top of page
Search

Fjölskyldan og umhverfið í heimafæðingu



Fæðing er fjölskylduviðburður og þegar kona fæðir heima getur hún hagað umhverfinu þannig að henni líði sem allra best. Mikilvægt er að hafa umhverfið þannig að konunni finnist hún örugg, hún sé frjáls að fylgja innsæi sínu og líðan og geti verið hún sjálf, því þannig gengur fæðingin best fyrir sig. Því er mjög mikilvægt að kona velj vel hverjir eru viðstaddir fæðinguna. Það ætti aldrei neinn að vera viðstaddur sem konunni líður ekki vel með, því það hefur áhrif á fæðingarhormónin sem hafa áhrif á hvernig fæðinginn gengur fyrir sig. Allir sem eru viðstaddir fæðingu ættu að hafa hlutverk og enginn bara áhorfandi. Gott er því að hugsa vel hverjir eru viðstaddir.

Fæðing þarf ekki mikið plásss, flestar konur sem fæða heima kjósa að hafa fæðingarlaug. Það er að sjálfsögðu undir hverri og einni konu komið hvort hún kýs að vera í vatni í fæðingunni eða ekki. Það ætti alltaf að miðast við hvernig konunni líður best. Fæðingarlaugarnar taka ekki mikið pláss og alltaf er hægt að koma henni einhversstaðar fyrir.

Börn geta fæðst allstaðar sem konunni líður best, í rúminu, sófanum, gólfinu bara hvar sem konunni líður best. Fæðingar eru sjaldnast sóðalegar og íbúðin mun ekki láta á sjá eftir fæðinguna :). Það skiptir heldur ekki máli hvar á höfuðborgarsvæðinu þú býrð, hvort þú býrð á fyrstu hæð eða fjórðu, þa er hefur ekki áhrif á hvort þú getir fætt heima.


Feður

Fæðing er fjölskylduviðburður og þó að konan og barnið sem er að fæðast séu vissulega miðpunkturinn er fæðingin einstök stund fyrir alla fjölskylduna. Að verða faðir veldur miklum breytingum í lífi hvers karlmanns líkt og móðurhlutverkið gerir fyrir konur. Feður hafa líka stóru hlutverki að gegna í fæðingunni því stuðningur þeirra er konum mikils virði. Rannsóknir benda til þess að upplifun kvenna sem njóta stuðnings maka síns í fæðingunni er jákvæðari. Þær finna síður til sársauka en aðrar konur, tímalengd fæðingar getur verið styttri og minni hætta er á læknisfræðilegum inngripum.

Sumir feður eru kvíðnir fyrir fæðingu og mörgum finnst hlutverk sitt óljóst og óttast jafnvel að þeir muni ekki geta stutt við konur sínar eins vel og þeir myndu vilja. Heimafæðing virðist draga úr þessum tilfinningum hjá verðandi feðrum og þeir sem hafa reynslu af heimafæðingum tala oft um það hvað þeir hafi upplifað sig virka þátttakendur í fæðingunni.

Þó talað sé um feður í þessu samhengi getur þetta átt jafnt við um þegar báðir foreldrar eru af sama kyni.

Hér er skemmtileg lesning fyrir verðandi heimafæðingarfeður skrifuð af föður sem hefur reynslu af fæðingu á sjúkrahúsi og heimafæðingu.


Eldri systkini

Það getur verið ógleymanlegt fyrir eldri systkini að fá að fylgjast með litla systkini sínu fæðast og taka þátt í þeirri upplifun sem fæðing er. Barnið verður vitni að þeim mikla krafti sem býr í móðurinni og upplifir það kraftaverk sem fæðing barns er.

Sumar mæður hafa áhyggjur af því að eldri börn þeirra muni trufla þær í fæðingunni en öðrum finnst það veita þeim styrk að hafa eldri börnin nálægt. Ef ætlunin eru að eldri börn séu til staðar þarf að undirbúa þau fyrir fæðinguna. Gott er að tala jákvætt um fæðinguna við barnið og segja því hverju það megi eiga von á bæði hvað það muni sjá og heyra. Gott er að leyfa barninu að hitta ljósmóðurina þannig að hún sé því ekki ókunnug þegar kemur að fæðingunni.

Mikilvægt er að einhver sem barnið þekkir og treystir sé til staðar til þess að sinna því svo foreldrarnir geti einbeitt sér að fæðingunni. Eldri börn geta haft ákveðið hlutverk í fæðingunni t.d. að taka myndir eða gefa mömmu að drekka

527 views0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page