top of page
Search

Fæðingasaga


Fimmtudaginn 9. febrúar var ég gengin 39 vikur og orðin virkilega spennt fyrir komu frumburðs míns. Ég var búin að vera veik alla 38. vikuna og gerði samkomulag við bumbukrílið að það myndi ekki koma fyrr en ég væri búin að ná mér. Ég var loks orðin hress á fimmtudeginum og fór með systur minni í Smáralindina og keypti hitt og þetta sem ég vildi hafa tilbúið, en ég var ekkert að gera mér vonir um að barnið kæmi neitt fyrr en í fyrsta lagi á settum degi. Systir mín gekk nákvæmlega 38+6 með báða strákana sína, svo hún var alveg farin að tala um að þetta færi að gerast, svona þar sem við erum nokkuð líkar. Um kvöldið áttum við Gúndi svo yndislega stund með bumbunni. Spjölluðum við krílið og strukum bumbunni og ég fann að ég var mun viðkvæmari í brjóstunum en ég hafði áður verið.

Um nóttina vaknaði ég svo rétt uppúr klukkan fimm til að pissa, og það læddist strax að mér sá grunur kraftaverkið mitt væri á leiðinni. Ég fann fyrir léttum samdráttarverkjum og mér fannst líka eins og útferðin hjá mér væri öðruvísi, miklu þynnri. Þegar ég lagðist aftur uppí rúm náði ég ekkert að sofna, samdrættirnir komu og fóru með reglulegu millibili, svo ég byrjaði að taka tímann. Þegar ég byrjaði að tímasetja urðu verkirnir kröftugri og ég ákvað að æfa mig að anda í gegnum þá. Ég andaði haföndunina góðu og það styttist á milli um eina mínútu með hverjum verk. Fyrst voru 8 mín, svo 7, 6, 5, 4, 3, 2 og hálf og ég var strax komin niður í 2 mínútur á milli og farin að láta heyra í mér.

Ég hafði enn ekki vakið Gúnda, hafði sjálf strokið mjóbakið á mér hring eftir hring í verkjunum, en þarna ákvað ég að vekja hann og senda hann fram í eldhús að sækja eitthvað handa mér að borða. Ég hugsaði nefnilega að ef þetta væri að gerast, þá þyrfti ég að borða eitthvað. Hann var ekki alveg á því að vakna, en fór fram í eldhús í leiðslu og snérist í hringi í leit eftir rúsínunum :) Ég hámaði í mig jógúrt með rúsínum og kornflögum, og lagðist strax niður aftur. Þá voru verkirnir orðnir harðari og ég farin að láta enn meira í mér heyra og stundi í gegnum þá. Mér fannst ég þurfa að nota röddina. Gúndi strauk þá á mér bakið í hringi, eins og ég hafði gert áður og ég strauk bumbunni, líka í hringi. Stundum fannst mér gott að halda undir bumbuna og nudda barninu hálfpartin í hringi. Þá þurfti ég skyndilega að fara á klósettið og var það greinilega úthreynsun sem átti sér stað. Ég kófsvitnaði og var orðið verulega flökurt. Ég ákvað þá að fara í sturtu þar sem mér líður svo vel yfirleitt í sturtu, en mér þótti mjög vont að standa og þurfti helst að halla mér aftur. Gúndi hringdi í Hrafnhildi heimaljósmóðirina okkar og sagði að þetta gæti bara allt verið að fara að gerast. Hún sagðist ætla að fá sér morgunmat og koma svo til okkar. Við Gúndi höfðum ekki enn keypt byggingarplastið sem sett er í laugina, svo við hringdum í mömmu og báðum hana að skjótast í BYKO fyrir okkur.

Hrafnhildur mætti kl. 9 og þá var ég komin með góðar hríðar, 2 mín á milli. Hún þreyfaði á kúlunni til að athuga hvort barnið væri ekki örugglega vel skorðað, fylgdist með nokkrum hríðum hjá mér og hlustaði á hjartsláttinn í barninu. Hún spurði mig svo hvort ég vildi að hún myndi skoða leghálsinn og ég þáði það eftir smá umhugsun þar sem ég hafði hugsað mér að láta athuga útvíkkunina sem allra minnst. Kom í ljós að ég var með tvo í útvíkkun, svo okkur þótti mjög líklegt að þetta væri allt saman komið af stað. Ég átti nokkuð erfitt með að ná tökum á hafönduninni í hríðunum, en gaf frekar frá mér langt aaaaa... með rödd. Hrafnhildur minnti mig þá á purrið, sem ég notaði alveg uppúr því. Hún ákvað að láta okkur í friði í bili og sagði okkur að hringja þegar þetta væri farið að breytast.

Ég lá í rúminu upp við gluggann, sem var opinn og fann svo vel fyrir veðrinu og heyrði í þröstum syngja fyrir utan gluggann og það hjálpaði mér að slaka á. Ég ákvað að fara á klósettið og þurfti Gúnda til að hjálpa mér, þar sem hríðarnar voru orðnar nokkuð harðar. Mér fannst alveg hræðilegt að þurfa að setjast svona niður en það var greinilegt að slímtappinn væri kominn. Ég reyndi að flýta mér aftur uppí rúm, en fékk eina hríð áður en ég komst alla leið og þurfti þá að halla mér aftur og leggja mig í faðminn á Gúnda. Hann hélt mér á meðan á henni stóð.

Mamma kom með plastið um kl. 11, hjálpaði okkur að pumpa upp laugina, sem var mjög kærkomið, þar sem ég vildi hafa Gúnda hjá mér. Nærvera hans skipti mig mjög miklu máli, hann strauk mér, kyssti og hvatti svo innilega. En þegar mamma fór þá stökk Gúndi fram, skellti plastinu í laugina og byrjaði að láta renna í.

Ég fór ofan í laugina kl. 13 og þá fór allt að gerast mjög hratt. Það var ein mínúta á milli hríða og ég tók mér nokkrar hríðar til að finna sem besta stellingu, sem var mjög erfitt. Ég gat alls ekki hugsað mér að snúa með kúluna niður, svo ég endaði á að liggja flöt í lauginni með höfuð og hendur uppá bakkanum. Gúndi sat á jógaboltanum við bakkann og hélt mér uppi, með sínar hendur undir mínum og hvatti mig áfram. Hrafnhildur og Arney, ljósmæðurnar okkar, komu um kl. 13:30 og voru mjög ánægðar að sjá hvað fór vel um mig og hversu vel þetta gengi. Þær tóku blóðþrýstinginn, hlustuðu eftir hjartslætti barnsins, en leyfðu mér svo bara halda áfram að vinna mig í gegnum hríðarnar. Mér þótti mjög óþægilegt ef það var talað meðan ég var í hríðum, svo ég bað alla um að virða það, sem var nú lítið mál. Ég vildi enga tónlist, ekkert lavander sprey eða kertaljós. Ég þurfti bara að fá að einbeita mér. Í hverri hríð purraði ég eins löngu purri og ég gat. Ég áttaði mig fljótt á því að ég var að spenna í purrinu, og fór að hreyfa höfuðið til hægri og vinstri í takt á meðan til að losa um kjálkann. Þá var það alveg komið, ég hafði fundið mitt tempó. Svona fór ég í gegnum hríðarnar og ég leyfði mér lang oftast að sóna út á milli til að ná sem bestri slökun. Þá stundi ég kannski aðeins og reyndi svo að anda djúpt og rólega þar til næsta hríð kom. Ég tók mjög vel eftir veðrinu þar sem ég lá við opna svalahurðina og það var þetta yndislega týpíska íslenska leysinga veður. Glampandi sól, svo rigning, svo rok, stormur, él, snjókoma, meiri sól og það róaði mig mikið að fylgjast með þessum veðraskiptum.

Það fóru milljón hugsanir í gegnum kollinn á mér í hríðunum, allt frá því að hugsa, “ég er hætt við”, út í að reyna að hugsa um gyðjuna í mér, allar hinar konurnar sem voru með mér í þessu og auðvitað barnið og hversu stutt væri í að það kæmi í heiminn. Ég stóð mig að því að hugsa einu sinni “nei”, en það varð til þess að ég píndi mig til að hugsa “já” í næstu hríðum og “takk” og það breytti ótrúlega miklu. Þegar komið var að lokahnikknum í útvíkkuninni fann ég fyrir þeirri tilfinningu sem ég hafði heyrt oft lýst; hríðar og rembingar til skiptist og bæði í einu og ég vildi þá hætta við þetta allt saman. Ég hélt ég gæti ekki meira. En hafandi heyrt að það væri besta vísbendingin um þetta væri að klárast og rembingurinn að byrja, herti ég mig upp og þrátt fyrir yfirþyrmandi tilfinningar á öllum stigum, kom ég mér í gegnum það á hærra og kröftugara purri. Þegar þessar svakalegu hríðar breyttust meira í rembing fann ég að ég þyrfti að leyfa þyngdaraflinu að vinna með mér, svo ég fór upp á hnéin og tók utanum Gúnda. Ég hafði verið svo einbeitt og út úr heiminum að það var yndislegt að sjá framan í hann. Sjá hvað hann var stoltur af mér og við kysstumst lengi og innilega.

Höfuðið á barninu mjakaði sér hægt og þétt niður í grindina og mér þótti rembingarinir þægilegir á meðan höfuðið var ekki komið alveg niður. Hrafnhildur og Arney sögðu að ég ætti að geta fundið kollinn og það var rétt hjá þeim og ég fann fyrir kollinum sem var stórkostlegt. Það gaf mér mikinn kraft. Gúndi þreyfaði svo líka á kollinum nokkrum hríðum seinna og þá var hann kominn tiltölulega mikið neðar. Loks var kollurinn kominn alveg niður í grindina og fannst mér þá svolítið eins og grindin væri að springa. Þá steig ég í aðra löppina, svona hálf-frosk, í rembingunum og lét hana svo ligga alveg flata á milli rembinganna. Hvíldirnar voru þá orðnar erfiðari en hríðarnar. Í hvíldunum var svo gríðarlega mikill þrýstingur að ég náði lítið sem ekkert að stjórna önduninni og slaka. En ég mundi þá eftir öndun sem ég las um í Hypnobirthing, sem kallast “J” öndun, sem er kröftug innöndun með útöndun niður eftir líkamanum sem endar frammi, eins og J. Svo ég var í rauninni ekki alveg að hvíla á milli rembinga heldur að reyna að anda höfðinu lengra niður, líka á milli hríðanna.

Hrafnhildur og Arney fór að lengja eftir að kollurinn kæmi betur niður og voru mikið að hlusta eftir hjartslættinum í barninu, sem var alveg pollrólegur. Þarna gekk þetta svoldið hægt, sérstaklega í samanburði við hvað allt annað hafði gengið rosalega hratt. Þær stungu upp á að ég myndi skipta um stellingu og ég lagðist á hliðina og spyrnti öðrum fætinum í Arneyju á meðan Hrafnhildur hélt við spöngina. Ég fór þá að finna mikinn sviða og leið eins og ég væri að rifna, sem þær fullvissuðu mig um að væri bara eðlilegt og þýddi alls ekki að ég væri að rifna neitt. Loks kom kollurinn í þriðju hríð eða svo, og þvílíkur léttir! Mér fannst ég fá alveg ótrúlega langa hvíld eftir að kollurinn kom út, sem ég tók fagnandi með óþreyju blandi. Nú langði mig að fá barnið mitt. Þetta voru alveg magnaðar mínútur og Gúndi kyssti mig djúpt og innilega. Búkurinn kom í næstu hríð og Hrafnhildur færði barnið uppá brjóst til mín. Við Gúndi grétum af gleði og litla krílið horfði á okkur með galopin augun og tók sér góðan tíma áður en það byrjaði að gráta. Þá datt okkur fyrst í hug að athuga hvort þetta væri strákur eða stelpa. Það var strákur og litla fjölskyldan hélt áfram að gráta í kór. Við lágum öll saman að dást að hvoru öðru í tíu mínútur eða svo, þar til ég ákvað að ég vildi fara uppí rúm.


Arney og Hrafnhildur hjálpuðu mér að standa upp og fara með hann inní rúm, við tvö enn tengd saman. Við lögðumst útaf og settum hann á brjóst, sem hann tók alveg um leið og fór að sjúga af krafti. Þetta setti samdrættina af stað aftur, ég fæddi fylgjuna mjög mjúklega og mikið var það þægilegt. Gúndi fékk að klippa á naflastrenginn og Hrafnhildur sýndi okkur fylgjuna sem var alveg mögnuð. Ljósmæðurnar fóru fram að ganga frá og við litla fjölskylda fengum að dást að hvoru öðru í sæluvímu í dágóðan tíma. Þær skoðuðu mig og þá leit allt svona líka ótrúlega vel út. Spöngin var alveg heil og þurfti bara rétt aðeins að sauma yfirborðssár, sem var reyndar bara með því sárasta í þessu öllu. Nýbakaðar mömmur hafa ekki mikið þol fyrir að láta stinga í sig nálum. Eftir saumaskapinn var litli maðurinn veginn, metinn og mældur, 3.260 gr. og 49 cm. Ljósmæðurnar voru alveg ótrúlega stoltar af drengnum, mömmunni og pabbanum, og hrósuðu okkur í bak og fyrir, fyrir stórkostlega vel heppnaða fæðingu. Þær sögðu að fólk eins og við ættum að gera þetta miklu oftar og hlógu.

Nú er litli drauma drengurinn okkar fimm daga gamall og hann sefur eins og engill, drekkur eins og höfðingi og leyfir foreldrum sínum að gleðjast eins og á jólunum í hvert skipti sem þau skipta á honum. Við nýbökuðu foreldrarnir erum alveg hjartanlega sammála um að það að hafa valið að eiga heima hafi verið ein af bestu ákvörðunum lífs okkar. Ég er staðráðin í því að allt hafi gengið svona vel þar sem ég fékk að fæða í mínu umhverfi á mínum forsendum með þann stuðning sem ég valdi mér.

174 views0 comments
bottom of page