top of page
Search

Kraftaverk fæðist



Aðdragandinn og meðgangan


Ég og maki minn höfðum verið í ár að reyna að eignast okkar þriðja barn. Mér gekk vel að verða ólétt en missirnir urðu þrír talsins áður en kraftakonan okkar kom undir. Hún hélt sér fast, en minnti okkur þó á að það væri ekki sjálfsagður hlutur en eftir um 8-9 vikna meðgöngu fór að blæða. Sú blæðing var sem betur fer harmlaus og barnið reyndist sprell lifandi í móðurkviði.


Fljótlega eftir 12 vikna sónarinn fór ég að velta fyrir mér þeim valmöguleikum sem konum gefst þegar kemur að fæðingum. Ég hafði átt dætur mínar tvær á sjúkrahúsinu í Neskaupstað í rólegu umhverfi umvafin ljósmæðrum sem höfðu sinnt mér í mæðravernd. Mér varð fljótlega ljóst að Landspítalinn væri ekki mitt fyrsta val og dreymdi mér um að fæða heima. Ég hafði þó á minni fyrstu meðgöngu greinst með GBS og átt dætur mínar tvær einungins gengin 37+5 og 37+2 og áttaði ég mig því alveg á því að heimafæðing eða Björkin myndi ekki endilega henta mér.


Ég hafði þó samband við ljósmæðurnar á Björkinni sem tóku vel á móti okkur og í sameiningu ákváðum við að láta á það reyna. GBS-ið reyndist neikvætt í þetta skiptið, þá var bara að vona að það myndi haldast þannig sem það gerði.


Fæðingin

Þegar ég var loksins gengin 37 vikur taldi ég líklegt að stúlkan mín færi að láta sjá sig, fyrirvaraverkirnir voru orðnir tíðir og þegar ég var gengin 37+3 hélt ég að fæðing væri að fara af stað. Kallaði Hörpu til mín en fljótlega eftir það duttu verkirnir niður. Næstu vikur voru rólegar, lífið gekk sinn vanagang og allt með kyrrum kjörum. Settur dagur, 31.janúar, kom og fór. Með tilheyrandi tilhlökkun fjölskyldumeðlima. Ég var orðin meira en tilbúin til að fá barnið mitt í fangið, blanda af alls konar tilfinningum, þreyta, streita en umfram allt eftirvænting fyrir komandi fæðingu og tímum. Ég viðurkenni fúslega að eftir 37 viku var ég lúmskt farin að bíða en í meðgöngujóganu var okkur kennt að reyna að temja okkur það hugarfar að allt væri eins og það ætti að vera og það hugarfar hjálpaði. Allt var nákvæmlega eins og það átti að vera.


En þann 1.febrúar ákvað ég að prófa að setja mér það markmið að þann 02.02.2020 myndi ég fæða barn, skrifaði það niður á blað og fór svo að sofa.

2. febrúar kom og allt var með kyrrum kjörum. Um kvöldið var fjölskyldunni boðið í afmæli, á leiðinni hafði ég orð á því við manninn minn að ég væri með einhverja undarlega tilfinningu í skrokknum. Það læddist að mér sá grunur að ég væri farin að malla í gang. Kvöldið leið og ég varð vör við nokkra samdrætti, viðráðanlega, óreglulega en þó nokkuð óþæginlega.


Ég náði að festa svefn og svaf til um kl 7.30 um morguninn 3.febrúar. Þá vakna ég við hríð og lít á klukkuna, þremur mínútum seinna kemur önnur frekar kröftug og ég vek þá manninn minn og bið hann um að vekja dætur mínar og koma þeim af stað. Þarna vissi ég að stór dagur væri í vændum, loksins ætlaði stúlkan okkar að láta sjá sig. Ég hafði hugsað mér að hafa eldri dætur mínar jafnvel hjá mér en ákvað að hafa það opið. Ég fann um leið og hríðarnar byrjuðu að þær þyrftu að fara í skólann, ég vildi helst skríða ofan í holu og gera þetta ein, sjálf. Á meðan við græjuðum stelpurnar í skólann héldu hríðarnar áfram að koma af krafti. “Krafturinn, já”, hugsaði ég og bauð verknum velkominn í gegnum skrokkinn. Á einhverjum tímapunkti kallar frumburðurinn á mig, segist vera með svo mikinn vaxtaverk í hælnum. Á sama tíma var mamman með krafta-verk og gat með einhverju móti komið frá sér samúðarorðum. Ég kvaddi dætur mínar og á meðan maðurinn minn var í burtu hringdi ég í Hörpu. “Ég ætla að fæða barn í dag”, sagði ég í símann. Hringdi einnig í stuðningskonu mína, frænku mína sem ætlaði að sjá um börnin mín ef þau væru heima á meðan fæðingu stendur. Sagðist hafa samband við hana seinna um daginn, en þá vildi ég halda því opnu að fá þær til mín seinna í fæðingunni. Við kvöddumst þar sem hún gaf mér góð hvatningarorð, jógastuðningskonan mín: “Hugurinn er magnað verkfæri, hugsaðu “opna”, það hjálpar”.


Hilmar kom heim og blés upp laugina. Um klukkan 9.00 kom Harpa heim og um hálftíma síðar kom Arney. Verkirnir ágerðust hægt og rólega, ég fann að ég réð við öndunina. Óskaplega var gott að

vera heima, styðjast við sófann sinn og vita af maka sínum í góðu yfirlæti. Allir með góðan kaffibolla við hönd og ég, í mínu verkefni, heima, örugg.



Laugin var fyllt og ég fór ofan í um 10.30. Verkirnir urðu kraftmeiri en vatnið gerði allt bærilegra, það var auðveldara að hreyfa sig og vatnið nuddaði líkamann í hríðum. Ljósmæðurnar fylgdust með mér og barninu og ég þeim. Ég fylgdist með þeim nálgast mig, ég hlustaði á líkamann minn og fann hvernig hver hríð færði mig nær lokamarkmiðinu. Þegar verkirnir urðu verri og “já-ið” breyttist í “nei” og haföndunin gleymdist þá var gott að eiga góða stuðningsaðila, í mínu tilfelli maka og ljósmæður sem struku mér og sögðu á móti “jú, þú getur þetta”. Þá breyttist nei-ið fljótlega aftur í já. Auður mín, jógagúrú-inn minn, var greinilega búin að kenna mér allt sem hún gat kennt mér. Við mæðgur vorum tilbúnar, undirbúningurinn borgaði sig.


Þegar klukkan var 11.00 leit ég á klukkuna og hugsaði, já hún kemur fyrir hádegi. 11.58 kemur hríð og ég horfði á vatnið fara, þvílíkur léttir! Ég gríp í hendina á manninum mínum sem togar á móti mér. Í sömu hríð finn ég hvernig kollurinn fæðist. Í næstu hríð, kl 12.00 syndir í fangið á pabba sínum, stór og kraftmikil stúlka. Hún er sett á bringuna á mér þar sem hún lætur vita af sér með fallegum og kraftmiklum gráti.


Pabbinn klippir á strenginn, fylgjan fæðist og yndislegu ljósmæðurnar hjálpa mér upp í rúm þar sem við þrjú liggjum í skýjunum eftir frábæra upplifun. Upplifun sem mun seint falla úr minni. Ég fékk draum minn uppfylltan. Viðja Ragney okkar fæddist heima, umvafin hlýju og í ástríku og rólegu umhverfi. Ég upplifði mig örugga allan tímann í ferlinu með manninn minn hjá mér og með dásamlegu Hörpu og Arneyju á hliðarlínunni mér til halds og trausts.


Takk elsku ljósmæður Bjarkarinnar fyrir að láta draum minn rætast, fyrir að styðja mig og mína í gegnum þetta fallega ferli.


667 views0 comments

Comments


bottom of page