top of page
Search

Í stofunni heima

Í dag er 4. október sem var settur dagur á þessari þriðju meðgöngu minni. Stefnan var tekin á heimafæðingu þegar meðgangan var um það bil hálfnuð. Yndislegi drengurinn okkar ákvað hinsvegar að mæta í heiminn fyrir akkúrat viku síðan, eða þann 27. september 2012. Þetta er sagan af fæðingu hans.

Þetta byrjaði allt saman þann 25. september, þ.e.a.s. aðdragandinn. Ég var mjög hress á meðgöngunni, eins og ég var líka á hinum tveim, og var sko ekki farin að bíða eftir gullinu þótt ég væri vissulega spennt að hitta þristinn minn eins og ég kallaði hann stundum. Við fjögurra manna fjölskyldan vorum nýlega flutt í nýja íbúð og nóg að gera við að koma sér fyrir. Þennan tiltekna dag, þann tuttugasta og fimmta, tók maðurinn minn sér frí í vinnunni því það var orðið stutt í barnið og ekki búið að þvo svo mikið sem eina ungbarnaflík. Við vorum samt ekki búin að vera neitt stressuð að ráði, vorum búin að plana heimafæðingu og vissum að þegar kæmi að stóru stundinni væri í raun það eina sem við þyrftum að gera að hringja eitt símtal í ljósmæðurnar okkar.

Þennan dag spændum við samt upp listann yfir það sem átti eftir að gera og náðum meðal annars að þvo fullt, gera stórinnkaup, bora göt í veggi, fara með dót í geymslu, strauja, elda mat, skreppa í nokkrar mikilvægar búðir, fara á Sorpu, sinna börnunum okkar og meira að segja að slappa aðeins af á kaffihúsi og glugga í bækur. Þótt það væri enn nóg eftir að gera vorum við samt meira en sátt við dagsverkið og leið loksins eins og við gætum farið að bjóða þetta barn velkomið í heiminn og á heimilið okkar. Ég fann um kvöldið að ég hafði kannski aðeins ofgert mér, fékk smá stingi niður í leggöng en á þessum tímapunkti hafði ég ekki fundið einn einasta fyrirvaraverk né sting þótt drengurinn hafi skorðað sig mörgum vikum áður.


26. september rann upp, en sá dagur var þéttskipulagður eins og margir daganna á undan og eftir. Rétt fyrir hádegi fékk ég smá verki og tók eftir slími þegar ég fór á klósettið. Ég fór í jóga í hádeginu og fann að það var eitthvað að gerast. Ég bað Auði jógakennara um að taka mynd af mér í lok tímans og sagði við hana að mér þætti ólíklegt að ég kæmi í næsta tíma. Ég var svolítið þreytt og illa upplögð eftir jógatímann en þar sem við vorum búin að plana að fá vin sonar míns og mömmu hans í heimsókn seinnpartinn þá ákvað ég að klára það verkefni af, bakaði tebollur ofan í liðið en fann að verkirnir fóru ekki minnkandi. Eftir öll herlegheitin hélt ég áfram að þvo hluti fyrir krílið og sagði við manninn minn að ef barnið væri ekki á leiðinni væru þetta í það minnsta frekar slæmir verkir miðað við það!


Um kvöldmatarleytið var strákurinn minn skyndilega orðinn lasinn með háan hita og greyið sofnaði meira að segja í sófanum. Ég man að ég hugsaði með mér hvað það væri týpískt að hann væri orðinn veikur, eftir að hafa verið frískur í marga mánuði á undan, akkúrat þegar litli bróðir hans væri að koma í heiminn. Ég varð svolítið pirruð, ætlaði að fara að gera stórmál úr þessu en þeir sem hafa verið í jóga hjá Auði þekkja kannski að það er stundum nóg að hugsa til Auðar og allra þeirra kúnsta sem maður lærir í jóganu til að líða betur. Ég ákvað að þótt það væru endalaust margir hlutir eftir á listanum yfir hvað ég þyrfti að græja áður en barnið kæmi, þótt hinn verðandi stóri bróðir væri lasinn og þótt það væri akkúrat þriggja daga helgarfrí framundan hjá börnunum þá væri þetta greinilega rétti tíminn fyrir barnið að koma - það myndi ekki gera neitt gott fyrir mig að velta mér upp úr því sem ég hefði hvort sem er enga stjórn á.


Ég svaf ágætlega nóttina eftir eða þangað til kl. 3:40 þegar ég vaknaði við það að lasarusinn var kominn upp í til okkar foreldranna (sem hann gerir aldrei) og var sparkandi í mjóbakið á mér. Ég fann að ég þurfti að hvíla mig svo feðgarnir þurftu að gjöra svo vel að sofa annars staðar og varð sófinn fyrir valinu. Kl. 5:40 vaknaði ég aftur - en þá voru verkirnir orðnir aðeins hraðari og örari og ég mjög svöng. Ég fór því fram og fékk mér að borða, fór að telja samdrætti með hjálp forrits í símanum og gerði mér grein fyrir því að kannski myndi drengurinn láta sjá sig fyrr en síðar.


Önnur fæðingin mín, fyrir tæpum fjórum árum síðan, var virkilega hröð en þá vaknaði ég upp klukkan þrjú að nóttu til og barnið fæddist innan við þremur tímum seinna. Þetta var ein af mörgum ástæðum þess að ég valdi heimafæðingu, ég var hrædd um að komast hreinlega ekki upp á sjúkrahús og vildi frekar vera bara róleg heima í þessu ferli. Það er gaman að sjá það eftir á hvað fæðingar geta verið ólíkar hjá manni því þessi var alls ekki svo hröð eftir allt saman.


Eftir að hafa vaknað þarna um 5:40 fór ég ekki aftur að sofa. Þegar klukkan nálgaðist átta fóru hinir fjölskyldumeðlimirnir að vakna hver af öðrum og ég græjaði 6 ára skólastelpuna mína fyrir skólann en svo fórum við lasarusinn að dunda okkur við að setja hreint á vögguna. Kvöldið áður hafði ég lesið barnabók um heimafæðingu fyrir börnin en hafði annars ekkert undirbúið þau þannig lagað þar sem mér fannst frekar ólíklegt að þau yrðu heima við þegar fæðingin væri í gangi. Ég sagði við börnin þennan morgunn að kannski myndi litla barnið okkar mæta í dag því ég væri með smá verki og þau voru spennt og glöð þótt þau hafi eflaust ekki gert sér grein fyrir því að það myndi virkilega koma.


Um hálftíu hringdi ég í mömmu sem fékk frí í vinnunni og kom og sótti lasarusinn hálftíma seinna. Hann var enn með hita en á hitastillandi verkjalyfjum og spenntur að fá að eyða deginum með ömmu sinni í rólegheitum. Við ákváðum svo að hringja í ljósmæðurnar okkar, Hrafnhildi og Arneyju, vegna fyrri reynslu um mjög hraða fæðingu. Maðurinn minn blés lofti í fæðingarlaugina og byrjaði að græja og gera.


Þær stöllur voru mættar til okkar um hálfellefuleytið og þær sáu alveg að ég var komin í fæðingu þótt hríðarnar væru misharðar á þessum tímapunkti. Næstu tímar fólu í sér almenn kósýheit, spjall og slatta af hríðum inná milli ;) Maðurinn minn var duglegur við að gefa okkur eitthvað gott að narta í og meðal annars bað ég hann um að búa til alvöru heitt súkkulaði með rjóma um það bil klukkutíma áður en drengurinn kom í heiminn. Ég sötraði það svo milli hríða ofan í lauginni, væri alveg til í að upplifa þær stundir aftur get ég sagt ykkur!


Ég náði að anda mig í gegnum hverja hríð, alveg frá 9 um morguninn og þangað til þristurinn fæddist kl. 17:09. Við hlustuðum á Grace diskinn næstum allan daginn og ég grínaðist með það við ljósmæðurnar hvað við myndum þurfa að spila hann oft áður en barnið myndi fæðast. Mér fannst nefnilega oft eins og barnið væri bara hætt við, leið eins og það væri ekkert að opnast þarna niðri og þegar ég var ofan í vatninu hægði oftast á ferlinu, eða þangað til í blálokin. Það var nóg fyrir mig að rétt standa upp úr vatninu og þá hörðnuðu hríðarnar allsvakalega.


Eftir eina klósettferðina fór þó allt í gang og hríðarnar snarversnuðu þótt ég færi aftur ofan í laugina. Maðurinn minn sagði mér eftir á að þetta hafi verið kannski 5-6 hríðar sem voru þetta harðar, því ég hélt í hendina á honum og kreisti hana víst ofur fast þessar síðustu hríðar. Mér varð líka skyndilega virkilega óglatt og var við það að kasta upp en ljósurnar voru svo sniðugar að vera með piparmyntudropa sem þær settu í grisju og ógleðin hvarf um leið og ég fann þá lykt.


Fyrirfram hafði ég ákveðið, í samræmi við ljósmæðurnar, að reyna að stjórna rembingnum vel, tildæmis til að minnka líkurnar á að rifna. Eftir eina af þessum hörðu hríðum fann ég allt í einu létti, vatnið fór og ég heyrði smell, og þá hélt ég að ég gæti hreinlega ekki haldið áfram. Arney sagði: þetta er allt í lagi. Og þarna í fyrsta skipti bankaði neikvæðnin upp á og ég svaraði: nei þetta er ekki allt í lagi. En um leið og vatnið var farið kom hríð og drengurinn synti skriðsundi út. Ég bjóst við að þurfa að stoppa og bíða eftir annarri hríð en ljósurnar töldu líklegt að það hefði verið vatn fyrir kollinum. Svo um leið og vatnið fór, þá ruddist barnið hreinlega út án þess að ég þyrfti nokkuð að gera. Ég sagði á þessum tímapunkti að ég bara gæti ekki stjórnað rembingnum, og það var greinilegt að líkaminn sá um þetta fyrir mig.


Drengurinn kom í heiminn kl. 17:09 í stofunni heima og síðdegissólin glampaði á koparlituðu hárinu á honum um leið og hann kom upp úr vatninu, háorgandi og eflaust í sjokki þar sem hann kom út í einum rembingi. Ég náði einhvernveginn að róa hann með því að halda honum þétt upp að andlitinu á mér og tala rólega við hann. Það er svo yndislegt þegar maður upplifir það eftir meðgönguna að barnið þekkir mann í raun og veru, elskar að liggja hjá manni, þekkir hjartsláttinn og röddina og lærir með tímanum að þekkja lyktina líka. Þessa tengingu fann ég um leið og hann mætti á svæðið.


Ég upplifi þessa fæðingu á þessum fallega degi, sem hafði skartað alls konar veðri fyrir okkur, sem yndislega og vel heppnaða. Ég hugsaði margoft á meðan á þessu stóð hvað ég væri fegin að þurfa ekki að taka saman mitt hafurtask og drífa mig upp á deild - mér fannst þetta alveg fullkomið fyrir mig og aðstæðurnar hefðu ekki getað verið betri. Ljósmæðurnar voru í einu orði sagt dásamlegar og mér fannst virkilega erfitt að kveðja þær eftir heimaþjónustuna, það komu alveg nokkur tár. Maðurinn minn var líka ótrúlega góður stuðningur, nuddaði á mér mjóbakið, hjálpaði mér að halda mér uppi í lauginni á meðan verstu hríðarnar gengu yfir og þjónustaði okkur öll eins og sannur herramaður.

Elsku Hrafnhildur & Arney: takk fyrir þennan yndislega dag og ykkar þátt í honum. Við hefðum ekki getað verið heppnari með ljósmæður.

Ást & friður

Kolbrún Ýrr

176 views0 comments

Comments


bottom of page