top of page
Search
Writer's pictureBjörkin, ljósmæður

„Ég myndi gera þetta allt hundrað sinnum aftur fyrir hana.“



Ég var gengin fjörutíu og eina viku þegar ég sat á sófanum hjá vinkonu minni og fullyrti að ég yrði fyrsta konan sem aldrei fæddi barnið sitt. Meðgangan hafði verið erfið, fyrstu mánuðirnir einkenndust af stanslausum uppköstum og síðustu mánuðirnir af depurð og grátköstum. Ég fékk gríðarlega mikið meðgönguþunglyndi, en það er minna þekkt systkini fæðingarþunglyndis og engu minna andstyggilegt. Ég var því orðin langeyg eftir að þessu ástandi linnti og ég fengi bara að hitta barnið mitt. 

Dóttir vinkonu minnar var þá tveggja og hálfs mánaða gömul. Hún lá á leikteppi, brosandi og hjalandi, á meðan vinkona mín hellti upp á kaffi og reyndi að stappa í mig stálinu. Það fer að koma að þessu, sagði hún mér, og ég reyndi að trúa henni. Ég hefði sennilega verið upplitsdjarfari ef ég hefði vitað að strax þá um nóttina myndi vatnið fara.

Ég vaknaði aðfaranótt þriðjudags rétt fyrir fimm um morgun, að því er virtist upp úr þurru. Verandi gengin fjörutíu og eina viku var ég vön því að vakna oft á nóttu til að fara á klósettið eða til að reyna að koma mér betur fyrir, en í þetta sinn var ekkert slíkt að. Ég lá vakandi í nokkrar mínútur og það var mikil værð yfir mér. Allt í einu heyrði ég háan smell, eins og tappanum væri skotið úr kampavínsflösku. Á milli læranna minna vætlaði hlý bleyta og mér krossbrá, svo mikið að ég vakti Bjarka, manninn minn, þegar ég sagði hátt:

„Vó!“

Hann vaknaði með andköfum:

„Hvað!?“

„Ég held ég hafi verið að missa vatnið!“

Ég stóð á fætur og allt rúmið var á floti. Ég reyndi að staulast inn á baðherbergi en áfram streymdi vatnið og var svo mikið að ég rann í pollinum sem hafði myndast við fætur mér og Bjarki þurfti að grípa í mig. Bjarki skipti um lak á rúminu á meðan ég athafnaði mig á baðherberginu og við reyndum svo að ná aðeins meiri svefni. Það var ekki séns að ég myndi trufla ljósmóðurina svo snemma morguns þar sem ég var ekki með neina verki og ég vissi að það gæti enn verið talsverður tími í stóru stundina. Það reyndist þó ansi erfitt að festa svefn aftur. Adrenalínið hafði farið á fullt og ég skalf og titraði eins og hrísla. Ég lá og hafði augun með klukkunni og um leið og hún sló hálf átta hugsaði ég með mér að nú hlyti að vera í lagi að hringja í ljósmóðurina.

Elva reyndist vera á vaktinni og ég ræddi stuttlega við hana. Næst hringdi ég í mömmu og eftir samtalið við hana fann ég hvernig þreytan helltist yfir mig. Ég skreið aftur upp í við hlið Bjarka og sofnaði. Við sváfum til rúmlega ellefu, sem var eins gott því við áttum ekki eftir að geta farið að sofa aftur fyrr en um síðdegisbilið næsta dag. 

Dagurinn leið í rólegheitunum. Bjarki tók sér frí frá vinnu og við borðuðum bakarísmat og horfðum á þætti, fórum í labbitúr og höfðum það náðugt.

Mamma kom til mín seinnipartinn með meira gúmmelaði að borða en í millitíðinni var komin meiri regla á samdrættina og ég var farin að taka tímann. Verkirnir komu með fimm til átta mínútna millibili en voru ennþá mjög vægir. Elva kom svo stuttu síðar og gaf mér nálastungur til að reyna að koma hríðunum af stað. Hún mældi líka hitann hjá mér, en það þurfti að fylgjast vel með honum vegna þess að ég missti vatnið. Hann var í hærra lagi þannig að hún bað mig að mæla hann aftur fyrir svefninn og hringja svo í vaktsímann. Ég var enn smá hrædd um að ég myndi þurfa að fara í gangsetningu daginn eftir, en þegar Elva skoðaði mig var ég komin með tvo í útvíkkun og hún hafði engar áhyggjur af því.

Stuttu eftir að Elva fór voru hríðarnar farnar að harðna. Ég stóð í eldhúsinu og spjallaði við mömmu og þurfti alltaf að stoppa og einbeita mér aðeins að því að tala meðan hríðin gekk yfir. Mamma tók eftir þessu og bauðst til að vera áfram og gista bara á sófanum en ég sagði henni að drífa sig bara heim og hvíla sig, ég ætlaði sjálf bara að reyna að sofna eftir kvöldmat.

Eftir að mamma kvaddi fór Bjarki í Krónuna og keypti sushi og snakk sem við borðuðum yfir Brooklyn Nine-Nine. Ég lá þvert yfir sófann og borðaði eiginlega allan snakkpokann ein en aumingja Bjarki sat á gólfinu. Klukkan var þá að nálgast ellefu og við ákváðum að tímabært væri að reyna að sofna smá, enda vissum við ekki hversu mikla hvíld við myndum geta fengið. Áður en við fórum að sofa tók ég hitann minn aftur og hringdi í vaktsímann hjá Björkinni. Hann var lægri en fyrr um kvöldið og þegar Ásta tók símann sagði hún að við gætum haldið okkur við planið okkar og verið heima, allavega enn sem komið var.

Við skriðum svo upp í rúm en eiginlega um leið og við slökktum ljósin byrjuðu hríðarnar að harðna verulega. Ég reyndi að þrjóskast við því mig langaði mjög mikið að ná smá hvíld fyrir komandi átök, en áttaði mig fljótlega á að það væri ekki að fara að gerast. Ég reyndi að nota haföndunina til að anda mig í gegnum hríðarnar en fannst ég fljótt þurfa að láta röddina fylgja með. Við Bjarki höfðum farið á paranámskeið í jóga og lært allskonar nudd til þess að hjálpa í hríðunum, en þegar á hólminn var komið þoldi ég illa snertingu og eftir að hafa prófað það tvisvar bað ég hann vinsamlegast um að láta mig í friði. Það kom mér mikið á óvart, en ég er vanalega frekar „touchy-feely“ týpa dagsdaglega.

Ég stóð reglulega á fætur til að fara á klósettið og sat þar svo heillengi, stóð upp og settist niður til skiptis í hríðunum. Klukkutími leið og þá fór ég fram til að kasta upp og sá þá mikið eftir þessum heila chilli-snakkpoka. Eftir það bað ég Bjarka að tengja bara tölvuna við sjónvarpið fyrir mig svo ég gæti reynt að beina huganum annað og hann gæti kannski fengið smá hvíld á meðan. Meðan hann brasaði við það fór ég í sturtu, en um leið og ég kom úr henni bað ég hann að fylla laugina og gleyma sjónvarpinu. Ég gat ekki beðið lengur.

Um leið og ég fór ofan í laugina leið mér betur, en því miður stóð það skammt. Mögulega hefur vatnið verið aðeins of heitt, eða ég með vægan hita, en ég byrjaði fljótt að ofhitna. Bjarki kom með kælipokann úr frystinum í tilraun til að kæla mig aðeins niður. Í hríðunum ók ég mér fram og til baka og þrýsti höfðinu eins langt inn í plastið á laugarbrúninni og ég komst. Milli hríða hélt ég kælipokanum að bakinu, andlitinu eða öxlunum. Ég hafði heyrt margar konur tala um endorfínvímuna sem helltist yfir þær eftir hverja hríð en þegar hríðin var gengin yfir var ég ennþá með verki. Þeir voru eins og vægir túrverkir, eða kannski voru þeir bara vægir í samanburði við hríðina. Þetta kom samt í veg fyrir að ég næði neinni slökun inn á milli.

Þegar þarna var komið við sögu fannst mér nóg komið, ég hugsaði með mér að ég hlyti að vera komin með að minnsta kosti átta í útvíkkun, það gæti ekki verið mikið eftir. Það var aldeilis bjartsýnin.

Ég bað Bjarka að hringja í Ástu og mömmu klukkan þrjú og þær komu stuttu síðar. Þegar þær komu fannst mér ég þurfa að koma á framfæri formlegri kvörtun, hvar væri eiginlega víman mín? Mér var sagt að ég færi í vímu! Mamma sendi mér uppörvandi bros.

Ég var ennþá ofan í lauginni en á þessum tímapunkti var hún farin að gera meira ógagn en gagn. Ekki bara var ég með harðar hríðar heldur var ég líka að deyja úr hita. Ég fór upp úr til að fara á klósettið og fór ekki aftur ofan í. Ásta bauðst til að athuga hjá mér útvíkkunina og tjáði mér að ég væri með fimm í útvíkkun. Litlu vonbrigðin.

Ég var orðin frekar þreytt svo ég lá mest á bakinu í gegnum næstu hríðar. Ásta mældi reglulega hjá mér hitann og athugaði hjartsláttinn hjá litlu. Hitinn var alltaf á mörkum þess að kalla á flutning upp á spítala, en hjartslátturinn var sterkur og góður.

Um fimmleytið var ég komin með níu í útvíkkun og mikla rembingsþörf. Þá hringdi Ásta í Elvu, sem kom stuttu síðar. 

Ég kláraði ekki útvíkkun fyrr en þremur klukkutímum seinna. Fyrir hverja hríð hugsaði ég með mér að nú myndi ég reyna að slaka á og ég myndi ekki rembast. Ég vissi að rembingurinn væri ekki að gera neitt annað en að þreyta mig. En ég hefði alveg eins getað reynt að hætta að anda. Krafturinn var svo mikill og hver einasta fruma í líkamanum mínum leitaðist við að koma þessu barni í heiminn. Ásta reyndi að hjálpa mér að klára útvíkkunina með því að nudda burt leghálsbrúnina. Það var ekki gaman.

Ljósmæðurnar stungu upp á því að ég prófaði að skipta um stellingu og spurðu mig hvernig ég vildi vera. Ég hafði ekki hugmynd. Ég hafði lesið svo margar fæðingarsögur þar sem konur töluðu um að hafa hlustað á líkamann sinn og að innsæið hefði leiðbeint þeim hvernig best væri að vera. Innsæið mitt virtist hafa farið í frí, sennilega eitthvert suður á bóginn. Ég var bara þreytt, þetta var vont, og ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi gera í því. Þarna var ég farin að hugsa stanslaust um að ég ætti bara að fara upp á spítala og fá þessa helvítis mænudeyfingu. Mér var samt ekki alvara með þeirri hugsun, og þegar Ásta mældi hitann enn eina ferðina og sagði að hún héldi að það væri kannski bara best að flytja mig fann ég vonbrigðin hellast yfir mig. Hún ákvað samt að mæla mig einu sinni enn, og ef sú mæling yrði of há myndi hún hringja á sjúkrabíl. Það reyndist vera eina mælingin alla nóttina þar sem ég var ekki með neinn hita. 

Ásta stakk upp á mismunandi stellingum sem ég gæti prófað en mér fannst ekkert virka, ég var orðin svo þreytt. Þá stakk hún upp á að ég prófaði að fara á klósettið og þar leið mér betur. Ég sat á klósettinu og hallaði mér að Bjarka og fór þannig í gegnum nokkrar hríðar. Ég var hætt að trúa því að ég gæti komist í gegnum þetta en þau hughreystu mig öll.

Ég prófaði að fara svo aftur inn í svefnherbergi en ég fann fljótt að mig langaði bara að vera á klósettinu. Þegar mamma heyrði mig segja þetta heyrði ég hana „mhm“-a. Það rifjaðist þá upp fyrir mér þegar hún sagði mér frá fæðingu Eika bróður míns. Hana hafði bara langað að vera á klósettinu undir lokin. Það gaf mér einhverja von um að það væri stutt eftir, en á sama tíma var ég orðin nokkuð viss um að þetta myndi bara engan endi taka. 

Ég lagðist aftur inn í rúm þegar ég var orðin þreytt á að sitja á klósettinu. Ég fékk bleyjustykki bleytt með köldu vatni til þess að kæla mig niður og Ásta tók hitann hjá mér.

„Nú hringjum við á sjúkrabíl,“ sagði hún.

Það tók sjúkrabílinn um það bil tuttugu mínútur að koma, en þær höfðu ekki beðið um forgang. Í millitíðinni kom kollurinn í ljós.

Ásta bað sjúkraflutningamennina um að hinkra aðeins, þannig að þeir fengu sér sæti inni í stofu. Eftir tuttugu mínútur voru þeir sendir burt, greyin. Það var víst ekki hægt að flytja mig með koll í klofinu. Þetta yrði klárað heima. 

Nú fylltist ég eldmóði. Það sá fyrir endann á þessu og með hverri hríð færðist kollurinn nær. Það voru samt ennþá tveir tímar eftir. Ég heyrði í börnunum leika sér úti í frímínútum í skólanum hinum megin við götuna og heyrði bjölluna hringja inn nokkrum hríðum síðar. Er ég búin að vera að þessu alla nóttina? hugsaði ég, hversu lengi getur ein kona staðið í þessu?

Bjarki og mamma sátu sitt hvorum megin við mig. Þau máttu alls ekki snerta mig, en þau hvöttu mig áfram og nærvera þeirra var styrkjandi. En þegar ég var búin að rembast í að mér fannst heila eilífð og allir sögðu stöðugt að nú væri þetta alveg að koma var ég eiginlega hætt að trúa þeim. Ég yrði áfram konan sem aldrei fæddi barnið sitt, ég yrði að eilífu föst í fæðingu. Sísýfos hvað?

Það var samt ekki mikið eftir. Elva sagði að ég gæti snert kollinn ef ég vildi. Ég teygði niður höndina en kippti henni strax til baka. Þetta var of mikið. Hún sótti spegil og hélt honum uppi svo ég gæti séð hann. Spegillinn var aðeins of neðarlega en ég gat ekki talað, þannig að ég sparkaði honum upp á við. Ég hugsaði á meðan að þetta væri nú frekar dónalegt af mér, en ég er viss um að Elva hafi fyrirgefið mér það. 

Þarna var hann, kollurinn á litlu stelpunni minni. 

Á milli hríða fann ég hreyfingarnar hennar. Hún spriklaði og sneri hausnum til og frá. Hún virtist alveg jafn áfjáð og ég að koma sér í heiminn. Hana þyrsti í lífið.

Hríð eftir hríð gekk yfir, en húðin mín neitaði að gefa eftir. Eftir um það bil tvo tíma af rembingi bauðst Ásta til að klippa mig. Ég er svo ánægð að hún gerði það, því strax í næstu hríð kom kollurinn út. Hver veit, ef hún hefði ekki gert það væri ég kannski ennþá að rembast í dag?

Þetta var rosaleg tilfinning, ég upplifði þetta eins og hún hefði sprungið út úr mér. Svo var sársaukinn farinn og ég vissi að það erfiðasta væri að baki. 

Það leið dágóður tími þar til næsta hríð kom, um það bil sex mínútur. Það var í fyrsta skipti alla nóttina sem ég náði að slaka á. Ég lokaði augunum og hefði getað sofnað. Það eina sem ég fann var höfuðið á dóttur minni þegar hún sneri sér fram og til baka og virti fyrir sér heiminn.

„Hún grætur ekki,“ sagði Bjarki, ögn áhyggjufullur.

„Hún getur það ekki,“ svaraði Ásta. „Hún getur ekki þanið lungun.“

„Manstu ekki hvað þær sögðu á fæðingarnámskeiðinu,“ hafði ég rænu á að muldra.

Hann hló, nei hann mundi það ekki, svaraði hann.

Hún kom í næstu hríð. Dóttir mín. Ég fékk hana upp á magann og hún var hlý og sleip af bleytu. Það kom mér á óvart hvað hún var þung og hreyfingar hennar kraftmiklar.

„Hún er stór“ sagði mamma hálf hlæjandi, hálf grátandi.

Hún horfði í augun á mér og mér fannst hún þekkja mig. Og ég þekkti hana. Auðvitað var þetta hún, það hefði aldrei getað verið nein önnur.

Ást við fyrstu sýn.

Mamma segir mér að ég hafi hrópað:

„Hún er chonker! Ég elska þig!“


Ég man ekkert eftir því, en það er víst það fyrsta sem ég sagði um og við dóttur mína.

Fylgjufæðingin var eftir, sem mér fannst mjög ósanngjarnt, en ljósmæðurnar sögðu mér að það væri bara þægilegt að losna við hana. Það reyndist rétt, ég fann fyrir miklum létti og ég trúði því eiginlega ekki að hún væri komin út. Ég þurfti að spyrja til að vera viss.

Ég var með hugann allan við litlu stelpuna mína þegar ég heyrði ljósmæðurnar tala um að það væri talsverð blæðing. Ég fékk samdráttarlyf í vöðva og áður en ég veit af er búið að panta neyðarflutning upp á spítala. Ljósmæðurnar sögðu okkur síðar að það hafi verið svona tuttugu mínútum eftir fylgjufæðinguna, en mér leið eins og þetta hefðu bara verið fimm mínútur. Allt í einu voru komnir sjúkraflutningamenn inn í íbúðina og ég vissi ekki hvað var að gerast. Ég heyrði að annar sjúkraflutningamaðurinn var eitthvað pirraður og hálf hranalegur við Elvu, sem gerði mig enn stressaðri. Bjarki tók litlu okkar í fangið og á meðan fékk ég hjálp við að reisa mig við. Um leið fann ég hvernig mig svimaði og ég hélt að það myndi líða yfir mig. Allt varð óskýrt og mér fannst eins og öll hljóð í kringum mig kæmu langt að. 

Þá varð ég hrædd. Mér leið kjánalega að segja það upphátt, en ég varð að spyrja:

„Ég er ekkert að fara að deyja, er það?“

Ég var borin niður tröppurnar í sjúkraflutningastól og sett á sjúkrabörurnar fyrir utan, hálfnakin með teppi yfir mér. Hinum megin við götuna voru börnin í Vesturbæjarskóla úti að leika sér í hádegishléinu.

Ég fékk dóttur mína í fangið aftur í og hélt henni þétt upp að mér á meðan við brunuðum austur Hringbrautina.



Á spítalanum var ég færð á fæðingarstofu þar sem ljósmæður og fæðingarlæknar landspítalans hlúðu að mér. Ég fékk þvaglegg, sem ég held að hafi verið versti sársauki sem ég hef upplifað á ævi minni. Ég skammaðist mín fyrir hvað ég öskraði, en ég réð ekki við það. Svo þurfti að sauma mig en ég var svo stressuð eftir þvaglegginn að mér var boðið glaðloft.

Það var snilld. Loksins kom víman.

Ég þurfti ekki blóðgjöf. Blóðmissirinn var áætlaður einn lítri, mest heima, og örlítið í viðbót á spítalanum. Seinna var mér sagt að ef ég hefði misst meira hefði ég ekki fengið að fæða heima aftur. Það slapp fyrir horn, eins og allt í þessari fæðingu.

Eftir á vorum við Bjarki látin ein í friði inni á fæðingarstofunni. Bara við tvö og Þorgerður.

Bjarki grét. Hann hafði verið virkilega hræddur.

„Þetta er búið að vera svo erfitt,“ sagði hann, „bæði meðgangan og núna fæðingin, þú ert búin að standa þig eins og hetja.“

„Ég myndi gera þetta allt hundrað sinnum aftur fyrir hana.“


Ég var mjög aum eftir fæðinguna. Mér leið eins og ég væri bara léleg í þessu og ég skildi ekki hvers vegna mér gekk svona illa. Mér líður ekki þannig lengur. Ég var bara óheppin. Ég veit líka núna að það var aldrei nein hætta, þó þetta hafi verið óhuggulegt á tímabili. Fyrst eftir þetta velti ég því fyrir mér hvort ég myndi velja heimafæðingu aftur. Nóttina sem ég gisti á spítalanum var ég líka á því að ég myndi aldrei eignast annað barn. Þetta væri bara flott svona. En ég held svosem að það sé algeng hugsun meðal kvenna sem eru nýbúnar að eignast barn. 

Það skipti mig svo miklu máli að dóttir mín kæmi í heiminn heima hjá okkur. Að hún tæki fyrsta andardráttinn sinn á sama stað og hún segði fyrstu orðin sín, tæki fyrstu skrefin sín. 

Ég ætla að fæða heima aftur. Ég veit að ég er aldrei að fara að lenda í svona rugli aftur.

Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert. Þetta er líka það magnaðasta og fallegasta sem ég hef gert. Núna veit ég hvað ég er sterk. Svo er þetta líka, og ég trúi varla að ég sé að segja það, pínu gaman.

Svona eftir á.


453 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page