top of page
Search

Fæðingarsaga Trölla litla


Föstudagurinn 7 Október byrjaði á því að við hjónin keyrðum Dag á leikskólann og fórum svo saman niður á Landspítala í flæðismælingu og rit, en það var gert vegna þess að ég sá fram á að ganga fram yfir 42 vikurnar þar sem ég var staðráðin í að fara sjálf af stað.

Við fengum þessa flottu profil mynd af prinsinum og allt leit vel út svo við gátum farið áhyggjulaus inní helgina. Ég var gengninn 41v og 6d.

Við nutum dagsins bara við tvö, fórum í sund og borðuðum góðan mat saman.

Þegar við vorum búin að ná í Dag af leikskólanum kl 16:30 þá finn ég fiðring í líkamanum en einnig mikla hugarró.

Rétt fyrir sex um kvöldið fæ ég samdrætti með vægum verkjum á 10-12 mín millibili. Ég var nú ekki tilbúin að taka mark á þessum verkjum en þeir voru áfram reglulegir til ca. 21:30 en þá lengist aðeins á milli þeirra.

Ég ákvað samt að láta Arney og Hrafnhildi vita hvernig málin stæðu og kl: 23:00 ákvað ég að reyna að sofna.

Ég fann að það var einhvað öðruvísi við líkaman og stuttu eftir að ég er komin uppí rúm kl:23:30 fæ ég fyrsta verkinn. En ég segi við Benna að fara að sofa, ég ætli aðeins og standa upp og athuga hvort verkirnir fari við að taka 2 panodil. En hríðarnar voru það sterkar að ég hringi í Arney og segi henni að ég sé nú orðin örugg um að vera komin af stað. Hún segir mér að hún geti komið hvenær sem er en ég ákvað að hringja í hana þegar það væru um 5 mín á milli. Þess má geta að þegar ég tala við hana þá eru 6-7 mín á milli. Ég fer beint í að vekja Benna og segja honum að prinsinn sé á leiðinni og þá er klukkan um miðnætti. Hann fer að setja plastið á rúmið og gera kósý.

Hríðarnar voru vel viðráðanlegar þó þær væru sárar, ég labbaði um gólfið, ruggaði mér í lendunum svo þegar hríðin kom hallaði ég mér fram á borðstofuborðið, andaði haföndun og hélt áfram að rugga til hliðanna. Þegar hríðin var á enda þá fannst mér gott að „hrissta“ hríðina af mér með því að láta mjaðmirnar „detta“ til hliðanna.

Kl: 00:30 þá eru hríðarnar orðnar svo kröftugar að ég ákvað að taka tíman á milli þeirra og þá eru ekki nema 4 mín á milli. Ég bið Benna um að hringja í Arney og Hrafnhildi og biðja þær um að koma á meðan ég skelli mér í sturtu.Sturtan gerði kraftaverk. Hríðin var mikið mildari og viðráðanlegri. Í hverri hríð fór ég niður á hnéin og hallaði mér fram á baðið, nánast inní „barnið“ og andaði djúpa, hæga haföndun á meðan heitt vatnið bunaði á mjóbakið. Á milli stóð ég upp, ruggaði mér fram og aftur á meðan ég raulaði.

Svo kom að því að ég þurfti að fara úr sturtunni svo Benni gæti látið renna í laugina góðu. Og vá hvað það var mikill munur að fara úr sturtunni hríðin harðnaði og það varð styttra á milli. Ég hélt áfram að takast á við hríðirnar líkt og bylgjur sem færðu mig nær litla kútinum.

Hann Benni var búin að gera svo notalegt í íbúðinni. Kertljós um allt, Snatam Kaurr á fóninum og Hersey´s Kossar í skálum, nú var bara að bíða eftir lauginni. Arney og Hrafnhildur mættu uppúr kl: 01:30. Ég var að byrja að finna fyrir smá ógleði og þær gáfu mér piparmyntudropa til að þefa af. Það virkaði svo vel, var svo frískandi.

Aldrei hefði mér geta dottið það í huga að ég væri brosandi og hlæjandi á milli hríða, en sú var raunin, yndislegt í alla staði. Kl: 02:00 ákváðum við að athuga útvíkkun svona rétt áður en ég færi í laugina. Ég sagði við þær skvísur að ég yrði frekar fúl ef að útvíkkun væri nánast engin og hló. Útvíkkun var komin í 5-6 og leghálsinn fullstyttur og mjúkur ..... þetta voru frábærar fréttir og ég var hin hamingjusamasta. Ég fór og skellti mér í laugina, sem hafði enn betri áhrif á hríðirnar en sturtan, og Benni kom sér fyrir fyrir framan mig. Það að hafa hann til að halda í hendurnar á mér var ómetanlegt það var enginn sem gat komið í hans stað. Hann talaði svo fallega til mín, sagði mér hversu dugleg ég væri, hversu mikið hann elskaði mig og gaf mér koss.

Stuttu seinna fer vatnið í einni hríðinni. Það var glært og fínt. Og svo kl: 02:30 byrja ég að fá smá rembingsþörf í hápunkti hríðarinnar. Ég ætlaði ekki að trúa þessu ..... það var ekki nema hálftími síðan að ég fór ofan í laugina með 5-6 í útvíkkun. Arney segir mér að fylgja líkamanum og leyfa honum að gera eins og hann vill.

Besta líkingin við rembingsþörf sem ég hafði heyrt átti svo sannarlega við, það var eins og ég þyrfti að æla nema bara niður á við. Í hverri hríð lét ég líkamann algjörlega sjá um sig og ég fann hvernig höfuðið færðist neðar. Benni minn sat traustur á móti mér, hjálpaði mér að anda og róa líkaman niður á milli hríða en það var farið að verða erfitt að slaka á á milli. Hann kyssti mig milli hríða og kreisti á mér hendurnar á meðan þeim stóð. Gaf mér vatn og kaldann þvottapoka á ennið.

Um kl: 03:20 klárast útvíkkun og rembingsþörfin tekur algjörlega yfir. Rembingurinn tók vel á og ég var orðin kófsveitt. Ég fann að ég missti tökin í 2 hríðum en Benni, Arney og Hrafnhildur voru fljót að minna mig á öndunina og segja mér hversu vel ég væri að standa mig. Hausinn gekk hægt niður og ég fann hvernig brunatilfiningin magnaðist við hvern rembinginn. Ég man að ég fór að örvænta og sagði að ég héldi að orkan mín væri að verða búin. Þau voru fljót að hvetja mig og allt í einu snarbreyttist hugarástandið. Ég beit í hnúann á Benna, tautaði „Ég get, ég vil, ég skal“ og fór að raula með Ong namo sem að hljómaði í tækinu. En til að vera fullkomlega hreinskilin þá man ég ekki í hvaða röð þessir atburðir áttu sér stað. Svo kemur að því að ég finn að höfuðið er að koma en hríðin hættir og höfuðið sat fast á enninu. Í hríðinni þar á eftir fæðist svo höfuðið. Þær vinkonur segja að í næstu hríð verði ég að rembast af miklum krafti því við viljum fá hann sem fyrst í heiminn. Þetta var eina hríðin þar sem ég rembdist með líkamanum, það er að segja ég fann að hríðin var á enda en ég hélt áfram að rembast.

Og þar með kom hann í heiminn þessi elska kl: 03:46. Með svart hár, svartar augabrúnir og svo stór að ég átti ekki til orð. Arney stýrði honum á milli lappanna á mér svo við Benni tókum hann saman uppúr lauginni og settum hann í fangið á mér. Ég heyrði Benna dást að honum við hliðina á mér og við fórum að tala við hann og kyssa til að örva hann. Hann var slappur eftir rembinginn en fljótur að taka við sér og var orðinn eldrauður og flottur eftir smá stund. Benni klippti svo naflastrenginn og fékk hann í fangið. Ég vildi koma uppúr til að fæða fylgjuna en hana fæddi ég svo uppí rúmi á meðan þeir feðgar lágu við hliðina á mér og Trölli minn prófaði lungun.

Fylgjan var svo falleg og heil. Líkt og fylgjan hans Dags, eldri sonar míns. Kl: 06:00 vaknaði Dagur stóri bróðir, kúraði með okkur uppí rúmi og skoðaði litla bróður sinn. Þegar búið var að sauma mig, kom ég Trölla á brjóst og hann drakk strax eins og herforingi. Svo var komið að því að vikta hann og mæla en það var mikil spenna yfir því, og hann mældist 18m, 51cm og með höfuðmálið 36cm .... svo það var bara ekkert skrýtið að rembingurinn hefði verið erfiður.

Þessi fæðing var draumafæðing og ég hefði ekki geta beðið um betra fólk í kringum mig.

Hvað ég er hamingjusöm að hafa fengið að upplifa þessa stund með manninum mínum og svo yndislegum ljósmæðrum. Þegar að Dagur vaknaði og kúrði með okkur það var alveg hápunkturinn. Hamingjustundirnar gerast ekki betri.

Takk fyrir að vera með okkur á þessari yndislegu stundu elsku Arney og Hrafnhildur og skapa svo fallega minningu með okkur.

Þúsund þakkir Alfa, Benni, Dagur og Trölli litli :)

188 views0 comments
bottom of page