top of page
Search

Fæðingarsögur eða Hollywood

Updated: Sep 4, 2019

Svo lengi sem börn hafa fæðst hafa verið sagðar fæðingarsögur. Við segjum fæðingarsögur og við hlustum á þær. Það er mikilvægt að fæðingarsögur séu sagðar.

Fæðingar eru í eðli sínu einkamál og í þróuðum samfélögum eiga þær sér yfirleitt stað fyrir lokuðum dyrum, ýmist á sjúkrahúsum, fæðingarstofum eða inni á heimilum. Almenningur hefur alla jafna ekki tækifæri til að verða vitni að þessum merka atburði og því hvað fæðingarferlið er ótrúlega magnað og margbreytilegt. Frá því að fæðingar á sjúkrahúsum fór að fjölga á Íslandi eftir að Landspítalinn var opnaður 1931 varð alltaf sjaldgæfara og sjaldgæfara að fjölskyldur yrðu vitni að aðdraganda fæðingar, eðlilegu ferli fyrsta stigsins og hvað þá að sjá börnin koma í heiminn í fjölskyldurúminu, á stofugólfinu eða jafnvel uppi á eldhúsborði.Það er gott að setjast niður og skrifa fæðingasöguna sína, hjálpar okkur oft að melta og vinna úr reynslunni.

Fæðingarsögur eru því nauðsynleg viðbót við annars konar þekkingarmiðlun til að veita innsýn í þennan reynsluheim kvenna. Þessar sögur eru oftar en ekki eftirminnilegar, hlustandinn þekkir jafnvel söguhetjurnar og þá verður sagan enn áhrifaríkari.

Það getur verið flókið að finna sinn farveg í stafrænni veröld þar sem ofgnótt upplýsinga er fyrir hendi. Auðvelt er að finna alls konar frásagnir af fólki um allan heim sem býr við misjafnar aðstæður. Við verðum að taka ábyrgð á því sjálf hvað við veljum að hlusta á og lesa um. Verðum sjálf að skammta í okkur réttu sögurnar fyrir okkur og vera meðvituð um hvað er gagnlegt fyrir okkur og hvað ekki. Takið til ykkar það sem höfðar til ykkar.


Allar sögur eiga rétt á sér en alltaf þarf að sýna bæði söguhetjum og hlustendum virðingu. Ekki er til neitt rétt eða rangt við fæðingarupplifun, hún er bara upplifun hvers og eins. Flestir geta fundið einhverja jákvæða og lærdómsríka hlið á sinni fæðingu sem gaman er að deila með öðrum. Hlustendur geta setið eftir með lærdóm um kraft og getu líkama konunnar til að ala af sér barn, gildi stuðnings í fæðingu eða ráð varðandi slökun og öndun svo eitthvað sé nefnt. Munið svo að einn daginn verður ykkar fæðing líka saga. Einstök saga.


Bíómynda-fæðingar gefa mjög skakka mynd af eðlilegum fæðingum

Lestur fæðingasagna á meðgöngu getur verið hjálplegt til þess að fá tilfinningu fyrir eðlilegum gangi fæðinga sem er langt frá því sem oft má sjá í bíómyndum. Með því að lesa sögur er auðveldara að átta sig á því að fæstar fæðingar hefjast með því að vatnið fari með látum, í miðju matarboði og í kjölfarið hefjist svakalegur bílaeltingaleikur sem endar á sjúkrahúsi þar sem læknirinn er hetjan. Aftur á móti byrja flestar eðlilegar fæðingar með rólegum gangi, samdráttum sem koma og fara, grunur um að fæðing sé yfirvofandi kviknar og í lokin eru það foreldrarnir sem eru hetjurnar.


Barnsfæðingar hafa fylgt mannskepnunni alla tíð og verið samofnar menningu okkar og sögu. Konur hafa fætt börn og munu halda áfram að fæða börn. Ykkur finnst þetta eflaust augljósar staðreyndir en samt er gott að hafa þetta hugfast. Núna í augnablikinu eru mörg börn að fæðast. Á heimsvísu fæðast um 258 börn á mínútu, eða 4,3 á sekúndu. Konur upplifa fæðingar á ótal vegu og engar tvær eru eins. En allar hafa þær sögu að segja. Hlustum á þær. Hvetjið mæður ykkar, ömmur og frænkur til að segja ykkur sínar fæðingarsögur því þær eru fjársjóður sem okkur ber að varðveita.

491 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page