Á þessari þriðju meðgöngu minni kviknaði í fyrsta skipti sú hugmynd að fæða heima. Ég hef verið heppin með að hafa í heildina verið hraust á meðgöngu og fyrri fæðingar gengið mjög vel þegar stóru systurnar fæddust í nóvember 2009 og janúar 2013. Þær eru báðar fæddar á Hreiðrinu og sú yngri kom í heiminn litlum 20 mínútum eftir að við Addi vorum komin niður á spítala. Það hvað fæðing yngri dóttur okkar tók skamman tíma auk þess sem við vorum flutt fjær Landspítalanum (Mosó) fékk mig til þess að hugsa hvort það væri ekki bara sniðugt að þurfa ekkert að fara að heiman til að fæða.
Eftir því sem ég hugsaði meira um þennan möguleika þeim mun sannfæraðri varð ég um að það væri eina vitið. Eiginmaðurinn var efins í fyrstu, enda haft góða reynslu af LSH og fannst öryggi í því að vera þar sem stutt væri í sérhæfð úrræði ef eitthvað færi úrskeiðis. Hann þurfti þó ekki mikla sannfæringu og eftir að ég bað hann um að koma með mér og hitta þær Arneyju og Hrafnhildi hjá Björkinni var ekki aftur snúið. Honum leist vel á þær og það sem þær höfðu að bjóða og fann strax fyrir öryggi í allri reynslu þeirra af heimafæðingum. Ég tel mig frekar bjartsýna að eðlisfari og fannst aldrei neitt óhugnanlegt við það að vera svo fjarri spítalanum. Ég vissi að auðvitað gæti eitthvað farið úrskeiðis og treysti ljósmæðrunum fullkomlega fyrir að ég yrði þá send upp á Landspítalann í hvelli.
Þreyta og grindaverkir einkenndu síðustu vikur meðgöngunnar og það var stundum krefjandi að vera með tvö börn á heimilinu. Ég hætti að vinna mánuði fyrir settan dag, sem var yndislegt og gat ég því mun betur notið síðustu viknanna. Ég mætti í jóga í hádeginu, hitti vinkonur og passaði mig sko á að vera DUGLEG að leggja mig á hverjum degi. Ég var búin að finna fyrir talsvert miklum fyrirvaraverkjum í einhverjar vikur sem jukust smám saman þegar nálgaðist settan dag. 40 vikur - 10.mars kom og fór og ég var hin rólegasta þrátt fyrir fyrirvaraverkina sem alltaf voru óreglulegir og bara óþægilegir, ekki sársaukafullir. Laugardagurinn 11.mars kom líka og fór. Fórum út að leika, bökuðum pizzu og höfðum það huggulegt yfir úrslitakvöldi Eurovision (og héldum öll með Daða Frey).. 📷;) Kúlan var þung og ég var þreytt og fann fyrir meiri þrýstingi þegar ég reyndi eitthvað að ganga um. Bað Adda um að taka eina bumbumynd sem ég vonaðist til að yrði sú síðasta.
12.mars förum við á fætur um hálf níu með stelpunum, borðum morgunmat og segjum stelpunum að við ætlum aðeins inn í rúm að "leggja okkur" meðan þær horfa á teiknimyndir. Eigum þar nána stund, ef svo má að orði komast, og skellum okkur svo í sturtu. Addi skreppur í Bauhaus að græja aðeins fyrir heimilið og stuttu eftir að hann fer byrja ég að finna breytingu á samdráttunum. Um hálf ellefu leytið byrja ég að taka tímann milli samdrátta og verð nokkuð viss um að eitthvað sé að byrja að gerast þar sem ca. 4-7 mínútur eru nú á milli og þeir greinilega orðnir sárari en undanfarið. Um klukkan ellefu hringi ég í Adda og bið hann um að koma fljótlega heim þar sem ég sé nokkuð viss um að ég sé að fara af stað. Ég heyri í tengdamömmu sem er klár á hliðarlínunni að fá stelpurnar til sín. Tek dótið þeirra til í rólegheitum og segi þeim í hvað stefnir. Addi kemur heim stuttu seinna og skutlast með spenntar systur til ömmu og afa.
Heyri í Arneyju ljósmóður og læt hana vita hver staðan sé. Henni finnst þetta lofa góðu og biður mig um að hringja aftur þegar mig langar að fá þær til mín. Verkirnir halda áfram að koma nokkuð regulega en eru enn ekki orðnir það slæmir að ég þurfi að anda mig í gegnum þá. Við Addi spjöllum á léttu nótunum, fáum okkur að borða, ég hossa á boltanum og geng um. Okkur finnst alltaf jafn skrítið hvernig þetta byrjar bara allt í einu, á degi sem er bara venjulegur alveg þangað til...
Þegar klukkan fer að nálgast eitt eftir hádegi er ég farin að þurfa að anda mig létt í gegnum verkina og leggst á hliðina upp í rúm og reyni að hvíla mig milli samdrátta. Klukkan hálftvö heyri ég aftur í Arneyju og við erum sammála um að það væri gott að fá þær heim fljótlega þó það sé enn misjafnlega langt á milli. Addi blæs upp fæðingarlaugina og fyllir hana af vatni inni í stofu. Rétt upp úr klukkan tvö finn ég að mig langar að fara ofan í laugina, skelli mér í bikiní og fer ofan í. Mikið er vatnið yndislegt. Mátulega heitt og hjálpar mér svo vel að slaka á milli hríðanna sem smám saman eru að harðna.
Arney kemur klukkan korter yfir tvö og Hrafnhildur og Margrét Inga ljósmóðurnemi ca. korteri seinna. Ég grínast og spjalla milli hríða og mikið er rætt um Eurovision úrslitin. Margrét er með myndavélina á lofti gegnum allt ferlið og nær ógleymanlegum augnablikum á filmu. Haföndunin er algerlega ómissandi þegar hver hríðin kemur á fætur annarri. Smám saman fer ég meir og meir inn á við og er með augun að mestu lokuð. Svamla um og skipti reglulega milli þess að vera á sitthvorri hliðinni og hálfpartinn í jógastöðunni "barninu" en læt hendur og höfuð hvíla á brún laugarinnar.
Man eftir stöku augnablikum þegar ég kíki á áhorfendur. Allt svo rólegt og þægilegt og þau að spjalla í lágum hljóðum. Addi, sem er núna að upplifa okkar þriðju fæðingu saman, er öruggari en nokkru sinni og það sem hjálpar mér mest í þessari fæðingu er þegar hann þrýstir mjöðmunum saman á meðan ég anda mig gegnum hríðarnar. Hrafnhildur ljósmóðir kemur á hárréttum augnablikum með kaldan þvottapoka á ennið eða kaldar hendur á hendur mínar.
Ég stend mig að því í hörðustu hríðunum að einblína á sársaukann og velta fyrir mér hvort þetta ætli aldrei að verða búið. En næ svo alltaf að koma aftur í núið. Grínast upphátt við viðstadda að þetta sé ekkert mál og tala fallega við drenginn minn, að við getum klárað þetta saman.
Rembingsþörfin kemur og aldrei hafa þær athugað með útvíkkun. Bara leyft ferlinu að hafa sinn gang. Hlustað reglulega fósturhjartsláttinn sem alltaf hefur verið sterkur og góður. Rembingurinn er mjög sársaukafullur, sem mér finnst ég ekki hafa upplifað áður. Í fyrri fæðingunum upplifði ég það nefnilega sem létti að geta farið að rembast.
Næ að mestu að hafa stjórn á önduninni en í stað útöndunarinnar kemur nokkurs konar öskur sem samkvæmt ljósmæðrunum minnti frekar á langt og hávært "ohm". Hálftíma eftir að ég byrja að rembast, kl. 16:32, er litli drengurinn okkar kominn í heiminn. Þegar hann kemur er ég hálfpartinn í "barninu" eins og ljósmæðurnar höfðu leiðbeint mér að gæti hjálpað til við að opna betur grindina og
klára að koma honum út. Hann er ótrúlega stór og þrútinn í framan, en ó hvað hann er fallegur. Ég hlæ og græt í einu alveg örmagna ofan í vatninu og við stoltu foreldrarnir dáumst að undrinu okkar.
Alltaf er það jafn merkilegt að hitta nýja manneskju í fyrsta skipti. Fylgjan fæðist ca. 20 mín seinna og svo fær pabbi drenginn sinn í fangið meðan Arney og Hrafnhildur aðstoða mig upp úr vatninu. Svo sæl en samt svo máttlaus og þarf mikinn stuðning inn í rúm. Hann fer fljótlega á brjóst og er svo duglegur. Þegar ljósmæðurnar eru búnar að ganga frá öllu frammi skoða þær mig og mér til mikillar furðu þarf ekkert að sauma. Svo mæla þær og vigta drenginn sem reynist vera heilar 19 merkur (4750 gr) og 56 cm. Svo er ekki verra að geta bara slakað á heima, uppi í rúminu okkar og fengið sér eitthvað gott í gogginn á meðan við höldum áfram að dást að honum.
Stóru systurnar fá að koma og kíkja á litla bróður með ömmu og afa sem ætla að leyfa þeim að gista hjá sér um nóttina. Stoltar og montnar fá þær
að dást að honum og stjúka áður en þær fara aftur með ömmu og afa. Við foreldrarnir finnum að það er það sem við þurfum akkúrat núna en annars höfðum við bara ætlað að láta það ráðast hvort stelpurnar yrðu heima í fæðingunni eftir því hvaða dag og hvenær dagsins ég færi af stað. Ég er ólýsanlega þakklát fyrir að hafa haft færi á að eiga drenginn okkar heima, fyrir að hafa þessar yndislegu ljósmæður til taks síðustu vikur meðgöngunnar, í fæðingunni og rúma fyrstu vikuna í lífi hans Hauks litla. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri aðstæður og manneskjur til verksins heldur en þær Arneyju og Hrafnhildi (með dyggum stuðningi Margrétar Ingu ljósmóðurnema að sjálfsögðu!).
Комментарии