, heldur höfðaði hin almenna orðræða um barneignir ekki til mín. Það sem samstarfskona mína sagði mér af uppgötvunum sínum varðandi heimafæðingar og hugmyndafræðina þar að baki höfðaði hins vegar til mín. Ég áttaði mig á því að meðganga og fæðing eiga sér pólitíska hlið og áhugi minn vaknaði. Það reyndist lítið mál að fá Styrmi á mitt band.
Það eru áreiðanlega ótal ástæður að baki þess að konur velja heimafæðingu. Sumar eru hræddar við spítala, aðrar eiga erfiða fæðingarreynslu, enn aðrar eru einfaldlega hlynntar náttúrulegum aðferðum. Ég kann aftur á móti vel við hina feminísku pólitík heimafæðinga. Þá á ég við nálgunina á kvenlíkamann sem öflugan og eðlilegan, og áherslan á andlegan styrk hinnar fæðandi konu. Virðingunni fyrir heimili og maka og nándinni við ljósmæðurnar. Að mínu mati fólst í ákvörðuninni um heimafæðingu þörf á betri undirbúningi heldur ég hafði áætlað fyrir spítalafæðingu og meira sjálfstraust. Eftir á að hyggja er það ekki rökrétt. Það er alveg jafn mikilvægt að vera vel undirbúinn á spítalanum og gott sjálfstraust er alltaf nauðsynlegt. En svona blasti þetta við mér þá.
Með þetta í huga fór ég inn í fæðinguna. Ég hafði talið mér trú um að þetta myndi ganga vel og að við fjölskyldan værum tilbúin. Ég vann lengur en ég hafði áætlað og var á síðustu stundu með ýmsan undirbúning. Það hafði þó þau jákvæðu áhrif að ég varð að vera aðeins afslappaðri með þetta allt saman en ella. Ég hafði nokkrum sinnum hitt ljósurnar mínar þær Arneyju og Hrafnhildi, bæði heima og líka á námskeiðum hjá Björkinni. Við höfðum kynnst vel og rætt allt í þaula svo það ríkti fullkomið traust og ég hlakkaði til að hafa þær með í fæðingunni.
Daginn sem ég var gengin 39 vikur komu Hrafnhildur og Arney til mín og blésu upp fæðingarlaugina. Þá um morguninn hafði ég líka hitt ljósuna mína á heilsugæslunni og voru þær allar sammála um að ég væri orðin “fæðingarleg”. Ekki vissi ég hvað þær áttu við, en þær höfðu rétt fyrir sér því tveimur dögum síðar missti ég vatnið. Daginn áður höfðum við mamma bakað bökur til að setja í frystinn og við höfðum fyllt á matarvistirnar fyrir fyrstu dagana heima. Þá um kvöldið var ég ein heima og sagði við barnið að nú væri allt tilbúið, það mætti koma.
Morguninn eftir svaf ég út í fyrsta sinn í margar vikur. Ég hafði svo nýlokið við að borða morgunmat um klukkan ellefu þegar vatnið fór skyndilega. Það var ekki eins og ég hafði ímyndað mér. Ég sá fyrir mér vatnið dreytla rólega og hafði haft áhyggjur af því að verða þess ekki vör. Vatnið gossaði hins vegar út í þremur skömmtum, svo mikið að það komu pollar á gólfið. Ég hringdi undir eins í Styrmi og lét hann vita. Því næst hringdi ég í Arneyju og við ákváðum að þær Hrafnhildur kæmu klukkan tvö að skoða mig. Stuttu eftir að ég skellti á byrjaði fyrsta hríðin. Þá var klukkan langt gengin í tólf að hádegi.
Það var eðlilega mikill spenningur þegar Styrmir kom heim. Ég hafði lagt mig inn í rúm og hann tók til við að undirbúa fæðinguna. Eins og stormsveipur fór hann um íbúðina og setti upp bráðabirgðagardínur fyrir stofugluggann, plastaði pottinn, tók til og útbjó kjarnmikinn hádegismat fyrir komandi átök. Ég varð þess lítið vör, en áttaði mig á panikkinu sem hann var í þegar hann óð inn í fataskápinn þar sem við höfðum komið barnafötunum fyrir og spurði hvort það þyrfti ekki að pakka í tösku í snatri ef við skyldum enda uppi á spítala. Svo þreif hann föt á barnið og mig í miklum snarhasti, þrusaði í tösku og rauk aftur út. Þá hafði ég verið með væga, óreglulega samdrætti í tæpan klukkutíma og ekki á leiðinni neitt.
Ég reyndi að borða og hvíla mig eins og ég gat. Þannig leið dagurinn. Arney og Hrafnhildur skoðuðu mig og allt reyndist í góðu lagi. Mér þótti barnið hreyfa sig lítið en fósturhljóðin reyndust góð og engin ástæða til að óttast. Styrmir ýmist snattaðist í kringum mig með mat og drykk eða lá hjá mér og studdi mig í gegnum hríðarnar sem jukust í sífellu. Ég náði að borða smá kvöldmat áður en hríðarnar breyttust og komu nú með reglulegu og stuttu millibili. Þegar Hrafnhildur vitjaði okkar um níuleytið um kvöldið voru 3 - 4 mínútur á milli flestra hríða og ég þurfti að einbeita mér betur í gegnum þær. Mér leið best þegar ég stóð upprétt og hallaði mér að vegg eða sófa. Hrafnhildur sat hjá okkur í klukkutíma, mældi fósturhljóðin, og athugaði svo útvíkkunina sem reyndist vera tæplega tveir. Hrafnhildur fór svo aftur heim og leyfði okkur að vera einum í smá stund, en bjóst við að koma fljótt aftur.
Um ellefuleytið ákvað Styrmir að fylla pottinn. Mér þótti fínt að vera ein í smá stund. Ég lokaði mig af inni í svefnherbergi og slökkti ljósin. Svo gekk ég um í hríðunum og sönglaði mig í gegnum þær. Þegar ég þreyttist lagðist ég á grúfu í rúminu ofan haug sem ég hafði útbúið úr púðum og sænginni minni. Potturinn var svo tilbúinn rétt fyrir miðnætti. Hríðarnar voru orðnar harðar og það var mikill léttir að komast í pottinn. Þá slaknaði á hríðunum í stutta stund, sem var mjög velkomin hvíld, en þær hörðnuðu fljótt aftur og efldust enn. Á þeim tímapunkti hringdi Styrmir í Hrafnhildi og bað hana um að koma aftur yfir. Hún kom um klukkan hálf eitt og Arney nokkru síðar.
Það voru aðeins tveir tímar eftir af fæðingunni, en ég vissi það ekki þá. Ég var alveg sannfærð um að ég yrði að framundir morgunn og stóð ekki á sama þar sem hríðarnar voru orðnar harðar og erfiðar. Ég náði þó að anda mig vel í gegnum þær og hvíldist í pottinum á milli. En ljósurnar mínar vissu betur og sagði Styrmir mér eftir á að þegar Arney kom inn um dyrnar, í miðri hríð, hafði settist hún rólega í sófann og brosti breitt til Hrafnhildar. Þær vissu að það var ekki langt eftir.
Það kom mér á óvart hversu skýra hugsun ég hafði allan tímann. Ég hafði ímyndað mér sjálfa mig í einhverju móki - veit ekki hver vegna - en það var frekar eins og ég ynni á tveimur stöðvum. Löngu eftir að ég hvarf inn í mig og hætti að tjá mig við alla viðstadda var hugsunin mjög skýr og ég lét hugann reika á meðan á þessu stóð. Á hinni stöðinni voru frumkraftarnir sem stýrðu í fæðingunni - takturinn, hríðarnar og öndunin, því stýrði ég ekki sjálf.
Korter yfir eitt fann ég fyrst fyrir rembingsþörfinni. Þegar ég hugsa um rembinginn núna get ég ekki skilið hvernig hægt er að stýra þeirri þörf. Hljóðin sem fylgdu hafði ég aldrei heyrt. Ég var með sáran háls í nokkra daga á eftir! Ég heyrði út undan mér þegar Arney spurði Styrmi um handklæði fyrir barnið. Þá áttaði ég mig á því að þessu myndi senn ljúka og efldist öll við tilhugsunina. Eftir nokkra rembinga, um hálf tvö leytið, bað Hrafnhildur mig um að koma upp úr pottinum. Þá hafði hægt á hjartslætti barnsins í hríð og eftir hana. Það var víst inni í myndinni að flytja mig á spítala hefði ástandið varað lengur, en það vissi ég ekki þá. Til allra lukku dugði flutningurinn yfir í rúmið. Útvíkkunin kláraðist á meðan ég staulaðist yfir og hjartsláttur barnsins styrktist.
Flutningurinn yfir í rúmið bar svo brátt að, að ekki gafst tími til að setja plast yfir það. Ég man eftir að hafa hugsaði um það í hálfa sekúndu en staðið fyllilega á sama. Rembingurinn tók klukkutíma eftir að í rúmið var komið. Fyrst á hliðinni í faðmlögum við Styrmi og síðan á fjórum fótum með sængurnar okkar sem stuðning. Barnið fæddist svo rétt rúmlega hálf þrjú og rak upp skaðræðisöskur um leið. Mér dauðbrá. Ég átti ekki von á þessum látum. Það var samt gott að heyra í barninu. Ég snéri baki í þau öll en Hrafnhildur rétti mér barnið og ég settist niður til að virða það fyrir mér. Barnið mitt. Það var pakkað inn í handklæði og mændi á mig tveimur risastórum, möndlulaga augum. Í öllum æsingnum steingleymdum við að athuga kynið. Það skipti heldur engu máli. Það kom svo fljótlega í ljós að þetta var drengur, sem var enn eitt óvænt atvik. Það höfðu allir í kringum okkur verið sannfærðir um að ég gengi með stelpu, svo sannfærðir að ég var farin að trúa því sjálf. En þarna var hann, Bragi litli, svo smágerður, sléttur og fínn.
Fylgjan fæddist tuttugu mínútum síðar og þá tók við saumaskapur. Bragi hafði haft hönd undir kinn á leiðinni niður og úr varð spangarrifa neðst. Sárin voru lítil en leiðinleg og það var svartamyrkur úti svo það tók langan tíma að sauma. Það hafði allt gengið svo dásamlega vel fram að því, og ég var svo himinlifandi yfir því að vera komin með strákinn minn í fangið, að mér var alveg sama. Deyfingin fór og mér var líka alveg sama um það. Ég vildi bara klára þetta svo ég gæti komið honum á brjóstið, en það gekk ekki í þeirri stöðu sem ég lá í.
Þegar þessu var loksins lokið var hægt að mæla hann og athuga. Hann reyndist vera 2890 grömm og 49,5 cm. Hann var svo agnarsmár en eldhress, fékk 9 í apgar við 1 mínútu og 10 við 5 mínútur.
Styrmir hitaði upp böku fyrir okkur. Hann mataði mig inni í rúmi á meðan við störðum agndofa á barnið í fanginu mínu. Hrafnhildur og Arney fengu sér líka frammi í stofu. Svo var gengið frá og það var kominn morgunn þegar við loksins sofnuðum öll þrjú saman uppi í rúminu okkar. Það var mögnuð tilfinning að vakna aftur nokkrum klukkustundum síðar. Það eins og þegar maður var lítill að vakna á jóladagsmorgunn og mundi allt í einu eftir öllum gjöfunum sem maður hafði fengið kvöldið áður. Þarna lá hann bara steinsofandi á milli okkar í rúminu. Sama rúm í sömu íbúð, en alveg nýtt líf.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að heimafæðing var rétta leiðin fyrir okkur, þótt slíkt henti ekki öllum. Fæðingin gekk vel og varð að jákvæðri upplifun, ekki síst vegna þess að við töldum okkur örugg þar sem við vorum og höfðum aðstoð ljósmæðra sem við þekktum vel. Fyrir það erum við þakklát. Það er ánægjulegt að fleiri ljósmæður sinni nú heimafæðingum en áður og vonandi eflist sú starfsemi enn frekar. Það er mikilvægt að eiga eitthvert val.
Commentaires