Júlíana mætti í heiminn 3.desember eftir dásamlega fæðingu á fæðingarstofu Bjarkarinnar. Ég var þá komin 38 vikur og 6 daga. Aðfaranótt 3.desember, kl. 2 vaknaði ég við það að ég hélt ég væri að pissa á mig. Við vorum ekki alveg viss um hvort að þetta væri sundvatn eða legvatn þar sem við höfðum farið í sund kvöldið áður. Við hringdum í Hörpu ljósmóður okkar á Björkinni en fengum samband við Hrafnhildi til að ræða næstu skref. Það kom önnur gusa með smá bleiku í bindið stuttu seinna svo þá vorum við viss um að við værum komin af stað. Það fylgdu þessu engir verkir. Ég var meðvituð um að ef fæðingin væri ekki langt komin fyrir kl. 2 næstu nótt þyrfti ég að eiga barnið á Landspítalanum vegna sýkingarhættu þegar að legvatnið lekur.
Kærastinn var ákveðinn í að við skyldum hvíla okkur svo við fórum aftur að sofa um kl. 4 og sváfum til 8. Þá vaknaði ég við mjúka samdrætti en nokkuð reglulega og ég man hvað ég var ánægð. Það var gott að þeir byrjuðu hægt því það gerði mér kleift að ná takti við haföndunina. Við létum vita af okkur um kl. 9 og Hrafnhildur sagði að Arney myndi kíkja á okkur um hádegið. Það var mjög gott að hitta hana og hún sá án nokkurrar skoðunar að samdrættirnir voru ekki orðnir mjög harðir og að ég gæti verið róleg heima eins lengi og ég vildi. Um klukkan hálf fjögur fórum við að hugsa okkur til hreyfings og mæltum okkur mót við Hrafnhildi á fæðingarstofu Bjarkarinnar.
Stuttu eftir að við komum athugaði Hrafnhildur útvíkkun og ég var þá komin 4 í útvíkkun. Slímtappinn fór en Hrafnhildi og Arney fannst mjög erfitt að greina hvort þetta væri slímtappinn eða brúnt legvatn í bleyjunni. Þær báðu mig því að fara nokkuð reglulega á klósettið til að athuga hvort meira væri komið. Það kom ekki meira svo til að taka allan vafa af þá lyftu þær kollinum aðeins upp til að fá út legvatn og sjá litinn. Ég hafði heyrt að það gæti verið mjög vont en með önduninni í takti við Hrafnhildi þá var það lítið mál. Það var allt í góðu með legvatnið svo við þurftum ekki að fara á Landspítalann. Það var mikill léttir. Ég var þarna komin 7 í útvíkkun og rosalega ánægð að fá að fara í pottinn fyrst að allt var í lagi.
Að finna taktinn í bylgjunum með haföndun
Þetta fór hægt af stað hjá mér, ég gaf mér góðan tíma til að finna takt við bylgjurnar og haföndunina, mér finnst samlíkingin af því að samdrættir séu eins og öldur sem hellast yfir þig eiga mjög vel við. Þær byggjast upp, ná hápunkti og líða svo burt. Kærastinn stóð eins og klettur við bakið á mér. Heima þá tókst ég á við bylgjurnar liggjandi í rúminu og fékk knús og strokur frá honum milli þess sem hann tók til það sem við þurftum með okkur. Þegar við komum niður á Björkina fannst mér best að takast á við bylgjurnar krjúpandi fyrir framan rúmið, andandi haföndun og þrýstandi á þriðja augað undir augabrúnunum og kærastinn strauk yfir mjóbakið. Milli samdrátta þá hvíldi ég mig í fanginu á honum, hann sat á æfingabolta fyrir aftan mig og ég sat á gólfinu. Á leiðinni á klósettið þá þurfti ég oft að takast á við samdrátt standandi með hendurnar á hnjám og það var alls ekki verra. Ég prufaði að liggja í rúminu og takast á við hríð en það var alveg ómögulegt og gerði verkina mun verri.
Að nota laugina og nuddið til að takast á við samdrætti
Vá hvað var gott að fara í pottinn og að geta látið líða úr sér í vatninu milli samdrátta, algjör dásemd að vera þarna þyngdarlaus. Kærastinn þurfti að stökkva á klósettið og tók Hrafnhildur við að nudda mjóbakið í samdrætti og eftir það þá vildi ég helst hafa kærastann hjá mér og hana að nudda mjóbakið. Eftir því sem samdrættirnir urðu harðari þá varð ég mun kröfuharðari á nudd frá henni og vatn frá kærastanum. Þetta voru einu orðin sem ég kom frá mér á tímabili. Kærastinn mátti sko alls ekki halda í hendurnar á mér, en mér fannst gott að hann legði þær á axlirnar. Ég fékk svo að vita eftir fæðinguna að á meðan að Hrafnhildur nuddaði mig þá nuddaði Harpa hana og aðstoðaði eftir fremsta megni J Ég man að ég leyfði mér bara að hugsa eina hríð í einu og að versti verkurinn gæti eingöngu varað í um 15 sek. Og ég gat þolað þennan ótrúlega kraft keyra yfir í 15 sekúndur. Það var ekki mikið ljós í herberginu, en ég bað samt um að láta slökkva á lampa með mjúku ljósi því það truflaði mig. Ljósmæðurnar voru greinilega tilbúnar því þær náðu sér í vasaljós til þess að fylgjast með gangi mála. Þær tóku líka hjartsláttinn hjá litlu stelpunni okkar á milli hverrar hríðar þegar fór að líða á. Hún var með sterkann og flottan hjartslátt í gegnum þetta allt. Ég nýtti mér töluvert bæði purrið og haföndunina. Á milli samdrátta fann ég doða í höndum og fótum (sennilega vegna kröftugrar öndunar) svo ég fór að pumpa hendur og fætur eins og í jógatímunum milli samdrátta í pottinum.
Kossar frá kærastanum gefa kraft
Þegar að ljósmæðurnar tilkynntu mér að ég mætti byrja að rembast í næstu hríð fór ég rólega á stað og nýtti mér purrið og fékk nokkra kossa frá kærastanum. Milli samdrátta dillaði ég mjöðmunum eins og til að mjaka henni neðar og bað hana upphátt um að koma, við værum tilbúin og að ég sagði líka að ég væri eins og silki þarna niðri og gerði mjúkar hreyfingar í vatninu með höndunum á milli hríða til að líkja eftir því hvernig væri að koma við silki allt til að koma mér í gírinn. Undir niðri þá hafði ég kviðið rembingnum meira en samdráttunum. Ljósmæðurnar buðu mér að athuga hvar höfuðið væri sjálf, sem ég gerði og rosalega er skrítið að koma við það. Þetta er svo mjúkt en þú býst við einhverju harðara. Þegar að lítið gerðist í pottinum sögðu ljósmæðurnar að það væri gott að skipta um stöðu og færa sig í rúmið ef að hún kæmi ekki í næstu samdráttum. Þær hvöttu mig til þess að rembast en ekki purra til þess að koma henni út. Við færðum okkur svo í rúmið og hún kom eftir nokkra samdrætti í hliðarlegu á rúminu. Ljósmæðurnar hjálpuðu mér með því að styðja við fæturnar. Í gegnum það var ég að hugsa að ég væri eins og pressukanna og rembdist með hökuna niður í bringu og í hálfgerðum keng til að nýta allan minn kraft til að pressa barninu út. Þetta hafði vinkona mín sem er ljósmóðir ráðlagt mér fyrir rembinginn. Og vá hvað það var magnað að fá hana á magann.
Með hönd undir kinn
Ég var svo hissa hvað hún var stór því ég hafði alltaf verið með nokkuð litla kúlu svo allir bjuggust við litlu barni. Hún var 3.490 gr og 52 cm, heilbrigð og yndisleg. Hún kom í heiminn um hálf 12 um kvöldið. Rembingurinn tók aðeins lengri tíma því að hún var með hendina á kinninni og hafði komið aðeins skakkt niður. En þegar hún loks kom þá flaug hún í fangið á ljósmæðrunum með báðar hendur fram, litla ofurkonan. Eftir á að hyggja var bara gott að ég tók minn tíma eftir hríðarnar til þess að byrja rembinginn og mjaka henni niður með purri og mjaðmadilli svo ég get bara sagt að það borgar sig að hlusta á líkamann og treysta ferlinu og ljósmæðrunum.
Við fengum góðan tíma til að kynnast Júlíönu, hún náði ekki að komast sjálf á brjóst svo Hrafnhildur hjálpaði henni að lokum. Hrafnhildur saumaði mig með stuðningi frá Arney og það var eitthvað sem ég hafði kviðið fyrir en var ekkert mál. Við vorum svo komin heim 5 og hálfum tíma eftir fæðinguna, ég steinsofnaði í nokkra tíma og kærastinn vakti með Júlíönu til að hjálpa henni með að koma slími upp. Ég er svo afskaplega þakklát fyrir þessa fallegu upplifun með kærastanum og litlu stelpunni minni og fyrir ljósmæðurnar á Björkinni. Harpa var aðalljósmóðirin okkar en var að koma erlendis frá svo Hrafnhildur og Arney tókust á við þetta með okkur til að byrja með og svo kom Harpa inn á lokametrunum og var svo með okkur í heimaþjónustunni. Við erum heppnar konur hér á Íslandi að njóta heimaþjónustu frá okkar færu ljósmæðrum. Ég get ekki þakkað þeim nógsamlega fyrir ómetanlegan stuðning í þessu ferli allt frá 34. viku og þar til að heimaþjónustu eftir fæðingu lauk. Mæli með þessari þjónustu fyrir allar konur sem eiga þess kost. Ég nýtti mörg ráðin úr meðgöngujóganu hjá Auði, rosalega góður andlegur og líkamlegur undirbúningur! Mæli líka með að lesa Natural Birth eftir Inu May Gaskin og Hypno Birthing. Þetta eru allt verkfæri sem hægt er að nýta sér sama hvernig fæðingin þín á sér stað og í hvaða kringumstæðum. Því andlegur styrkur í gegnum þetta ferli er eitt magnaðasta verkfærið og við stjórnum því sjálfar í annars mjög óstjórnanlegum aðstæðum.
ÁST – Anda, Slaka, Treysta
❤ Elsa
Comments