top of page
Search

"Það var eins og tappi hefði farið úr kampavínsflösku"

Updated: Jul 13, 2022

Fæðing Signýjar Rutar - 6. júní 2021

Ég byrjaði að fá einhverja verki um kl. 21 laugardagskvöldið 5. júní, meðan við Sveinbjörn vorum að klára að undirbúa og laga til í íbúðinni, búa um rúmið hennar og fleira sem þurfti að gera áður en hún myndi mæta. Ég hafði litla trú á því að eitthvað væri að gerast, ég var með túrverkjaseyðing sem ég hafði fundið fyrir áður og þrýsting niður í legháls. Ég bjóst einfaldlega við að hún væri að ýta sér neðar í grindina, eins og hún hafði verið að gera vikurnar á undan. Slímtappinn hafði reyndar farið að hluta þremur dögum áður, en óvíst hvort að það væri nokkuð merki um að fæðing væri að fara af stað.


Við héldum áfram að laga til og horfðum síðan á bíómynd á Netflix. Um kl. 23 var ég farin að rugga mér á æfingarbolta því það var bara þar sem mér leið vel. Eftir á að hyggja var ég komin með mun meiri verki en ég áttaði mig á, en þar sem þetta var ennþá seyðingur, en ekki hríðar með pásu á milli, var ég ekki svo viss um að neitt væri að gerast. Og Sveinbjörn hafði ennþá minni trú á því, og var sannfærður um að um fyrirvaraverki væri að ræða. Um hálf eitt fer ég að upplifa verkina sem hríðar, og er farin að fá um sex mínútna pásu á milli - en stundum lengur. Við erum komin upp í rúm og þykjumst ætla að fara að sofa. Ég næ að anda mig í gegnum verkina og sofna á milli þeirra, en verkirnir eru enn það vægir að ég get legið á hliðinni í hríðunum. Þar sem ég er alltaf að sofna á milli hríða hef ég enga rænu til að fylgjast með klukkunni og get því engu svarað þegar Sveinbjörn spyr mig hvað sé langt á milli hríða. Við höldum áfram að sofa. Ég var orðin sannfærð um að fæðing væri að fara af stað, en Sveinbjörn var það ekki. Ég var örlítið pirruð yfir því að vera að fara af stað svona rétt fyrir nóttina og hefði frekar viljað geta sofið almennilega áður – en fann að mér fannst mjög ósanngjarnt gagnvart barninu að hugsa svona. Núna þegar þessu er lokið veit ég vel að ég höndlaði hríðarnar mun betur vegna þess að ég var uppí rúmi í myrkrinu og fékk að vera algjörlega í friði, með slökkt á símanum og Sveinbjörn sofandi við hliðiná mér. Allt var nákvæmlega eins og það átti að vera. Þarna fann ég mjög sterkt að ég vildi alls ekki fá neinar ljósmæður heim til mín, og datt því ekki í hug að hringja í þær. Ég vildi vera ein og í friði.


Frá u.þ.b. fjögur um nóttina fóru hríðarnar að vera sterkari, þar sem ég var farin að þurfa að setjast upp á milli hríða og hafa meira fyrir því að anda mig í gegnum þær. Ég held ég hafi líka verið farin að stynja meira og átti erfiðara með að finna þægilega stöðu. Um kl. fimm er farið að birta og Sveinbjörn vaknar. Eins og það sé kominn dagur. Þá tökum við tímann milli hríða, sem eru fimm mínútur. Þarna loksins var ljóst að fæðing væri farin af stað og við ákváðum að hringja í ljósmæðurnar. Sveinbjörn vill líka fara að blása upp fæðingarlaugina, en ég mótmæli því – vil hvorki að hann fari fram úr rúminu né þurfa að hlusta á hann blása upp laugina. Ég var líka ekkert svo viss um að ég vildi fara í laugina. Hríðarnar eru orðnar sterkari og hann er farinn að þrýsta á mjaðmirnar mínar í hverri hríð, sem gerir þær mun viðráðanlegri. Tæpri klst. seinna mætir Ásta. Á þessum tímapunkti er ég orðin þreytt á hríðunum, að fara í gegnum sama ferli aftur og aftur, en er á sama tíma sannfærð um að ég sé bara komin með þrjá í útvíkkun og að ekkert sé að gerast. Þar hafði ég svo sannarlega rangt fyrir mér, en þegar Ásta skoðar mig um kl. hálf sjö er ég komin með 8 í útvíkkun og hún finnur kollinn vel. Mér var svo svakalega létt að heyra þetta, því ég fann að úthaldið í hríðunum var að minnka. Á þessum tímapunkti hringir Sveinbjörn í Stebbu frænku mína, sem er ljósmóðir og ætlaði að vera viðstödd fæðinguna. Stebba var komin tæpum hálftíma seinna.

Þrátt fyrir að nú sé orðið „fullt hús af fólki“ gera Ásta og Stebba það báðar mjög vel að láta mig gjörsamlega í friði. Mér leið áfram eins og ég væri algjörlega við stjórnina, og þær voru frammi í stofu svona ef eitthvað væri.


Ásta, Sveinbjörn og Stebba fara að brasa frammi að koma fæðingarlauginni upp og fylla hana af vatni og ég er áfram uppí rúmi. Ég kalla á Sveinbjörn í hvert skipti sem hríð er að hefjast og hann kemur og þrýstir á mjaðmirnar. Ég finn hvernig hún færir sig neðar og neðar, því það kemur að því að ég get ekki lengur setið á rúmstokknum eins og ég hafði gert klukkutímum saman í hríðunum.

Um það leyti sem ég finn ekki lengur þægilega stöðu í hríðunum uppi í rúmi, er laugin klár og ég ákveð að prófa hana. Þá er klukkan átta. Og vá hvað það var gott að komast í heitt vatnið. Ég hafði ekki getað ímyndað mér hvað þetta yrði notalegt og mér leið strax miklu betur. Í lauginni lá ég á bakinu milli hríða, en fór á fjórar fætur í hríðunum. Sveinbjörn hélt áfram að setja hendurnar á mjaðmirnar mínar í hríðunum, en þurfti minna að þrýsta á þær. Það var nóg að finna hitann frá höndunum hans og að hann væri nálægur, til þess að ég kæmist í gegnum hríðarnar. Þarna var ég farin að gera allskyns hljóð og stunur til að koma mér í gegnum hríðarnar, það eitt að anda djúpt var ekki nóg. Hríðarnar voru orðnar sterkari, en tíminn á milli hríða var líka orðinn stórkostlegur. Mér fannst ég liggja í alsælu í lauginni milli hríða, og náði algjörlega að slaka á og hvíla mig áður en næsta hríð kom. Það var alveg hreint ótrúlegt. Ég fann líka kollinn færast neðar og neðar með hverri hríð, svo tilgangurinn var svo skýr.


Það tók mig langan tíma að komast í rembinginn fannst mér. Aftur var ég alveg að verða komin með nóg af hríðunum, eins og ég var þegar Ásta hafði komið. Ég var svo löngu tilbúin að fara að koma þessu barni í heiminn. Ásta heldur að ég hafi verið með fulla útvíkkun í hálftíma til klukkutíma áður en rembingurinn byrjaði, en ég hafði bara fengið örlitla rembingsþörf af og til í hríðunum.

Um korter yfir níu fer ég að rembast, og gera á sama tíma einhver fáránleg hljóð sem ég hafði aldrei heyrt áður. Um korteri seinna fer legvatnið, en það var eins og tappi hefði farið úr kampavínsflösku. Mér fannst hafa komið svo hátt hljóð þegar legvatnið fór, en komst að því eftir á að það var algjörlega hljóðlaust. En krafturinn var samt svakalegur og ég þurfti að hafa mig alla við að ná aftur að anda djúpt og rólega.


Rembingurinn var það sem mér þótti erfiðast, ég þurfti svo mikinn kraft í hann og mér fannst hann taka heila eilífð. En mikið sem þetta var samt magnað. Það er skrítin tilfinning að remba hausnum alltaf ákveðið langt út og svo fer hann aftur inn á milli hríða. Rembingurinn var líka það eina sem mér þótti sársaukafullt, semsagt þegar húðin var að teygjast utan um kollinn. Hríðarnar höfðu verið erfiðar, en ekki sársaukafullar eins og þegar húðin teygðist eða rifnaði. Eftir um 40 mínútna rembing kom hausinn út. Það var í annað skiptið sem ég þurfti að hafa mig alla við að ná aftur djúpum og rólegum andardrætti – þvílíkur kraftur! Þá kom í ljós að daman var í framhöfuðstöðu, sem líklega gerði rembinginn aðeins erfiðari en hann hefði annars verið. Nú kom smá pása milli hríða, á meðan daman sneri höfðinu frá því að vísa niður í lauginni (ég var á fjórum fótum) í það að horfa upp, beint framan í pabba sinn. Hún sneri sér eins og ugla, og blikkaði augunum og japlaði á sama tíma. Og sparkaði og spriklaði, sem ég fann vel. Svo kom loksins síðasta hríðin og þá kom hún í heiminn, kl. 9:54, sunnudaginn 6. júní. Ásta ýtti aðeins á eftir henni og ég dróg hana til mín, um leið og ég settist upp. Og þvílíkt sem hún var fullkomin. Og vá hvað mér fannst hún risastór, eftir að hafa komist út um þetta litla gat.


Hún grét örlítið þegar hún tók fyrsta andardráttinn, en eftir það varð allt gott og hún naut þess að liggja í fanginu mínu. Það var samt örlítið krefjandi að hafa hana þar, því naflastrengurinn var svo svakalega stuttur. Eftir að slátturinn í naflastrengnum hætti klippti Sveinbjörn á naflastrenginn og tók dömuna með sér inní herbergi, á meðan ég fæddi fylgjuna. Það tók smástund að koma henni út og þurfti þyngdaraflið og smá tog í naflastrenginn til að hjálpa. Eftir að fylgjan var farin fannst mér ég svo svakalega tóm að innan, sem var mjög undarleg tilfinning. Ég fer upp úr baðinu og upp í rúm, með góðri aðstoð frá ljósmæðrunum. Það blæddi meira en var ákjósanlegt, svo ég fékk samdráttarlyf til að hjálpa leginu að dragast saman. Uppí rúmi fékk ég barnið mitt aftur á bringuna, og hún fór strax á brjóstið, eins og ekkert væri eðlilegra. Þarna var hún þá komin, 9 dögum fyrir settan dag, og tókst að koma öllum á óvart.

Ég missti um 700 ml af blóði, svo næsta sólarhringinn eða svo þurfti ég að passa mig sérlega vel þegar ég stóð upp, hélt aldrei á barninu mínu meðan ég stóð eða labbaði, og drakk meira vatn en ég hef nokkru sinni gert. Ég rifnaði líklega meira vegna þess að hún var í framhöfuðstöðu. Þetta tvennt gæti hafa verið neikvætt, en mér líður í alvöru eins og þetta hafi verið algjör draumafæðing. Allt gekk svo vel, og allt var nákvæmlega eins og það átti að vera. Og ég þakka fyrir það hversu vel mér tókst að halda tengingu við eigin líkama og treysta honum til að koma þessu barni í heiminn, einn andardrátt í einu. Og fyrir mjög góðan stuðning frá Sveinbirni, og dásamlegar ljósmæður, sem gerðu nákvæmlega það sem þurfti til að styðja mig í gegnum þetta – sem oftast nær var að láta mig í friði.


En það sem ég er líklega ánægðust með er að hafa ákveðið að fæða heima. Frá fyrstu verkjum var ég svo þakklát fyrir að þurfa ekki að fara neitt. Mér hefði þótt alveg fáránlegt að þurfa að klæða mig og fara út í bíl til að keyra eitthvert. Að fá að vera ein í friði í rúminu mínu, og síðan í stofunni minni, og með ljósmæður sem ég þekkti, skipti svo miklu máli og er líklega ástæðan fyrir því að allt gekk svona vel. Að vera heima var hárrétt ákvörðun.

Nú er daman orðin 11 daga gömul og er algjör draumadís. Mikið sem ég er þakklát fyrir litlu fjölskylduna mína.


Pála Margrét Gunnarsdóttir, 17. júní 2021.


952 views0 comments

Comments


bottom of page