Hálfum mánuði fyrir fæðingu fór ég að finna fyrir óreglulegum samdráttum og verkjum annað slagið. Ég var orðin vel þreytt á þessum tímapunkti, kjagandi á eftir einum tveggja ára í sumarfríi, blóðþrýstingurinn farinn að hækka og líkaminn farinn að segja til sín. Ég játaði mig sigraða og bað Joshua, manninn minn, um að óska eftir akút sumarfríi svo ég gæti sett tærnar upp í loft og safnað kröftum. Það var eitthvað sem sagði mér að barnið myndi mæta í fyrra fallinu.
Ég fann fyrir ótrúlegri ró yfir því að ætla að fæða heima. Engin orka sem þyrfti að eyða í að undirbúa neitt, litlu fötin mættu þess vegna vera ennþá í þurrkaranum þegar hann mætti. Það eina sem skipti máli var að ég gæti hvílt mig og notið þess að geta veitt einkabarninu fulla athygli í smá stund í viðbót. Og það var nákvæmlega þetta sem hafði selt mér heimafæðinguna. Lífið gæti bara gengið sinn vanagang, ég gæti verið í mínu örugga umhverfi þegar ég væri í mínu berskjaldaðasta ástandi, Joshua gæti fengið sér að borða og hvílt sig eins og honum hentaði í fæðingunni og það yrði sem minnst rútínurask á Degi, eldri stráknum okkar.
Ljósmæðurnar í Björkinni höfðu líka strax í fyrstu skoðun þurrkað út allan kvíða sem við höfðum haft gagnvart því að fæða ekki á spítala. Hver annarri yndislegri og handvissar um að ég réði algjörlega við það að eiga í sundlauginni heima hjá mér. Og þar með var það ákveðið.
Eftir 38 vikna meðgöngu lá ég, eins og svo oft áður, að horfa á sjónvarpið um kvöldið þegar ég fór að finna fyrir reglulegum samdràttum. Ég fann fyrir spenningi en reyndi að gera mér ekki of miklar vonir um að stundin væri runnin upp. Þegar samdrættirnir voru ennþá reglulegir í kringum miðnætti og samdráttaappið löngu búið að segja mér að flýta mér uppá spítala fór ég að sjá eftir því að vera ekki búin að blása upp sundlaugina. Eftir að hafa rætt þetta fram og til baka við Joshua ákvað ég að hlýfa íbúum blokkarinnar við làtunum í pumpunni, taka tvær panodil og sjá hvort ég gæti ekki sofnað. Sem reyndist blessunarlega rétt ákvörðun þar sem allt datt niður undir morgun og ég náði loksins að sofna almennilega.
Daginn eftir læddist að mér grunur um að líkaminn væri að verða tilbúinn í að fæða þetta barn. Ég þorði samt sem áður varla að segja það upphátt, það væri aðeins of gott til þess að vera satt. Rétt fyrir hádegi fór svo að bera aftur á þolanlegum samdráttum á u.þ.b. sjö mínútna fresti. Lífið gekk sinn vanagang og dagurinn leið notalega hjá í sólinni úti á svölum. Í matarboði um kvöldið var ég farin að finna meira fyrir samdráttunum og kúfaði vel á diskinn. Mig grunaði að ég gæti þurft á allri minni orku að halda seinna í kvöld. Ég heyrði í Elvu ljósmóður og lét hana vita af því að mögulega væri nú eitthvað að gerast en þetta væri allt svo þolanlegt að líklega væri ennþá eitthvað í þetta.
Um níu leytið um kvöldið var ég aðeins farin að þurfa að anda mig í gegnum samdrættina en sat inná milli algjörlega verkjalaus og spjallaði í heimsókn hjá foreldrum mínum á meðan Joshua horfði á fótboltaleik. Ennþá var ég ekki viss um hvað væri að gerast en Degi var boðið í gistingu hjá ömmu og afa bara svona til öryggis. Við Elva heyrðumst aftur og hún bað mig að láta sig vita þegar við vildum að hún kæmi til okkar. Við Joshua lögðumst uppí rúm og gerðum heiðarlega tilraun til þess að sofna aðeins. Samdrættirnir ennþá á sjö mínútna fresti og tímaskynið þannig að mér fannst ég ná að hvílast ofboðslega vel inn á milli.
Eftir klukkutíma uppi í rúmi rankaði Joshua við sér við það að ég var farin að anda mig mjög djúpt og reglulega í gegnum samdrættina og spurði hvort hann ætti ekki að heyra í Elvu. Enn fannst mér það ekki tímabært, þetta væri allt svo viðráðanlegt. Hver samdráttur entist bara í mínútu og tæki í mjóbakið fyrstu þrjá andadrættina af sex. Svo kom þessi góða pása í allt að sex mínútur. Þetta ætti örugglega eftir að versna meira. Við ákváðum að hann myndi láta renna í laugina og svo myndum við heyra í Elvu.
Elva kom svo rétt fyrir fjögur þegar ég var nýkomin ofan í laugina. Ég spurði hana hvort hún gæti mögulega skoðað mig, ég ætti svo erfitt með að átta mig á hvar í fæðingarferlinu ég væri. Hríðarnar væru svo miklu sársaukaminni en í fyrri fæðingu og mér þætti ég svo skýr og fúnkerandi inn á mili, ekki í verkjamóga eins og síðast. Ég gekk ein og óstudd inn í rúm á milli hríða og þar fékkst það staðfest. Ég var að fara að fæða og var komin með níu í útvíkkun. Ég gat þá hætt að velta mér upp úr því. Ég táraðist þegar ég áttaði mig á því að við værum að fara að hitta litla strákinn okkar eftir bara örskamma stund. Elva ákvað að hringja út liðsauka fyrir rembinginn og á meðan svamlaði ég um í lauginni.
Um fimm leytið fór að bera á rembingsþörf. Elva hvatti mig til þess að fylgja algjörlega líkamanum og að prófa að koma úr baklegu yfir í fjórfótastöðuna ef mér liði vel með það til þess að auðvelda barninu leiðina út. Eftir þrjár rembingshríðar hvatti Elva mig til þess að þreifa fyrir barninu og sjá hversu neðarlega hann væri kominn. Það voru bara nokkrir sentímetrar í mjúka hárið hans og þremur hríðum seinna greip Elva hann svo í vatninu. Við Joshua ætluðum ekki að trúa því að þetta væri bara búið, kl. 5:23 var hann kominn í fangið.
Það var eins og værðin sem við höfðum upplifað í fæðingunni hefði flust yfir á barnið þar sem það reyndist næstum ómögulegt að fá hann til þess að gráta eftir fæðinguna. Nýkominn í heiminn horfði hann rannsakandi á okkur og geispaði svo. Elva klippti á naflastrenginn og fljótlega rann fylgjan nánast bara út. Við Joshua lögðumst upp í rúm og störðum á litla strákinn okkar á meðan ljósmæðurnar tóku til hendinni frammi. Það var ekki að sjá að þarna hefði átt sér stað fæðing fyrir utan fylgjuna sem lá í Krónupoka frammi í forstofu.
Ég ætlaði ekki að trúa því hvað allt hafði gengið vel og hversu dásamleg upplifun fæðing gæti verið. Fyrri fæðingin mín hafði líka gengið eins og í sögu en þrátt fyrir það hafði ég upplifað mig óörugga og átt erfitt með að treysta ferlinu. Upptekin af því að gera allt "eins og maður á að gera það" í stað þess að færa athyglina inn á við, hlusta á líkamann og treysta því sem hann segði mér. Þessi líkami er nefnilega svo magnaður og veit alveg hvað hann er að gera.
Agnes, Joshua, Dagur og Brynjar
Comments