top of page
Search

Fæðingasaga Sunnu


Þann 28. september 2011 átti ég von á mínu þriðja barni og heimafæðing var sko ekkert sem ég hafði spáð út í eða nokkurn tíma hugsað um að gera. Fannst bara og finnst svo sem enn bara sjálfsagðasti hlutur að fæða á spítala. Þegar leið á meðgönguna og ég orðin það slæm af bakverkjum og grindargliðnun að ég gerði ekki mjög mikið fór ég að lesa og ein bókin sem ég las var Konur með einn í útvíkkun fá enga samúð. Í þeirri bók voru nokkrar sögur af heimafæðingum og heillaðist ég alveg af heimafæðingum. Ég fór strax og kynnti mér málið betur og komst að því að heimafæðing væri eitthvað sem mig langaði að gera. Þar sem báðar mínar fyrri fæðingar höfðu gengið vel fannst mér þetta ekkert nema eitthvað til að hlakka til og þar sem ég er ekkert sérstakalega hrifinn af spítölum fannst mér einmit tilvalið að geta bara verið heima í mínu umhverfi þar sem mér líður best. Maðurinn minn var hins vegar að eiga sitt fyrsta barn og ekkert alveg viss um hvað hann væri að fara út í og hafði smá áhyggjur af þessu öllu saman sérstaklega því sem viðkom öryggi míns og barnsins.

Ég hafði samband við hana Hrafnhildi hjá Björkinni og út frá því hittum við hana og Arney. Eftir að hafa hitt þær var bara ekkert aftur snúið, þær sannfærðu okkur bæði um að heimafæðing væri eitthvað sem við vildum.

Þar sem ég var eins og áður sagði orðin frekar slæm í grind og baki var ég ekkert sérstaklega þolinmóð að bíða eftir settum degi, hvað þá að fara kannski að ganga eitthvað framyfir. Hin börnin mín tvö hafa svona nokkurn veginn verið á tíma svo ég gerði ekki ráð fyrir öðru en að skvísan okkar myndi sýna sig í kringum settan dag.

Að morgni 29. september fór ég að hitta hana Steinunni ljósmóðurina mína í mæðraverndinni og vorum við báðar sammála að nú mætti hún bara fara að koma og ákvaðum við að hreyfa aðeins við belgnum. Ég var svo sem ekkert sérstaklega bjartsýn en var sko alveg til í að reyna, þar sem þolinmæði er ekki mín sterkasta hlið. Eftir það fór ég svo bara í hádegismat með Tommy og svo bara heim. Ég fann að ég væri með samdrætti en þeir voru svo sem ekkert meiri en ég hafð verið að finna síðan á 18. viku svo ég var ekkert að kippa mér upp við þá. Svona leið dagurinn, ekkert mikið að ske. Vinkona mín kom svo í heimsókn til mín seinni partinn og fannst henni nú ég vera orðin ansi fæðingarleg, ég var nú ekki sammála sagði henni bara að þetta væru þessir venjulegu samdrættir sem ég væri alltaf með þó innst inni vissi ég kannski betur, vildi bara ekki alveg viðurkenna það fyrir sjálfri mér :). Alveg greinilegt að ég var ekki alveg að trúa því að skvísan væri að koma þar sem ég keyrði son minn á fótboltaæfingu kl hálf átta um kvöldið með fínar hríðar, þurfti að vera anda mig vel í gegnum þær.

Ég var búin að láta Hrafnhildi vita að það væru einhverjir verkir í gangi og um hálfáttaleytið hringdi ég í hana aftur og bað þær um að koma til mín að kíkja á mig alla vega. Mér fannst nú réttast að hringja í Tommy þar sem hann var á æfingu og átti svo að fara á fund eftir hana og því ekkert von á honum heim fyrr en rúmlega níu, vildi hafa hann heima bara svona til öryggis. Þegar Tommy kom svo heim af æfingu kl rúmlega átta fannst mér svona öruggast um að biðja hann að hafa sundlaugina til og þess háttar.

Hrafnhildur og Arney voru mættar til okkar kl hálf níu, skoðuðu mig og var ég þá komin með 4 cm í útvíkkun. Eftir það gengu hlutirnir bara nokkuð hratt fyrir sig um hálf tíu var ég komin með nokkuð góða verki og stutt á milli, verkirnir fóru annsi mikið í bakið á mér. Hrafnhildur gaf mér nálar í bak, hendur og enni og hjálpaði það mikið til, ég átti líka 2 svona litla bolta með broddum út úr og var ég með þá í höndunum held ég bara næstum allt útvíkkunartímabilið, hjálpuðu ótrúlega mikið, kreisti þá fast í hverjum verk og einhvern veginn hjálpaði það að halda einbeitingunni. Rétt um tíu var svo loksins búið að fylla laugina og þvílík sæla að vera í vatninu, ótrúlegt hvað vatnið getur hjálpað manni við slökun og náði ég ágætri slökun milli verkja, gat andað mig vel í gegnum verkina en ég fann fyrir talsverði klígju en ældi samt aldrei.

Þegar ég hugsa til baka um þetta allt og að geta verið svona í vatninu heima á stofugólfinu, Tommy hjá mér og með Hrafnhildi og Arney var ég fullkomlega róleg fann aldrei þörf hjá mér að fara á spítalann eða þurfa á einhverju meira að halda heldur en ákkúrat þessum aðstæðum sem ég var þarna í, ég var alltaf að tala við hana í huganum, dóttur okkar það er að segja og var að segja henni hvað okkur hlakkaði til að fá að sjá hana og hvað hún væri velkomin til okkar og í sameiningu gætum við þetta, vorum nú búin að ganga í gegnum ýmislegt til að fá hana hérna í heiminn og hlökkuðum mikið til að hitta hana loksins. Rétt fyrir miðnætti fór ég upp úr vatninu til að fara á wc var ég þá komin með annsi harða verki, þegar ég settist á klósettið kom verkur og vatnið fór, alveg að passa mig á sóðaskapnum :) ekkert verið að missa vatnið á gólfið neitt. Eftir það hörðnuðu ískyggilega verkirnir og fannst mér að ég þyrfti að rembast. Man að ég hugsaði, verð að komast fram, ætla ekki að eiga hana hérna á klósettinu, með einhverju móti gat ég staulast fram og sagði þeim að nú væri hún að koma. Ég tók þá ákvörðun að fara ekki aftur í vatnið heldur langaði mig að komast upp í mitt rúm og vera þar en þarna var ég farinn að rembast og var nokkuð ljóst að ég var ekki að fara staulast upp á aðra hæð. Við eigum svona bolta eins og notaður er í leikfimi, ég lagðist á hann og fór niður á hnén Tommy var fyrir framan mig og hélt í mig, held að ég hafi kreist hann all svakalega :).

Svo mátti ég byrja að rembast, þarna var klukkan nokkrar mínútur í miðnætti og ákvaðum við að hringja í klukkuna til að vera alveg viss um hvort hún væri ekki rétt eða Arney hringdi í klukkuna :) Held að það hafi verið fjórir eða fimm rembingar áður en hún fæddist og kom hún 00:06 svo það var kominn 30. September. Ég mundi það ekki fyrr en eftir á þegar Hrafnhildur sagði mér það að rétt áður en hún fæddist kysstumst við Tommy og í næsta rembing eftir það kom hún. Yndisleg tilfinning að fá hana í fangið á okkur sitjandi á stofugólfinu saman ótrúleg upplifun alveg hreint og sátum við þar saman í dágóðan tíma öll að skoða hvort annað. Við færðum okkur svo upp í rúm og hélt ég á snúllunni þar sem fylgjan var ekki komin og þar að leiðandi ekki búið að skilja á milli og gat ég ekki annað en hlegið þegar ég var að fara upp stigann með naflastrenginn milli lappanna og sagði við þau að þetta væri sko ekki eitthvað sem maður gerði á hverjum degi. Rúmum hálftíma seinna kom svo fylgjan og fékk Tommy að skilja á milli. Stóra systir var svo mætt á svæðið ásamt systur minni rétt fyrir eitt og var stóra systirin ekkert smá stolt að fá að vera með þegar verið var að vigta og mæla, unglingurinn minn hins vegar svaf þetta bara allt af sér og mætti bara um morguninn að kíkja á litlu systur sína.

Það sem situr eftir hjá mér við þessa fæðingu er það hversu yndislegt það var að vera heima í mínu umhverfi, allt svo rólegt og yfirvegað, Tommy var meira segja hinn rólegasti eins og hann hafi gert þetta nokkrum sinnum áður, mér fannst ég algerlega örugg allann tímann, að geta farið beint upp í mitt rúm með Tommy og snúlluna okkar var æðislegt. Þær Hrafnhildur og Arney eru yndislegar og er ég ótrúlega þakklát að hafa kynnst þeim og hafa haft þær hjá mér, ég segi bara takk því þær hjálpuðu mér að gera þessa tilfinningu og minningu enn betri, ég fékk alveg að stjórna hlutunum þær voru hérna til staðar fyrir mig ef ég þurfti. Algerlega yndislegt. Þó svo að verkirnir hafi verið þó nokkrir réð ég bara nokkuð vel við þá með önduninni, nálunum, vatninu og boltunum mínum sem ég var með í sitthvorri hendi og kreisti í hverjum verk. Kom aldrei sú hugsun hjá mér að nú þyrfti ég einhver verkjalyf.

Eftir svona upplifun finnst manni maður geta allt og er ég hreinlega enn í skýjunum og allt hefur gengið mjög vel með litlu snúlluna okkar. Ég get hiklaust mælt með heimafæðingu fyrir þær konur sem geta hugsað sér það. Upplifunin er yndisleg. Ef við ákveðum að eignast annað barn verður heimafæðing alveg pottþétt fyrir valinu aftur. :)

Bestu Kveðjur Sunna og Tommy.

222 views0 comments
bottom of page