top of page
Search
Writer's pictureBjörkin, ljósmæður

Fannst best að vera bara í mínu rými þarna, krefjandi og dásamlegt.

Updated: Jan 19, 2021

Fæðingarsagan okkar

Aðfaranótt 19 ágúst sem var settur fæðingardagur hafði ég rumskað nokkrum sinnum yfir nóttina með verkjaseyðing. Ég var ekkert að kippa mér mikið upp við það þar sem fyrirvaraverkir höfðu verið þónokkrir undir lok meðgöngunnar. Milli 35-36 viku hafði ég verið með mjög mikla fyrirvaraverki og hélt í tvígang að ég væri farin af stað en ekkert gerðist. Fyrirvaraverkirnir höfðu samt verið vægari, þar til þennan dag.


Ég vaknaði um morguninn með eldri stráknum, gerði hann tilbúinn fyrir daginn og fann mig svo til. Það kom aðeins fersk blæðing hjá mér svo ég heyrði í Arney ljósu með það, hún sagði að þetta gæti verið fyrirvari um fæðingu og sagði að þetta væri ekki það mikið að ég þyrfti að hafa áhyggjur af því en hún vildi fá að heyra í mér ef eitthvað meira kæmi eða verkirnir yrðu meiri. Ég kláraði að gera okkur mæðginin tilbúin fyrir daginn og svo vakti ég Hall og bað hann um að fara með Ólaf Orra á leikskólann því ég vildi ekki vera með verki þar.


Um hádegi voru verkirnir með 5-10 mínútna millibili og Hallur orðinn ferkar órólegur þar sem fæðingin hjá eldri stráknum gekk svo hratt fyrir sig um leið og ég fór í gang. Ég reyndi að róa hann því mér fannst verkirnir ekki nógu kröftugir en ákvað að heyra í Arney og láta hana vita. Hún ákvað að koma og kíkja á okkur. Þarna var ég með 2 í útvíkkun og henni fannst líklegt að þetta væri byrjandi fæðing en ég vildi ekki gefa mér neinar vonir um þetta, ég ákvað með sjálfri mér að þetta mundi detta niður svo ég yrði ekki fyrir vonbrigðum. Arney bað mig um að heyra í sér ef þetta færi að verða meira. Hallur dreif sig í að blása upp laugina inni í stofu og dýnuna sem við vildum hafa til taks. Mér fannst það hálf vandræðalegt að hann væri að gera allt tilbúið þar sem ég beið bara eftir að þetta mundi detta niður.


Um kl 16 var ég orðin svo pirruð að vera með verki sem ég var búin að ákveða að mundu detta niður. Ég sagði við Hall að ég væri orðin leið á þessum smáverkjum og vildi fara að fá almennilega verki sem kæmu þessu í gang. Um leið og ég sleppti orðinu fékk ég þennan líka flotta verk, settist niður, lokaði augunum og var svo glöð að finna hann meðan hann gekk yfir. Hallur spurði hvort ég væri í fílu út í þetta ferli en ég sagði honum að ég hefði fengið það sem ég var að biðja um, fínann verk sem tók aðeins í. Á næsta hálftíma var orðið styttra á milli og verkirnir, mér til mikillar gleði héldu áfram að vera aðeins kröftugir.


Um kl 16 hringdi ég í Arney aftur og sagi henni að nú væru verkirnir orðnir aðeins kröftugir. Hún ákvað að koma og kíkja á okkur því alltaf vorum vð með fyrirvarann á því að þessi fæðing gæti jafnvel tekið styttri tíma en 3 tíma fæðingin sem ég átti að baki. Hún skoðaði stöðuna á mér, ég var enn með 2 í útvíkkun en leghálsinn styttur og greinilega eitthvað búið að vera að gerast þarna. Ég spurði Arney hvort það væri möguleiki að þetta gæti dottið niður núna. Hún sagði að það væri alltaf einhver möguleiki en hún efaðist um að það mundi gerast. Ég ákvað samt að halda fast í þann möguleika um að þetta gæti dottið niður til að verða ekki fyrir vonbrigðum ef það mundi svo gerast. Mér fannst rosalega gott að leggjast á dýnuna og Hallur nuddaði á mér mjóbakið í hríðunum.

Um kl 17:30 kom svo Harpa að hjálpa okkur í fæðingunni. Verkirnir héldu áfram að harðna og um kl 18 vildi ég fara ofan í laugina. Þvílík dásemd sem það var að komast þangað ofan í. Ég sagði þeim að hvort sem barnið ætlaði að koma eða ekki þá ætlaði ég ekki upp úr löginni fyrr en það á endanum kæmi.


Verkirnir voru orðnir reglulegir en þetta var voðalega heimilislegt og ljúft, við spjölluðum um daginn og veginn á milli hríða hjá mér.


Ég þurfti að einbeita mér orðið að hríðunum en um leið og hver hríð leið úr hélt ég áfram spjallþræðinum þar sem ég sleppti honum fyrir hríðina. Áfram jukust verkinrir smátt og smátt. Þegar aðeins var liðið á brosti Arney til mín og spurði mig hvort ég héldi núna að ég væri að fara að fæða þetta barn J ég ákvað þá að sleppa þessari efasemd minni og njóta þess bara að þetta væri virkilega að fara að gerast.


Það kom yfir mig smá ógleði en þær gáfu mér piparminntulykt í grisju sem hjálpaði heilmikið. Stuttu seinna missti ég grisjuna ofan í vatnið á lærið á mér, sem gaf mér smá kuldatilfinningu í lærið sem mér fannst mjög þægilegt í verkjunum því það ruglaði verkina aðeins. Mér fannst líka rosalega gott að nudda enninu við samskeytin í plastinu í sundlauginni og með þessum furðulegu leiðum fannst mér þetta bara mjög róandi og þægilegt að takast á við verkina. Ekki skemmdi svo lagalistinn sem Hallur hafði sett saman fyrir fæðinguna sem gerðu andrúmsloftið svo yndislegt þarna inni.



Allt í einu var eins og ég hefði fengið sprautað í mig svefnlyfi (sem var ekki raunin). Ég gat ekki talað lengur og átti erfitt með að halda höfðinu á mér uppi. Ég náði einhverri djúpri slökun inn á milli hríðana sem samt voru orðnar vel kröftugar. Ég náði að biðja Arney um að tékka á útvíkkun því ég vildi vita stöðuna á mér. Hún sagði að hún vissi nokkurnvegin hvar í ferlinu ég væri en athugaði samt fyrir mig, þarna var ég komin með 7 í útvíkkun. Mér fannst ágætt að vita stöðuna en slökunin kom enn meira yfir mig og ég rétt vissi af mér, eins og ég væri sofandi. Arney og Harpa spurðu mig hvort ég vildi að það yrði hljóð í kringum mig en mér fannst mjög gott að hlusta á þau spjalla, það tæki hugann frá verkjunum þegar þeir komu yfir. Á milli verkja gat ég samt varla hlustað á þau því ég lá þarna í mínum heimi. Ég vildi ekki að Hallur nuddaði á mér mjóbakið lengur heldur fannst mér best að vera bara þarna í mínu rými og takast á við þetta. Þetta var krefjandi en alveg dásamleg stund. Þarna vissi ég að þetta gæti ekki dottið niður og ég væri að fara að hitta litla barnið mitt fljótlega. Í mókinu dundaði ég mér við að telja niður hríðarnar en ég réð vel við verkina.


Allt í einu var eins og ég hefði fengið aðra mun meira örvandi sprautu í mig, ég reif mig upp úr þægilegu stöðunni sem ég var búin að koma mér í. Hríðin sem kom var töluvert meira krefjandi en þær sem á undan höfðu verið. Arney kom til mín og ég starði á hana og sagði henni að ég gæti þetta ekki. Arney var mjög róleg og sagði mér að ég gæti þetta alveg þetta væri að verða búið og ég hefði vel getað þetta hingað til. Hún róaði mig mikið niður með því hvað hún var róleg. Hún spurði mig hvort mér liði vel þarna eða hvort ég vildi fara. Ég vildi það alls ekki ég var ekkert óörugg með það að vera heima og upp úr löginni færi ég ekki án þess að vera með barn í fanginu.



Hún sagði mér að rembast ef ég finndi þörfina. Ég fann ekki rembingsþörf en var farin að vilja fá barnið í hendurnar og vildi koma mér út þessari aðstöðu svo ég ákvað að ýta smá. Þá fann ég höfuðið renna niður inní mér. Ég beið eftir næstu hríð og rembdist þá kröftuglega og allt höfuðið kom út í þessum sama rembing. Ég hafði rætt það við Areny áður að ég vildi taka sjálf á móti barninu en þarna fannst mér ég vera í svo skrítinni stöðu að mér fannst eins og ég gæti ekki náð í barnið og bað Arney um að taka á móti honum. Í næsta rembing kom líkaminn út og Arney kom honum á milli fótanna hjá mér svo ég gæti tekið hann upp úr (ég mundi ekki alveg hvernig þetta hefði farið fram en Arney sagði mér frá því eftir á). Um leið og litli strákurinn minn kom í heiminn kom uppáhalds lagið mitt, Lif með Hildi Völu sem mér fannst dásamlegt.


Við fengum góðann tíma í þessari nú subbulegu laug til þess að skoða litla lífið okkar, svo fullkominn og fínn. Þegar hann var búinn að gráta aðeins og jafna sig fór hann aðeins á brjóst. Fylgjan var nokkurn tíma að losna svo Arney, Harpa og Hallur hjálpuðu mér að koma upp úr löginni og leggjast á dýnuna. Ég vildi að strengurinn yrði ekki klipptur fyrr en hann hætti að púlsera svo við lágum föst saman í smá stund á dýnunni áður en við vorum klippt í sundur. Svo lágum við og dáðumst að kraftaverkinu okkar í róelgheitum, allt var svo afslappað og gott. Ég hafði ekki viljað að neinn vissi af mér í fæðnigu því ég vildi ekki truflunina af því að þurfa að láta stressaða ættingja vita. Fólkið okkar tók því nokkuð vel að ég væri að fara að fæða heima en eftir allt sem ég var búin að lesa mig til um þá vissi ég hvað ég væri örugg og vildi ekki láta stressið í öðrum trufla mig í þessu ferli. Þá var líka svo ljúft að hringja bara þegar ég var komin með barnið mitt í fangið og við foreldrarnir búinr að fá smá tíma til að horfa á hann án þess að vita af einhverjum bíðandi á línunni að hringja og segja þeim hvað allt gekk vel. Mér fannst svo mikilvægt að fá að hafa allt eftir mínu höfði og Hallur treysti mér til þess að taka góðar ákvarðanir varðandi fæðinguna og studdi mig í því öllu.

Eftir að búið var að aðskilja okkur, fylgjan var komin og frágangurinn með mig var búinn skriðum við Hallur uppí rúm með litla gullmolann okkar og héldum áfram að dáðst að honum á meðan Arney og Harpa gengu frá frammi. Þegar við komum svo fram var eins og ekkert hefði gerst inní stofu og hvað þá að nýtt líf hefði komið í heiminn þar fyrir örfáum klst síðan.


Ljósurnar voru svo frábærar og gerðu þessa reynslu okkar svo góða. Arney útskýrði ferlið svo vel fyrir Halli og var svo mikið til staðar fyrir mig. Hann sem skalf svo mikið úr stressi þegar ég fæddi fyrra barnið okkar inni á sjúkrahúsi að ég spurði hann á milli rembinga hvort það væri í lagi, var rólgur hjá mér þegar litli maðurinn kom til okkar. Hörpu þekkti ég síðan við unnum saman og fannst yndislegt að hafa hana hjá okkur þarna, hún tók myndirnar að fæðingunni sem er ómetanlegt og var til staðar fyrir mig.



Leví Hrafn Hallsson

1,005 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page