top of page
Search
Writer's pictureBjörkin, ljósmæður

Með Grace diskinn á repeat

Við komust að því í maí 2012 að við ættum von á okkar fyrsta barni og settur dagur var 16 .janúar 2013, og mikið hlakkaði okkur til. Við fengum svo að vita kynið í 20.vikna sónarnum og það var strákur sem við værum að fara fá.

 Alveg síðan ég var yngri vildi ég hafa eins náttúrulega fæðingu eins og hægt væri þegar að því kæmi og þessvegna spáði ég í því að eiga á Hreiðrinu en svo þegar leið á meðgönguna byrjaði ég í meðgöngujóga hjá Auði og í fyrsta tímanum las hún þrjár fæðingarsögur sem voru mjög jákvæðar heimafæðingarsögur, mér fannst þetta hljóma rosalega kósý og notalegt og var eitthvað farin að gæla við hugmyndina um að stefna á heimafæðingu, daginn eftir horfði ég á The buisness of being born með manninum mínum og sagði honum frá því að ég vildi eiga heima og hann tók mjög vel í það og vorum við orðin mjög spennt.


 Við höfðum samband við Arneyju og Hrafnhildi og þær buðu okkar til sín í spjall og kynntu málin nánar fyrir okkur. Við vissum strax að þær voru réttu ljósurnar fyrir okkur og svo tóku þær við mæðraskoðununum og þetta var þegar ég var komin 33 vikur.

Þegar ég var komin 37 vikur fengu við laugina og ég fékk undirbúningsnálastungur, núna vissum við að það væri ekki langt í gullmolann okkar.


Á settum degi var mæðraskoðun og Hrafnhildur kom og ég bað hana um að hreyfa við belgnum sem hún gerði,  við vonuðum að það myndi eitthvað flýta fyrir biðinni, svo um klukkan 23 byrjaði ég að fá einhverja verki sem voru ekki þæginlegir en ákvað að bíða bara og sjá, þeir versnuðu ekkert og voru óreglulegir og duttu svo niður eftir hádegi daginn eftir, núna var ég orðin svoldið óþolinmóð og næstu dagar voru svoldið lengi að líða, svaf á daginn og gat ekki sofið á næturna, en aðfaranótt miðvikudagsins 23. janúar svaf ég frá 12 og vaknaði einu sinni til að pissa og vaknaði svo klukkan 7 með væga verki, maðurinn minn vaknaði svo korter yfir og gerði sig klárann fyrir vinnuna, lét hann vita að ég væri með smá verki en væri örugglega ekki farin af stað, svo um 8 leytið lagði ég mig í klukkutíma og dreymdi verkina sem ég var með allan tímann, svo um hálf tíu fór ég með mömmu niðrá skattstofu og verkirnir héldu áfram, mamma var alveg sannfærð um að litli prins kæmi í dag en ég var ekki eins viss, jæja við komum svo við í bakaríinu á heimleiðinni afþví ég vildi reyna borða eitthvað svona ef það væri þannig að þetta væri að gerast. Þegar við komum heim ætlaði ég í sturtu til að athuga hvort verkirnir myndu detta niður og fékk mér tvo bita af rúnstykkinu en gat ekki meira, varð að komast í sturtuna strax, hringdi í Arneyju og sagði henni frá verkjunum sem ég var búin að vera með um morgunin og að það væri bara líklegt að ég væri farin afstað.


Ég fór í sturtu og mikið var það gott vildi helst bara vera þar en ákvað að fara inn í rúm þar sem Arney og Hrafnhildur ætluðu að koma klukkan 12 í mæðraskoðun, klukkan var 11.15 og verkirnir orðnir frekar óþæginlegir og ég hringdi í manninn minn og bað hann um að koma heim afþví þarna var ég viss um að litli væri á leiðinni en hann var upptekinn í vinnunni og ætlaði að vera eins snöggur og hann gæti, hann kom kl. 11.45 og ég held að þetta hafi verðið lengsti hálftími á ævi minni, skipaði honum að fara í náttföt og koma og nudda á mér bakið, þetta var orðið svoldið sárt þarna og gat voða lítið hreyft mig og fannst ekki gott að tala, hann og mamma tóku á móti Arneyju og Hrafnhildi og sögðu þeim frá ástandinu mínu og mamma sagði að það væri alveg pottþétt að litli kæmi í dag, þær græjuðu laugina svo kom Hrafnhildur til mín og hríðarnar voru að koma á 2-3 mínútna fresti, ég hafði öndunina alltaf í huga sem ég lærði í jóganu og það hjálpaði mér helling, svo um 1 leytið fer ég ofaní laugina og guð minn almáttugur hvað það var allt annað líf, verkirnir voru ekki eins slæmir og svo kom maðurinn minn ofaní líka og ég kúrði í fanginu hans, fannst það rosalega gott og náði rosalega góðri slökun og held ég hafi meira að segja dottað á milli hríða, prófaði líka að skipta aðeins um stöðu og fannst líka gott að halla mér yfir brúnina á lauginni og var líka með svona gadda nuddbolta sem Auður var búin að mæla með í jóganu og þeir voru mjög góðir og fannst samt best að kúra hjá manninum mínum, hefði ekki getað hugsað mér að hafa hann ekki hjá mér á þessari stundu hann var mjög góður stuðningur og minnti mig á að anda rétt, svo vorum við með Grace diskinn á repeat og ég raulaði með og hugsaði með sjálfri mér, hann er að koma, hríðin gengur yfir og það styttist í litla með hverri hríð þegar ég var orðin þreytt á þessu.


Þegar ég fór svo að finna fyrir rembingsþörfinni athugaði ég hvort ég finndi kannski fyrir kollinum, bað ég Hrafnhildi um að kíkja á útvíkkunina og þá var hún næstum því 10 og hún fann fyrir belgjunum, þá vissu ég að það væri alls ekki langt, svo fór rembingshríðirnar að verða kröftugri og ég var orðin svoldið óþólimóð og þreytt og spurði, hvað er eiginlega langt eftir? Þær svöruðu og sögðu að það væri nú ekki langt eftir en mér fannst það ekki nógu gott svar þannig ég spurði hvað það gæti verið langt eftir, þá svöruðu þær að hann gæti komið í næstu hríð eða eftir 10 og ég sætti mig við það og hélt áfram að gera mitt, ég þreyfaði og athugaði hvort ég finndi fyrir kollinum, þá fann ég fyrir belgjunum og það var svoldið magnað svona eins og blaðra inní mér og þreyfaði reglulega til að fylgjast með og finna hann koma neðar, það var hvetjandi og maður vissi að nú væri stutt eftir, þegar kollurinn var krýndur fór ég á fjórar fætur og hallaði mér upp að manninum mínum og kollurinn kom í næstu hríð og svo líkaminn þar á eftir, maðurinn minn tók á móti honum og rétti mér hann svo. Þetta var alveg magnað og mikill léttir yfir því að vera loksins búin að fá hann í hendurnar alveg fullkominn og yndislegur, hann fæddist í sigurkufli kl.17.09, 4370gr og 52 cm, viku eftir settan dag.


Ég upplifði fæðinguna mjög jákvæða og er svo ánægð með að hafa ákveðið að hafa valið að eiga heima, það var mjög róleg stemmning með kveikt á kertum og vorum með Grace diskinn í gangi, mamma sofnaði stuttu eftir að ég var komin ofaní laugina og vaknaði svo rétt áður en rembingurinn byrjaði hehe hún sem átti að vera passa að kisurnar væri ekki að flækjast mikið meðfram lauginni en það lýsir nú því hvað það var mikill friður hjá okkur, svo komst ég að því að ég náði að eyðileggja annan nuddboltann, alveg magnaður krafturinn sem maður fær í fæðingunni, það er ekki séns fyrir mig að kreista svona bolta í dag.

Held ég láti þetta gott heita, ætlaði að vera löngu búin að skrifa þessa sögu og fallegi prinsinn orðin rúmlega 9 vikna.

Langar að þakka ykkur Arney og Hrafnhildi fyrir að vera svona yndislegar og hjálpsamar, þið verðið klárlega með okkur næst. :)

156 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page