top of page
Search
Writer's pictureBjörkin, ljósmæður

"Ólýsanlegt tilfinning að hafa þau öll þarna, manninn minn, stelpurnar og mömmu"

Updated: Oct 18, 2023

Fæðingarsaga Þórunnar


Ég átti eldri stelpurnar mínar báðar á 42. viku svo ég bjóst aldrei við öðru en að þessi dama léti bíða eftir sér líka. Settur dagur var 1. janúar og hann kom og fór eins og hinir settu dagarnir. Rúmri viku síðar var ennþá allt rólegt, ég þá gengin 41 viku og 1 dag, þó að fyrirvaraverkir héldu fyrir mér vöku frameftir nóttu flesta daga. Ásta og Elva komu í vitjun þennan dag og Ásta hreyfði við belgjum sem hafði virkað svo vel með miðju stelpuna. Þetta var á mánudegi. Verkirnir komu um kvöldið eins og öll hin kvöldin, voru aðeins verri en áfram óreglulegir og duttu svo niður undir morgun. Ég svaf frameftir á þriðjudeginum. Um hádegisbilið tók ég eftir slímtappanum losna sem gaf mér smá von um að barnið kæmi fyrir gangsetningardag. Dagurinn leið áfram og stelpurnar komu heim úr skólanum.


Ég man að ég sat og las bók fyrir yngri stelpuna mína kl. 14:45 þegar ég fæ skyndilega sterkan samdrátt og þurfti að loka bókinni til að anda mig í gegnum hann. Það komu þó ekki fleiri. Við mæðgur röltum svo út á kaffihús og komum við í ungbarnaverslun og keyptum þar eitthvað sem okkur vantaði. Um kvöldmatarleytið fóru svo að koma verkir. Fyrst óreglulegir en síðan reglulegri. Ég var nú orðin ansi viss um að þetta væri að byrja. Ég sendi því mann og börn snemma í rúmið svo allir yrðu úthvíldir þegar ég þyrfti á þeim að halda. Ég hringdi svo í mömmu til að láta hana vita að ég myndi líklega hringja í nótt og biðja hana um að koma. Hún ætlaði að vera með eldri stelpunum á meðan á fæðingunni stóð.


Rétt fyrir kl. 23 hringdi ég svo í Elvu og lét hana vita að líklega væri þetta byrjað og við ákváðum að ég myndi hringja aftur þegar ég vildi fá þær til mín.

Eins og hendi væri veifað eftir það símtal minnkuðu verkirnir og það lengdist á milli þeirra. Aldrei hef ég upplifað aðra eins uppgjöf. Mér leið eins og ég hefði jinxað öllu með því að hringja í þær. Ég beið aðeins í von um að samdrættirnir yrðu öflugri en um 1:30 gafst ég upp og fór að sofa, handviss um að ég myndi vakna ólétt enn einu sinni. Mig dreymdi að ég væri að anda mig í gegnum hríðir og vaknaði svo við sáran verk kl. 3:30. Maðurinn minn vaknaði við lætin í mér og spurði varlega hvort hann ætti að blása upp laugina. Verandi ansi brennd eftir alla fyrirvaraverkina þá sagði ég honum að bíða aðeins. En um 3 mínútum síðar kom annar ennþá verri. Þremur mínútum síðar enn einn. Þá mátti hann blása upp laugina. Helst frekar hratt því ég fann að ég vildi komast í baðið ekki seinna en núna. Ég hringdi í Elvu sem var föst í annarri fæðingu og sendi Ástu til mín. Ég hringdi svo í mömmu og bað hana að koma og vera til staðar ef eldri stelpurnar skyldu vakna. Sem betur fer því yngri stelpan mín sem er 6 ára vaknaði við lætin í pumpunni þegar við blésum upp laugina og var alltof spennt til að fara aftur upp í rúm.

Þvílíkur léttir að komast í vatnið þegar allt var orðið klárt. Mamma kom fljótt og Ásta stuttu síðar. Stelpan mín vakti svo stóru systur sína fljótlega til að leyfa henni að vera með í partýinu. Um 5 leitið athugar Ásta útvíkkun sem er um 7. Rut kemur stuttu síðar. Verkirnir eru sárir og örir, og þrýstingurinn var mikill. Í minningunni kastaði ég endalaust upp, en kannski var það bara tvisvar. Mér fannst ég ekki ná að anda mig eins vel í gegnum verkina og í síðustu fæðingu. Um klukkan 6:20 bað ég Ástu um að gera belgjarrof sem hún gerði. Vatnið var tært og þrýstingurinn minnkaði í kjölfarið og ég átti aðeins auðveldara með þetta. Samt fannst mér síðustu sentímetrarnir ótrúlega lengi að klárast. Um hálf átta þreifaði ég hausinn kominn langt niður en áfram var um sentimeters löng brún, svo ég vissi að það var enn eitthvað eftir. Kl. 7:47 þreifa ég að útvíkkunin er búin og í næstu hríð finn ég höfuðið koma. Ég var búin að ákveða að stýra höfðinu rólega út en þegar á hólminn var komið vildi ég bara klára þetta svo höfuðið kom í einum hröðum rembing um kl. 7:50. Ég sagði viðstöddum að höfuðið væri komið, og virtist það koma öllum á óvart að það hefði komið svona hratt. Við tóku svo lengstu tvær mínútur lífs míns meðan ég beið eftir næstu hríð. Ásta lagði til að ég færi á fjórar fætur sem ég gerði, en ég hafði verið hálf krjúpandi í vatninu þegar höfuðið kom. Það var einhvern veginn auðveldara að rembast þannig. Svo kom hríðin og litla stelpan mín með henni kl. 7:53. Hún kom beint í fangið mitt, svo ótrúlega fín og hraust.


Ég leit upp og sá manninn minn, stelpurnar mínar og mömmu. Alveg ólýsanleg tilfinning að hafa þau öll þarna. Þegar fylgjan var fædd og búið að skilja á milli fórum við fjölskyldan öll saman upp í rúm og dáðumst að litlu stelpunni okkar. Hún var rúmar 16 merkur og 54 cm. Þrátt fyrir óþolinmæðina mína i rembingnum þurfti ekki að sauma, sem betur fer. Mamma fór svo út í bakarí og keypti brauð og smá bakkelsi handa öllum meðan Ásta og Rut gengu frá, enda allir svangir. Svo sátum við öll saman og borðuðum morgunmat áður en ljósmæðurnar og mamma kvöddu. Þetta var í raun algjör draumafæðing og ótrúlega dýrmætt fannst mér að hafa haft eldri stelpurnar og mömmu líka hjá mér.

Það sem ég er þakklát öllum þessum dásamlegu konum sem komu að fæðingunni, og allra helst Ástu sem var með okkur í gegnum þetta allt.







370 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page