top of page
Search

Rólindisprinsinn


Við Svenni komumst að því að við ættum von á öðru barni og ég var sett 25. feb. 2011. Kolbrún yrði stóra systir rétt fyrir tveggja ára afmælið sitt. Meðgangan gekk vel, ég var í mæðravernd hjá Áslaugu ljósmóður og hún ætlaði að taka á móti hjá okkur, við stefndum að heimafæðingu alveg eins og með Kolbrúnu. Meðgangan gekk mjög vel og ég skráði mig í meðgöngujóga hjá Auði og hypnobirthing námskeiðið hjá mömmu. Ég fann á mér frá byrjun að ég gengi með strák og það kom líka í ljós í 20 vikna sónar, ég grét í sónarnum þegar við sáum það, ég var svo hrærð og hamingjusöm.

Þegar ég var komin 36 vikur þá sagði Áslaug mér að hún yrði að hætta og benti mér á að tala við Hrafnhildi og Arneyju í Björkinni. Ég verð að viðurkenna að mér leið eins og fótunum hefði verið kippt undan mér og mér fannst erfitt að þurfa að gera nýtt plan þegar það var svona stutt eftir af meðgöngunni. Ég fann líka ótta koma upp í mér sem fylgdi mér frá síðustu fæðingu, því þó hún hafi gengið ágætlega þá kom dóttir mín í framhöfuðstöðu og fæðingin var mun erfiðari en ég hafði átt von á, satt að segja var sú fæðing það erfiðasta og mest krefjandi sem ég hef upplifað. Ég fékk dálítinn panikk yfir því að þetta barn kæmi líka skakkt niður og ég þyrfti að ganga í gegnum þetta aftur. Við hittum Hrafnhildi og Arneyju og ég fann strax að mér leið vel í návist þeirra og fannst auðvelt að tala við þær um allt sem mér bjó í brjósti varðandi fæðinguna. Eftir hittinginn þá leið mér eins og guð væri að leiða mig þennan veg og ég ætti að treysta því að þetta færi allt saman vel. Mér fannst líka gott hvað þær væru ungar og ferskar í fræðunum.

Ég æfði mig heima í dáleiðslunni og fannst æðislegt á námskeiðinu. Einn tíminn fór í að takast á við ótta og ég gerði æfinguna út frá óttanum við framhöfuðstöðu. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en einhverju seinna að óttinn var horfinn, svona virkar undirmeðvitundin sterkt!

En nú tók við hvert krefjandi verkefnið á fætur öðru því ég fékk ljóta pest sem lýsti sér þannig að ég fann til í hverjum einasta vöðva líkamans, mér leið eins og gamalmenni með risa bumbu. Ég fór í tjékk upp á spítala en ekkert kom út úr því, svona var ég í viku en þá fór mér að líða betur, svo fékk ég kvefpest og kvefpest ofan á hana og þar fram eftir götunum. Nú var ég komin á tíma og var með hita, hósta og algerlega stífluð. Hrafnhildur varaði mig við að ef fæðingin færi í gang núna þá ætti ég að eiga upp á spítala því það væri ekki ráðlegt að fæða heima með hita. Ég var svo svekkt eftir símtalið að ég bara grét og skildi ekki hvernig ég gat verið svona óheppin. Ég reyndi að taka því rólega og Svenni sá um Kolbrúnu til þess að ég gæti hvílst og dagarnir liðu án þess að nokkuð bólaði á fæðingu.

Þegar ég var komin 41 viku og enn lasinn hringdi ég vonlaus og grátandi í mömmu sem talaði við fæðingarlækni sem ráðlagði mér að fara á sýklalyf til að reyna að vinna á þessum pestum. Nú loksins fór mér að batna og gat ekki beðið eftir að fæðingin færi í gang en ég var líka þakklát þessum litla rólyndisprinsi í maganum á mér að leyfa mér að ná heilsu fyrir fæðinguna. Kolbrún kom degi fyrir settann dag og því var þetta ný reynsla fyrir mér að ganga svona fram yfir tíma. Mér leið eins og tímasprengju því með hverjum deginum dróst ég nær möguleikanum að ég yrði gangsett upp á spítala. En það var dáldið langt frá mínum óskum um náttúrulega heimafæðingu með ljósunum mínum, sem ég var búin að kynnast vel og stóðu vel við bakið á mér í þessum veikindum.

Ég yrði komin 42 vikur á föstudeginum og á þriðjudeginum kom Áslaug ljósmóðir heim og gaf mér nálarstungur, daginn eftir ákváðum við að hreyfa við belgnum. Mér fannst það ekki auðveld ákörðun því ég hafði áhyggjur að það kæmi gat á belginn og eins að mér þætti það vont. Það voru hins vegar óþarfa áhyggjur. Þegar Hrafnhildur hreyfði við fann hún að ég var komin með 3 í útvíkkun og mjúkan legháls. Ég hafði verið að fá samdrætti af og til sem duttu aftur niður en augljóslega voru þeir að gera sitt gagn sem var hughreystandi. Á þessum tíma reyndi ég hinar ýmsu aðferðir til að koma fæðingunni af stað. Ég bar Clary Sage olíu á bumbuna, fór í langa göngutúra, dansaði, stundaði kynlíf, tók hómópata lyf, fékk dáleiðslu og drakk Hindberjalaufste og reyndi af fremsta megni að vera æðrulaus gagnvart spítalafæðingu. Nú var komin fimmtudagur og ég átti pantaðan tíma í monitor og sónar upp á kvennadeild daginn eftir og búið var að senda inn beiðni fyrir gangsetningu eftir helgina. Ég sótti dóttur mína í leikskólann og fór með hana í barnaafmæli, húsið var á tveimur hæðum og snarbrattur stígi á milli hæða, dóttir mín gat ekki ákveðið sig hvort hún vildi vera uppi eða niðri þannig ég var allt afmælið að elta hana í stiganum. Ég var algerlega uppgefin þegar við komum heim og hlammaði mér í sófann, þá komu reglulegir samdrættir í rúmlega klukkutíma og ég þorði ekki að hreyfa mig því ég var svo hrædd um að þeir dyttu niður, en svo róaðist allt á ný og við fjölskyldan háttuðum okkur fyrir svefninn.

Kl 04 um nóttina vaknaði ég hins vegar og fór á klósettið, ég fattaði strax að líkaminn minn væri að hreinsa sig og lagðist spennt aftur upp í rúm, nú fann ég samdrætti af og til og sofnaði út frá þeim. Klukkutíma seinna vaknaði ég aftur og fann að þeir voru orðin reglulegir þannig að ég settist á jógaboltann fyrir framan tölvuna og tók tímann milli samdráttanna. Þeir voru mjög reglulegir og stutt á milli og ég sá það að nú var þetta loksins að byrja, ég andaði mig í gegnum samdrættina sem breyttust fljótlega í hríðar og ég vakti Svenna og bað hann að blása í laugina og hringdi síðan í ljósurnar mínar. Ég sagði Hrafnhildi frá stöðunni og að þær mættu bara koma svona í rólegheitunum. Svenni blés í laugina og byrjaði að þrífa eldhúsið og taka til í íbúðinni. Auður talaði stundum í jógatímum um að fagna hverri hríð því hún færir okkur nær barninu, eftir að hafa beðið svona lengi eftir að fæðingin færi í gang þá fagnaði ég sannarlega hverri hríð, ég var alveg ótrúlega ánægð með þetta! Nú hringdi ég líka í Birnu systur sem ætlaði að koma og taka myndir og video. Ég var heldur ekkert að reka á eftir henni og sagði henni að koma í rólegheitunum en hún heyrði eitthvað í röddinni minni sem sagði henni að það væri stutt í þetta og ákvað, sem betur fer, að drífa sig strax yfir.

Hríðarnar stigmögnuðust mjög hratt upp úr þessu, ég sat a boltanum en þegar hríðin reið yfir varð ég að standa upp og rugga mér. Ég notaðist við mynd sem við lærðum í dáleiðslunni en það var að sjá vöðvana í leginu fyrir sér eins og silkiborða sem losnuðu frá í hverri hríð, eins notaði ég langa innöndun og langa útöndun, ég reyndi að telja upp í tuttugu í hverri innöndun en komst aldrei alveg svo langt. Annað sem mér fannst nýtast mér úr námskeiðinu var að villa fyrir sársauka boðleiðunum með því að strúka með fingrunum yfir mjaðmirnar og mittið. Ég fann alltaf meira og meira til í bakinu og nuddaði mig eins og ég gat í hríðunum. Birna kom til mín kl rúmlega 06 og Kolbrún vaknaði við dyrabjölluna, Birna fór því inn til að klæða hana og hringdi í mömmu sem kom um hæl og sótti hana. Um þetta leyti var ég djúpt sokkin inn í eigin heim og hefði ekki getað sinnt henni neitt ég var því mjög feginn þegar mamma kom.

Allann þennann tíma var Svenni að bauka inn á baðherbergi að reyna að koma vatni í laugina en það gekk eitthvað erfiðlega. Hann reyndi þó að sinna mér líka og spurði hvort ég vildi tónlist en ég hafði engan áhuga á því, mér fannst bara fínt að standa þarna ein í stofunni og kljást við þetta verkefni. Ég var nú samt farin að kalla “NUDDA MIG” í hverri hríð og Birna hljóp til og nuddaði á mér bakið eins fast og hún gat þó mér finndist það aldrei alveg nógu fast. Af og til kíkti ég í laugina og sá bara rétt svo botnfylli af vatni en ég gat ekki beðið eftir að komast í hana og hafði sterka tilfinningu fyrir að vilja ekki fæða “þurr”. Fljótlega fór ég að finna fyrir rembingstilfinningu og gaf frá mér eitthvað hljóð sem Birna kannaðist við úr eigin fæðingum. Hún hljóp til Svenna og bað hann um að hringja í ljósurnar og segja þeim að hlaupa. Hún var farin að sjá fyrir sér að þurfa að taka á móti barninu sjálf þarna í sófanum. En Arney var þá bara rétt ókomin. Ég var samt alltaf pollróleg og ekkert stressuð enda fann ég að svona átti þetta að vera og treysti svo vel bæði Svenna og Birnu.

Ég ákvað að fara í laugina og oh hvað það var gott! Svenna hafði tekist að ganga frá slöngunni og kom til mín þegar ég þurfti mest á honum að halda. Hann nuddaði á mér bakið eins og hann ætti lífið að leysa og það var svo gott að hafa hann hjá mér. Ég var byrjuð að rembast þegar Arney kom en hún dreif sig að athuga hjartsláttinn hjá litla drengnum, nokkrum mínútum síðar kom Hrafnhildur. Á þessum tímapunkti fannst mér ekki vera nokkur hjá mér nema Svenni og litla barnið sem var að ýta sér út. Ég fann höfuðið ýtast fram og rembingurinn var rosalega sterkur og yfirtók allann líkamann. Ég hélt mér fast í Svenna og kallaði “já já já” og “hausinn er að koma”. Ég fann hvað þetta var allt rétt og gott! Ég þreifaði fyrir höfðinu og fann síðan að belgurinn sprakk, tveim hríðum seinna kom drengurinn okkar og ég tók hann sjálf upp úr vatninu í fangið. Mér fannst algerlega ótrúlegt hvað þetta var auðvelt og að hann væri bara komin strax!


Ég trúði varla heldur að ég hafði tekið á móti honum sjálf, það var ólýsanleg tilfinning. Ég var í algjöru rússi og við bara hlógum og skoðuðum litla strákinn okkar, hann var svo fullkominn og með djúpan spékopp öðru megin. Við biðum eftir að naflastrengurinn hætti að púlsa og Svenni klippti naflastrenginn. Svo ákvað ég að fara upp í rúm og bíða eftir fylgjunni. Við lágum þrjú saman upp í rúmi og innan við hálftíma var hann farin að sjúga brjóstið. 10 mín seinna rétti ég Svenna hann og fæddi fylgjuna, síðan fékk ég hann aftur í fangið en það var mikilvægt fyrir mig að hafa hann í fanginu allann þennann tíma. Birna gerði þrykk af fylgjunni og ljósurnar skoðuðu hann og mig á meðan hann var í fanginu mínu. Ég hafði rifnað örlítið, eða 1 gráðu rifu, sem Hrafnhildur gerði við. Það var mjög óþægilegt.

Það var 11 mars, ég var gengin slétt 42 vikur og drengurinn okkar fæddist kl 06:36. Fæðingin tók ekki nema rúman einn og hálfan tíma frá byrjun til enda. Það var vel þess virði að bíða þessar tvær vikur og fá síðan þessa dásamlegu fæðingu. Hann var 15 merkur og 52 cm, skólarbókardæmi fyrir íslenska drengi. Þegar ég skoðaði myndirnar af fæðingunni sá ég að Hrafnhildur hafði stutt við kollinn á leiðinni út og beint honum á milli lappana á mér til þess að ég gæti tekið á móti honum sjálf. Ég fann ekkert fyrir henni í fæðingunni og var því dáldið hissa á að sjá þessar myndir og ótrúlega þakklát henni að hafa gefið mér þetta tækifæri. Svona geta ljósmæður verið yndsilega góðar í sínu starfi!

Kl. 09 kom mamma með Kolbrúnu sem var mjög forvitin að sjá litla bróður sinn en var þó meira að hugsa um hvort hún fengi ekki örugglega ennþá að súpa brjóst. Ég er með þau bæði á brjósti og það gengur bara mjög vel þó við séum enn að finna jafnvægi sem hentar okkur öllum.

Svo komu systur mömmu og bróðir sem voru fyrir tilviljun stödd á landinu og pabbi minn, Friðrika systir og maðurinn hennar. Það var því fullt hús hjá okkur þarna um morgunin og allir að dáðst að nýjustu viðbótinni í fjölskylduna. Ég er ekki alveg viss hvað Svenna fannst um að fá alla tengda-slektina svona inn á rúmgafl strax haha en það var líka eitthvað mjög fallegt við það. Tengdaforeldrar mínir komu líka um hádegið og fylltu ísskápinn af mat, það var ótrúlega falleg gjöf. Ég er óendanega þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa svona dásamlega fæðingu og finnst ég ótrúlega öflug og sterk eftir þessa lífsreynslu. Ég kann líka betur að meta hversu dugleg ég var í fyrri fæðingunni en það er sko allt annað þegar börnin koma rétt niður fæðingarveginn. Ég læt fylgja með yndislega mynd sem systir mín tók af fyrsta andardrættinum!

Bestu kveðjur,

Jóhanna og Birnir Dalli

196 views0 comments
bottom of page