top of page
Search

Hringdi í vegagerðina á leiðinni í fæðingu

Updated: Jan 19, 2021


Við Kalli tókum þá ákvörðun þegar ég var komin 36 vikur á leið að eignast dóttur okkar hjá Björkinni. Við fengum að koma í heimsókn á staðinn og hittum þar þær Arney og Hrafnhildi sem fræddu okkur um Björkina og sýndu okkur aðstöðuna. Við tókum ákvörðun á staðnum um að nýta okkur þjónustu þeirra, það er mæðravernd, fæða hjá þeim og fá heimaþjónustu eftir fæðingu.


Ég vaknaði um klukkan fjögur aðfaranótt miðvikudagsins 21. Febrúar með samdrætti með vægum verkjum og grunaði þá að forstig fæðingar væri að hefjast en þá var ég komin 40 vikur +1 dag. Ég var vakandi í rúman klukkutima, slímtappinn byrjaði að fara og ég tók tímann á milli samdrátta sem voru með 5-17 mínútna millibili og mjög óreglulegir. Ég fór aftur að sofa en var mjög spennt yfir því að fæðingin væri skammt frá. Staðan var svipuð þegar ég vaknaði um sjö leitið og ég hélt áfram með mjög væga og óreglulega samdrætti til um eitt leitið en þá fóru þeir að vera óþægilegir en þó ennþá óreglulegir. Klukkan tvö voru samdrættirnir orðnir frekar reglulegir með um 6-8 mínútna millibili svo við hringdum í Hrafnhildi klukkan 14:23 og upplýstum hana um stöðuna. Við ákváðum að ég myndi heyra í henni þegar samdrættirnir væru orðnir reglulegri og við myndi vilja koma uppeftir.


Um klukkan þrjú fór ég að finna ágætlega fyrir verkjunum en samdrættirnir voru ennþá óreglulegir eða með 4-9 mínútum á milli. Ég var dugleg að labba um húsið og vera á hreyfingu á milli samdrátta. Uppúr fjögur sagði ég Kalla að ég væri komin með hríðar og að hann ætti að hætta í tölvuleik og byrja að styðja við mig og þá spyr hann hvort við ættum ekki að fara að heyra í Hrafnhildi og koma okkur í Björkina. Klukkan 16:18 hringdum við svo í Hrafnhildi og létum hana vita að það væru um 3-6 mínútur á milli samdrátta og hún var sammála því að við ættum að koma okkur uppá fæðingarstofu. Um hálf fimm lögðum við af stað og þá voru hríðarnar farnar að taka vel í. Neðst í götunni okkar hafði myndast djúpur skurður í klaka og vorum við næstum búin að festa bílinn í honum. Ég hringdi í Kópavogsbæ um 16:30 og lét vita að klakinn í götunni væri orðinn svona slæmur og að ég væri á leiðinni að fæða barn og myndi meta það mikils ef ég ætti ekki í hættu á að festast þarna um kvöldið á leiðinni heim með nýfætt barn. Þegar við komum heim var búið að fjarlægja klakann.


Á leiðinni uppá fæðingarstofu sendi ég mínum nánustu skilaboð um að við værum á leiðinni uppá fæðingarstofuna. Við vorum komin inná fæðingastofuna klukkan 16:47 og þá voru samdrættirnir orðnir frekar reglulegir með 2-3 mínútum á milli. Þrátt fyrir að finna vel fyrir samdráttum þá var mjög létt yfir mér og ég sagði Hrafnhildi brosandi frá því að það væru bara tvær mínútur á milli hríða.


Við fórum inn og Hrafnhildur og Kalli byrjuðu að hafa til laugina á meðan ég fór á klósettið en þá fór restin af slímtappanum. Ég fór svo inná fæðingarstofuna, kraup niður og hallaði mér fram á rúmið en mér fannst það þægilegasta stellingin á meðan ég var með hríðar. Hrafnhildur hljóp til og ná í dýnu fyrir mig til að krjúpa á og setti á hana grjónapúða og jógabolta sem ég gat hallað mér á. Hún hlustaði svo á hjarstláttinn í krílinu en hann var mjög fínn. Mér fór að verða flökurt þannig ég lét Kalla og Hrafnhildi vita að ég ætlaði aðeins að skjótast á baðherbergið og kasta upp og djókaði með það að eftir að ég væri búin að kasta upp gæti ég hjálpað þeim að setja plastið á laugina. Hrafnhildur kom til mín inná baðherbergi og lét mig fá ælupoka með grisju og mintulykt sem sló alveg á ógleðina svo ég fór aftur og kraup á dýnunni og hallaði mér fram á boltann.


Klukkan 17:01 eða 14 mínútum eftir að við komum inná fæðingarstofuna fór vatnið og ég lét Hrafnhildi og Kalla vita af því og bað Kalla um að sækja koll, setjast fyrir framan mig, slökkva ljósin og koma með kaldan þvottapoka og setja á ennið á mér. Á meðan hann gerði það kom Hrafnhildur og hjálpaði mér úr buxunum því ég var farin að rembast. Í öðrum rembin

gi fór að sjást í kollinn, þriðja rembingi kom höfuðið út og var naflastrengurinn vafinn um hálsinn á henni og í fjórða rembingi kom svo búkurinn en þá var klukkan 17:06. Litla var mjög fjólublá og hreyfði sig lítið til að byrja með en eftir að Hrafnhildur þurrkaði henni hressilega þá fór hún að hreyfa sig og að gráta en það tók samt smá tíma að ná lit í kroppinn hennar. Hrafnhildur gaf henni smá súrefni sem hjálpaði til með að ná litarhaftinu eðlilegu. Klukkan 17:12 hringdi ég í dóttur mína hana Andreu Dís sem er 16 ára og lét hana vita að hún væri búin að eignast litla systur og bað hana um að koma til okkar. Þar sem fæðingin gekk svo hratt fyrir sig náði ljósmóðirin hún Elva ekki að vera viðstödd fæðinguna.

Klukkan 17:40 kemur Andrea Dís til að hitta litlu systur sína og amma Hildur fær að kíkja aðeins inn með henni. Klukkan 20:25 höldum við svo heim á leið með nýja fjölskyldumeðliminn hana Emblu Maríu.598 views0 comments

Σχόλια


bottom of page