top of page
Search

Átti draum um að fara af stað við Elliðaárnar

Updated: Jan 19, 2021


Bergur Bjarnason fæddur 11.ágúst 2017, settur dagur 6.ágúst

Bergur fæddist í ljúfri heimafæðingu kl.16:53 þann 11.ágúst 2017. Fæðingin gekk mjög hratt fyrir sig en andrúmsloftið var yfirvegað og kyrrt.


Þetta byrjaði á upphitun þann 8.ágúst:

Við vorum ákveðin í heimafæðingu eins og síðast, sem var fæðing barns númer tvö, en fyrsta barnið fæddist í Hreiðrinu. Ég hafði hugsað mér að stóru börnin, Þórey (7) og Snjólfur (4), mættu vera heima á meðan fæðingunni stæði og að mamma mín myndi koma og vera þeim innan handar. Að þau gætu verið viðstödd ef þau langaði til. Þannig að þegar ég fór í gang um nóttina 8.ágúst hafði ég samband við ljósmæðurnar og mömmu á meðan Bjarni maðurinn minn gerði laugina klára. Verkirnir voru ekki mjög sterkir en reglulegir. Nóttin leið og smám saman fann ég að ég var mjög föst í huganum og fannst eins og það væri verið að bíða eftir mér, að þetta ætti einhvern vegin að ganga hraðar. Einnig var ég mjög meðvituð um börnin mín sem voru samt bara sofandi og foreldra mína sem voru til taks en að hvíla sig inni í herberginu okkar. Á endanum bað ég Bjarna að senda þau heim til sín með börnin, búin að átta mig á að ég þyrfti meira næði, að vera bara með honum og ljósmæðrunum. Um leið og þau voru farin hættu verkirnir, og í samráði við ljósmæðurnar fórum við bara að hvíla okkur, þær sögðu að stundum færi þetta aftur í gang en svo var ekki í þetta sinn.


Ég upplifði mikið spennufall þarna um morguninn, var örþreytt og lá bara á sófanum og grét með ekkasogum, ég var svo mikið tilbúin að fá litla drenginn minn í fangið. Ég jafnaði mig svo vel og við Bjarni báðum foreldra mína að hafa stóru börnin þennan dag og gátum hvílt okkur og bara kúrt yfir sjónvarpi og sóttum okkur bara sterkan tælenskan mat.


Fæðingadagurinn 11.ágúst:

Þessir nokkru dagar af bið voru mér bara ljúfir og þennan dag var fallegt veður og dagurinn byrjaði á að vinkona mín kom í morgunkaffi, ég dró hana með mér í göngu niður að Elliðaánni stutt frá húsinu okkar. Við settumst niður við ána og ég horfði á vatnið og fann að þetta yrði dagurinn sem drengurinn myndi koma, ég átti mér dagdraum á meðgöngunni að daginn sem ég myndi fæða myndi ég einmitt fara niður að Elliðaá og fara af stað þar. Á leiðinni aftur að húsinu okkar stoppaði ég einu sinni með samdrátt. Samdrættirnir voru svo öðru hvoru fram yfir hádegi.


Kl.15 var ég viss um að þetta væri dagurinn, ég bað mömmu að koma til okkar til að sækja stóru börnin, og ég og stóra stelpan mín áttum ljúfa stund bara í notalegheitum á sófanum. Þegar þau voru farin kveikti ég á tónlist og fann að rólega tónlistin sem ég hafði hlustað á í fyrri fæðingunum var alls ekki að virka fyrir mig, breytti því yfir í R&B og það var akkúrat það sem ég var í stuði fyrir og dansaði um í stofunni. Verkirnir jukust hratt og ég stoppaði til að taka á móti þeim á milli þess sem ég dillaði mér við tónlistina. Bjarni var ennþá bara að klára vinnudaginn sinn heima en ég bað hann að græja ‘vinsamlegast ónáðið ekki’ miða á útidyrnar og byrja að fylla laugina, þetta væri alvöru núna!


Kl.16 sendi ég Arneyju skilaboð um að þær mættu koma og að koma bara beint inn, það væri ólæst. Í umferðinni á föstudagseftirmiðdegi tók það Arneyju og Hrafnhildi dágóða stund að keyra til okkar, og þegar Arney, sem kom fyrst, labbaði inn í stofu rétt fyrir hálf fimm var okkur öllum ljóst að fæðingin var komin vel af stað. Ég sagði henni að ég ætlaði að taka á móti einni hríð og svo væri hægt að hlusta á drenginn til að sjá hvort honum liði vel. Svo í beinu framhaldi sagði ég við Bjarna að eftir næstu hríð mætti hann hjálpa mér úr fötunum svo ég gæti farið ofan í laugina.

Í lauginni byrjaði ég í stellingunni sem ég hafði notað í fyrri fæðingum, á hnjánum með handleggina á laugarbarminum. Ég tók við fyrstu hríðinni þannig en hún var svo öflug að ég hugsaði með mér að ég þyrfti ekkert á þyngdaraflinu að halda þannig að ég prófaði að leggjast alveg aftur á bak. Þannig flaut ég einhvern vegin og fann strax í næstu hríð að drengurinn var að koma til okkar. Ég var búin að sjá fyrir mér að leyfa honum að fæðast án þess að ýta honum og leyfði því næstu hríðum að koma og fann hvernig hann kom aðeins út og svo rann hann aftur inn. Ég náði að vera alveg slök og í næstu hríð kom hann bara af sjálfu sér út og ég fékk hann í fangið með hjálp Arneyjar, þarna var klukkan 16:53.



Hrafnhildur sem hafði komið inn aðeins á eftir Arneyju tók ótrúlega fallegar myndir af fæðingunni. Bjarni var þarna allan tímann til stuðnings og hann fékk í fyrsta sinn að sjá fæðingu barns síns almennilega því stellingin bauð upp á það. Við dáðumst svo bara saman að honum, litla drengnum okkar og ég jafnaði mig smám saman af þessari hröðu en ótrúlega afslöppuðu fæðingu.

Eftir um það bil hálftíma hjálpuðu þær okkur að fara inní hjónarúm að kúra með litla. Þær buðu okkur að bíða með allar mælingar og þess háttar þar til mamma myndi koma með stóru börnin seinna um kvöldið þannig að þau gætu fylgst með því. Það var dásamleg stund, stóru systkinin að sjá litla bróður sinn í fyrsta skipti!



Eftirmálar 12.ágúst:

Þegar Arney kom næsta morgun að kíkja á okkur leist henni ekki nógu vel á hvað drengurinn andaði ört. Hún hringdi á vökudeild og við vorum skráð inn, fórum svo með hann uppeftir. Þar voru gerðar alls kyns mælingar á honum og teknar blóðprufur. Þetta samt einhvern vegin ekkert ógnvekjandi því okkur fannst litli aldrei vera neitt lasinn og sem betur fer leit þetta allt þokkalega út hjá honum. Þess vegna fengum við að vera saman inni á sængurkvennagangi og höfðum það bara gott, þrátt fyrir smá pot og stungur á nokkra tíma millibili, næstu 2 sólarhringana á meðan hann jafnaði sig. Niðurstaðan var svo að það reyndi mikið á hann að fæðast svona hratt, var með vot lungu. Það var dásamlegt að koma með hann heim 14.ágúst þar sem við erum búin að njóta þess að kynnast honum síðan.


Helga


897 views0 comments

Comments


bottom of page