top of page
Search

Fann að kollurinn var bara rétt fyrir innan

Updated: Jan 19, 2021

Fæðingarsaga Mareyjar

Frá því að ég fyrst heyrði um Björkina vissi ég að þetta var eitthvað sem ég vildi skoða þegar ég yrði ólétt, mamma hafði alltaf talað um hvað henni hafi þótt æðislegt að eignast mig á fæðingarheimili sem þá var, en ekki spítala, og ég hef alltaf heillast af því að treysta á móður náttúru. Þegar það kom svo að því að við ættum von á barni treysti ég því að ég myndi eiga barnið þar sem mér væri ætlað að eiga það og leyfði ég manninum mínum að velja fæðingarstað. Ég vissi að ég yrði sáttari ef honum liði vel og hann næði þá að vera þátttakandi með mér þegar stóra stundin rynni upp. Honum líður ekki vel í spítalaumhverfi og varð hann alveg jafn hrifinn af Björkinni og ég, eftir að við fórum í heimsókn til þeirra á 28. viku og var það þá ákveðið, að við stefndum á fæðingu í Björkinni. Ég var búin að finna fyrir samdráttum í nokkra daga þar sem ég tók eftir hvenær þeir byrjuðu, en hafði ekki getað greint það svo vel áður. Sunnudaginn 30. júní fylgdu samdráttunum vægir túrverkir í fyrsta sinn og fann ég fyrir því nokkuð oft yfir daginn og niður í á fjögurra mínútna fresti. Við fórum í mat til tengdó um kvöldið og ég sagði þeim frá því að ég væri aðeins byrjuð að finna fyrir verkjum með samdráttunum, ég googlaði og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri “forstig fæðingar” sem gæti alveg varað í nokkra daga. Mánudaginn 1. júlí, þá komin 39v+4d, vaknaði ég svo um klukkan 6 og gat þá ekki sofið lengur vegna samdráttarverkja, ég stóð á baðherbergisgólfinu og hallaði mér yfir vaskinn í hverjum verk og andaði með haföndun, í um tvo tíma þar sem samdrættirnir komu á um 3ja mínútna fresti. Ég ákvað að vera ekkert að segja manninum mínum frá þessu eða vekja hann en hann var á leiðinni í vinnuna klukkan níu. Ég leggst uppí rúm klukkan 8 og þá hægist aðeins á samdráttunum og ég næ að dotta inn á milli. Ég bið manninn minn um að vinna að heiman og hann hafði nú þegar ákveðið að gera það, heyrandi í mér inná baði og uppí rúmi að vera að anda á fullu. Ég man að ég hugsa um það strax og verkirnir byrja hvað það sé ótrúlegt að konur gangi í gegnum þetta, ég öðlast nýja virðingu fyrir öllum mömmum og bara trúi eiginlega ekki að fjölgun mannkynsins reiði sig á að konur gangi í gegnum þetta - og þarna var ég rétt að byrja. Ég hugsa einnig um hvað mænudeyfing og jafnvel keisari hljómi nú mun betur í mínum eyrum en áður. Um hálf tíu ákváðum við að hringja í Björkina fyrst og segja frá stöðunni. Emma svarar og segir okkur að við getum slakað á heima og verið svo í bandi aftur þegar okkur finnst meira vera að gerast, það geti þessvegna verið eftir korter en líka mörgum tímum seinna. Það var mjög hughreystandi og gott að heyra í henni og eftir þetta símtal varð ég svo óendanlega ánægð með að hafa valið Björkina. Bara það að fá að tala við Emmu á þessum tímapunkti og vita af því að við gætum verið í sambandi við hana, þá fannst okkur ákvörðunin um að vera í Björkinni strax orðin þess virði. Ég ákvað á láta að renna í pottinn okkar heima, þar andaði ég mig í gegnum hvern verk og fann að samdrættirnir voru styttri þegar ég var komin ofaní. Við hringjum svo aftur í Emmu rúmlega eitt en þá eru samdrættirnir orðnir aðeins reglulegri. Emma kemur heim og skoðar mig um tvö og segir þá að útvíkkunin sé 1 en leghálsinn sé styttur og mjúkur. Þetta voru klárlega ekki fréttirnar sem ég vonaðist eftir á þessum tímapunkti en Emma kunni alveg að hughreysta og sagði að mikil vinna væri búin og það væri eitthvað byrjað að gerast, einnig að það væri mikilvægt að líta ekki á útvíkkunina sem línulega. Þá léttir hún líka verulega áhyggjur mínar með því að segja mér að ég yrði ekki látin vera svona í marga daga, en ég var stressuð yfir því þar sem þessi latent fasi/forstig fæðingar getur varað lengi. Hún kemur svo aftur um hálf átta um kvöldið, þá er útvíkkunin 2-3 en leghálsinn mjög þunnur, aftur þóttu mér fréttirnar ekki frábærar og ég vissi bara ekki hvort ég myndi höndla þetta. Ég var þó feginn að hafa getað fengið Emmu heim til þess að skoða mig en ef ég hefði ekki haft hana veit ég að ég hefði verið búin að fara uppá deild í skoðun og send heim, allavega tvisvar ef ekki þrisvar á þessum tíma. Um klukkan hálf níu kemur mamma og við förum saman í pottinn heima þar sem ég næ að slaka aðeins á og anda í gegnum samdrættina. Klukkan 23.14 hringjum við í Emmu og vildi ég þá athuga hvort hún gæti komið að taka stöðuna aftur en hún heyrði á mér að það var ekki mikið meira að gerast og sagði okkur að slaka bara á og vera í bandi ef samdrættirnir yrðu reglulegri. Mamma ákveður eftir það að drífa sig, fer uppúr og gerir sig til og hún og maðurinn minn eru eitthvað að stússast inni. Ég er ennþá í pottinum og í næsta samdrátt finn ég eitthvað inní mér poppa og svo finn ég vatn streyma út, ég stend upp og reyni að grípa eitthvað af vatninu til þess að sjá litinn og það var glært. Ég fer þá inn og segi frá því og mamma hættir þá við að fara. Slímtappinn fór í leiðinni. Ég hringi strax aftur í Emmu (aðeins korteri eftir síðasta símtal)  og segi henni frá þessu og hún segir okkur að það sé ennþá í lagi að slaka á heima þótt vatnið hafi farið. Eftir þetta verðar samdrættirnir mun sterkari og reglulegri, endast um í mínútu og á tveggja mínútna fresti og eftir um 20 mínútur af þessu ákveð ég að ég geti ekki verið heima lengur, finnst þetta óbærilegt ástand og hringi aftur í Emmu, 25 mínútum eftir síðasta símtal. Ég segi henni að ég geti ekki verið heima lengur, það hljóti eitthvað að vera að gerast núna en ef ekkert er að gerast þá verði ég fara uppá deild því ég geti þetta ekki mikið lengur. Ég áttaði mig ekki á þessum tíma að fyrst vatnið var farið væri nú eitthvað að gerast. Við ákveðum að hittast í Björkinni. Á þessum tímapunkti var spítalataskan ekki tilbúin og maðurinn minn fer á þeyting að reyna að setja niður í hana það sem gæti vantað, en ég hafði gert lista áður. Hann tekur einhver föt á sig og mig og ýmislegt annað. Þarna vorum við ekki búin að fá heimferðasettið frá tengdó og ég gríp því einhverja prjónapeysu sem við höfðum fengið notaða nokkrum dögum áður og hendi í töskuna, en mér var alveg fullkomlega sama um hvaða dót við værum að taka. Bílferðin á Björkina var hræðileg, fékk þrjá samdrætti á leiðinni og það var virkilega óþægilegt að sitja í bíl á meðan. Við komum í Björkina og ég sá ljós kveikt í lukt fyrir utan sem mér þótti svo fallegt og bað manninn minn um að taka mynd, fékk svo samdrátt fyrir utan hurðina áður en við löbbuðum inn. Við löbbuðum inn klukkan 00.20 þann 2. júlí. Þegar inn var komið liðu nokkrir samdrættir hjá áður en ég gat hugsað mér að leggjast í rúmið og láta skoða mig, þegar ég loksins lagðist í rúmið upplifði ég svo allra versta sársaukann, það var svo vont að vera í þessari stöðu. Mér fannst ég ná hámarki sársauka og þegar samdráttur kláraðist í rúminu fann ég fyrir ógleði og kastaði svo upp mörgum sinnum á meðan ég lá hálf í rúminu og hékk út, með manninn minn og mömmu að halda mér uppi og að reyna að beina mér í poka. Ég fann þá að maðurinn minn átti erfitt með sig, ég sá að honum leið illa og held hann hafi grátið, enda ekki mikil sjón að sjá mig þá. Ég var svo skoðuð og var þá með fjóra í útvíkkun. Mér fundust það heldur ekkert frábærar fréttir. Eftir þetta skiptist ég á að standa og halla mér yfir borð, sitja á klósettinu og sitja á yoga bolta en þessi tími er í hálfgerðu móki. Ég bað svo um að fara í bað og var látið renna í. Ég fór ofaní um klukkan 2. Aftur fannst mér þá eitthvað stigmagnast og ég fann að það var virkilega erfitt að halda stjórn, ég var löngu hætt að geta andað mig í gegn og umlaði frekar og veinaði en þarna í vatninu byrjuðu að koma áááá-öskur og ég fann að ég var aðeins byrjuð að rembast. Fyrst reyndi ég að halda aftur af rembingnum og reyndi að fela hann því ég stóð í þeirri trú þá að þetta væri ótímabært og það myndi þurfa að skoða mig aftur og staðfesta 10 í útvíkkun áður en ég mætti byrja, þetta var eitthvað sem ég hélt eftir að hafa lesið aðrar fæðingarsögur. Ég spurði svo Emmu út í þetta og hún sagði mér að hlusta bara á líkamann og treysta honum. Ég heyrði hana svo segja við manninn minn, þegar hann spurði, að henni heyrðist að útvíkkunin væri alveg komin og það var ótrúlegt að heyra það, trúði þessu ekki. Eftir það hlustaði ég á líkamann og rembdist alveg eins og mig líkamlega langaði til. Það var ótrúlegur léttir að geta farið að rembast, þá fannst mér ég hafa eitthvað svar við því sem var að gerast og sársaukinn varð alveg töluvert bærilegri. Ég setti höndina niður og fann fyrir hverri hríð hvernig allt var að opnast og fyrir kollinum á barninu, en hann var bara rétt fyrir innan. Fyrst sat ég á hnjánum og veinaði með andlitið í kanntinn á pottinum, svo spurði Emma hvort ég gæti farið á bakið svo hún gæti tekið hjartsláttinn og ég gerði það. Ég fékk eina hríð og svo var hjartslátturinn tekinn sem var flottur. Í næstu hríð, rúmum þremur mínútum eftir þá síðustu kom svo litla stelpan mín í einum rembing og að finna fyrir því var yndislegt, ég fann hvernig hausinn kom út og líkaminn svo strax á eftir., Naflastrengurinn var vafinn utan um bringuna og sitthvort lærið en Emma leysti það og ég fékk hana beint á bringuna. Hraðinn á þessu öllu kom öllum á óvart og Emma var eina ljósan í herberginu á meðan hún skaust út, en Ásta, sem var stödd í hinni fæðingarstofunni í Björkinni þar sem önnur fæðing var að fara fram, kom hlaupandi. Tilfinningin að fá dóttur mína út, vitandi að hún væri mætt og að hríðarnar væru búnar, var stórkostleg og við nýja fjölskyldan grétum í kór. Eftir að hún var búin að vera hjá mér í nokkrar mínútur klippti maðurinn minn svo á naflastrenginn og fékk hana svo til sín á bringuna, á meðan ég kom mér úr pottinum. Ég þurfti svo að leggjast í rúmið til þess að fæða fylgjuna.. Ég rifnaði mjög lítið en var saumuð og á meðan sofnaði maðurinn minn við hliðin á mér í rúminu. Við áttum svo ótrúlega kósý stund í rúminu sem fjölskylda þessa nótt þar sem stelpan mín saug brjóst á fullu. Klukkan hálf átta um morguninn, sjö tímum eftir að við komum, fórum við svo heim og við tók nýtt líf.


Um leið og fæðingin var afstaðin sagði ég ,,mér finnst þetta hafa verið draumafæðing”. Ég var alltaf með ákveðnar hugmyndir um hvernig mín draumafæðing væri en ákvað að skrifa þær ekki niður eða gera þær kröfur á mig að fæðingin skyldi vera ákveðinn veg, heldur vonaði ég bara að allt færi eins og það ætti að fara. En á endanum var þetta alveg eins og ég hafði vonast til, ég fékk að fæða í Björkinni, í vatninu og með sáralitlum afskiptum/inngripum, alveg nákvæmlega það sem ég vildi. Mér þótti ótrúlega vænt um það hvað manninum mínum leið vel í Björkinni, andrúmsloftið er svo afslappað og gott og hann gat líka notið sín þarna. Einnig er yndislegt að fá að stjórna hverjir eru með manni en ég hafði bæði mömmu og manninn minn með mér. Ég er svo himinlifandi með þá ákvörðum að vera í Björkinni og stefni svo sannarlega á að vera þar aftur, verði ég ólétt.

818 views0 comments

コメント


bottom of page