Fæðingarsagan mín 17.04.21
Helga Maren Pálsdóttir
Myndir: IG:hrafnheida.portrett
-------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Það er pínu flókið að byrja svona fæðingarsögu, en ég ætla að byrja mína á smá forsögu. Þegar ég gekk með eldra barnið mitt þá rann hugur minn oft í Björkina, það var einhver undirliggjandi þrá að eiga í Björkinni. Mér fannst það mjög spennandi tilhugsun, en það var samt einhver efi líka og vantraust á minn eigin líkama. Ég og unnusti minn ákváðum þá að eiga á spítalanum. Sú fæðing var yndisleg í alla staði. Ég prófaði gasið, baðið og fékk mænurótardeyfingu. Þessi fæðingarupplifun var mjög jákvæð fyrir mig þrátt fyrir mikil inngrip. Í fæðingarorlofinu rakst ég á auglýsingu um Doulu nám. Það kviknaði eitthvað innra með mér. Mér fannst þetta svo ótrúlega spennandi vinkill á fæðingarferlinu. Að vera í þessu námi kveikti svo á allskonar bjöllum sem ég vissi ekki að ég hafði í mér. Ég komst síðan að því í miðju námi að ég væri ólétt. Ég vissi strax að ég ætlaði að eiga heima. Ég treysti líkamanum mínum 200% núna.
Til að byrja með var ég í áhættumæðravernd uppá Landspítala en var síðan útskrifuð yfir á Björkina sem var mjög mikill léttir.
Ég var í meðgöngu jóga hjá henni Auði sem gerði ótrúlega mikið fyrir mig á meðgöngunni. Þessi meðganga var svo allt öðruvísi heldur en fyrri meðgangan. Ég var miklu meira “zenuð“ og meðvituð um ferlið sem líkaminn minn var að gagna í gegnum, þökk sé meðgöngu jóga og náminu. Ég tileinkaði mér haföndun um leið og ég kláraði fyrsta jóga tímann minn. Ég gerði þessa haföndun út um allt, í bílnum, áður en ég fór að sofa. Bara alltaf þegar ég mundi eftir henni, þá fór ég að æfa mig.
Það voru mjög góð ráð sem ég fékk hjá Auði. Það var t.d. þvottaboltarnir og lavenderspreyið.
Með góða punkta úr meðgöngu jóga, paranámskeiði með Soffíu Doulu og Auði, undirbúning úr náminu og ráðum frá minni frábæru og yndislegu ljósmóður henni Hildi þá small þetta allt.
Ég var búin að ákveða að eiga heima og gerði því ítarlegt fæðingarplan út frá því, fæðingarplan a, b, c, og d. Við vorum búin að sjá fyrir allar mögulegar útkomur og undirbúa okkur fyrir þær.
Við vorum búin að undirbúa okkur fyrir það að færa okkur á spítalann ef það yrði lítill framgangur. Hvað gerum við þegar við erum komin uppá spítala, hvaða inngrip vil ég nota, og hvað vil ég ekki nota.
Hvað vil ég að ljósmæður uppá spítala viti og þess háttar.
En fyrst og fremst var markmiðið að eiga heima og það gekk. Svo ótrúlega fallega að ég flýg enn þá á bleiku skýi eftir þessa upplifun.
Við vorum búin að fresta því tvisvar sinnum að framkvæma belglosun, einfaldlega því ég var frekar skeptísk með það og líka því ég átti ekki góða reynslu frá fyrri meðgöngu. Við ákváðum að geyma það þangað til ég væri komin 41 viku.
Föstudaginn 16.apríl var ég komin 41 viku. Hildur kemur til okkar kl 11 að hreyfa við belgnum. Við spjölluðum aðeins saman. Hún hreyfði við belgnum – sem ég fann ekki fyrir! Þvílík fagkona sem hún Hildur er! Síðan fékk ég nálastungur.
Við áttum svo sem ekki von á neinu en ákváðum að senda stóru systir í pössun bara svona „just in case“
Við unnusti minn tókum því bara rólega eftir hádegi, ákváðum svo að fá okkur bara eitthvað gott að borða um kvöldið, kaupa nammi og horfa á eitthvað skemmtilegt. Eftir marga hringi á höfuðborgasvæðinu enduðum við á Mandi.
Klukkan var 01:45 aðfaranótt 17.apríl þegar ég vakna og fer að pissa, í kjölfarið finn ég fyrir fyrsta túrverkja seyðing. Ég dingla mér aðeins á rúminu til að bíða og sjá. Um tvö leytið fer ég svo að ýta við Elvari (unnusta mínum) og segi honum að nú sé eitthvað að gerast. Klukkan var að nálgast hálf þrjú þegar ég næ að sannfæra hann um að það væri kannski sniðugt að fara að blása upp sundlaugina. Við byrjuðum saman að stússast í sundlauginni. Á meðan hélt nágranninn fyrir ofan okkur að við værum gjörsamlega búin að missa það og farin að ryksuga um há nótt! Ég sendi á nágranna mína stöðu mála og ákvað svo að hringja í Hildi ljósmóður um hálf 4. Ég var búin að kveikja á jóga playlistanum mínum, komin með boltana í hendurnar og byrjuð að spreyja lavender lykt útum allt, þetta gekk vel ég hélt góðum takti og ákváðum við að heyra aftur í Hildi eftir hálftíma.
Ég var búin að vera að taka tímann sjálf, en sá svo fljótlega að það var ekkert að virka, svo ég bað Elvar að sjá um það. Ég sagði honum bara hvenær hann ætti að ýta á stopp og start. Við sáum svo fljótlega að það voru ekki nema 2-3 mínutur á milli bylgja. Ég hringdi þá aftur í Hildi og fékk þrjár sterkar bylgjur á meðan símtalinu stóð svo hún ákvað að koma. Þá hringdi ég í mömmu, sem var komin eftir korter. Rétt fyrir 05 voru svo allir komnir, mamma, Hildur, Ásta Hlín og Heiða vinkona mín sem tók myndir og var stuðningur fyrir mig, hún var eiginlega bara Doulan mín.
Ég man þegar ég var á hnjánum við sófann farin að skjálfa úr kulda og bað mömmu um að setja eitthvað yfir mig. Ég vissi þá að ég væri komin svona 6-7 í útvíkkun. Einfaldlega því ég átti samtal við Heiðu vinkonu um hennar reynslu og að hún hafi upplifað þetta þessa tilfinningu og þá var hún komin ca 6-7 í útvíkkun svo ég treysti þessu innisæi mínu. Ég náði að halda svo bylgjunum á góðu tempói en enginn áttaði sig í raun á því hvað ég væri komin langt inní fæðingu.
Ég var búin að taka fram í fæðingarplaninu mínu að ég vildi ekki innri skoðun, ekki nema í brýnni nauðsyn.
Ég man þegar ég stóð á stofugólfinu og mamma að spreyja yfir mig töfra spreyinu að ég fann ég vildi fara í baðið, ég vildi reyna koma í veg fyrir það að fara of snemma vegna þess að það getur hægt á framgangi, en þarna fann ég bara að ég var tilbúin. Að fara í baðið var svo ótrúlega gott. Það var svo ótrúlega góð stemming inni barnaherberginu þar sem við vorum búin að koma fyrir sundlauginni. Á einum tímapunkti var ég og Elvar bara ein þar inni og það var dásamlegt. Mamma og Elvar skiptust svo á að rúlla bakið og gefa mér að drekka og eitthvað að borða.
Tímaskynið hjá manni fer í frekar mikið rugl og fannst mér ég vera búin að vera frekar lengi í baðinu en það var ekkert svo langur tími. Það var ekki nema svona 20-30 mín sem ég fann að bylgjurnar voru að breytast, þær voru að vera harðari.
Ég fann að ég var komin í „transision“. Ég gat þá sagt sjálfri mér að ég væri komin svona 8-9 í útvíkkun og það væri farið að styttast í þetta. Fljótlega fæ ég svo rembingsþörf. Eftir fyrri reynslu þorði ég ekki öðru en að spurja hvort ég mætti rembast því í fyrri fæðingu var ég beðin um að slaka á og ekki rembast strax. Hildur ofurkonan mín sagði mér að hlusta á líkamann það væri búið að ganga svo ótrúlega vel hingað til og ekki ástæða til þess að hætta að treysta honum núna. Svo ég fór eftir innsæinu og byrjaði að rembast. Ég prófaði að þreifa sjálf, ég fann ekki koll eða neitt hart. Svo ég hélt að það væri ekkert að gerast. Það voru kannski 2-3 rembingar og þá var farið að hægjast á hjarslættinum hjá stráknum mínum. Hildur fékk þá að framkvæma innri skoðun. En hún sagði mér eftir fæðinguna að hún hafi varla farið alveg inn þar sem kollurinn var kominn alveg niður. Ég prófaði aðeins að snúa mér en Hildur og Ásta ákváðu að það væri best fyrir mig að fá mig uppúr. Ég köngraði mér upp og fékk bylgju með annan fótinn yfir sundlaugina. Þegar ég labbaði svo yfir í hjónaherbergið þá fann ég fyrir kollinum, mjög skrýtin tilfinning. Ég lagðist á fjórar fætur í rúmið, mjög uppgefin og langaði helst að leggjast alveg niður. Ásta Hlín var fljót að koma fyrir púðum undir bringuna mína áður en ég náði að remast í síðasta skiptið.
Elsku fallegi Theodór Örn minn rann þá í heiminn. Í sigurkufli.
Ég fékk hann strax á milli lappanna og vá. Ég bara gat þetta.
Hann fæddist 07:07, tæpum 5 tímum eftir fyrsta verk. 49cm og 3190gr, fullkomið kraftarverk.
Ég er svo ótrúlega þakklát öllum sem voru til staðar og hjálpuðu mér í gegnum þetta. Þetta magnaða teymi sem stóð í kringum mig og hvöttu mig áfram.
Er svo þakklát fyrir Björkina og ljósurnar mínar þar, Hildi og Ástu. Takk!
Kommentare