top of page
Search

Fæðingarsaga Jennýjar


Þann 8. febrúar 2009 átti ég von á mínu öðru barni. Ég var búin að vera með samdrátta- og fyrirvaraverki í hátt á annan mánuð og daman verið skorðuð í 5 vikur svo þegar settur dagur rann upp var ég orðin nokkuð langeygð. En daman þurfti að punta sig aðeins betur og ákvað loks eftir fjörtíu og einnar viku meðgöngu að kíkja á heiminn. Laugardaginn 14. febrúar fór að bera á óreglulegum verkjum síðla dags og um níu leytið um kvöldið var ég orðin nokkuð spennt yfir verkjunum en þorði ekki að líta á klukkuna því ég óttaðist að sóttin myndi detta niður ef ég færi að mæna á klukkuna. Ég bað því manninn minn um að sjá um tímavörsluna. Verkirnir voru óreglulegir á 13-20 mínútna fresti og sumir sterkir og aðrir veikir. Ég hafði ætlað mér að eiga heima og upp úr ellefu trúðum við því loks að þetta væru hríðar en engir tálverkir. Við settum því drenginn í rúmið (uss – hann hafði fengið að vaka allt of lengi) og fórum að undirbúa rúmið og fæðingarlaugina.

Ég ákvað að eiga barnið heima þegar ég var komin tæpa sjö mánuði á leið. Þegar ég áttaði mig á þessum möguleika ræddi ég við Áslaugu Hauksdóttur heimafæðingaljósmóður. Hún hefur mjög mikla reynslu og ég fann það strax að við myndum vinna vel saman. Ég hafði meiri trú á að fæðingin gengi vel og ég myndi ná mér hraðar ef ég fengi að eiga barnið í rólegheitunum heima með aðeins fólk í kringum mig sem ég þekkti og treysti. Svona fannst mér ég líka eignast fæðinguna sem mitt verkefni sem ég þyrfti að klára og gott að vita að ég þyrfti að treysta á sjálfa mig í stað þess að leggja mig í hendur annarra.

En aftur að fæðingunni…milli 12 og tvö ágerðust hríðirnar frá 15mín niður í 7mín og klukkan 2 kom fyrsta hríðin þar sem voru aðeins 5 mín á milli. Ég ákvað að bíða ekki eftir 5 mínútna hríðarverkjum í klukkutíma heldur skipaði manninum mínum að hringja strax í Áslaugu ljósmóður. Þegar þarna var komið sögu notaði ég haföndunina og þriðja augað til þess að slaka á í gegnum verkina og fannst best að standa og helst hanga á manninum mínum. Á meðan við biðum eftir Áslaugu veðjuðum við um útvíkkunina, í bjartsýni minni sagði ég 7 og maðurinn minn sagði 3. Þegar Áslaug kom rétt fyrir hálf þrjú var ég komin með hríðar á 2-4 mínútna fresti og 9 í útvíkkun!

Við létum því strax renna í laugina og hringdum í Hildi ljósmóðurnema og mömmu, sem kom til að passa drenginn okkar. Ég fékk nokkrar nálar í bakið og eina á milli augnanna sem hjálpaði mér enn betur að slaka á en best var þó að komast í vatnið. Í lauginni fannst mér gott að standa á hækjum mér og hanga á manninum mínum sem sat í sófa við laugina. Útvíkkunin kláraðist fljótt en belgirnir voru enn heilir og því seig daman ekki niður í fæðingarveginn fyrr en klukkan fjögur, þá fór vatnið og í því helltist rembingsþörfin fyrir mig af miklum krafti.

Í rembinginum vildi ég rembast lítið til að byrja með svo vefirnir fengju að víkka hægt og rólega út, með fyrri fæðingarreynslu ofarlega í huga af því að bæði rifna og vera klippt. Hjartslátturinn hjá dömunni okkar var allan tímann mjög fínn, en eftir tæpa klukkustund voru hríðarnar hættar að hjálpa mér eins mikið, ég fékk alltaf bara tvær kröftugar, missti stundum aðeins af þeirri fyrstu, rembdist af krafti með annarri og svo var sú þriðja svo veikluleg að rembingurinn missti svolítið marks. Þá sagði Áslaug: “Jenný, ég veit þú vilt ekki heyra þetta en þú ættir að prófa að leggjast aftur”. Ég harðneitaði með fæðingu sonarins ofarlega í huga. Hún útskýrði þá fyrir mér að spöngin á mér væri mjög stíf og væntanlega þyrfti hún að klippa aðeins í hana til að ég kæmi henni út. Svo bætti hún við að hún gæti ekki deyft mig því ég væri í vatninu og á þessu augnabliki hljómaði mission-ið dálítið vonlaust. Hún sagðist þá ætla að klippa bara smá svo ég fyndi þetta og það var ekki vitund vond, svo ég var alveg; “þetta er ekkert vont, klipptu bara meira ” Mjög flott team work - hún klippti bara smá meira (1,5cm) og í næstu hríð kom hún heil út, klukkan 4:58 þann 15. febrúar. Við náðum henni aðeins hálfri upp úr vatninu því naflastrengurinn var bara 20cm! Áslaug klippti því strax á strenginn og ég fékk dömuna í fangið. Stóri bróðir var svo vakinn og þeir feðgar fengu að skoða dömuna á meðan fylgjan kom. Þetta var yndisleg reynsla og þó það hafi tekið á að rembast í um klukkustund þá efaðist ég aldrei um að mér tækist að klára þetta, enda með reynda ljósmóður mér við hlið.

Brynja Árnadóttir, 15. febrúar 2009, kl. 04:58, 53cm, 4030gr.

120 views0 comments
bottom of page