Við komumst að því snemma árs 2012 að von væri á fjórða meðlim fjölskyldunnar. Við ákváðum hjónin snemma að hitta ljósmæðurnar í Björkinni og skoða möguleikann á heimafæðingu. Við fórum rétt fyrir 20 vikna sónar og það var ekki aftur snúið. Okkur leist báðum mjög vel á Arney og Hrafnhildi og vorum viss um að þetta væri það sem við vildum gera
10.nóvember 2012 var ég gengin níu daga fram yfir settan dag. Okkur þótti þessi dagsetning flott 10.11.12 en stóra stelpan okkar varð veik og þurfti að fara á spítala svo að fæðing var það síðasta sem mig langaði að takast á við þann daginn. Dagurinn leið og stelpan varð hressari og um kvöldið þegar hún var sofnuð var ég vör við að slímtappinn fór. Ég var svo sem ekkert sérstaklega bjartsýn á að eitthvað væri að fara að gerast en við ákváðum að Arnar færi í búð og keypti beyglur, álegg of eitthvað til að eiga að borða, það myndi jú verða borðað þó að fæðingin væri ekkert að fara af stað. Við fórum svo bara að sofa.
Ég vaknaði um klukkan 5 og fór að taka tímann á samdráttum. Þeir komu á 5 mínútna fresti en mér fannst þeir frekar sterkir. Ég vakti Arnar um 6 og sendi mömmu sms og bað hana að koma og sækja Hrefnu þegar hún vaknaði. Mamma var komin fyrir 7 og stelpan rosalega glöð að sjá ömmu sína og valhoppaði með henni út í daginn. Við tókum því rólega hér heima en ég lét Hrafnhildi ljósmóður vita að það væri eflaust eitthvað að gerast en ég myndi bara heyra í henni aðeins síðar. Ég fór í sturtu og hringdi svo í hana aftur fyrir 9 og hún var komin um kl 9. Þá voru verkirnir nú miklu minni og ég var farin að dotta upp í rúmi á milli þeirra.
En við ákváðum að fá okkur morgunmat því ég var svöng og ég stóð upp á milli bita og ruggaði mér í gegnum þá. Þetta var nú frekar rólegt allt saman og ég var orðin pínu svartsýn. Ég upplifði síðustu fæðingu ekki vel og minningarnar af henni komu upp, þá var ég komin með harða verki en enga útvíkkun sem var svo lengi að aukast. Sú fæðing var á spítala og ég fékk deyfingu og ég upplifði mig andlega fjarverandi í þeirri fæðingu og hefur fæðingin og margt sem kom upp í kringum hana, aðferðir og gjörðir starfsfólks á spítalanum setið virkilega í mér síðan.
Arnar og Hrafnhildur voru eitthvað að skoða laugina sem Arnar hafði blásið upp fyrr um morguninn en voru alls ekkert að flýta sér að fylla hana. En svo rétt fyrir kl 12 gerðist eitthvað. Þá komu allt í einu þrjár hríðar, þar sem ég stóð á ganginum og varð bara að hafa Arnar hjá mér og halda í mig á meðan ég andaði mig í gegnum hríðarnar. Hrafnhildur hringdi í Arney og sagði henni að þetta væri að breytast hjá mér og bað hana að koma. Ég fór í laugina klukkan 12:30, ég bað Arnar um að setja Haglél með Mugison á fóninn og þegar lagið Stingum af kom, sagði ég að ég væri í Skálavík. Þar höfðum við stórfjölskyldan verið á ættarmóti í sumar og þá söng Örn Elías þetta lag og við höfðum talað um að það smell passaði svo vel þar. Dásamlegt veður og umhverfi og gott fólk og ég tók minninguna með mér í fæðinguna og var alveg róleg.
Mér leið vel í lauginni, hélt í hendurnar á Arnari og lét mig fljóta og hékk á kantinum. Sólin fór að skína inn um gluggann og um kl 13 fór ég að rembast. Rembingurinn bara kom, hljóðin í mér breyttust en ég einbeitti mér að því að segja já því ég var með allskonar hljóð og stundum var ég byrjuð á nei-inu en breytti því í já. Hef fulla trú á að það hjálpaði okkur hjónunum við þetta verkefni. Vatnið fór rétt áður en kollurinn kom og var það tært og alveg hellingur af því. Diskurinn er 38 mín og hann var nýbúinn þegar Kári okkar fæddist. Ég var svo hissa. Sagði víst eitthvað eins og „er ég bara búin að fæða hann?!“ eftir að ég var komin með hann í fangið. Fylgjan kom svo nokkrum mínútum síðar í lauginni og var flott og fín en ég var komin 41v+3d þennan dag.
Ég fæddi hann sjálf! Og ég upplifði það sterkt og var sko langt frá því að vera andlega fjarverandi. Það var ekki vont og ég stjórnaði allan tímann. Það var aldrei tékkað á útvíkkun eða neitt, Hrafnhildur fylgdist með hjartslættinum hjá Kára reglulega annars vorum við bara ein. Ljósmæðurnar voru á staðnum og voru frábærar í að veita okkur styrk og öryggi, en á sama tíma tók ég eiginlega ekki eftir þeim og það var bara alveg frábært.
Eftir fæðinguna fórum við fjölskyldan inn í rúm. Hrafnhildur og Arney gengu frá og við vorum bara hissa en svo glöð yfir því að þetta hafi gengið svo vel. Ég þurfti þrjú spor á sama stað og síðast 1°rifa. Kári var 4010gr og 52cm, 36cm höfuðmál dásamlega fallegur og rólegur drengur. Tók brjóstið strax og er mjög duglegur. Síðar um daginn komu amma og afi með stelpuna okkar og það var alveg dásamlegt að sjá þau systkini saman. Heildartíminn frá fyrstu verkjum var 8 klst og er það 8 klst styttri tími en síðast.
Ég mæli hiklaust með að fólk kynni sér heimafæðingar – sérstaklega þær konur eða pör sem eiga slæma reynslu af fyrri fæðingu. Því ég get sagt fyrir mitt leiti að þessi fæðing setti plástur yfir fyrri fæðingu og var heilandi. Ég er ekkert sár eða leið lengur yfir fyrri fæðingunni - hún var dásamleg eins og hún var. Ég las ekki fjörtíu bækur eða fór á eitthvað námskeið – ég kynnti mér öndun og keypti gaddabolta. Ég treysti ljósmæðrunum, sem voru með okkur frá 32 viku í mæðraskoðnunum hér heima og síðast í heimaþjónustu, fullkomlega auk Arnars, að sjálfsögðu – þetta gekk svona vel út af því að við vorum saman.
18.11.2012
Magnea Arnardóttir
Comments